Lífi bjargað með blóði – hvernig?
Lífi bjargað með blóði – hvernig?
„Veldu þá lífið . . . með því að . . . hlýða raustu [Guðs] . . . því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn.“ — 5. MÓSEBÓK 30:19, 20.
1. Hvað er sérstætt við virðingu sannkristinna manna fyrir lífinu?
MARGIR segjast bera virðingu fyrir lífinu og benda á því til sönnunar að þeir séu mótfallnir dauðarefsingu, fóstureyðingum eða veiðum. Sannkristnir menn geta þó sýnt lífinu virðingu með sérstökum hætti. Sálmur 36:10 segir: „Hjá þér [Guði] er uppspretta lífsins.“ Með því að lífið er gjöf frá Guði tileinka kristnir menn sér viðhorf hans til blóðsins.
2, 3. Hvers vegna ber okkur að taka tillit til afstöðu Guðs gagnvart blóði? (Postulasagan 17:25, 28)
2 Líf okkar er háð blóði sem ber súrefni út um líkamann, losar hann við koldíoxíð, gerir honum fært að aðlagast hitabreytingum og hjálpar honum í baráttunni gegn sjúkdómum. Hann, sem gaf okkur lífið, sá okkur líka fyrir hinum undursamlega vef sem við köllum blóð og viðheldur lífi okkar. Það endurspeglar viðvarandi áhuga hans á varðveislu mannslífsins. — 1. Mósebók 45:5; 5. Mósebók 28:66; 30:15, 16.
3 Jafnt kristnir menn sem fólk almennt ætti að spyrja sig: ‚Getur blóð bjargað lífi mínu aðeins vegna náttúrlegrar starfsemi sinnar eða gæti blóð bjargað lífi mínu í djúptækari skilningi?‘ Þótt flestir geri sér grein fyrir tengslunum milli lífsins og eðlilegrar starfsemi blóðsins er í rauninni um miklu stærra mál að ræða. Siðfræði kristinna manna, múslíma og Gyðinga hefur í brennidepli lífgjafann sem hafði sitthvað að segja um líf og blóð. Já, skapari okkar hefur margt um blóðið að segja.
Ófrávíkjanleg afstaða Guðs varðandi blóðið
4. Hvað sagði Guð um blóð snemma í mannkynssögunni?
4 Blóð er nefnt yfir 400 sinnum í orði Guðs, Biblíunni. Eitt af fyrstu skiptunum er yfirlýsing Jehóva: „Allt sem lifir og hreyfist skal vera ykkur til fæðu. . . . En þið megið ekki eta kjöt sem er enn með lífsblóðinu í.“ Hann bætti við: „Ég mun vissulega krefjast reikningsskapar vegna lífsblóðs ykkar.“ (1. Mósebók 9:3-5, New International Version) Jehóva sagði þetta við Nóa, forföður mannkynsins. Þannig var öllu mannkyni gert viðvart um að skaparinn liti á blóð sem tákn lífsins. Hver sá sem segist virða Guð sem lífgjafa ætti því að viðurkenna að hann hafi ákveðna afstöðu til þess hvernig megi nota lífsblóðið.
5. Hver var meginástæðan fyrir því að Ísraelsmenn máttu ekki neyta blóðs?
5 Guð nefndi aftur blóð er hann gaf Ísrael lögmál sitt. Í 3. Mósebók 17:10, 11 stendur: „Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs — gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni. Því að líf líkamans er í blóðinu.“ Þetta lagaákvæði gat verið góðu heilsufari til framdráttar en meira var þó í húfi. Með því að líta á blóðið sem sérstakt áttu Ísraelsmenn að sýna að líf þeirra væri háð Guði. (5. Mósebók 30:19, 20) Já, meginástæðan fyrir því að þeir áttu ekki að neyta blóðs var ekki sú að blóð væri óheilnæmt heldur að það hafði sérstaka merkingu í augum Guðs.
