Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Framgöngum eins og Jehóva fræðir okkur

Framgöngum eins og Jehóva fræðir okkur

Framgöngum eins og Jehóva fræðir okkur

„Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — SÁLMUR 86:11.

1, 2. Hvað fær votta Jehóva til að þiggja ekki blóðgjafir?

 „KANNSKI eru vottar Jehóva að gera rétt í því að neita að þiggja blóðafurðir, því að sannleikurinn er sá að fjölmargir sjúkdómsvaldar geta borist með blóði.“ — Franska læknadagblaðið Le Quotidien du Médecin, 15. desember 1987.

2 Sumum sem lásu þessi orð fannst kannski að það hefði verið alger slembilukka hjá vottum Jehóva að afþakka blóðgjafir löngu áður en almennt var vitað hve hættulegar og jafnvel banvænar þær geta verið. En afstaða votta Jehóva til blóðs er ekki til komin af neinni tilviljun, og byggist ekki heldur á reglu fundinni upp af einhverjum undarlegum sértrúarflokki, byggð á þeim ótta að blóð sé á einhvern hátt hættulegt. Vottar Jehóva neita að láta gefa sér blóð vegna þess að þeir eru staðráðnir í að framganga í hlýðni fyrir sínum mikla kennara — Guði.

3. (a) Hvernig fann Davíð sig háðan Jehóva? (b) Fram til hvers horfði Davíð vegna þess að hann treysti Guði?

3 Davíð konungur, sem fann til þess að hann var háður Guði, var staðráðinn í að láta hann fræða sig og ‚ganga í sannleika hans.‘ (Sálmur 86:11) Davíð var einu sinni bent á að ef hann forðaðist að baka sér blóðskuld í augum Guðs gæti ‚líf hans verið bundið í bundini lifandi manna hjá Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 25:21, 22, 25, 29) Líkt og menn settu umbúðir utan um verðmæti til að geyma þau sem best, eins gat Guð verndað og varðveitt líf Davíðs. Davíð fór eftir þessu viturlega ráði og reyndi ekki að bjarga sjálfum sér með eigin viðleitni heldur treysti á hann sem hann skuldaði líf sitt: „Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.“ — Sálmur 16:11.

4. Hvers vegna vildi Davíð fá fræðslu frá Jehóva?

4 Með því að Davíð hafði þetta viðhorf taldi hann sig ekki geta valið sjálfur hvaða lög Guðs hann teldi gild eða þyrfti að hlýða. Viðhorf hans var þetta: „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], leið mig um slétta braut.“ „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálmur 27:11; 86:11, 12) Stundum gat það virst óþægilegt eða kostað miklar fórnir að ganga í sannleika frammi fyrir Guði, en Davíð vildi þekkja hinn rétta veg og ganga hann.

Fræðsla um blóðið

5. Hvað hlýtur Davíð að hafa vitað um afstöðu Guðs til blóðs?

5 Vert er að hafa í huga að Davíð hafði allt frá bernsku verið kennt viðhorf Guðs til blóðs, og viðhorf hans var enginn trúarlegur leyndardómur. Er lögmálið var lesið fyrir þjóðinni hefur Davíð heyrt þetta: „Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu. Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.‘“ — 3. Mósebók 17:11, 12; 5. Mósebók 4:10; 31:11.

6. Hvers vegna þurfti að fræða þjóna Guðs stöðugt um viðhorf Guðs til blóðs?

6 Svo lengi sem Ísrael var útvalin þjóð Guðs þurftu þeir sem vildu þóknast honum að fræðast um blóðið. Kynslóð eftir kynslóð ísraelskra pilta og stúlkna fékk slíka fræðslu. En yrði slíkri fræðslu haldið áfram eftir að Guð hefði viðurkennt söfnuð kristinna manna sem „Ísrael Guðs“? (Galatabréfið 6:16) Já, svo sannarlega. Viðhorf Guðs til blóðs breyttist ekki. (Malakí 3:6) Yfirlýst afstaða hans gagnvart því að misnota ekki blóð var komin fram áður en lagasáttmálinn tók gildi og gilti áfram eftir að endi var bundinn á lögmálið. — 1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 15:28, 29.

7. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að vera frædd af Guði um blóðið?

