Talaðu hið hreina tungumál og lifðu að eilífu!
Talaðu hið hreina tungumál og lifðu að eilífu!
„Leitið [Jehóva] . . . ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — SEFANÍA 2:3.
1. (a) Hvaða aðferðir eru notaðar til að læra erlent tungumál? (b) Hvers vegna ættum við að tala hið hreina tungumál?
HÆGT er að læra tungumál með því að nota málfræðiaðferðina eða talmálsaðferðina. Með málfræðiaðferðinni nota menn yfirleitt kennslubækur og læra málfræðireglur. Með talmálsaðferðinni hlusta nemendur á kennarann tala og líkja eftir hljóðum og orðum. Báðar aðferðirnar eru notaðar við að læra hið „hreina tungumál.“ Og það er mikilvægt að við tölum þetta tungumál ef við vonumst til að verða ‚falin á reiðidegi Jehóva.‘ — Sefanía 2:1-3; 3:8, 9.
2. Hvernig getum við lært það sem kalla mætti málfræðireglur hins hreina tungumáls?
2 Biblían er aðalkennslubókin sem menn nota við að læra hið hreina tungumál. Með kostgæfu námi í henni og biblíufræðsluritum er hægt að læra það sem kalla mætti málfræðireglur hins hreina tungumáls. Heimabiblíunám undir stjórn eins af vottum Jehóva er góð byrjun. Fyrir þá sem þegar eru vígðir Jehóva er reglulegt og rækilegt nám í Ritningunni alger nauðsyn. En eru til einhverjar sérstaklega áhrifaríkar leiðir til að læra hið hreina tungumál? Hvaða blessun fylgir því að tala það?
Hvernig á að læra hið hreina tungumál?
3. Nefndu eina leið til að læra hið hreina tungumál.
3 Ein leið til að læra hið hreina tungumál er fólgin í því að tengja nýjar hugmyndir þeim atriðum sem þú veist fyrir, á sama hátt og tungumálanemandi tengir kannski smátt og smátt saman ýmsar málfræðireglur. Til dæmis vissir þú kannski einu sinni að Jesús Kristur er sonur Guðs en þú vissir lítið um skyldur hans. Síðan þá hefur þú lært að Kristur ríkir núna sem dýrlegur konungur á himni og að í þúsundáraríki hans verður hlýðnu mannkyni lyft upp til fullkomleika. (Opinberunarbókin 20:5, 6) Já, tök þín á hinu hreina tungumáli batna er þú tengir ný atriði þeim sem þú vissir fyrir.
4. (a) Nefndu aðra leið til að læra ‚málfræðireglur‘ hins hreina tungumáls og sýndu fram á hana með dæmi úr biblíusögunni. (b) Hvað gerðist er Gídeon og 300 menn hans létu til skarar skríða? (c) Hvaða lexíu kennir frásagan af Gídeon okkur?
4 Önnur leið til að læra það sem kalla mætti ‚málfræðireglur‘ hins hreina tungumáls er að reyna að sjá fyrir sér atvik sem Biblían skýrir frá. Tökum dæmi: Reyndu að ‚sjá og heyra‘ frásögu Dómarabókarinnar 7:15-23. Sjáðu! Ísraelski dómarinn Gídeon hefur skipt liði sínu í þrjár sveitir sem hver telur hundrað menn. Hljóðlega og í skjóli náttmyrkurs halda þeir niður af Gilbóafjalli og umkringja herbúðir Midíaníta þar sem menn eru í fastasvefni. Eru þessir 300 menn vel vopnaðir? Nei, ekki frá hernaðarlegum sjónarhóli. Þeir hefðu kallað fram hæðnishlátur hjá stórlátum herfræðingum! Hver maður er einungis búinn lúðri, stórri vatnskrús og blysi sem er inni í krúsinni. En hlustaðu nú! Þegar merki er gefið blása mennirnir hundrað, sem eru með Gídeon, í lúðra sína og brjóta vatnskrúsirnar. Hinir tvö hundruð gera það sama. Þeir lyfta allir logandi blysunum hátt á loft og þú heyrir þá hrópa: ‚Sverð Jehóva og Gídeons!‘ Alger skelfing grípur um sig meðal Midíaníta! Þeir skjögra út úr tjöldum sínum og glenna upp svefndrukkin augun af ótta er þeir sjá blaktandi logana og skuggana taka á sig kynjamyndir sem vekja upp hjá þeim hjátrúarótta. Sveitir Gídeons halda áfram að blása í lúðrana er hinir dauðskelfdu Midíanítar leggja á flótta og Jehóva lætur óvinina bregða sverðum hver gegn öðrum. Þetta er áhrifamikil lexía í hinu hreina tungumáli! Guð getur frelsað þjóna sína án þess að beita öflugu herliði manna. Auk þess mun Jehóva „eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns.“ — 1. Samúelsbók 12:22.