6. Hvers vegna getum við verið viss um að Jesús fylgdi afstöðu Guðs til blóðs?
6 Hvar stendur kristnin gagnvart því að bjarga mannslífum með blóði? Jesús vissi hvað faðir hans sagði um notkun blóðs. Jesús „drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Það merkti að hann hélt lögmálið fullkomlega, meðal annars ákvæðið um blóðið. (1. Pétursbréf 2:22) Þannig gaf hann fylgjendum sínum fyrirmynd, meðal annars um virðingu fyrir lífi og blóði.
7, 8. Hvernig kom það skýrt fram að lög Guðs um blóð áttu við kristna menn?
7 Sagan sýnir okkur hvað gerðist síðar er þing hins kristna stjórnandi ráðs úrskurðaði hvort kristnir menn þyrftu að halda öll lög Ísraels eða ekki. Undir handleiðslu Guðs sagði ráðið að kristnir menn væru ekki undir þeirri kvöð að halda Móselögin. Þó væri „nauðsynlegt“ að ‚halda sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum [sem var óblóðgað] og saurlifnaði.‘ (Postulasagan 15:22-29) Þannig kom skýrt fram að það væri jafnmikilvægt siðferðilega að forðast blóð eins og að forðast skurðgoðadýrkun og gróft siðleysi. *
8 Frumkristnir menn héldu þetta bann Guðs. Breski fræðimaðurinn Joseph Benson segir þar um: „Þetta bann við neyslu blóðs, gefið Nóa og öllum afkomendum hans og endurtekið við Ísraelsmenn . . . hefur aldrei verið numið úr gildi heldur þvert á móti staðfest í Nýjatestamentinu í Postulasögunni 15. kafla, og þar með gert að ævarandi skyldu.“ En útilokar það sem Biblían segir um blóð að það sé notað við nútímalækningar, svo sem til blóðgjafa sem voru auðvitað ekki stundaðar á dögum Nóa og postulanna?
Blóð í eða sem læknislyf
9. Hvernig var blóð notað sem læknislyf til forna, ólíkt afstöðu kristinna manna?
9 Notkun blóðs við lækningar er reyndar ekki ný af náinni. Bókin Flesh and Blood eftir Reay Tannahill bendir á að í nálega 2000 ár hafi „blóð verið álitið framúrskarandi lyf gegn holdsveiki“ í Egyptalandi og víðar. Rómverjar álitu að lækna mætti flogaveiki með því að drekka mannablóð. Tertúllíanus skrifaði um þessa „læknisfræðilegu“ notkun blóðs: „Hugsum til þeirra sem taka ferskt blóð óguðlegra glæpamanna með græðgisþorsta á leikvanginum . . . burt með sér til að lækna flogaveiki sína.“ Þetta var í hrópandi mótsögn við það sem kristnir menn gerðu: „Við neytum ekki einu sinni blóðs dýranna við máltíðir okkar . . . Við réttarhöld yfir kristnum mönnum bjóðið þið þeim pylsur fylltar blóði. Þið eruð auðvitað sannfærðir um að það sé ólöglegt fyrir þá [að neyta þess].“ Íhugaðu hvað verið er að gefa í skyn þarna: Í stað þess að neyta blóðs, sem táknaði lífið, voru frumkristnir menn fúsir til að horfast í augu við dauðann. — Samanber 2. Samúelsbók 23:15-17.
10, 11. Hvers vegna er hægt að segja að staðall Guðs varðandi blóðið útiloki að þjónar hans geti þegið blóðgjöf?
10 Að sjálfsögðu var blóð ekki gefið í æð á þeim tíma því að tilraunir með blóðgjafir hófust ekki fyrr en nálgast tók 16. öld. En á 17. öld kom prófessor í líffærafræði við Kaupmannahafnarháskóla með þessi andmæli: ‚Þeir sem nota mannsblóð til innvortis lækninga virðast misnota það og syndga stórlega. Mannætur eru fordæmdar. Hvers vegna höfum við ekki viðbjóð á þeim sem lita kok sitt mannsblóði? Áþekkt er það að fá framandi blóð úr skorinni æð, annaðhvort um munninn eða í æð. Höfundum þessara aðgerða stendur ógn af lögum Guðs.‘
11 Já, jafnvel á liðnum öldum gerði fólk sér grein fyrir að lög Guðs bönnuðu bæði að blóð væri tekið í æð og um munninn. Það að gera sér grein fyrir því gæti hjálpað nútímamönnum að skilja afstöðu votta Jehóva sem samrýmist afstöðu Guðs. Enda þótt sannkristnir menn meti lífið mjög mikils og séu þakklátir fyrir að geta leitað læknishjálpar virða þeir lífið sem gjöf frá skaparanum, þannig að þeir reyna ekki að viðhalda því með því að neyta blóðs. — 1. Samúelsbók 25:29.
