Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Andlegir drykkjurútar hverjir eru þeir?

Andlegir drykkjurútar hverjir eru þeir?

Andlegir drykkjurútar hverjir eru þeir?

„Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím.“ — JESAJA 28:1.

1. Hvaða bjartsýni hefur gætt hjá mörgum en munu vonir þeirra rætast?

 VIÐ lifum mikla umbrotatíma. Margir hafa hrifist af hinum áhrifamiklu breytingum sem orðið hafa á vettvangi stjórnmálanna í heiminum og af auknum afskiptum Sameinuðu þjóðanna. Í desember 1989 sagði dagblaðið Detroit Free Press: „Friður hefur brotist út um leið og 10. áratugurinn er að ganga í garð.“ Sovéskt tímarit tilkynnti: „Við erum að búa okkur undir að smíða plógjárn úr sverðum okkar,“ og aðalritari Sameinuðu þjóðanna lýsti yfir: „Kalda stríðið er afstaðið.“ Já, menn hafa verið vonglaðir og það er heldur engum blöðum um það að fletta að ásýnd heimsins er að breytast. Skammt er síðan Persaflóastríðið sýndi mannkyni hve snögglega breytingar geta átt sér stað. En mun núverandi heimur nokkurn tíma sjá raunverulegan frið og öryggi með allri þeirri blessun sem slíku fylgir? Svarið er nei. Sannleikurinn er sá að mjög alvarlegt hættuástand er í uppsiglingu sem mun skekja undirstöður þessa heims! Þetta er hættuástand sem trúarbrögð heims eiga mikinn þátt í.

2. Hvernig eiga aðstæður okkar daga sér hliðstæðu í Ísrael og Júda til forna?

2 Þetta hættuástand á sér fyrirmynd í atburðum í Ísrael og Júda á áttundu og sjöundu öld f.o.t. Á þeim tíma héldu menn líka að þeir hefðu komið á friði. En Guð varaði menn við því fyrir munn spámannsins Jesaja að friðurinn væri tálsýn ein sem fljótlega yrði afhjúpuð. Á svipaðan hátt lætur Jehóva votta sína núna vara mannkynið við því að vonir þess um varanlegan frið fyrir atbeina manna séu tálsýn. Við skulum lesa spádómlega aðvörun Jehóva og sjá hvernig hún á við nú á dögum. Hana er að finna í 28. kafla Jesajabókar og hún var skrifuð fyrir árið 740 f.o.t., líklega á valdatíma hins óguðlega Peka konungs í Ísrael og hins vegvillta Akasar konungs í Júda.

‚Drykkjurútarnir í Efraím‘

3. Hvaða óvænt fordæming kom frá Jesaja?

3 Fyrsta versið í 28. kafla gerir okkur hálfpartinn bilt við: „Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu.“ Þessi kröftuga fordæming hlýtur að hafa skotið Ísraelsmönnum skelk í bringu! Hverjir voru ‚drykkjurútarnir í Efraím‘? Hver var ‚höfuðsveigur‘ þeirra? Og hver var ‚hæðin í frjósama dalnum‘? Og það sem þýðingarmeira er, hvað gefa þessi orð okkur nútímamönnum í skyn?

4. (a) Hvað var Efraím og hæðin í frjósama dalnum? (b) Hvers vegna hélt Ísrael sig öruggan?

4 Efraím var stærst ættkvíslanna tíu í Ísrael og nafnið „Efraím“ var því stundum notað um norðurríkið í heild sinni. ‚Drykkjurútarnir í Efraím‘ voru því drykkjurútarnir í Ísrael. Samaría var höfuðborg Ísraels og stóð á hæð sem gnæfði yfir frjósaman dal. ‚Hæðin í frjósama dalnum‘ á því við Samaríu. Þegar þessi orð voru rituð var mikil spilling á hinum trúarlega vettvangi í Ísraelsríkinu. Auk þess hafði Ísrael gert stjórnmálabandalag við Sýrland gegn Júda og taldi öryggi sínu borgið. (Jesaja 7:1-9) Það var í þann mund að breytast. Hættuástand var í aðsigi og það var þess vegna sem Jehóva sagði: „Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím.“

5. (a) Hver var höfuðsveigur Ísraels? (b) Hverjir voru drykkjurútarnir í Efraím?

