Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Slys — forlög eða tilviljun?

Slys — forlög eða tilviljun?

Slys — forlög eða tilviljun?

ÞEGAR Cristina, aðlaðandi, ung fyrirsæta, gekk yfir Nove Julho-stræti í São Paulo í Brasilíu tók hún ekki eftir strætisvagninum sem nálgaðist. Vagnstjórinn gerði örvæntingarfulla tilraun til að stöðva vagninn en það var um seinan. Cristina varð undir vagninum og lést.

Þetta hörmulega slys var forsíðufrétt brasilíska dagblaðsins O Estado de S. Paulo. (29. júlí 1990) Þó var þetta aðeins eitt af 50.000 banaslysum sem verða í umferðinni í Brasilíu á ári hverju. Þúsundir manna til viðbótar slasast alvarlega í umferðinni en aðrir fá varla skrámu þótt þeir lendi í slysi. Hvers vegna lifði þessi unga stúlka ekki af? Höfðu örlögin ætlað henni að deyja þennan dag?

Margir myndu halda því fram að svo hefði verið. Sú trú er nefnilega býsna algeng að stórviðburðir, svo sem dánardagur manna, séu fyrirfram ákveðnir. Þessi trú hefur orðið kveikja orðtaka svo sem: „Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið,“ „enginn flýr örlög sín,“ „enginn má sköpum renna“ eða „hans tími var kominn.“ Er einhver sannleikur í þessum algengu orðtökum? Erum við einfaldlega peð á skákborði örlaganna?

Forlagatrú, sú hugmynd að allir atburðir séu fyrirfram ákveðnir, var ríkjandi meðal Grikkja og Rómverja til forna. Enn þann dag í dag gætir þessarar hugmyndar mjög í ýmsum trúarbrögðum. Íslam aðhyllist til dæmis orð Kóransins: „Engin sál fær nokkru sinni dáið nema með leyfi Allah og þegar hennar tími er kominn.“ Forlagatrú er einnig algeng í kristna heiminum og sækir styrk sinn mjög í kenningu Jóhannesar Kalvíns um náðarútvalningu. Það er því algengt að prestar segi sorgmæddum ættingum að það hafi verið „Guðs vilji“ að ákveðið slys átti sér stað.

Sú skoðun að slys ráðist af forlögum gengur hins vegar í berhögg við heilbrigða skynsemi, almenna reynslu og rökvísi. Svo eitt sé nefnt geta umferðarslys varla átt sér stað vegna íhlutunar Guðs vegna þess að rækileg rannsókn leiðir yfirleitt í ljós fullkomlega eðlilega orsök. Enn fremur sýna talnaskýrslur að skynsamlegar öryggisráðstafanir — svo sem notkun bílbelta — draga stórlega úr líkunum á dauðaslysi. En gætu öryggisráðstafanir af einhverju tagi í alvöru raskað fyrirfram ákveðnum vilja Guðs?

Forlagatrú hefur eigi að síður skaðleg áhrif á fólk. Hvetur hún ekki til fífldirfsku, svo sem þess að virða hraðatakmörk og umferðarmerki að vettugi eða að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna? Enn alvarlegri hlutur er sá að forlagatrú kemur sumum til að skella skuldinni á Guð þegar slys eiga sér stað sem snerta þá. Þeir eru reiðir, hjálparvana og sannfærðir um að Guði standi á sama, og missa jafnvel trúa. Ljóðskáldið Ralph Waldo Emerson komst vel að orði er hann sagði: „Beiskasta sorg lífsins er trúin á grimmileg forlög.“

En hvað segir Biblían um slys og óhöpp? Kennir hún í raun að það séu forlögin sem valdi þeim? Og hvað segir hún um möguleika okkar á hjálpræði? Höfum við yfirleitt eitthvert valfrelsi í þessu efni?

[Innskot á blaðsíðu 4]

„Beiskasta sorg lífsins er trúin á grimmileg forlög.“ — Ralph Waldo Emerson