5. Hvernig geta kristnar samkomur stuðlað að því að fága mál okkar?
5 Þegar nemendum er kennt erlent tungumál með talmálsaðferðinni reyna þeir að herma eftir framburði og orðum kennarans. Kristnar samkomur bjóða upp á góð tækifæri til að tala hið hreina tungumál. Þar heyrum við aðra tjá sig á hinu óviðjafnanlega tungumáli biblíulegs sannleika og við getum sjálf haft þau sérréttindi að gefa athugasemdir. Erum við hrædd við að við kunnum að segja eitthvað rangt? Við skulum ekki hafa sérstakar áhyggjur af því vegna þess að vingjarnleg leiðrétting af hendi öldungsins sem stjórnar samkomunni, til dæmis hinu vikulega námi í tímaritinu Varðturninn, getur fágað tungutak okkar. Við skulum því sækja kristnar samkomur reglulega og taka þátt í þeim. — Hebreabréfið 10:24, 25.
Óhreinindi síast inn
6. Hvers vegna eru vottar Jehóva svo ólíkir trúfélögum kristna heimsins?
6 Þeir sem boða opinberlega tilgang Jehóva og segja frá hinu stofnsetta ríki hans á himnum eru að tala hið hreina tungumál sem vottar hans. Þeir kunngera nafn Guðs og þjóna honum „hlið við hlið“ eða einhuga. (Sefanía 3:9, NW) Þótt trúfélög kristna heimsins hafi Biblíuna tala þau hvorki hið hreina tungumál né ákalla nafn Guðs í trú. (Jóel 3:5) Þau hafa engan samstilltan boðskap byggðan á Ritningunni. Hvers vegna? Vegna þess að þau taka trúarlegar erfðavenjur, veraldlega heimspeki og pólitíska hollustu fram yfir orð Guðs. Markmið þeirra, vonir og aðferðir eru allar af þessum óguðlega heimi.
7. Hvaða munur á vottum Jehóva og falstrúarbrögðum er gefinn í skyn í 1. Jóhannesarbréfi 4:4-6?
7 Kristni heimurinn — og reyndar gervallt heimskerfi falskra trúarbragða — talar ekki sama tungumál og vottar Jehóva. Athyglisvert er að Jóhannes postuli skrifaði þeim sem tala hið hreina tungumál: „Þér börnin mín, heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum. Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá. Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss.“ (1. Jóhannesarbréf 4:4-6) Þjónar Jehóva hafa sigrað falsspámennina vegna þess að Guð, sem er sameinaður þjónum sínum, „er meiri ... en sá [djöfullinn], sem er í heiminum,“ eða í hinu rangláta mannfélagi. Þar eð fráhvarfsmenn „heyra heiminum til“ og hafa hinn óguðlega anda hans, „tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá.“ En sauðumlíkir einstaklingar hlýða á þá sem heyra Guði til og gera sér ljóst að þjónar Jehóva tala hið hreina tungumál biblíulegs sannleika sem mönnum er veitt gegnum skipulag Guðs.
8. Hver er lögleysinginn?
8 Sagt var fyrir mikið fráhvarf frá trúnni og ‚leyndardómur lögleysisins‘ var þegar tekinn að starfa á fyrstu öld okkar tímatals. Er tímar liðu tóku menn sem þáðu — eða hrifsuðu til sín — stöðu kennara í söfnuðinum að kenna margar falskenningar. Tungumál þeirra var fjarri því að vera hreint. Þess vegna kom fram samsettur ‚lögleysingi,‘ klerkastétt kristna heimsins, sem var bundin trúarlegum erfðavenjum, veraldlegri heimspeki og óbiblíulegum kenningum. — 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7, neðanmáls.
