Athvarf þeirra – lygi!
Athvarf þeirra – lygi!
„Vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.“ — JESAJA 28:15.
1, 2. (a) Hver ætti nú á dögum að veita athygli því sem henti Júdaríkið til forna? (b) Á hvað setti Júdaríkið traust sitt ranglega?
EIGA þessi orð við kristna heiminn nú á dögum eins og þau áttu við tveggjaættkvíslaríkið Júda til forna? Já, svo sannarlega! Og sú samsvörun veit ekki á gott fyrir kristna heim nútímans. Hún merkir að mikil ógæfa mun bráðlega ríða yfir þetta trúvillta skipulag.
2 Norður af Júda var tíuættkvíslaríkið Ísrael. Þegar Ísraelsríkið reyndist trúlaust leyfði Jehóva Assýringum að leggja það undir sig árið 740 f.o.t. Systurríkið Júda varð vitni að þessum hörmulega atburði en fannst þó greinilega að slíkt gæti aldrei komið fyrir það. Leiðtogar Júda sögðu digurbarkalega: ‚Nú, er ekki musteri Jehóva í Jerúsalem? Erum við ekki útvalin þjóð Guðs? Tala ekki prestar okkar og spámenn í nafni Jehóva?‘ (Samanber Jeremía 7:4, 8-11.) Þessir trúarleiðtogar Gyðinga voru sannfærðir um að þeir myndu njóta verndar. En þar fóru þeir villir vegar! Þeir voru jafntrúlausir og ættmenn þeirra í norðri. Það sem kom fyrir Samaríu átti því einnig eftir að koma fyrir Jerúsalem.
3. Hvers vegna er kristni heimurinn öruggur með sig varðandi framtíðina en er gott tilefni fyrir öryggi hans?
3 Kristni heimurinn þykist á svipaðan hátt vera í sérstöku sambandi við Guð. Hann segir borginmannlega: ‚Nú, við höfum kirkjur í tugþúsundatali, við eigum okkur menntaða klerkastétt og áhangendur í hundruð milljónatali. Við höfum líka Biblíuna og við notum nafn Jesú í tilbeiðslu okkar. Auðvitað njótum við hylli Guðs!‘ En það sem henti Jerúsalem til forna er miskunnarlaus aðvörun. Þrátt fyrir hina óvenjulegu stjórnmálaþróun nýverið vitum við að Jehóva mun bráðlega ganga fram af einbeitni gegn kristna heiminum og öllum öðrum fölskum trúarbrögðum.
‚Sáttmáli við dauðann‘
4. Hvaða sáttmála hélt Júdaríkið sig geta gert?
4 Hin ótrúa Jerúsalem til forna fékk margar aðvaranir fyrir munn sannra spámanna Guðs en trúði þeim ekki. Í staðinn gortaði hún af því að hún myndi aldrei verða dauðanum að bráð og fara niður til heljar, grafarinnar, eins og henti norðurríkið Ísrael. Jesaja spámanni var innblásið að segja við Júda: „Heyrið því orð [Jehóva], þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem. Þér segið: ‚Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa [skyndiflóð, NW] ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.‘“ — Jesaja 28:14, 15.
5. (a) Hver var sáttmálinn við dauðann sem Júdaríkið þóttist hafa gert? (b) Hvaða viðvörun til Asa konungs hafði Júdaríkið gleymt?
5 Já, leiðtogar Jerúsalem héldu að þeir hefðu gert eins konar sáttmála við dauðann og helju þannig að borgin yrði varðveitt. En fól þessi svonefndi sáttmáli Jerúsalem við dauðann í sér að hún hefði iðrast synda sinna og treysti nú á Jehóva til hjálpræðis? (Jeremía 8:6, 7) Fjarri því! Þess í stað leitaði hún hjálpar mennskra, pólitískra valdhafa. En traust hennar á veraldleg bandalög var blekking, lygi. Heimsins menn, sem hún leitaði til, gátu ekki bjargað henni. Og með því að Jerúsalem yfirgaf Jehóva, þá yfirgaf Jehóva Jerúsalem. Það fór eins og Asarja spámaður hafði varað Asa konung við: „[Jehóva] er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ — 2. Kroníkubók 15:2.
