Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
◼ Úr því að englar eru andar og hafa ekki efnislíkama, hvers vegna eru þeir sýndir í ritum ykkar með vængi? Er það einfaldlega trúarleg erfðavenja?
Yfirleitt sýnum við engla með vængi vegna hinna táknrænu lýsinga sem er að finna í Biblíunni.
Það er rétt að andaverur hafa ekki efnislíkama og bókstaflega vængi — eða andlit, hendur, fætur eða aðra líkamshluta. Stundum, þegar englar birtust þjónum Guðs, hljóta þeir samt að hafa litið út eins og venjulegir menn því að þeir voru ranglega haldnir vera það. — 1. Mósebók 18:2, 22; 19:1; Dómarabókin 6:11-22.
Stundum fengu menn þó að sjá engla í sýn og lýstu þeim. Spámaðurinn Esekíel sá ‚fjórar verur‘ og í sýn, sem hann sá síðar, sagði hann þær vera engla af tignargráðu sem nefnd er kerúbar. (Esekíel 1:5; 9:3; 10:3) Hver þessara engla hafði fjóra vængi sem sýndi hæfni þeirra til að hreyfa sig skjótlega í hvaða átt sem var að boði Guðs. Þær „sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram . . . þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.“ — Esekíel 1:6, 9, 12.
En englar, sem birtust í sýn, voru ekki alltaf eins útlits. Englaverur, sem nefndar eru serafar og Jesaja sá, voru með sex vængi. (Jesaja 6:1, 2) Englar voru jafnvel mismunandi að útliti í sýnum Esekíels. Í fyrstu sýninni voru englarnir með fætur, hendur undir hverjum vængjanna fjögurra og fjögur andlit (lík mannsandliti, ljónsandliti, nautsandliti og arnarandliti). Í næstu sýn hans var kerúbsandlit komið í stað nautsandlits, kannski til að gefa til kynna hinn mikla mátt kerúbanna. Þegar Esekíel enn síðar sá í sýn skreytingu táknræns musteris sá hann kerúba með aðeins tvö andlit, mannsandlit og ljónsandlit. (Esekíel 1:5-11; 10:7-17; 41:18, 19) Í hinu allra helgasta í tjaldbúðinni, svo og í musterinu sem Salómon byggði í Jerúsalem, voru kerúbar með tvo vængi. Þeir voru ofan á gullloki kistunnar sem kölluð var sáttmálsörkin. Gullkerúbarnir tveir sneru hvor að öðrum og báðir höfðu tvo vængi sem þandir voru út yfir örkina. (2. Mósebók 25:10-22; 37:6-9) Fyrir ofan örkina (og lok hennar) í musteri Salómons stóðu tveir stærri, gullhúðaðir kerúbar, báðir með tvo útbreidda vængi. — 1. Konungabók 8:6-8; 1. Kroníkubók 28:18; 2. Kroníkubók 5:7, 8.
Jósefus skrifaði: „Enginn getur sagt eða ímyndað sér hvernig kerúbarnir litu út.“ Því hafa sumir fræðimenn og listamenn byggt myndir sínar af englum (einkanlega kerúbum) á fornum, svokölluðum frummyndum guða í líki vængjaðra dýra frá Austurlöndum nær. Betri mælikvarði eru þó þau orð Esekíels að þeir sem hann sá hafi verið í „mannsmynd.“ (Esekíel 1:5) Þegar þess vegna myndir af himneskum englum birtast í ritum okkar sýnum við þá að jafnaði í mannsmynd í megindráttum. Við sýnum þá með vængi vegna þess að Biblían lýsir hinum ýmsu englum oft sem svo að þeir hafi vængi og sökum þess að englarnir eru sagðir ‚fljúga.‘ — Opinberunarbókin 14:6; Sálmur 18:11.
Loks er í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 288, mynd af himneskri veru með vængi. Hún hefur kórónu á höfði sér og lykil í hendi sér. Þar hefur verið dregin upp mynd af lýsingu Opinberunarbókarinnar 20:1: „Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.“ Samkvæmt okkar skilningi er þessi engill með lykilinn hinn dýrlega gerði Jesús Kristur. Á myndinni er hann sýndur með vængi í samræmi við þá staðreynd að englar, sem menn sáu í sýnum, höfðu yfirleitt vængi.