Hið hreina tungumál heyrist um allan heim
9. Hvaða þróun átti sér stað á vettvangi trúmálanna á 19. öld?
9 Aðeins lítill minnihluti guðhræddra manna ‚barðist fyrir þeirri trú sem heilögum hefur verið í hendur seld.‘ (Júdasarbréfið 3) En hvar var hægt að finna slíka trúaða menn? Um aldaraðir héldu falstrúarbrögðin fjöldanum í andlegu myrkri, en Guð þekkti þá fáeinu sem höfðu velþóknun hans. (2. Tímóteusarbréf 2:19) Og síðan, mitt í þjóðfélagsbreytingum og umróti á sviði iðnaðar og viðskipta á 19. öld, tóku að heyrast raddir sem voru ólíkar hinum almenna glundroða á vettvangi trúmálanna. Smáir hópar voru að reyna að lesa tákn tímanna og spá síðari komu Jesú Krists en ekki töluðu allir hið hreina tungumál.
10. Hvaða hóp, sem vænti ‚endurkomu‘ Krists, valdi Guð til að tala hið hreina tungumál og hvers vegna er ljóst að hönd Jehóva var með honum?
10 En árið 1879 varð ljóst hverja af þeim röddum, sem boðuðu endurkomu Krists, Jehóva hafði valið til að tala hið hreina tungumál sem vottar hans. Þegar þar var komið sögu var lítill biblíunámshópur undir forystu Charles Taze Russels byrjaður að koma saman í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Sá hópur var orðinn sannfærður um að endurkoma Jesú myndi hefjast með ósýnilegri nærveru, að mikil þrengingatíð væri framundan fyrir heiminn og að í kjölfarið myndi koma þúsundáraríki Krists sem myndi endurreisa paradís á jörð og veita hlýðnum mönnum eilíft líf. Í júlí 1879 tóku þessir biblíunemendur að gefa út tímarit sem nú er þekkt undir heitinu Varðturninn. Aðeins 6000 eintökum var dreift af fyrsta tölublaðinu. En ‚hönd Jehóva‘ var með þessum vottum því að nú er þetta tímarit gefið út á 111 tungumálum og meðalupplag hvers tölublaðs er yfir 15.000.000 eintaka. — Samanber Postulasöguna 11:19-21.
11, 12. Nefndu nokkur biblíusannindi sem þeir, er tala hið hreina tungumál, skilja.
11 Vegna Biblíunnar og rita votta Jehóva, en þó einkum vegna kostgæfrar prédikunar þessara kristnu manna er hið hreina tungumál orðið kunnugt um víða veröld. Og það er ekki lítil blessun er þeir sem tala hið hreina tungumál njóta! Í stað þess að segja ‚Guð er Guð, Kristur er Guð og heilagur andi er Guð,‘ á dularfullu tungutaki þrenningartrúarinnar, þá eru þeir sammála því sem fram kemur í Biblíunni að Jehóva sé hinn hæsti, Jesús Kristur sé sonur hans og honum óæðri og heilagur andi sé undraverður starfskraftur Guðs. (1. Mósebók 1:2; Sálmur 83:19; Matteus 3:16, 17) Þeir sem tala hið hreina tungumál vita að maðurinn þróaðist ekki af óæðri lífverum heldur var skapaður af elskuríkum Guði. (1. Mósebók 1:27; 2:7) Þeir gera sér grein fyrir að sálin hættir að vera til við dauðann — staðreynd sem eyðir óttanum við dauðann. (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Helja er samkvæmt skilningi þeirra hin sameiginlega gröf mannkynsins, ekki brennandi kvalastaður upphugsaður af djöfullegum guðdómi. (Jobsbók 14:13) Enn fremur vita þeir að upprisan er sú von sem Guð gefur varðandi hina dánu. — Jóhannes 5:28, 29; 11:25; Postulasagan 24:15.
12 Þeir sem tala hið hreina tungumál bera virðingu fyrir blóði og lífi. (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 15:28, 29) Þeir skilja að jarðneskt líf Krists er lausnargjaldið sem greitt var fyrir hlýðna menn. (Matteus 20:28; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Þeir biðja aldrei til „dýrlinga“ því að þeir vita að þeir verða að beina bænum sínum til Jehóva Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jóhannes 14:6, 13, 14) Með því að orð Guðs fordæmir skurðgoðadýrkun nota þeir ekki líkneski í tilbeiðslu sinni. (2. Mósebók 20:4-6; 1. Korintubréf 10:14) Og þeir forðast hættur djöfladýrkunarinnar vegna þess að þeir hafna spíritisma sem er einnig fordæmdur í Biblíunni. — 5. Mósebók 18:10-12; Galatabréfið 5:19-21.