5 Hver var ‚höfuðsveigurinn‘? Höfuðsveigur eða kóróna er tákn konungsvalds. ‚Hinn drembilegi höfuðsveigur‘ var því augljóslega staða Ísraels sem sjálfstætt ríki, óháð Júda. Einhver ógæfa átti að dynja yfir Ísrael og gera sjálfstæði þess að engu. Hverjir voru þá ‚drykkjurútarnir í Efraím‘? Vafalaust voru bókstaflegir drykkjurútar í Ísrael því að Samaría var miðstöð taumlausrar, heiðinnar tilbeiðslu. En Biblían talar líka um annars konar drykkjuskap. Í Jesajabók 29:9 lesum við: „Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.“ Hér var um að ræða eins konar andlegan drykkjuskap, óhreina ölvun sem var banvæn. Leiðtogar Ísraels — einkum trúarleiðtogarnir — þjáðust greinilega af slíkri andlegri ölvun.

6. Af hverju var Forn-Ísrael drukkinn?

6 En hver var orsök hins andlega drykkjuskapar Forn-Ísraels? Það var fyrst og fremst bandalag hans við Sýrland gegn Júda sem veitti leiðtogum þjóðarinnar vellíðunar- og öryggiskennd. Þessi andlega ölvun sleit Ísrael úr tengslum við veruleikann. Líkt og bókstaflegur drykkjurútur var Ísrael bjartsýnn þótt hann hefði enga ástæðu til þess. Auk þess skartaði Ísrael þessu ölvandi bandalagi sínu við Sýrland með stærilæti, líkt og fögrum blómsveig. En, eins og Jesaja segir, var þetta bliknandi blóm sem myndi ekki standa miklu lengur.

7, 8. Hvað átti bráðlega að koma fyrir Ísraelsríkið, þrátt fyrir sjálfsánægju þess?

7 Jesaja leggur áherslu á það í 28. kafla, 2. versi: „Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá [Jehóva]. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni.“ Hver var þessi ‚sterka og volduga hetja‘? Á dögum Ísraels var það hið öfluga heimsveldi Assýría. Þetta grimma og miskunnarlausa heimsveldi myndi steypa sér yfir Ísrael eins og þrumandi stormur og úrhellisrigning. Með hvaða afleiðingum?

8 Jesaja heldur áfram: „Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím. Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.“ (Jesaja 28:3, 4) Höfuðborg Ísraels, Samaría, var eins og þroskuð fíkja í augum Assýringa sem beið þess að hún væri tínd og gleypt. Bandalag Ísraels við Sýrland, sem líkt var við blómsveig, skyldi verða fótum troðið. Það yrði einskis virði þegar reikningsskiladagurinn rynni upp. Og það sem verra var, óvinurinn Assýría myndi traðka niður þá dýrð sem fólst í sjálfstæði þjóðarinnar. Hvílík ógæfa!

„Prestar og spámenn reika“

9. Hvers vegna kann Júda að hafa búist við betri boðskap frá Jehóva en Ísrael fékk?

9 Já, Ísrael átti hræðileg reikningsskil í vændum, og eins og Jehóva Guð hafði varað við kom til reikningsskilanna árið 740 f.o.t. er Assýringar lögðu Samaríu í rúst og norðurríkið hætti að vera til sem sjálfstæð þjóð. Það sem henti Ísrael til forna er hörkuleg aðvörun til hinna ótrúu falstrúarbragða nútímans eins og við munum sjá. En hvað um systurríki Ísraels í suðri, Júda? Á dögum Jesaja var musteri Jehóva enn starfrækt í Jerúsalem, höfuðborg Júda. Prestastéttin þjónaði þar enn og spámenn, svo sem Jesaja, Hósea og Míka, töluðu í nafni Jehóva. Hvaða boðskap ætli Jehóva hafi sent Júda?

