Hverjir eru bænheyrðir?
Hverjir eru bænheyrðir?
JEHÓVA er sá Guð sem heyrir bænir. Orð hans, Biblían, ávarpar hann: „Þú sem heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3) Hann er fús til að svara bænum manna. En hverja bænheyrir hann í reynd?
Guð bænheyrir einstaklinga sem eru honum þóknanlegir. Þeir bera sömu lotninguna fyrir Guði og sálmaritarinn sem sagði: „Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði.“ (Sálmur 42:2, 3) En hvaða merki sjást um að Jehóva bænheyri sanna tilbiðjendur sína?
Sannanir fyrir því að Guð heyrir bænir
Biblían inniheldur yfirgripsmiklar heimildir sem sanna að Jehóva heyrir bænir trúfastra þjóna sinna. Er Jósafat konungur í Júda bað um frelsun undan óvinaher svaraði Guð bæn hans og veitti honum sigur með því að láta óvini hans ráðast hver gegn öðrum. (2. Kroníkubók 20:1-26) Er Hiskía konungur stóð á svipaðan hátt frammi fyrir óvígum her bað hann í auðmýkt Guð um hjálp. Hiskía sá hjálpræði Jehóva er engill felldi 185.000 Assýringa á einni nóttu. — Jesaja 37:14-20, 36-38.
Hvers vegna heyrði Guð þessar bænir? Í báðum tilvikum kom fram í bænum konunganna að ósigur í bardaganum myndi varpa skugga á nafn Jehóva. (2. Kroníkubók 20:6-9; Jesaja 37:17-20) Þeir létu sér umhugað um orðstír hans. „Meginmarkmið bænarinnar,“ segir The International Standard Bible Encyclopedia, „er ekki fyrst og fremst velferð þess sem biður heldur heiður nafns Guðs.“ Þess vegna mega trúir þjónar Jehóva treysta því að hann hjálpi þeim „sakir nafns síns.“ Þær heimildir, sem sanna að slíkum bænum hefur verið svarað, veita þjónum Guðs það trúartraust að hann heyri bænir þeirra. — Sálmur 91:14, 15; 106:8; Orðskviðirnir 18:10.
Jafnvel þótt ákveðin staða tengist nafni Jehóva tekur Guð eigi að síður afstöðu til þess hvort hann svari einstökum bænum eða ekki. Hann getur haft fullgildar ástæður til að svara ekki sumum bænum. Ef okkur finnst við ekki hljóta bænheyrslu, þá er gott að íhuga hver ástæðan geti verið.
Hvers vegna sumum bænum er ekki svarað
„Þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki,“ sagði Jehóva Ísraelsmönnum einu sini. Hann benti á ástæðuna í framhaldinu: „Hendur yðar eru alblóðugar.“ (Jesaja 1:15) Hvernig átti nokkur að geta virt lög Jehóva að vettugi en samt hlotið áheyrn hans? Biblían svar því skýrt og skorinort er hún segir: „Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, — jafnvel bæn hans er andstyggð.“ — Orðskviðirnir 28:9.
Biblían tilgreinir aðra ástæðu fyrir því að sumum bænum er ekki svarað þegar hún segir: „Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!“ (Jakobsbréfið 4:3) Nei, Jehóva bænheyrir ekki þá sem biðja um eitthvað í þeim tilgangi að fullnægja röngum löngunum. Við verðum einnig að muna að Guð tekur ekki við skipunum frá mönnum, ef svo má að orði komast. Það er hann sem ákveður hvernig hann svari bænum okkar.
Öruggt er að Guð heyri bænir sem bornar eru fram af hreinu hjarta, af réttu tilefni og á þann hátt sem hann hefur mælt fyrir um — fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jóhannes 14:6, 14) En sumum, sem jafnvel uppfylla þessi skilyrði, hefur stundum fundist sem þeir séu ekki bænheyrðir. Hvers vegna svarar Guð ekki tafarlaust vissum bænum þjóna sinna?