6, 7. Hvað gerði Júdaríkið í þeim tilgangi að tryggja öryggi sitt en hvernig fór að lokum?
6 Leiðtogar Jerúsalem treystu á stjórnmálabandalög sín og voru fullvissir um að ekkert „skyndiflóð“ í mynd innrásarherja myndi komast nálægt þeim og raska friði þeirra og öryggi. Þegar bandalag Ísraels og Sýrlands ógnaði Júdaríkinu leitaði það ásjár Assýríu. (2. Konungabók 16:5-9) Síðar, þegar hersveitir Babýlonar ógnuðu Júdaríkinu, leitaði það stuðnings hjá Egyptum. Faraó brást jákvætt við og sendi egypskan her til hjálpar. — Jeremía 37:5-8; Esekíel 17:11-15.
7 En herir Babýlonar voru langtum öflugri og hersveitir Egypta urðu að hörfa. Traust Jerúsalem á Egyptalandi en ekki Jehóva reyndist misráðið og árið 607 f.o.t. lét Jehóva hana verða þeirri eyðingu að bráð sem hann hafði sagt fyrir. Valdhafar og prestar Jerúsalem höfðu því haft á röngu að standa! Traust þeirra á veraldlegum bandalögum, til að tryggja sér frið og öryggi, var „lygi“ sem sópaðist burt er herir Babýlonar komu yfir þá eins og skyndiflóð.
‚Traustum steini‘ hafnað
8. Hvernig hefur kristni heimurinn tekið mjög líka afstöðu og Júdaríkið til forna?
8 Er ástandið hliðstætt nú á dögum? Já, það er það. Klerkum kristna heimsins finnst líka að engin ógæfa muni koma yfir þá. Í reynd segja þeir eins og Jesaja sagði fyrir: „Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa [skyndiflóð, NW] ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.“ (Jesaja 28:15) Klerkar kristna heimsins kjósa því, líkt og Jerúsalem til forna, að tryggja sér frið og öryggi með veraldlegum bandalögum og neita að leita hælis hjá Jehóva. Þeir vilja ekki einu sinni nota nafn hans og hæðast að og ofsækja þá sem heiðra þetta nafn. Kristni heimurinn og klerkar hans hafa gert nákvæmlega hið sama og æðstu prestar Gyðinga gerðu á fyrstu öld er þeir höfnuðu Kristi. Þeir hafa sagt í reynd: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ — Jóhannes 19:15.
9. (a) Hverjir aðvara kristna heiminn núna á sama hátt og Jesaja aðvaraði Júda? (b) Hvar ætti kristni heimurinn að leita ásjár?
9 Vottar Jehóva vara við því nú á dögum að aftökusveitir muni bráðlega flæða yfir kristna heiminn. Auk þess benda þeir á hvar sé að finna öruggt athvarf fyrir þessu flóði. Þeir vitna í Jesaja 28:16 sem segir: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.“ Hver er þessi ‚ágæti hornsteinn‘? Pétur postuli vitnaði í þessi orð og heimfærði þau á Jesú Krist. (1. Pétursbréf 2:6) Ef kristni heimurinn hefði leitað friðar við konung Jehóva, Jesú Krist, þá hefði hann getað forðast hið komandi skyndiflóð. — Samanber Lúkas 19:42-44.
10. Hvaða tengsl hefur kristni heimurinn ræktað?
10 En það hefur hann ekki gert. Í staðinn leitar hann friðar og öryggis með því að koma sér í mjúkinn hjá stjórnmálaleiðtogum þjóðanna — þrátt fyrir þá viðvörun Biblíunnar að vinátta við heiminn sé fjandskapur gegn Guði. (Jakobsbréfið 4:4) Enn fremur gerðist hann árið 1919 eindreginn talsmaður Þjóðabandalagsins sem bestu friðarvonar mannkynsins. Frá 1945 hefur hann sett traust sitt á Sameinuðu þjóðirnar. (Samanber Opinberunarbókina 17:3, 11.) Hve víðtæk er aðild hans að þessum samtökum?