10, 11. Hvaða viðurstyggð blasti við í Júda?

10 Jesaja heldur áfram: „En einnig hérna reika menn [það er að segja prestar og spámenn Jerúsalem] af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni.“ (Jesaja 28:7a) Trúarleiðtogar Júda voru greinilega drukknir líka. Eins og í Ísrael voru sumir líklega drykkjumenn í bókstaflegri merkingu og það var hin mesta hneisa. Lögmál Guðs lagði blátt bann við því að prestar Gyðinga neyttu áfengis meðan þeir þjónuðu í musterinu. (3. Mósebók 10:8-11) Bókstaflegur drykkjuskapur í húsi Guðs hefði verið gróft brot á lögmáli Guðs.

11 Hin andlega ölvunarvíma í Júdaríkinu var þó öllu alvarlegri. Á sama hátt og Ísrael hafði gert bandalag við Sýrland hafði Júda leitað sér öryggis með bandalagi við Assýríu. (2. Konungabók 16:5-9) Þrátt fyrir það að musteri Guðs stóð í Jerúsalem treysti Júdaríkið á menn þótt það hefði átt að treysta á Jehóva. Og eftir að leiðtogarnir höfðu stofnað til þessa óhyggilega bandalags voru þeir jafnáhyggjulausir og hinir andlega drukknu nágrannar þeirra í norðri. Ábyrgðarleysi þeirra var viðurstyggilegt í augum Jehóva.

12. Hvaða afleiðingar átti andlegur drykkjuskapur Júda að hafa?

12 Jesaja heldur áfram: „[Þeir] eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra. Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.“ (Jesaja 28:7b, 8) Líklegt er að sumir hafi í drykkju sinni hreinlega spúið í musterinu. Hitt var þó öllu alvarlegra að prestar og spámenn, sem hefðu átt að veita trúarlega leiðsögn, spúðu frá sér andlegum óþverra. Þar við bættist að með fáeinum undantekningum voru dómar spámannanna rangsnúnir og spár þeirra í þágu þjóðarinnar falskar. Jehóva ætlaði að refsa Júda fyrir þennan andlega óhreinleika.

Andlegir drykkjurútar nú á dögum

13. Hvaða ástand ríkti á fyrstu öld okkar tímatals, hliðstætt ástandinu í Ísrael og Júda, og hvaða hliðstæða er nú á dögum?

13 Uppfylltust spádómar Jesaja einungis á Ísrael og Júda til forna? Hvergi nærri. Bæði Jesús og Páll postuli vitnuðu í orð hans um andlegan drykkjuskap og heimfærðu þau á trúarleiðtoga samtíðar sinnar. (Jesaja 29:10, 13; Matteus 15:8, 9; Rómverjabréfið 11:8) Nú á dögum er komin upp svipuð aðstaða og var á tímum Jesaja — núna í kristna heiminum, trúarskipulagi á heimsvísu sem segist vera fulltrúi Guðs. Í stað þess að taka eindregna afstöðu með sannleikanum og treysta á Jehóva setur kristni heimurinn, jafnt kaþólskir menn sem mótmælendur, traust sitt á heiminn. Þannig skjögrar hann reikull í spori líkt og drykkjurútarnir í Ísrael og Júda. Þessir andlegu drykkjurútar til forna eru því góð táknmynd hinna andlegu leiðtoga kristna heimsins nú á dögum. Við skulum skoða nánar hvernig.