Bjargar blóð mannslífum?
12. Hvaða spurningar geta eðlilega vaknað viðvíkjandi blóðgjöfum?
12 Svo árum skiptir hafa sérfræðingar fullyrt að blóð bjargi mannslífum. Læknar geta sagt frá tilfellum þar sem einhver hafði misst mikið blóð en náði sér á skömmum tíma eftir að hafa fengið blóðgjöf. Fólki kann að vera spurn hve viturleg eða óviturleg afstaða kristinna manna sé læknisfræðilega. Hugsandi maður vill fá að vita um hugsanlega kosti og áhættu samfara sérhverri alvarlegri læknismeðferð, áður en hann gengst undir hana. Hvað um blóðgjafir? Sannleikurinn er sá að blóðgjafir hafa margar hættur í för með sér. Sumar geta verið banvænar.
13, 14. (a) Nefndu nokkrar áhættur samfara blóðgjöfum. (b) Hvernig undirstrika veikindi páfa hættuna samfara blóðgjöfum?
13 Fyrir skömmu sögðu læknarnir L. T. Goodnough og J. M. Shuck: „Læknar hafa lengi vitað að enda þótt blóðforðinn sé eins hættulaus og við best kunnum að gera hann hafa blóðgjafir alltaf haft hættu í för með sér. Algengasti fylgikvilli blóðgjafa heldur áfram að vera lifrarbólga af óþekktum uppruna; af öðrum hugsanlegum fylgikvillum má nefna sermigulu (hepatitis B), ósamgena ónæmingu, blóðgjafarmeinsvörun, ónæmisbælingu og járnofgnótt.“ ‚Varfærnislegt‘ mat á aðeins einni af þessum alvarlegu hættum hljóðaði svo: „Áætlað er að um það bil 40.000 manns [aðeins í Bandaríkjunum] fái lifrarbólgu af óþekktum uppruna ár hvert, og að upp undir 10% þeirra fái skorpulifur og/eða lifraræxli.“ — The American Journal of Surgery, júní 1990.
14 Jafnhliða því að hættan á að fá sjúkdóm vegna blóðgjafar hefur orðið þekktari hafa fleiri endurskoðað hug sinn til blóðgjafa. Til dæmis má nefna að eftir að skotið var á páfann árið 1981 var hann lagður inn á spítala og síðan útskrifaður. Síðar þurfti hann að leggjast inn á spítala í tvo mánuði og ástand hans var svo alvarlegt að útlit var fyrir að hann þyrfti jafnvel að draga sig í hlé sem öryrki. Hvers vegna? Hann fékk cytomegaloveiru með blóði sem honum var gefið. Einhver gæti hugsað sem svo: ‚Ef blóð, sem gefið er páfanum, er varhugavert, hvað þá um blóð sem gefið er almenningi?‘
15, 16. Hvers vegna eru blóðgjafir ekki öruggar jafnvel þótt blóðið hafi verið skimað?
15 ‚En er ekki hægt að skima blóð og vinsa úr það sem ber með sér smit?‘ spyr kannski einhver. Nú, við skulum líta á sem dæmi skimun fyrir sermigulu. Tímaritið Patient Care (28. febrúar 1990) benti á: „Gulutíðni eftir blóðgjöf lækkaði eftir að farið var að skima blóð fyrir henni, en 5-10% gulutilfella eftir blóðgjöf orsakast enn af sermiguluveiru.“
16 Að slíkar skimanir séu ótryggar má einnig sjá í sambandi við annan sjúkdóm sem berst með blóði — eyðni. Eyðnifaraldurinn hefur vakið fólk heiftarlega til meðvitundar um smithættu samfara blóðgjöfum. Að vísu er hægt að skima blóð núna og leita merkja um veiruna en blóð er þó ekki skimað alls staðar og svo virðist sem fólk geti borið eyðniveiruna í blóði sínu svo árum skiptir, án þess að hægt sé að finna hana með núverandi aðferðum. Sjúklingar geta því fengið eyðni — og hafa fengið eyðni — með blóði sem var skimað og hafði staðist prófið!