7 Virðing fyrir blóðinu er eitt af meginatriðum kristninnar. ‚Er það ekki einum of djúpt í árinni tekið?‘ spyr kannski einhver. En hvað er meginatriði kristninnar ef ekki fórn Jesú? Og Páll postuli skrifaði: „Í honum [Jesú], fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans.“ (Efesusbréfið 1:7, 8) The Inspired Letters, í þýðingu Franks C. Laubachs, orðar versin svona: „Blóð Krists var borgun fyrir okkur og nú tilheyrum við honum.“

8. Hvernig er ‚múgurinn mikli‘ háður blóði til að hljóta líf?

8 Allir sem vonast til að lifa af hina yfirvofandi ‚miklu þrengingu‘ og njóta blessunar Guðs á jörð sem verður paradís eru háðir úthelltu blóði Jesú. Opinberunarbókin 7:9-14 lýsir þeim og segir eins og horft sé um öxl: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Taktu eftir orðanna hljóðan hér. Þarna er ekki sagt að þeir sem er bjargað í gegnum þrenginguna hafi ‚tekið á móti Jesú‘ eða ‚sýnt trú á hann,‘ þótt það hafi auðvitað mikla þýðingu. Þarna er gengið skrefi lengra og sagt að þeir hafi „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði [Jesú].“ Það kemur til af því að blóð hans hefur endurlausnargildi.

9. Hvers vegna er það svona alvarlegt að hlýða Jehóva varðandi blóðið?

9 Jákvætt mat á þessu verðgildi hjálpar vottum Jehóva að vera staðráðnir í að misnota ekki blóð, jafnvel þótt læknir haldi því fram í fullri einlægni að blóðgjöf sé lífsnauðsynleg. Hann trúir kannski að gagnið, sem blóðgjöfin getur gert, sé langtum þyngra á metunum en hugsanleg heilsufarshætta sem getur fylgt blóðinu. En kristinn maður getur ekki horft fram hjá enn alvarlegri áhættu, þeirri að glata hylli Guðs með því að fallast á misnotkun blóðs. Páll talaði einu sinni um þá sem ‚syndga af ásettu ráði eftir að hafa öðlast þekkingu á sannleikanum.‘ Hvers vegna var sérhver synd af því tagi svona alvarleg? Vegna þess að slíkur maður „fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í.“ — Hebreabréfið 9:16-24; 10:26-29.

Hjálpum öðrum að fræðast

10. Hvað stendur að baki þeim ásetningi okkar að halda okkur frá blóði?

10 Við sem metum lausnargjald Jesú að verðleikum gætum þess að iðka ekki synd og hafna þar með verðgildi blóðs hans sem bjargar lífi manna. Eftir að hafa hugsað málið til enda gerum við okkur ljóst að þakklæti til Guðs fyrir lífið ætti að koma okkur til að hafna sérhverri tilslökun þar sem réttlát lög hans eiga í hlut, og við treystum að þau hafi verið gefin með hag okkar í huga — það sem okkur kemur best til langs tíma litið. (5. Mósebók 6:24; Orðskviðirnir 14:27; Prédikarinn 8:12) En hvað um börn okkar?

11-13. Hvaða ranga afstöðu hafa sumir kristnir foreldrar varðandi börn sín og blóðgjafir og hvers vegna?

11 Meðan börn okkar eru hjálparvana hvítvoðungar eða of ung til að skilja getur Jehóva Guð litið á þau sem hrein og velþóknanleg vegna hollustu okkar. (1. Korintubréf 7:14) Lítil börn í kristinni fjölskyldu skilja því kannski ekki lög Guðs um blóðið og geta því ekki ákveðið að hlýða þeim. En gerum við okkar besta til að fræða þau í þessu mikilvæga máli? Kristnir foreldrar ættu að íhuga það alvarlega, því að sumir foreldrar virðast hafa röng viðhorf til barna sinna og blóðsins. Sumir virðast halda að þeir fái litlu um það ráðið hvort ungum börnum þeirra sé gefið blóð eða ekki. Af hverju er þetta ranga viðhorf til komið?