Jehóva veit hvenær er besti tíminn til að svara bænum. Þótt drengur biðji föður sinn um reiðhjól er alls ekki víst að faðirinn gefi honum það fyrr en drengurinn er orðinn nógu gamall til að ráða vel við hjólreiðar. Eins kann að vera um sumar bænir þeirra sem elska Guð. Hann veit hvað er þeim fyrir bestu og veitir þeim það sem þeir þurfa á þeim tíma sem hentar best.
En þjónar Jehóva fá samt ekki allt sem þeir kunna að biðja um. Þeir eru ófullkomnir og langar kannski í sumt sem væri þeim ekki til góðs. Elskuríkur faðir þeirra á himnum myndi ekki gefa þeim nokkuð það sem er skaðlegt, því að hann er gjafari ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu.‘ (Jakobsbréfið 1:17) Eins er óvíst að Guð veiti mönnum það sem ekki er nauðsynlegt frá hans sjónarhóli. (Samanber 2. Korintubréf 12:7-10) Hann svarar bænum í samræmi við vilja sinn og þann tilgang sem hann hefur með þjóna sína. — 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.
Jesús „fékk bænheyrslu“
Jesús Kristur var bænrækinn maður. (Matteus 6:9-13; Jóhannes 17:1-26) Hann treysti því fullkomlega að faðir hans á himnum myndi heyra og svara bænum hans. Jesús sagði einu sinni: „Faðir, . . . þú heyrir mig ávallt.“ (Jóhannes 11:41, 42) En varð Jesús ekki fyrir vonbrigðum við lok þjónustu sinnar á jörð? Hrópaði hann ekki: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“? — Matteus 27:46.
Er Jesús mælti þessi orð var hann greinilega að uppfylla spádóm varðandi dauða sinn. (Sálmur 22:2) Í afmörkuðum skilningi hefur Jesús líka getað átt við að Jehóva hefði tekið vernd sína burt frá honum og látið son sinn deyja kvalafullum og smánarlegum dauða í þeim tilgangi að reyna ráðvendni hans til hins ýtrasta. Ef við kynnum okkur atburðina þennan síðasta dag í jarðlífi Jesú sjáum við að Guð bænheyrði hann.
Kvöldið sem Jesús var handtekinn bað hann í Getsemanegarðinum. Þrívegis bað hann með ákafa: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér.“ (Matteus 26:39, 42, 44) Jesús var ekki tregur til að gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir trúaða menn. Hins vegar hafði hann greinilega þungar áhyggjur af þeim möguleika að vanheiðra ástkæran föður sinn með því að deyja á kvalastaur sem fordæmdur guðlastari. Bænheyrði Jehóva Jesú?
Mörgum árum síðar skrifaði Páll postuli: „Á jarðvistardögum sínum bar [Jesús] fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ (Hebreabréfið 5:7; Lúkas 22:42, 44) Já, Jesús „fékk bænheyrslu“ á þessari erfiðu nótt fyrir dauða sinn. En hvernig?
Jehóva sendi engil sem ‚birtist Jesú og styrkti hann.‘ (Lúkas 22:43) Eftir að hafa fengið þann styrk var Jesús fær um að horfast í augu við dauðann á kvalastaur. Svo virðist sem Jehóva hafi þá fullvissað hann um það að dauði hans á kvalastaurnum myndi ekki varpa skugga á nafn Guðs heldur verða um síðir einmitt það sem notað yrði til að réttlæta það. Dauði Jesú á kvalastaurnum opnaði meira að segja leið fyrir Gyðingana, sem voru annars undir fordæmingu lögmálsins, til að frelsast undan fordæmingu til dauða. — Galatabréfið 3:11-13.
Þrem dögum síðar reisti Jehóva Jesú upp og hreinsaði hann af sérhverjum hugsanlegum áburði um guðlast með því að upphefja hann í háa stöðu á himni. (Filippíbréfið 2:7-11) Það var stórkostlegt svar við bæn Jesú um ‚þennan kaleik‘! Þeirri bæn var svarað á þann veg sem Jehóva ákvað. Og Jesús hlaut stórfenglega blessun af því að hann hafði sagt við föður sinn á himnum: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ — Lúkas 22:42.