17. Hvernig geta blóðgjafir valdið tjóni þótt það komi ekki strax í ljós?
17 Læknarnir Goodnough og Shuck minntust líka á „ónæmisbælingu.“ Fjölmörg dæmi eru um að jafnvel blóð, sem hefur staðist krossprófun með blóði sjúklings, geti skaðað ónæmiskerfi hans og aukið líkurnar á krabbameini og dauða. Þannig kom fram í niðurstöðum rannsóknar í Kanada að „ónæmisvarnir sjúklinga, sem gefið var blóð samhliða brottnámi æxlis í höfði eða hálsi, veikluðust verulega eftir á.“ (The Medical Post 10. júlí 1990) Læknar við University of Southern California segja: „Endurtekningartíðni allra krabbameina í barkakýli var 14% hjá þeim sem ekki fengu blóð og 65% hjá þeim sem fengu blóð. Endurtekningartíðni krabbameins í munnholi, koki, nefi eða afholum var 31% án blóðgjafar og 71% með blóðgjöfum.“ (Annals of Otology, Rhinology & Laryngology, mars 1989) Ónæmisbæling virðist einnig vera ástæðan fyrir því að þeim sem gefið er blóð við skurðaðgerð er langtum hættara við sýkingum en öðrum. — Sjá rammann á bls. 10.
Er um aðra kosti að velja?
18. (a) Hvað eru læknar farnir að gera vegna hættunnar samfara blóðgjöfum? (b) Hvaða upplýsingar um aðra valkosti gætir þú látið lækninum þínum í té?
18 Sumir segja kannski: ‚Blóðgjafir eru að vísu hættulegar en er um nokkuð annað að velja?‘ Við viljum að sjálfsögðu fá góða læknishjálp í háum gæðaflokki, þannig að eðlilegt er að spyrja hvort til séu einhverjar réttmætar og áhrifaríkar aðferðir til að takast á við alvarleg heilsuvandamál, án þess að nota blóð. Já, sem betur fer. The New England Journal of Medicine (7. júní 1990) sagði: „Með því að læknar gera sér enn betri grein fyrir hættunni á að [eyðni] og aðrir smitsjúkdómar berist með blóði eru þeir farnir að leggja nýtt mat á áhættu og ávinning af blóðgjöfum og farnir að taka upp aðrar aðferðir í vaxandi mæli, meðal annars að sneiða með öllu hjá blóðgjöfum.“ *
19. Hvers vegna mátt þú treysta að þú getir neitað að þiggja blóðgjöf en samt sem áður fengið góða læknismeðferð?
19 Vottar Jehóva hafa lengi neitað blóðgjöfum, ekki fyrst og fremst vegna hættunar á heilsutjóni heldur vegna hlýðni við lög Guðs um blóð. (Postulasagan 15:28, 29) Færir læknar hafa þó með góðum árangri meðhöndlað votta án þess að nota blóð, með þeirri áhættu sem því fylgir. Sem eitt af mörgum dæmum, er fjallað hefur verið um í læknaritum, má nefna grein í Archives of Surgery (nóvember 1990) þar sem rætt var um hjartaígræðslu hjá sjúklingum, sem voru vottar, og gátu samvisku sinnar vegna gengist undir slíka aðgerð, án þess að blóð væri notað. Í greininni sagði: „Yfir 25 ára reynsla af hjartaskurðaðgerðum á vottum Jehóva hefur nú náð hámarki í velheppnuðum hjartaígræðslum án þess að blóðafurðir væru notaðar. . . . Enginn sjúklingur hefur látist meðan á aðgerð stóð eða skömmu á eftir og reglulegt eftirlit fyrst eftir aðgerð hefur sýnt að þessum sjúklingum hefur ekki verið hættara en öðrum við því að hafna ígræddu líffæri.“
Verðmætasta blóðið
20, 21. Hvers vegna ættu kristnir menn að gæta þess að leiðast ekki út á villigötur í afstöðunni til blóðsins?
