Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum langlynd við alla

Verum langlynd við alla

Verum langlynd við alla

„Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:14.

1. Hvar og undir hvaða kringumstæðum hafa vottar Jehóva sýnt langlyndi?

 SVO sannarlega hafa vottar Jehóva nú á tímum sett gott fordæmi í því að vera langlyndir! Þeir hafa þolað miklar þrengingar og ofsóknir í löndum, þar sem áður ríkti nasismi og fasismi, og allt til þessa dags í ríkjum svo sem Malaví. Þeir sem búa á trúarlega sundurskiptu heimili sýna einnig langlyndi.

2. Hvaða tvö atriði eru forsenda hinnar andlegu paradísar sem þjónar Jehóva njóta?

2 Þrátt fyrir ofsóknir og þrengingar, sem vígðir þjónar Jehóva þola, hafa þeir notið þeirrar margþættu blessunar sem andleg paradís veitir. Staðreyndir sýna að smurðir kristnir menn byrjuðu að njóta slíkrar paradísar árið 1919. Hvernig er þessi andlega paradís til orðin? Þetta paradísarástand er að finna meðal fólks Jehóva fyrst og fremst vegna þess að Guð hefur flutt smurða þjóna sína aftur heim í þeirra „land,“ eða ástand, þar sem ástunduð er hrein tilbeiðsla. (Jesaja 66:7, 8) Hin andlega paradís blómgast einnig vegna þess að allir í henni láta í ljós ávexti anda Guðs. Langlyndi er einn þeirra. (Galatabréfið 5:22, 23) Mikilvægi þessa eiginleika að því er varðar andlega paradís okkar kemur vel fram í orðum fræðimannsins William Barcleys: „Ekkert sem heitir kristilegt samfélag getur verið til án makroþúmía [langlyndis] . . . Og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú — að makroþúmía er hið mikla einkenni Guðs (Rómv. 2.4; 9.22).“ (A New Testament Wordbook, bls. 84) Já, langlyndi er svona þýðingarmikið!

Langlyndi gagnvart bræðrum okkar

3. Hvaða lexíu um langlyndi veitti Jesús Pétri?

3 Pétur postuli átti greinilega í einhverjum erfiðleikum með að sýna langlyndi því að hann spurði Jesú einu sinni: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði honum: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ (Matteus 18:21, 22) Með öðrum orðum eru því engin takmörk sett hve oft við eigum að umbera hver annan og fyrirgefa einhverjum sem syndgar gegn okkur. Þegar allt kemur til alls getum við vart ímyndað okkur að nokkur haldi tölu á því hvenær hann er búinn að fyrirgefa svo oft. En þó svo væri þá útheimtir það vissulega langlyndi.

4. Hvers vegna þurfa sérstaklega öldungarnir að vera langlyndir?

4 Enginn vafi leikur á að öldungar safnaðarins þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi í því að sýna andlegum bræðrum sínum langlyndi. Stundum getur reynt á þolinmæði þeirra vegna þess að sumir trúbræðra þeirra geta verið kærulausir eða skeytingarlausir. Aðrir fara sér kannski hægt við það að leiðrétta slæma ávana. Öldungarnir verða að gæta þess að vera ekki fljótir til að móðgast út af veikleikum kristinna bræðra sinna og systra og láta þá fara í skapið á sér. Þessir andlegu hirðar verða í staðinn að muna eftir þessum leiðbeiningum: „Skylt er oss, hinum styrku, að umbera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.“ — Rómverjabréfið 15:1.

5. Hvað getum við umborið ef við erum langlynd?

5 Þá geta orðið árekstrar milli ólíkra persónuleika vegna mannlegra galla og veikleika. Mistök okkar eða sérviska getur farið í taugarnar á bræðrum okkar og öfugt. Því á vel við þetta ráð: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Það að ‚umbera hver annan‘ merkir að vera langlyndur, þótt við höfum kannski fullt tilefni til að kvarta undan einhverjum. Við megum ekki gjalda líku líkt eða refsa bróður okkar, ekki einu sinni kvarta yfir honum. — Jakobsbréfið 5:9.