Hvernig Jehóva bænheyrir menn nú á dögum
Líkt og Jesús ættu þeir sem sækjast eftir velþóknun Jehóva nú á dögum alltaf að biðja þess að vilji Guðs verði. Þeir verða að trúa að Jehóva svari bænum þeirra á þann hátt sem er best fyrir þá. Meira að segja mun hann „gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum.“ — Efesusbréfið 3:20.
Ung kristin kona, er bjó hjá foreldrum sínum sem voru ekki í trúnni, kynntist sannleiksgildi þessa ritningarstaðar af eigin raun. Í bréfi frá Varðturnsfélaginu var hún beðin um að hugleiða og ræða við Jehóva í bæn þann möguleika að taka að sér sérstakt verkefni sem trúboði. Þótt hún þráði í hjarta sér að búa áfram heima til að hjálpa foreldrum sínum að taka kristna trú spurði hún Guð í bæn: „Hver er vilji þinn? Er hann sá að ég þiggi þetta boð óháð andstöðu foreldra minna eða er hann sá að ég hjálpi foreldrum mínum með því að halda áfram að búa hjá þeim?“ Í hvert sinn sem hún bað sagði samviskan henni að þiggja boðið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri svar Jehóva.
Guð styrkti þessa konu til að halda sér við ákvörðun sína. Er hún var beðin um að flytja til Awajieyju í Japan var það áfall fyrir foreldra hennar og jók andstöðu þeirra. Er ekki tókst að fá hana til að skipta um skoðun ákvað móður hennar að nema Biblíuna til að kynna sér hvers vegna dóttir hennar hefði tekið slíka ákvörðun. Þrem mánuðum síðar heimsóttu foreldrar hennar hana. Faðir hennar var djúpt snortinn er hann sá hve aðrir vottar Jehóva önnuðust hana vel og tárfelldi er enginn sá til hans. Fljótlega byrjaði hann líka að nema Biblíuna. Með tímanum létu báðir foreldrar þessarar ungu konu skírast og tóku að þjóna Jehóva í trúfesti. Blessaði Jehóva Guð ekki þessa kristnu konu langt fram yfir allt það sem vænta mátti?
Bænum þeirra er svarað
Manst þú eftir orðum konunnar sem nefnd var í byrjun greinarinnar á undan? Hún hafði aldrei fundið fyrir því að hún væri bænheyrð. Þó gerði hún sér grein fyrir því síðar að Guð væri að bænheyra hana. Hún hafði skrifað hjá sér aðalatriði bæna sinna. Dag einn blaðaði hún í minnisbókinni sinni og gerði sér þá grein fyrir að Jehóva hefði heyrt flestar af bænum hennar, jafnvel bænir sem hún sjálf hafði gleymt! Þannig vissi hún að Guð lét sér annt um hana og bænheyrði hana á þann hátt sem var gagnlegast fyrir hana.
Ef þér finnst þú ekki bænheyrður skaltu spyrja sjálfan þig: ‚Á ég persónulegt samband við Jehóva, hann sem „heyrir bænir“? Ef ekki, er ég þá að stíga nauðsynleg skref til að kynnast honum og verða einn af vígðum þjónum hans?‘ Hann bænheyrir þá sem elska hann og gera vilja hans. Þeir eru „staðfastir í bæninni“ og hljóta bænheyrslu eins og Jesús. (Rómverjabréfið 12:12) ‚Úthelltu því hjarta þínu‘ fyrir Jehóva og gerðu vilja hans. (Sálmur 62:9) Þá mun hann bænheyra þig.
Milljónir nútímamanna biðja Guð um sérstakan hlut og hann bænheyrir þá. Við skulum athuga hvers vegna við megum treysta því að Guð heyri slíkar bænir.