20 Hvert og eitt okkar þarf þó að spyrja sig sjálfsrýninnar spurningar: ‚Ef ég hef ákveðið að þiggja ekki blóðgjafir, hver er þá í fullri hreinskilni hin eiginlega aðalástæða fyrir því?‘
21 Við höfum nefnt að til eru margar áhrifaríkar aðferðir aðrar en blóðgjafir sem gera fólk ekki berskjaldað fyrir þeim mörgu hættum sem fylgja blóðgjöfum. Hættur svo sem lifrarbólga eða eyðni hafa jafnvel komið mörgum til að afþakka blóðgjafir af öðrum ástæðum en trúarlegum. Sumir láta óspart í sér heyra um þetta mál, næstum eins og þeir væru í kröfugöngu með kröfuspjald sem á stæði: „Blóðgjöf er slæm læknismeðferð.“ Kristinn maður gæti hugsanlega leiðst út í þessa kröfugöngu. En þessi kröfuganga endar í blindgötu. Hvernig þá?
22. Hvaða raunsætt viðhorf til lífs og dauða verðum við að hafa? (Prédikarinn 7:2)
22 Sannkristnir menn gera sér ljóst að þrátt fyrir bestu læknismeðferð á bestu spítulum deyja allir fyrr eða síðar. Fólk deyr, hvort sem það fær blóðgjafir eða ekki. Þetta er ekkert forlagatal heldur raunsæi. Dauðinn er ein af staðreyndum lífsins núna. Fólk sem virðir ekki lög Guðs um blóðið verður stundum fyrir bráðu eða síðbúnu tjóni af völdum blóðsins. Sumir deyja jafnvel af völdum blóðgjafa. Samt sem áður hljótum við öll að gera okkur grein fyrir því að þeir sem lifa af blóðgjafirnar hafa ekki áunnið sér eilíft líf, þannig að blóð hefur ekki bjargað lífi þeirra um alla framtíð. Flestir sem hafna blóðgjöfum, annaðhvort af trúarlegum ástæðum og/eða læknisfræðilegum en þiggja aðra læknismeðferð í staðinn, spjara sig aftur á móti mjög vel læknisfræðilega. Þeir geta þannig framlengt líf sitt um mörg ár — en þó ekki endalaust.
23. Hvernig eru lög Guðs um blóðið tengd því að við erum syndug og þörfnumst endurlausnar?
23 Sú staðreynd, að allir menn eru ófullkomnir og deyja smám saman, leiðir okkur að kjarna þess sem Biblían segir um blóð. Guð sagði öllu mannkyni að neyta ekki blóðs. Hvers vegna? Vegna þess að það táknar lífið. (1. Mósebók 9:3-6) Í lagasáttmálanum voru lagaákvæði sem lutu að því að allir menn eru syndugir. Guð sagði Ísraelsmönnum að með dýrafórnum gætu þeir sýnt að þeir þyrftu að fá friðþægt fyrir syndir sínar. (3. Mósebók 4:4-7, 13-18, 22-30) Þótt Guð ætlist ekki til þess af okkur núna hefur það þýðingu núna. Guð ætlaði sér að sjá fyrir fórn sem gæti friðþægt fullkomlega fyrir syndir allra sem trúðu — lausnargjaldinu. (Matteus 20:28) Þess vegna þurfum við að hafa viðhorf Guðs til blóðs.
24. (a) Hvers vegna væru það mistök að einblína á hætturnar sem eru blóðgjöfum samfara? (b) Hver ætti að vera forsendan fyrir afstöðu okkar til blóðsins?