12 Víða um lönd eru lög eða aðilar sem ætlað er að vernda börn gegn vanrækslu og illri meðferð. Börn votta Jehóva eru ekki vanrækt og ekki misþyrmt þegar foreldrar þeirra ákveða að ástkærum syni sínum eða dóttur skuli ekki gefið blóð, og fara jafnframt fram á að notuð sé einhver önnur meðferð sem nútímalækningar bjóða upp á. Jafnvel frá læknisfræðilegum sjónarhóli er þetta hvorki vanræksla né misþyrming þegar tekið er mið af þeim hættum sem eru blóðgjöfum samfara. Þar er einungis verið að beita sjálfsögðum rétti til að vega og meta hættuna samfara meðferð og ákveða síðan hvað gert skuli. * Eigi að síður hafa læknar í mörgum tilfellum reynt að fá vald til að þvinga fram blóðgjöf gegn vilja foreldranna.

13 Ef læknar eiga auðvelt með að fá yfirvöld til að heimila blóðgjöf finnst sumum foreldrum kannski að málið sé komið úr þeirra höndum og að þeir geti ekkert gert eða þurfi ekkert að gera. En það viðhorf er alrangt! — Orðskviðirnir 22:3.

14. Hvernig voru Davíð og Tímóteus fræddir í barnæsku?

14 Við höfum nefnt að Davíð hafi verið fræddur um veg Guðs allt frá bernsku. Þessi fræðsla hafði kennt honum að líta á lífið sem gjöf frá Guði og hann vissi að blóðið táknar lífið. (Samanber 2. Samúelsbók 23:14-17.) Tímóteus var fræddur um huga Guðs „frá blautu barnsbeini.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Heldur þú ekki að Davíð og Tímóteus hafi verið færir um að tjá sig skýrt um mál sem vörðuðu vilja Guðs, þótt þeir væru undir því sem nú er kallað lögaldur? Eins ætti að fræða kristin börn nú á dögum um veg Guðs löngu áður en þau ná lögaldri.

15, 16. (a) Hvaða afstaða er tekin sums staðar varðandi réttindi ófullveðja barna? (b) Hvað leiddi til þess að ófullveðja unglingi var gefið blóð?

15 Sums staðar eru svonefndum þroskuðum börnum veitt svipuð réttindi og fullorðnum. Miðað við aldur eða þroskaðan hugsunarhátt, eða hvorttveggja, er stundum litið á barn sem nægilega þroskað til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um læknismeðferð. Jafnvel þar sem lög kveða ekki á um slíkt leggja dómarar eða yfirvöld stundum mikið upp úr óskum barns sem getur komið eindreginni ákvörðun sinni varðandi blóðið skýrt á framfæri. Geti barnið hins vegar ekki skýrt trúarskoðanir sínar greinilega og af þroska, þá telur rétturinn kannski að hann þurfi að ákveða það sem hann telur skynsamlegast að gera, eins og ómálga barn ætti í hlut.

16 Ungur maður hafði numið Biblíuna af og til um árabil en var ekki skírður. Þótt aðeins vantaði sjö vikur á að hann næði þeim aldri að geta „sjálfur neitað læknismeðferð“ leitaði spítalinn, sem hafði hann til meðhöndlunar vegna krabbameins, dómsúrskurðar til að gefa honum blóð gegn vilja hans og foreldra hans. Samviskusamur dómari spurði hann út úr um afstöðu hans til blóðsins og lagði fyrir hann nokkrar spurningar um grundvallaratriði Biblíunnar, svo sem hvað fyrstu fimm bækur hennar hétu (á móðurmáli piltsins heita þær fimm mismunandi nöfnum). Ungi maðurinn kunni ekki að nefna þær og gat ekki heldur komið með sannfærandi rök fyrir því að hann skildi hvers vegna hann neitaði blóðgjöf. Því miður heimilaði dómarinn blóðgjöf og sagði í úrskurði sínum: „Neitun hans á blóðgjöf er ekki byggð á þroskuðum skilningi á eigin trúarskoðunum.“

17. Hvaða afstöðu tók fjórtán ára stúlka til blóðgjafa og með hvaða afleiðingum?

17 Málið getur tekið allt aðra stefnu fyrir barn sem er vel uppfrætt í vegum Guðs og gengur ákveðnum skrefum í sannleika hans. Kristin stúlka, yngri en pilturinn sem við nefndum, fékk sama, sjaldgæfa krabbameinið. Stúlkan og foreldrar hennar skildu hvað afmörkuð lyfjameðferð var og samþykktu að hún gengist undir hana hjá sérfræðingi við þekktan spítala. Samt sem áður var farið með málið fyrir dóm. Dómarinn skrifaði: „D.P. sagði að hún myndi berjast gegn blóðgjöf af öllu afli. Hún leit á blóðgjöf sem grófa árás og líkti henni við nauðgun. Hún bað réttinn þess að virða ákvörðun hennar og leyfa henni að liggja áfram á [spítalanum] án þess að rétturinn heimilaði blóðgjöf.“ Sú kristna fræðsla, sem hún hafði fengið, kom henni til hjálpar á þessum erfiða tíma. — Sjá rammann.