6. Hvers vegna er langlyndi viturlega stefna?

6 Leiðbeiningarnar í Rómverjabréfinu 12:19 eru í sama dúr: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘“ Það að ‚lofa hinni refsandi reiði Guðs að komast að,‘ merkir að vera seinn til reiði eða langlyndur. Það er hyggilegt að sýna þennan eigileika því hann er okkur og öðrum til góðs. Ef vandamál hefur komið upp, þá líður okkur sjálfum betur vegna þess að með langlyndi okkar gerum við ekki illt verra. Og þeim sem við sýnum langlyndi líður einnig betur vegna þess að við erum ekki að refsa honum eða hefna okkar á einhvern hátt. Það er engin furða að Páll skyldi hvetja kristna bræður sína til að ‚hughreysta ístöðulitla, taka að sér þá sem óstyrkir eru og vera langlyndir við alla‘! — 1. Þessaloníkubréf 5:14.

Innan fjölskyldunnar

7. Hvers vegna þurfa hjón að vera langlynd?

7 Sagt hefur verið að hamingjuríkt hjónaband sé samband tveggja einstaklinga sem eru fúsir til að fyrirgefa, og er það vel mælt. Það merkir að hamingjusöm hjón séu langlynd hvort við annað. Fólk laðast stundum hvort að öðrum vegna ólíks lundarfars. Slíkur munur getur verið forvitnilegur og skemmtilegur en hann getur líka valdið árekstrum til viðbótar streitu og áhyggjum sem þegar valda kristnum hjónum ‚þrengingu.‘ (1. Korintubréf 7:28) Tökum sem dæmi að eiginmaður sé skeytingarlaus gagnvart smáatriðum eða hafi tilhneigingu til að vera kærulaus eða ósnyrtilegur. Það getur reynt mjög á konuna hans. En ef vingjarnlega orðaðar uppástungur eru árangurslausar getur hún ef til vill ekki gert neitt annað en að sýna langlyndi og umbera veikleika hans.

8. Hvers vegna geta eiginmenn þurft að vera langlyndir?

8 Á hinn bóginn gæti kona gert veður út af smáatriðum eða haft tilhneigingu til að nöldra í manni sínum. Það minnir kannski á ritningarstaðinn sem segir: „Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.“ (Orðskviðirnir 25:24) Í slíku tilviki kostar það langlyndi að fara eftir heilræðum Páls: „Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.“ (Kólossubréfið 3:19) Það kostar líka langlyndi af hálfu eiginmanna að fara eftir heilræði Péturs postula: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Veikleikar eiginkonunnar geta stundum reynt á eiginmanninn en langlyndi hjálpar honum að umbera þá.

9. Hvers vegna þurfa foreldrar að vera langlyndir?

9 Foreldrar þurfa að vera langlyndir ef þeim á að takast að ala börn sín upp. Börn og unglingar gera oft sömu mistökin aftur og aftur. Þau virðast kannski þrjósk eða sein til að læra og reyna stöðugt á þolinmæði foreldra sinna. Undir slíkum kringumstæðum þurfa kristnir foreldrar að vera seinir til reiði, ekki að missa stjórn á skapi sínu, heldur halda stillingu sinni en vera jafnframt fastir fyrir þar sem réttlátar meginreglur eiga í hlut. Feður ættu að muna að þeir voru líka ungir einu sinni og gerðu mistök. Þeir þurfa að fara eftir heilræðum Páls: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo þau verði ekki ístöðulaus.“ — Kólossubréfið 3:21.

Gagnvart þeim sem fyrir utan standa

10. Hvernig ættum við að hegða okkur á vinnustað? Lýstu því með dæmi.

10 Vegna mannlegs ófullkomleika og eigingirni geta komið upp óþægilegar aðstæður á vinnustað kristins manns. Það er viturlegt að vera háttvís og umbera rangindi til að varðveita friðinn. Það má sjá af reynslu kristins manns sem mátti þola margs kyns óþægindi og óvingjarnleika af hendi öfundsjúks vinnufélaga. Með því að bróðirinn gerði ekki veður út af þessu og var langlyndur tókst honum með tímanum að hefja biblíunám með vinnufélaganum sem hafði valdið erfiðleikum.