24 Það væru mistök af okkar hálfu að beina athygli okkar fyrst og fremst að heilsufarshættunum samfara blóðgjöfum því að þær voru ekki kjarni málsins hjá Guði. Að vísu kann það að hafa stuðlað að góðu heilsufari meðal Ísraelsmanna að neyta ekki blóðs, alveg eins og það kann að hafa verið þeim til góðs að neyta ekki svínakjöts eða kjöts af hræætum. (5. Mósebók 12:15, 16; 14:7, 8, 11, 12) Munum þó að Guð lagði ekki bann við neyslu kjöts af slíkum dýrum er hann leyfði Nóa að neyta kjöts. Hins vegar sagði hann að menn mættu ekki eta blóð. Athygli Guðs beindist ekki fyrst og fremst að hugsanlegum heilsufarshættum. Það var ekki kjarninn í úrskurði hans um blóðið. Tilbiðjendur hans áttu að neita að viðhalda lífi sínu með blóði, ekki fyrst og fremst vegna þess að það væri óheilnæmt heldur vegna þess að það var vanheilagt. Þeir neituðu að þiggja blóð, ekki vegna þess að það væri mengað heldur vegna þess að það var dýrmætt. Aðeins með fórnarblóði gátu þeir öðlast fyrirgefningu.
25. Hvernig getur blóð bjargað lífinu varanlega?
25 Hið sama gildir um okkur. Í Efesusbréfinu 1:7 sagði Páll postuli: „Í honum [Kristi], fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans.“ Ef Guð fyrirgefur syndir einhvers og lítur á hann sem réttlátan, þá á sá maður fyrir sér eilíft líf. Fórnarblóð Jesú getur því bjargað lífi — varanlega, eilíflega.
[Neðanmáls]
^ Úrskurðinum lauk með þessum orðum, samkvæmt orðalagi Nýheimsþýðingarinnar: „Ef þið gætið þess vandlega að halda ykkur frá þessu munuð þið dafna. Lifið heilir!“ (Postulasagan 15:29) Orðin „lifið heilir“ voru ekki fyrirheit um það að menn myndu njóta betri heilsu ef þeir héldu sér frá blóði eða saurlifnaði. Hér var einungis um að ræða kveðjuorð í bréfinu, líkt og stendur í íslensku Biblíunni, „Verið sælir.“
^ Fjallað er um margar áhrifaríkar aðferðir aðrar en blóðgjafir í bæklingnum How Can Blood Save Your Life?, útgefinn árið 1990 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Getur þú svarað?
◻ Hver er meginástæðan fyrir því að vottar Jehóva hafna blóðgjöfum?
◻ Hvað staðfestir að afstaða Biblíunnar til blóðs sé ekki óskynsamleg í læknisfræðilegu tilliti?
◻ Hvernig er lausnargjaldið tengt lögum Biblíunnar um blóð?
◻ Á hvaða einn veg getur blóð bjargað lífi varanlega?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 10]
BLÓÐGJAFIR OG SÝKINGAR
Eftir yfirgripsmikla umfjöllun um það hvort blóðgjafir geti gert sjúkling næman fyrir sýkingum komst dr. Neil Blumberg að eftirfarandi niðurstöðu: „Af tólf klínískum rannsóknum [á málinu] var niðurstaðan sú í tíu tilvikum að blóðgjafir væru höfuðorsök aukinnar hættu á bakteríusýkingu . . . Auk þess getur blóðgjöf einhvern tíma löngu fyrir aðgerð haft áhrif á mótstöðuafl sjúklings gegn sýkingu, ef áhrif blóðgjafar á ónæmiskerfið eru jafnlanglíf og sumar rannsóknir benda til. . . . Ef hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um þetta og staðfesta þær lítur út fyrir að sýkingar eftir aðgerð séu algengasti, alvarlegi fylgikvilli eðlislíkra blóðgjafa.“ — Transfusion Medicine Reviews, október 1990.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Smásjármynd af rauðkornum. „Í hverjum míkrólítra (0,000001 lítra) blóðs eru á bilinu 4 til 6 milljónir rauðkorna.“ — „The World Book Encyclopedia.“
[Rétthafi]
Kunkel-CNRI/PHOTOTAKE NYC