13. Hvers vegna eru þeir sem tala hið hreina tungumál ekki ráðvilltir?
13 Þjónar Jehóva, sem tala hið hreina tungumál, eru ekki óvissir eða ráðvilltir um það hvar þeir standa í tímans rás. Jehóva hefur kennt þeim að þeir lifa núna ‚tíma endalokanna‘ og að Jesús er nærverandi sem dýrlegur, ósýnilegur andi. (Daníel 12:4; Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 1. Pétursbréf 3:18) Með öflugar, himneskar hersveitir sér að baki er Kristur í þann mund að ríða fram til bardaga til að fullnægja dómi Guðs yfir þessu illa heimskerfi. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14, 16; 18:1-8; 19:11-21) Já, og þeir sem tala hið hreina tungumál eru önnum kafnir við að boða þau fagnaðartíðindi að Guðsríki í höndum Jesú Krists muni bráðlega veita öllum hlýðnum mönnum stórkostlega blessun á jörð sem verður paradís. (Jesaja 9:6, 7; Daníel 7:13, 14; Matteus 6:9, 10; 24:14; Lúkas 23:43) Og með þessari upptalningu höfum við einungis stiklað á stóru! Svo sannarlega er hið hreina tungumál auðugasta og dýrmætasta tunga jarðar!
14. Hvaða annarrar blessunar njóta þeir sem tala hið hreina tungumál?
14 Blessunin, sem þeir njóta er tala hið hreina tungumál, felur í sér ‚frið Guðs‘ sem varðveitir hjörtu þeirra og hugsanir. (Filippíbréfið 4:6, 7) Þeir hlýða lögum Biblíunnar sem stuðlar að góðri heilsu, hamingju og þeirri lífsfyllingu sem fylgir því að þóknast Jehóva. (1. Korintubréf 6:9, 10) Já, og þeir sem tala hið hreina tungumál eiga sér von um eilíft líf í hinum fyrirheitna nýja heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13.
Notaðu það eða glataðu því
15. Hvernig mun það verða þér til gagns að ná góðum tökum á hinu hreina tungumáli?
15 Ef þú ætlar að tala hið hreina tungumál í nýja heiminum þarft þú að læra það svo vel að það verði tungumálið sem þú hugsar á. Þegar maður lærir framandi tungumál hugsar hann í fyrstu á móðurmáli sínu og þýðir hugsanir sínar yfir á nýja tungumálið. En er hann nær betri tökum á nýja tungumálinu fer hann að hugsa á því máli og þarf ekki lengur að þýða hugsanir sínar. Með kostgæfu námi getur þú á sama hátt náð svo góðum tökum á hinu hreina tungumáli að þú kunnir að heimfæra lög Biblíunnar og meginreglur til að leysa vandamál og halda þér á ‚vegi lífsins.‘ — Sálmur 16:11.
16. Hvernig getur farið fyrir þér ef þú notar ekki hið hreina tungumál reglulega?
16 Þú verður að nota hið hreina tungumál reglulega, annars missir þú tökin á því og hættir að geta talað það vel. Lýsum þessu með dæmi: Fyrir mörgum árum lærðu sum okkar erlent tungumál. Við munum kannski einstaka orð á því tungumáli en höfum sennilega misst tökin á málinu vegna þess að við notum það ekki stöðuglega. Það sama getur gerst með hið hreina tungumál. Ef við notum það ekki reglulega getum við misst tökin á því og það hefði hörmulegar afleiðingar fyrir okkur andlega. Við skulum því tala það reglulega á samkomunum og í hinni kristnu þjónustu. Það, ásamt persónulegu námi, mun gera okkur kleift að segja hlutina rétt á hinu hreina tungumáli. Og það er sannarlega þýðingarmikið!