11. Hvenær er sérstaklega mikilvægt að vera langlynd og hvers vegna?

11 Sérstaklega þurfa þjónar Jehóva að vera langlyndir þegar þeir bera vitni fyrir þeim sem standa utan kristna safnaðarins. Hvað eftir annað er kristnum mönnum sýndur ruddaskapur eða hranaleg viðbrögð. Væri viðeigandi eða viturlegt að svara í sömu mynt? Nei, því það bæri ekki vott um langlyndi. Hið viturlega er að muna eftir og fylgja orðskviðnum: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ — Orðskviðirnir 15:1.

Trú og von eru hjálp til að sýna langlyndi

12, 13. Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að vera langlynd?

12 Hvað getur hjálpað okkur að sýna langlyndi, að umbera illbærilegar aðstæður? Eitt er trú á loforð Guðs. Við verðum að taka Guð á orðinu. Ritningin segir: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yður um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Eins og maður, sem á að baki langan aldur í sannleikanum, komst að orði: „Ef Guð leyfir það, þá get ég tekið því.“ Já, við getum tekið því með því að vera langlynd.

13 Nátengd trúnni er vonin um Guðsríki. Þegar það fer með vald yfir allri jörðinni verður öllu því illa ástandi, sem veldur okkur erfiðleikum, útrýmt. Sálmaritarinn Davíð sagði um þetta efni: „Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins. Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:8, 9) Hin örugga von um að Guð muni bráðlega ryðja úr vegi öllum þessum erfiðu aðstæðum hjálpar okkur að vera langlynd.

14. Hvaða frásaga sýnir hvers vegna við ættum að vera langlynd gagnvart maka sem ekki er í trúnni?

14 Hvað átt þú að gera ef maki þinn er ekki í trúnni og veldur þér erfiðleikum? Haltu þá áfram að reiða þig á hjálp Guðs og haltu áfram að vona að andstæðingurinn verði með tímanum tilbiðjandi Jehóva. Kristinn maður átti konu sem neitaði stundum að elda mat handa honum og þvo fötin hans. Hún jós yfir hann fúkyrðum, talaði stundum ekki við hann svo dögum skipti og reyndi jafnvel að hneppa hann í álög með göldrum. „En,“ segir hann „ég sneri mér alltaf til Jehóva í bæn og treysti honum til að hjálpa mér að þroska með mér hinn góða eiginleika, langlyndi, þannig að ég missti ekki hið kristna jafnvægi. Ég vonaði líka að einhvern daginn myndi hjartalag hennar breytast.“ Eftir að hann hafði mátt þola slíka meðferð í 20 ár byrjaði konan hans að breytast, og hann sagði: „Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að hann skyldi hjálpa mér að rækta hjá mér ávexti andans, langlyndi, vegna þess að núna sé ég árangurinn: Konan mín er byrjuð að ganga á vegi lífsins!“

Bæn, auðmýkt og kærleikur hjálpar

15. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að vera langlynd?

15 Bæn er önnur stór hjálp til að sýna langlyndi. Páll hvatti: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Munum líka eftir að fylgja þessari áminningu: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ — Sálmur 55:23.

16. Hvernig getur auðmýkt hjálpað okkur að vera langlynd?

16 Aukmýkt er önnur stór hjálp til að rækta langlyndi sem er ávöxtur andans. Stoltur maður er óþolinmóður. Hann er auðmóðgaður, uppstökkur og þolir ekki illa framkomu af hendi annarra. Allt er þetta andstæða þess að vera langlyndur. En auðmjúkur maður tekur sjálfan sig ekki of hátíðlega. Hann bíður eftir Jehóva eins og Davíð gerði er Sál konungur hundelti hann og Benjamínítinn Símeí svívirti hann. (1. Samúelsbók 24:4-6; 2. Samúelsbók 16:5-13) Við ættum þess vegna að þrá að framganga í ‚lítillæti og hógværð, þolinmæði og langlyndi og umbera hver annan í kærleika.‘ (Efesusbréfið 4:2) Enn fremur ættum við að ‚auðmýkja okkur í augum Jehóva.‘ — Jakobsbréfið 4:10.