14. Hvernig eru trúarleiðtogar kristna heimsins drukknir eins og leiðtogar Samaríu og Jerúsalem til forna?

14 Eins og Samaría og Jerúsalem hefur kristni heimurinn teygað áfergjulega vín pólitískra bandalaga. Árið 1919 var hann einn helsti hvatamaður að stofnun Þjóðabandalagsins. Þótt Jesús hafi sagt að kristnir menn skyldu ekki tilheyra heiminum rækta leiðtogar kristna heimsins vináttubönd við stjórnmálaleiðtoga. (Jóhannes 17:14-16) Hið táknræna vín slíkrar starfsemi er örvandi fyrir klerkana. (Samanber Opinberunarbókina 17:4.) Þeir njóta þess að stjórnmálamenn skuli ráðfæra sig við þá og hafa yndi af því að vera með stórmennum þessa heims. Af því leiðir að klerkarnir hafa enga sanna, andlega leiðsögn að veita. Þeir spúa frá sér óhreinleika í stað þess að tala hinn hreina boðskap sannleikans. (Sefanía 3:9) Þar eð sjón þeirra er óskýr og þeir sjá allt í móðu eru þeir ekki traustir leiðsögumenn mannkyns. — Matteus 15:14.

„Alltaf að skipa og skipa“

15, 16. Hvernig brugðust samtíðarmenn Jesaja við aðvörun hans?

15 Á áttundu öld f.o.t. afhjúpaði Jesaja sérstaklega hina röngu stefnu andlegra leiðtoga Júda. Hvernig brugðust þeir við? Þeir hötuðu það að láta afhjúpa sig! Er Jesaja hélt áfram að boða aðvaranir Guðs hreyttu trúarleiðtogarnir út úr sér: „Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum?“ (Jesaja 28:9) Hélt Jesaja sig vera að tala við smábörn? Trúarleiðtogar Jerúsalem litu á sig sem fullvaxta menn, fullfæra um að taka sjálfir ákvarðanir. Þeir þurftu ekki að hlusta á nöldursamar áminningar Jesaja.

16 Þessir trúarofstækismenn gerðu jafnvel gys að prédikunarstarfi Jesaja. Þeir söngluðu til hans: „Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa — skamma og skamma, skamma og skamma — ýmist þetta, ýmist hitt.“ (Jesaja 28:10) ‚Jesaja er alltaf að þylja sömu tugguna,‘ fullyrtu þeir. ‚Hann tönnlast á þessu: „Þannig hefur Jehóva boðið! Þannig hefur Jehóva boðið! Þetta er staðall Jehóva! Þetta er staðall Jehóva!“‘ Á frumhebreskunni er Jesaja 28:10 þula með rími, ekki ósvipuð vögguvísu. Og þannig fannst trúarleiðtogunum Jesaja vera; staglsamur og barnalegur.

17. Hvernig bregðast margir við aðvörunarboðskap votta Jehóva?

17 Prédikun Jesú og lærisveina hans þótti líka staglsöm og einfeldnisleg á fyrstu öld okkar tímatals. Trúarleiðtogar Gyðinga litu á fylgjendur Jesú sem fordæmda, einfalda sveitamenn, sem ólærða leikmenn. (Jóhannes 7:47-49; Postulasagan 4:13) Vottar Jehóva eru oft litnir sömu augum nú á dögum. Þeir hafa ekki gengið í prestaskóla kristna heimsins og nota ekki hljómmikla titla eða orðbragð guðfræðinnar líkt og klerkastéttin. Hinir háu herrar kristna heimsins líta því niður á þá og finnst að þeir ættu að þekkja sín takmörk og sýna þeim meiri virðingu.

18. Hvað yfirsést trúarleiðtogum nútímans?

18 En trúarleiðtogarnir láta sér yfirsjást ákveðið atriði. Jafnvel þótt stórmennin á dögum Jesaja höfnuðu boðskap hans var hann að tala sannleikann og varnaðarorð hans rættust! Eins eru þær aðvaranir sannar sem vottar Jehóva mæla fram nú á dögum. Þær eiga sér traustan grunn í orði Guðs, Biblíunni. (Jóhannes 17:17) Þess vegna munu þær rætast.