18. (a) Hvaða ákveðna afstöðu tók fársjúk stúlka gegn blóðgjöfum? (b) Hvað ákvað dómarinn varðandi meðferð hennar?

18 Tólf ára stúlka var í meðferð vegna hvítblæðis. Barnaverndarstofnun krafðist þess að dómstóll heimilaði að henni yrði gefið blóð gegn vilja sínum. Dómarinn komst að eftirfarandi niðurstöðu: „L. hefur sagt þessum rétti skýrt og blátt áfram að hún muni, ef reynt verði að gefa henni blóð, berjast gegn blóðgjöfinni af öllum lífs og sálarkröftum. Hún sagði, og ég trúi henni, að hún muni öskra og berjast af öllu afli gegn því, og að hún muni kippa nálinni úr handlegg sér og reyna að eyðileggja blóðið í pokanum yfir rúmi sínu. Ég neita að fyrirskipa nokkuð það sem mun þvinga þetta barn til að ganga í gegnum slíka þolraun. . . . Sú meðferð, sem spítalinn leggur til að þessi sjúklingur fái, tekur einungis mið af líkamlegri meðhöndlun. Horft er fram hjá tilfinningalegum þörfum hennar og trúarskoðunum.“

Foreldrar — fræðið börnin ykkar vel

19. Hvaða sérstakar skyldur hafa foreldrar gagnvart börnum sínum?

19 Reynslufrásagnir af þessu tagi innihalda mikilvægan boðskap til foreldra sem þrá að sjá alla fjölskyldu sína lifa samkvæmt lögum Guðs um blóðið. Ein ástæðan fyrir því að Abraham var kallaður vinur Guðs var sú að Guð vissi að ættfaðirinn myndi ‚bjóða börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu [Jehóva] með því að iðka rétt og réttlæti.‘ (1. Mósebók 18:19) Ætti ekki að gilda hið sama um kristna foreldra nú á tímum? Ef þú ert foreldri, ert þú þá að fræða ástkær börn þín um vegu Jehóva, þannig að þau muni ávallt ganga þá og vera ‚reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka hjá þeim fyrir voninni, sem í þeim er og gera það með hógværð og virðingu‘? — 1. Pétursbréf 3:15.

20. Hvað ættum við fyrst og fremst að vilja að börn okkar viti og trúi um blóðið? (Daníel 1:3-14)

20 Það er gott fyrir börn okkar að kunna skil á þeim hættum og sjúkdómum sem geta verið blóðgjöfum samfara. En það að fræða börn okkar í fullkomnum lögum Guðs um blóðið er ekki fyrst og fremst það að vekja hjá þeim ótta við blóð. Ef til dæmis dómari spyrði stúlku hvers vegna hún vildi ekki láta gefa sér blóð og hún svaraði efnislega að hún væri hrædd við blóðgjafir eða þær væru hættulegar, hver myndu áhrifin verða? Dómarinn gæti ályktað að hún væri einfaldlega óþroskuð og óþarflega skelfd, á sama hátt og hún gæti verið svo hrædd við botnlangaskurð að hún myndi gráta og berjast gegn þessari skurðaðgerð sem jafnvel foreldrar hennar teldu vera henni fyrir bestu. Enn fremur, eins og fram kom áður, er grundvallarástæðan fyrir því að kristnir menn eru blóðgjöfum mótfallnir ekki sú að blóð sé mengað heldur að það er dýrmætt í augum Guðs okkar og lífgjafa. Börn okkar ættu að vita það, svo og að hinar hugsanlegu hættur á heilsutjóni samfara blóðgjöfum veita trúarlegri afstöðu okkar aukinn þunga.

