Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu nánu sambandi við Jehóva

Haltu nánu sambandi við Jehóva

Haltu nánu sambandi við Jehóva

„Verið . . . staðfastir í bæninni.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:12.

1. Hver er vilji Jehóva varðandi bænina og til hvers hvatti Páll postuli í sambandi við bænir?

 JEHÓVA er „Guð vonarinnar“ gagnvart öllum trúföstum þjónum sínum. Hann „heyrir bænir“ og hlýðir á áköll þeirra og bænir um hjálp til að sjá rætast hina gleðiríku von sem hann veitir þeim. (Rómverjabréfið 15:13; Sálmur 65:3) Og í gegnum orð sitt, Biblíuna, hvetur hann alla þjóna sína til að koma til sín hvenær sem þeir vilja. Hann er alltaf til taks, reiðubúinn að hlusta á leyndustu hugðarefni þeirra. Meira að segja hvetur hann þá til að vera „staðfastir í bæninni“ og ‚biðja án afláts.‘ (Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Það er vilji Jehóva að allir kristnir menn ákalli hann stöðugt í bæn, úthelli hjörtum sínum fyrir honum og geri það í nafni hins ástkæra sonar hans, Jesú Krists. — Jóhannes 14:6, 13, 14.

2, 3. (a) Hvers vegna hvetur Guð okkur til að vera „staðfastir í bæninni“? (b) Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að Guð vilji að við biðjum?

2 Hvers vegna hvetur Guð okkur til þessa? Vegna þess að álag lífsins og ábyrgð getur íþyngt okkur svo mjög að við gætum gleymt að biðja. Eins gætu vandamál virst yfirþyrmandi og komið okkur til að hætta að gleðjast í voninni og hætta að biðja. Af þessum sökum þurfum við áminningar sem hvetja okkur til að biðja og draga okkur mjög nálægt hjálparhellu okkar og huggara, Jehóva Guði.

3 Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:8) Já, Guð er hvorki of hár né of fjarlægur til að heyra bænir okkar til hans, þótt við séum ófullkomin. (Postulasagan 17:27) Enn fremur er hann ekki áhugalaus og skeytingarlaus. Sálmaritarinn segir: „Augu [Jehóva] hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ — Sálmur 34:16; 1. Pétursbréf 3:12.

4. Hvernig mætti lýsa athygli Jehóva gagnvart bænum með dæmi?

4 Jehóva hvetur okkur til að biðja. Við gætum líkt þessu við hóp manna þar sem allmargir eru að tala saman. Þú stendur þarna og hlustar á hina tala. Þú ert áheyrandi. En þá snýr einhver sér að þér, nefnir nafn þitt og beinir orðum sínum til þín. Það grípur athygli þína á sérstakan hátt. Eins fylgist Guð alltaf með þjónum sínum, hvar sem þeir kunna að vera. (2. Kroníkubók 16:9; Orðskviðirnir 15:3) Hann heyrir því orð okkar, fylgist gaumgæfilega með og er reiðubúinn að vernda. Þegar við áköllum nafn Guðs í bæn grípum við hins vegar athygli hans og hann einbeitir sér sérstaklega að okkur. Í mætti sínum getur Jehóva jafnvel skynjað og skilið orðalausar bænir sem bærast í hjarta eða huga manns. Guð fullvissar okkur um að hann muni nálægja sig öllum sem ákalla nafn hans í einlægni og leitast við að halda sér nærri honum. — Sálmur 145:18.

Bænum svarað í samræmi við tilgang Guðs

5. (a) Hvað gefur heilræðið um að vera „staðfastir í bæninni“ til kynna varðandi bænir okkar? (b) Hvernig svarar Guð bænum?

5 Áminningin um að vera staðföst í bæninni gefur til kynna að Jehóva láti okkur stundum halda áfram að biðja um eitthvert mál um tíma áður en viðbrögð hans koma í ljós. Við gætum jafnvel haft tilhneigingu til að þreytast á að biðja Guð um greiða eða elskuríka góðvild sem okkur finnst við þarfnast sárlega en við erum dregin á lengi. Þess vegna hvetur Jehóva Guð okkur til að láta enga slíka tilhneigingu ná tökum á okkur heldur halda áfram að biðja. Við ættum að halda áfram að biðja til hans varðandi hugðarefni okkar, í trausti þess að hann taki tillit til bæna okkar og fullnægi raunverulegum þörfum okkar, ekki aðeins því sem við höfum ef til vill hugsað okkur. Vafalaust svarar Jehóva Guð bænum okkar í samhengi við tilgang sinn. Til dæmis gætu aðrir orðið fyrir áhrifum af því að hann yrði við bæn okkar. Við gætum líkt þessu við föður sem á tvo syni. Annar þeirra biður föður sinn að gefa sér reiðhjól. Faðirinn veit að kaupi hann reiðhjól handa þeim syni vill hinn sonurinn fá reiðhjól líka. En úr því að sá er of ungur til að fá reiðhjól ákveður faðirinn kannski að kaupa ekkert á þeim tíma. Á svipaðan hátt ákveður faðir okkar á himnum, með hliðsjón af tilgangi sínum og tímaáætlun, hvað sé í raun best fyrir okkur og aðra. — Sálmur 84:9, 12; samanber Habakkuk 2:3.