11. Hver er aðild trúarbragðanna að Sameinuðu þjóðunum?
11 Nýlega útkomin bók gefur nokkra hugmynd um það er hún segir: „Ekki færri en 24 kaþólsk samtök eiga sér fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Nokkrir af trúarleiðtogum heimsins hafa heimsótt aðalstöðvar þessara alþjóðasamtaka. Minnisverðastar eru heimsóknir Hans heilagleika Páls páfa VI til alsherjarþingsins árið 1965 og Jóhannesar Páls páfa II árið 1979. Mörg trúfélög hafa sérstök áköll, bænir, sálma og guðsþjónustur helgaðar Sameinuðu þjóðunum. Mest ber á því hjá kaþólskum, únítara-úníversalistum, baptistum og bahaímönnum.“
Innantómar friðarvonir
12, 13. Hvers vegna treysta vottar Jehóva að viðvaranir þeirra séu sannar, þrátt fyrir útbreiddar vonir manna um að friður sé á næsta leiti?
12 Einn af voldugustu stjórnmálaleiðtogum heims endurómaði vonir margra er hann sagði: „Ef til vill á núverandi kynslóð manna eftir að sjá varanlega friðartíma í sögu siðmenningarinnar ganga í garð.“ Hafði hann rétt fyrir sér? Merkir þróunin á vettvangi stjórnmálanna undanfarið að viðvaranir votta Jehóva um að Jehóva muni fullnægja dómi yfir þjóðunum eigi ekki eftir að rætast? Hafa vottar Jehóva rangt fyrir sér?
13 Nei, þeir hafa ekki rangt fyrir sér. Þeir vita að þeir eru að segja sannleikann vegna þess að þeir setja traust sitt á Jehóva og Biblíuna sem er sannleiksorð Guðs. Títusarbréfið 1:2 segir: ‚Guð lýgur ekki.‘ Þess vegna treysta þeir því fullkomlega að þegar spádómur Biblíunnar segir að eitthvað muni gerast, þá muni það örugglega gerast. Jehóva segir sjálfur: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.
14, 15. (a) Hvað boðuðu leiðtogar Júda skömmu fyrir eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t.? (b) Hvað sagði Páll myndu vera tilkynnt áður en skyndileg eyðing kæmi yfir þennan heim? (c) Hvers má vænta við hámark þeirrar tilkynningar sem spáð er í 1. Þessaloníkubréfi 5:3?
14 Á árunum fyrir eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. skýrði Jeremía frá því að leiðtogarnir hafi hrópað: „Það er friður! Það er friður! Það er friður!“ (Jeremía 8:11, NW) En það var lygi. Jerúsalem var lögð í eyði til uppfyllingar innblásnum aðvörunum sannra spámanna Jehóva. Páll postuli varaði við því að eitthvað svipað myndi gerast á okkar tímum. Hann sagði að menn myndu hrópa: „Friður og engin hætta,“ en þá myndi koma „snögglega tortíming“ yfir þá. — 1. Þessaloníkubréf 5:3.
15 Er tíundi áratugurinn gekk í garð sögðu tímarit og dagblöð um allan heim að kalda stríðinu væri lokið og heimsfriður loks í sjónmáli. En þá braust út stríð í Miðausturlöndum. Fyrr eða síðar mun ástandið í heiminum þó þróast með þeim hætti að hrópið um ‚frið og öryggi,‘ sem spáð er í 1. Þessaloníkubréfi 5:2, 3, nái hámarki. Þar eð vonir okkar eiga sér traustan grundvöll í orði Guðs vitum við að þegar því hámarki er náð verður dómum Guðs fullnægt skjótlega og markvisst. Engin yfirlýsing um frið og öryggi, sem hnoðað er saman, ætti að koma okkur til að halda að eyðingin, sem Guð segir fyrir, muni ekki verða. Dómar Jehóva eru óbreytanlega skráðir í orði hans, Biblíunni. Kristna heiminum verður gereytt, ásamt öllum öðrum falstrúarbrögðum. Og þá verður eyðingardómi Jehóva fullnægt á því sem eftir er af heimi Satans. (2. Þessaloníkubréf 1:6-8; 2:8; Opinberunarbókin 18:21; 19:19-21) Þar eð vottar Jehóva treysta að Jehóva uppfylli orð sín halda þeir vöku sinni undir handleiðslu hins trúa og hyggna þjóns og fylgjast vökulu auga með heimsatburðunum eins og þeir þróast. (Matteus 24:45-47) Engin friðarviðleitni manna ætti að koma okkur til að halda að Jehóva hafi horfið frá þeim tilgangi sínum að láta skyndilegt eyðingarflóð koma yfir hinn syndum hlaðna kristna heim.