Reikningsskilin

19. Hvernig neyddust Júdamenn til að gefa gaum útlendingum er mæltu á stamandi tungu?

19 Í Jesajabók 28:11 lesum við: „Með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar.“ Kenning Jesaja hljómaði eins og útlend þvæla í eyrum Júdamanna. Þótt Júda kæmist undan þeirri ógn sem Assýría var er hún lagði Ísrael undir sig kom að því að Jehóva notaði annan útlending, Nebúkadnesar, til að taka á Júdamönnum. (Jeremía 5:15-17) Babýlonsk tunga hljómaði óþægilega og stamandi í eyrum Hebrea. Þeir neyddust þó til að hlusta á hana er Jerúsalem og musteri hennar var lagt í rúst árið 607 f.o.t. og íbúarnir leiddir í fjötrum til útlegðar í Babýlon. Eins mun kristni heimurinn bráðlega þurfa að líða vegna þess að hann skeytir ekki um hvatningar og áminningar Jehóva, frekar en Júda til forna.

20, 21. Hvað boða vottar Jehóva án afláts en hvað neita leiðtogar kristna heimsins að gera?

20 Spádómurinn segir um slíka menn: „Hann sem sagði við þá: ‚Þetta er hvíldin — ljáið hinum þreytta hvíld! — Hér er hvíldarstaður.‘ En þeir vildu ekki heyra. Fyrir því mun orð [Jehóva] láta svo í eyrum þeirra: ‚Skipa og skipa, skipa og skipa — skamma og skamma, skamma og skamma — ýmist þetta, ýmist hitt,‘ að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.“ — Jesaja 28:12, 13.

21 Vottar Jehóva segja kristna heiminum í sífellu að hann ætti að setja traust sitt á orð Jehóva, líkt og Jesaja talaði boðskap Guðs. En kristni heimurinn neitar að hlusta. Honum finnst vottarnir vera að þvæla á erlenda tungu. Þeir tala mál sem hann skilur ekki. Kristni heimurinn neitar að veita hinum þreyttu hvíld með því að segja þeim sannleikann um Guðsríki og hinn nýja heim sem koma mun. Þess í stað er hann drukkinn af víni sambanda sinna við heiminn. Hann kýs að styðja pólitískar lausnir á vandamálum mannkynsins. Hann hefur ekki leitað sér hvíldar hjá Guðsríki, frekar en Gyðingar á dögum Jesú, og vill ekki segja öðrum frá því. — Matteus 23:13.

22. Við hverju varar Jehóva leiðtoga kristna heimsins?

22 Spádómsorð Jesaja vara því klerkana við að Jehóva muni ekki alltaf tala við kristna heiminn fyrir munn meinlausra votta sinna. Bráðlega mun Jehóva láta ‚skipanir sínar og skammir‘ koma til framkvæmda og afleiðingarnar verða stórkostlega skaðvænar fyrir kristna heiminn. Trúarleiðtogar hans og áhangendur munu ‚beinbrotna, festast í snörunni og verða teknir.‘ Já, líkt og Jerúsalem til forna verður trúarkerfum kristna heimsins gereytt. Hvílíkar ófarir! Hvílík óvænt endalok! Og hvílíkar hörmulegar afleiðingar þess að klerkarnir taka andlegan drykkjuskap fram yfir áminningar Jehóva!

Getur þú svarað?

◻ Hverjir voru drykkjurútarnir í Efraím og hvað gerði þá drukkna?

◻ Hvernig var drembilegur höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím fótum troðinn?

◻ Hvaða smánarlegt ástand í Júda afhjúpaði Jesaja?

◻ Hvar sjáum við andlegan drykkjuskap nú á dögum?

◻ Hvers vegna ætti kristni heimurinn að taka mark á því sem kom fyrir Júdamenn til forna?

[Spurningar]