17. Hvaða dæmi sýnir að mál okkar getur skipt sköpun um líf eða dauða?
17 Mál manna getur orðið þeim til lífs eða fært þeim dauða. Það kom í ljós þegar átök urðu milli ættkvíslar Efraíms í Ísrael og Jefta dómara í Gíleað. Til að geta þekkt Efraímíta, sem reyndu að flýja yfir Jórdan, notuðu Gíleaðítar aðgangsorðið „Sjibbólet“ með „sj“ hljóði í byrjun. Efraímítar komu upp um sig við varðmenn Gíleaðíta við vöðin yfir Jórdan með því að bera fyrsta atkvæði orðsins rangt fram og segja „Sibbólet“ í stað „Sjibbólet.“ Það kostaði 42.000 Efraímíta lífið! (Dómarabókin 12:5, 6) Það sem klerkar kristna heimsins kenna getur líka hljómað líkt hinu hreina tungumáli í eyrum þeirra sem eru ekki vel heima í sannindum Biblíunnar. En það að tala rangt hvað trúarbrögð varðar mun kosta menn lífið á reiðidegi Jehóva.
Við höldum áfram að vera sameinaðir
18, 19. Hvað þýðingu hefur Sefanía 3:1-5?
18 Í Sefanía 3:1-5 segir um hina ótrúu Jerúsalemborg til forna og kristna heiminn sem svarar til hennar nú á tímum: „Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg! Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki [Jehóva] og nálægir sig ekki Guði sínum. Höfðingjarnir í henni eru sem öskrandi ljón, dómendur hennar sem úlfar að kveldi, þeir leifa engu til morguns. Spámenn hennar eru léttúðarmenn, svikaseggir. Prestar hennar vanhelga hið heilaga, misbjóða lögmálinu. En [Jehóva] er réttlátur í henni, hann gjörir ekkert rangt. Á morgni hverjum leiðir hann réttlæti sitt í ljós, það bregst ekki, en hinn rangláti kann ekki að skammast sín.“ Hver er þýðing þessara orða?
19 Bæði Jerúsalem til forna og kristni heimur nútímans gerðu uppreisn gegn Jehóva og saurguðu sig með falskri guðsdýrkun. Rangsleitni leiðtoga beggja hafði kúgun í för með sér. Þrátt fyrir endurteknar aðvaranir Guðs hlustuðu þeir ekki og nálægðu sig ekki Guði. Höfðingjar þeirra hafa verið eins og gráðug ljón og virt réttlætið einskis í hroka sínum. Dómarar þeirra hafa sundurrifið réttlætið eins og glorsoltnir úlfar. Prestar þeirra hafa ‚vanhelgað hið heilaga og misboðið lögmáli‘ Guðs. Jehóva mun því innan skamms ‚safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til að úthella yfir þau heit sinni, allri sinni brennandi reiði.‘ — Sefanía 3:8.
20. (a) Hvað þarf að gera til að lifa af reiðidag Jehóva? (b) Hvernig getur þú vonast til að njóta eilífrar blessunar frá Guði?
20 Reiðidagur Jehóva í Harmagedón nálgast óðfluga. Ef þú villt bjargast inn í nýjan heim Guðs þarftu því að læra og tala hið hreina tungumál án tafar. Það er einasta leiðin til að njóta verndar fyrir andlegri ógæfu núna og þeirri ógæfu um víða veröld sem nálgast ört. Vottar Jehóva boða reiðidag Guðs og hinn uppörvandi boðskap um ríki hans. Þeir hafa yndi af því að tala um dýrð konungdóms hans! (Sálmur 145:10-13) Þú skalt sameinast þeim; þá getur þú notið þeirrar vonar að hljóta eilíft líf og aðrar blessanir frá höfundi hins hreina tungumáls, alvöldum drottni Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða leiðir eru til að læra hið hreina tungumál?
◻ Hvers vegna er gagnlegt að tala hið hreina tungumál?
◻ Hvað getur gerst ef þú notar ekki hið hreina tungumál reglulega?
◻ Hvernig er hægt að lifa af reiðidag Jehóva og öðlast eilífa blessun?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
Gídeon og menn hans blása í horn sín og lyfta kindlum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Upp frá árinu 1879 kom berlega í ljós að það voru Charles Taze Russell og félagar hans sem Guð notaði til að koma hinu hreina tungumáli á framfæri.
[Myndir á blaðsíðu 19]
Ert þú sameinaður vottum Jehóva í því að tala hið hreina tungumál?