‚Guð er hæli okkar‘
16, 17. Hver eru viðbrögð votta Jehóva við því ef einhver móðgast við það hve boðskapur þeirra er hreinskilinn?
16 Sumir móðgast kannski við hreinskilni votta Jehóva er þeir boða þetta. En þegar vottarnir segja að trúarleiðtogar kristna heimsins hafi leitað skjóls í lyginni eru þeir eingöngu að enduróma það sem Biblían segir. Þegar þeir segja að kristni heimurinn verðskuldi refsingu, vegna þess að hann er orðinn hluti af heiminum, eru þeir eingöngu að skýra frá því sem Guð segir sjálfur í Biblíunni. (Filippíbréfið 3:18, 19) Og þar eð kristni heimurinn hefur sett traust sitt á áform þessa heims er hann í raun að styðja guð þessa heims, Satan djöfulinn, sem Jesús sagði vera föður lyginnar. — Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 4:4.
17 Vottar Jehóva lýsa þess vegna yfir: Við hvetjum ekki til falskrar vonar um heimsfrið vegna breytinga á vettvangi stjónmálanna. Þess í stað endurómum við orð sálmaritarans: „Guð er vort hæli. Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.“ (Sálmur 62:9, 10) Eða, eins og Nýheimsþýðingin orðar það: „Þegar þeir eru lagðir á vogarskálarnar eru þeir allir saman léttari en andblástur.“ Áform manna til verndar og varðveislu kristna heiminum eru blekking og lygi! Öll samanlögð eru þau ekki máttugri til að hindra tilgang Jehóva en hégóminn einn, en munnfylli af heitu lofti!
18. Hvaða varnaðarorð sálmaritarans eiga við núna?
18 Vottar Jehóva vitna líka í Sálm 33, vers 17 til 19 sem segja: „Svikull er víghestur [Egyptalands, tákn hernaðar] til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki. En augu [Jehóva] hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans. Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.“ Sannkristnir menn treysta á Jehóva og himneskt ríki hans, hið eina sem getur komið á varanlegum friði.
Kristni heimurinn ‚sundur marinn‘
19. Hvers vegna er það blekking ein að treysta stjórnmálastofnun til að koma á heimsfriði?
19 Það að treysta á varaskeifu manna í staðinn fyrir Guðsríki gerir þá varaskeifu að líkneski, tilbeiðslugrip. (Opinberunarbókin 13:14, 15) Það er því tálsýn, lygi, að setja traust sitt á pólitískar stofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar, til að tryggja frið og öryggi. Jeremía segir um slík fyrirbæri sem falskar vonir eru bundnar við: „Hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi. Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau.“ (Jeremía 10:14, 15) Þess vegna munu víghestar þess sem Egyptaland táknar, það er að segja stjórnmála- og hernaðarafl þjóðanna nú á dögum, ekki vernda hinn trúarlega vettvang kristna heiminsins á kreppudegi hans. Bandalag kristna heimsins við þennan heim mun sannarlega ekki reynast honum vernd.
20, 21. (a) Hvernig fór fyrir Þjóðabandalaginu og hvers vegna mun ekki fara betur fyrir Sameinuðu þjóðunum? (b) Hvernig sýndi Jesaja að bandalag kristna heimsins við heiminn mun ekki bjarga honum?