17. Hvers vegna hjálpar kærleikur okkur að vera langlynd?

17 Sérstaklega hjálpar óeigingjarn kærleikur okkur að vera langlynd. „Kærleikurinn er langlyndur“ því að hann kemur okkur til að bera hag annarra fyrir brjósti. (1. Korintubréf 13:4) Kærleikurinn gerir okkur fært að setja okkur í spor annarra, sýna samkennd. Enn fremur hjálpar kærleikurinn okkur að vera langlynd vegna þess að hann „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Korintubréf 13:7, 8) Já, kærleikurinn er góðviljaður gagnvart þeim sem villast af leið. Hann leitar að góðu hliðunum, sér það sem gott er og styrkir bræðraböndin.

Langlyndi með gleði

18. Hvernig er hægt að sýna langlyndi með gleði?

18 Páll bað þess að trúbræður hans í Kólossu myndu fyllast nákvæmri þekkingu á vilja Guðs til að þeir gætu gengið verðuglega frammi fyrir Jehóva og þóknast honum og borið ávöxt í sérhverju góðu verki. Þannig myndu þeir ‚styrkjast með dýrðarmætti hans svo að þeir fylltust þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og gleði.‘ (Kólossubréfið 1:9-11) En hvernig er hægt að sýna langlyndi með gleði? Það er engin mótsögn í því vegna þess að sú gleði, sem talað er um í Ritningunni, er ekki bara það að vera glaðlyndur eða í góðu skapi. Sú gleði, sem er ávöxtur andans, felur í sér djúpa fullnægjukennd yfir því að hafa gert rétt fyrir augliti Guðs. Hún er líka tjáning þeirrar vonar að hljóta hin fyrirheitnu laun þolgæðisins. Þess vegna sagði Jesús: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ — Matteus 5:11, 12.

19. Hvaða dæmi sýna að það er hægt að vera langlyndur og glaður?

19 Jesús bjó yfir slíkri gleði. „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis.“ (Hebreabréfið 12:2) Það var þessi gleði sem gerði Jesú kleift að vera langlyndur. Eins skulum við veita athygli því sem gerðist er postularnir voru húðstrýktir og ‚fyrirboðið að tala í Jesú nafni.‘ Þeir „fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:40-42) Þetta er gott fordæmi sem sýnir að fylgjendur Krists geta verið langlyndir með gleði!

20. Hvernig getur það haft áhrif á samband okkar við aðra ef við erum langlynd?

20 Orð Guðs gefur sannarlega viturleg ráð er það hvetur okkur til að gjalda ekki í sömu mynt, vera sein til reiði og vonast eftir hinu besta — já, vera langlynd! Við þurfum að biðja reglulega og hafa þennan ávöxt anda Guðs til að geta átt góð samskipti við bræður okkar og systur í söfnuðinum, við fjölskyldu okkar, við samstarfsfólk á vinnustað og við einstaklinga sem við hittum í hinni kristnu þjónustu. Og hvað getur hjálpað okkur að sýna langlyndi? Trú, von, auðmýkt, gleði og kærleikur. Búum við yfir slíkum eiginleikum getum við sannarlega verið langlynd við alla.

Manst þú?

◻ Hvers vegna er langlyndi nauðsynlegt til að við getum átt hlutdeild í hinni andlegu paradís?

◻ Hvers vegna þurfa sérstaklega öldungarnir að vera langlyndir?

◻ Hvernig ættu hjón að rækta með sér langlyndi?

◻ Hvaða aðrir eiginleikar hjálpa okkur að vera langlynd?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Hvaða heilræði Jesú hjálpuðu Pétri að vera langlyndur?