21. (a) Hvað ættu foreldrar að kanna í sambandi við börn sín og afstöðu Biblíunnar til blóðs? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum í sambandi við spurninguna um blóðið?

21 Ef þú átt börn ertu þá viss um að þau séu sammála viðhorfi Biblíunnar til blóðgjafa og geti skýrt það? Eru þau sannfærð um að þessi afstaða sé vilji Guðs? Eru þau sannfærð um að það sé svo alvarlegt að brjóta lög Guðs að það geti stofnað eilífu lífi kristins manns í hættu? Vitrir foreldrar rifja þessi atriði upp með börnum sínum, hvort heldur þau eru mjög ung eða nánast fullorðin. Foreldrarnir gætu haldið æfingar þar sem hvert barn þarf að svara spurningum sem dómari eða læknir gæti átt til að spyrja. Markmiðið er ekki það að láta börnin læra utan að ákveðin svör eða staðreyndir. Það eru miklu mikilvægara að þau viti hverju þau trúa og hvers vegna. Að sjálfsögðu gætu foreldrar eða aðrir lagt fram upplýsingar fyrir rétti um hætturnar samfara blóðgjöfum og möguleikana á annars konar meðferð. En það sem dómari eða læknir reynir líklega að komast að í samtölum við börn okkar er hvort þau hafi þroskaðan skilning á aðstöðu sinni og skoðunum og eins hvort þau hafi sterka, persónulega sannfæringu og sjálfstætt verðmætamat. — Samanber 2. Konungabók 5:1-4.

22. Hver getur árangurinn orðið ef við látum Jehóva fræða okkur um blóðið?

22 Við þurfum öll að skilja afstöðu Guðs til blóðsins og halda okkur einbeitt við hana. Opinberunarbókin 1:5 lýsir Kristi þannig að hann ‚elski oss og leysi oss frá syndum vorum með blóði sínu.‘ Aðeins með því að viðurkenna verðmæti blóðs Jesú getum við öðlast fulla og varanlega fyrirgefningu synda okkar. Rómverjabréfið 5:9 segir skýrt og greinilega: „Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.“ Það er því viturlegt af okkur og börnum okkar að láta Jehóva fræða okkur um þetta mál og vera staðráðin í að ganga á vegi hans að eilífu!

[Neðanmáls]

^ Sjá bæklinginn How Can Blood Save Your Life?, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 21-2, 28-31.

Helstu efnisatriði

◻ Hvaða viðhorf ættum við að hafa gagnvart því að hljóta fræðslu hjá Jehóva?

◻ Hvers vegna er svona þýðingarmikið að hlýða lögum Guðs um blóðið?

◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að börn og unglingar geti skýrt og ákveðið gert grein fyrir sannfæringu sinni um blóðið?

◻ Hvernig geta kristnir foreldrar hjálpað börnum sínum að vera vel uppfrædd um lög Jehóva varðandi blóðið?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 16]

RÉTTURINN VAR SNORTINN

Hver var niðurstaða réttarins í sambandi við D.P. sem getið er í 17. grein?

„Rétturinn hreifst mjög af greind, andlegu jafnvægi, reisn og styrk þessarar fjórtán og hálfs árs gömlu stúlku. Henni kann að hafa þótt það yfirþyrmandi uppgötvun að hún væri með banvænt krabbamein . . . Engu að síður var það þroskað ungmenni sem bar vitni fyrir réttinum. Hún virtist hafa gert sér skýra grein fyrir því erfiða verkefni sem hún stóð frammi fyrir. Hún hafði sótt alla ráðleggingafundi, fallist á meðferðaráætlun, mótað sér heilsteypt grundvallarviðhorf um það hvernig hún sem manneskja myndi takast á við þessa erfiðu raun, og hún mætti til réttarins með þessa áhrifamiklu beiðni: Virðið ákvörðun mína.

Auk þess að vera þroskuð eftir aldri hefur D.P. fært næg rök fyrir ákvörðun sinni til að rétturinn virði hana. Meðferð, sem fæli í sér blóðgjafir, yrði henni til tjóns andlega, sálfræðilega, siðferðilega og tilfinningalega. Rétturinn virðir val hennar á meðferð.“

[Mynd á blaðsíðu 15]

Dómari eða læknir getur viljað fá vitneskju um hverju kristið barn eða unglingur trúir í raun og veru og hvers vegna.