20 Kristni heimurinn batt vonir sínar við Þjóðabandalagið en því var kollvarpað án þess einu sinni að Harmagedón kæmi. Núna hefur kristni heimurinn veitt Sameinuðu þjóðunum hollustu sína, en þær munu bráðlega verða að horfast í augu við ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ og ekki lifa hann af. (Opinberunarbókin 16:14) Jafnvel þótt nýju lífi sé blásið í Sameinuðu þjóðirnar geta þær aldrei tryggt frið og öryggi. Spádómsorð Guðs sýnir að Sameinuðu þjóðirnar munu, ásamt aðildarríkjum sínum, „heyja stríð við lambið [Krist sem konung Guðsríkis]. Og lambið og þeir, sem með því eru, . . . munu sigra þá, — því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.“ — Opinberunarbókin 17:14.
21 Vottar Jehóva segja því með fullu öryggi að það sé ekkert hjálpræði fólgið í því fyrir kristna heiminn að gera bandalög við heim Satans. Og þegar þeir segja það eru þeir einungis að benda á það sem Biblían sjálf segir. Jesaja 28:17, 18 hefur eftir Jehóva: „Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu. Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa [skyndiflóð, NW] ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni.“
22. Hver verður árangurinn þegar réttvísinni er fullnægt á kristna heiminum?
22 Þegar Jehóva fullnægir dómum sínum verður það samkvæmt fullkomnu réttlæti og réttvísi. Og það sem kristni heimurinn setur traust sitt á, ‚sáttmáli hans við dauðann,‘ mun sópast algerlega burt eins og í skyndilegu vatnsflóði. Jesaja heldur áfram: „Á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.“ (Jesaja 28:19) Það verður skelfilegt fyrir þá sem á horfa að verða vitni að því er Jehóva fullnægir dómi sínum af fullu afli! Það verður ægilegt fyrir klerka kristna heimsins og fylgjendur þeirra að uppgötva um seinan að þeir hafa sett traust sitt á lygi!
Nafn Jehóva er „sterkur turn“
23, 24. Hvað munu vottar Jehóva gera í stað þess að leita öryggis í þessum heimi?
23 En hvað um votta Jehóva? Jafnvel þótt þeir mæti hatri og ofsóknum á alþjóðavettvangi halda þeir sér eftir sem áður aðgreindum frá heiminum. Þeir gleyma aldrei að Jesús sagði um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Út í gegnum hina síðustu daga hafa þeir sett traust sitt á ríki Jehóva, ekki áform manna. Þess vegna mun ógæfa kristna heimsins ekki gera þá óttaslegna. Eins og Jesaja sagði fyrir: „Sá sem trúir, er eigi óðlátur,“ er ekki gripinn skelfingarfáti. — Jesaja 28:16.
24 Orðskviðirnir 18:10 segja: „Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ Við hvetjum því alla sauðumlíka menn til að leita hælis hjá Jehóva og ríki hans í höndum Krists. Jehóva er hæli sem er engin lygi! Ríki hans í höndum Krists er engin lygi! Athvarf kristna heimsins er lygi en athvarf sannkristinna manna er sannleikur.
Getur þú svarað?
◻ Hvernig leitaði Júdaríkið til forna hælis í lyginni?
◻ Á hvaða hátt hefur kristni heimurinn reynt að leita skjóls í blekkingu?
◻ Hvernig aðvaraði Jesaja Júdaríkið og hvernig aðvara vottar Jehóva núna með svipuðum hætti?
◻ Hvernig mun kristni heimurinn uppgötva að hann hefur veitt óverðugum traust sitt?
◻ Hvaða afstöðu framfylgja vottar Jehóva, ólíkt kristna heiminum?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 25]
MIKLAR VONIR BUNDNAR VIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR
„Í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar er hið alþjóðlega samfélag sameinað. Forysta Sameinuðu þjóðanna, sem einu sinni var aðeins hugsjón, er núna að gera hugsýn stofnenda samtakanna að veruleika. . . . Heimurinn getur því gripið þetta tækifæri til að láta loforðið um nýjan heimsskipan verða að veruleika.“ — Úr ávarpi Bush Bandaríkjaforseta til þjóðar sinnar þann 29. janúar 1991.