6. Hvaða líkingu sagði Jesús í sambandi við bænina og hvað sýnum við með þolgæði í bæninni?

6 Dæmisaga, sem Jesús sagði til að minna lærisveinana á nauðsyn þess að ‚biðja stöðugt og eigi þreytast,‘ er athyglisverð. Ekkja, sem ekki náði rétti sínum, nauðaði í mennskum dómara uns hann lét hana loks ná rétti sínum. Jesús bætti við: „Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu?“ (Lúkas 18:1-7) Þrautseigja í bæninni sýnir trú okkar, traust á Jehóva og fúsleika til að halda okkur nærri honum og biðja til hans og láta síðan málalokin vera í hans hendi. — Hebreabréfið 11:6.

Menn sem héldu sér nærri Jehóva

7. Hvernig getum við líkt eftir trú Abels í því að halda okkur fast við Jehóva?

7 Biblían geymir fjölmargar frásögur af bænum sem þjónar Guðs báru fram. Þær voru ritaðar „oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Von okkar styrkist við það að íhuga ýmis dæmi um menn sem héldu sér nærri Jehóva. Abel færði Guði velþóknanlega fórn og vafalaust bað hann Jehóva þess innilega að hann myndi þiggja fórn hans, þótt frásagan geti þess ekki. Hebreabréfið 11:4 segir: „Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur.“ Abel vissi af fyrirheiti Guðs í 1. Mósebók 3:15 en í samanburði við það sem við vitum núna vissi hann ósköp lítið. Samt sem áður fór Abel eftir þeirri þekkingu sem hann hafði. Eins er það með suma af þeim sem nýlega hafa sýnt sannleika Guðs áhuga; þeir hafa enn ekki mikla þekkingu en þeir biðja og notfæra sér til hins ítrasta þá þekkingu sem þeir hafa eins og Abel gerði. Já, þeir sýna trú.

8. Hvers vegna getum við verið viss um að Abraham hafi haldið sér fast við Jehóva og hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?

8 Annar trúfastur þjónn Guðs var Abraham, „faðir allra þeirra, sem trúa.“ (Rómverjabréfið 4:11) Við þörfnumst sterkrar trúar núna meira en nokkru sinni fyrr og við þurfum að biðja í trú eins og Abraham gerði. Fyrsta Mósebók 12:8 segir að hann hafi ‚reist Jehóva altari og ákallað nafn Jehóva.‘ Abraham þekkti nafn Guðs og notaði það í bæn. Aftur og aftur sýndi hann einlæga þrautseigju í bæninni og ákallaði „nafn [Jehóva], Hins Eilífa Guðs.“ (1. Mósebók 13:4; 21:33) Abraham ákallaði Guð í þeirri trú sem hann varð kunnur fyrir. (Hebreabréfið 11:17-19) Bænin hjálpaði Abraham að gleðjast mjög yfir voninni um Guðsríki. Líkjum við eftir fordæmi Abrahams í því að sýna þrautseigju í bæninni?

9. (a) Hvers vegna eru bænir Davíðs mjög gagnlegar fyrir nútímaþjóna Guðs? (b) Hvaða afleiðingu gæti það haft ef við bæðum líkt og Davíð gerði til að halda sér fast við Jehóva?

9 Davíð var gott dæmi um bænrækinn mann og sálmar hans sýna vel hvernig bænir eiga að vera. Til dæmis geta þjónar Guðs með réttu beðið hann um hjálpræði eða björgun (3:8, 9; 60:7), handleiðslu (25:4, 5), vernd (17:8), syndafyrirgefingu (25:7, 11, 18) og hreint hjarta (51:12). Er Davíð fannst að sér kreppa bað hann: „Gleð þú sál þjóns þíns.“ (86:4) Við getum á sama hátt beðið Guð að gefa okkur hjartans gleði því að við vitum að Jehóva vill að við gleðjumst í voninni. Davíð hélt sér fast við Jehóva og bað: „Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.“ (63:9) Munum við halda okkur nærri Jehóva eins og Davíð gerði? Ef svo er mun hann líka styðja okkur.

10. Hvaða rangar hugsanir sóttu einu sinni á sálmaritarann Asaf en hvað gerði hann sér síðar ljóst?

10 Ef við eigum að halda okkur fast við Jehóva þurfum við að gæta þess að öfunda ekki hina óguðlegu af áhyggjulausu lífi sínu og efnishyggju. Sálmaritaranum Asaf fannst á ákveðnu tímabili ævi sinnar að það hefði ekkert gildi að þjóna Jehóva því að hinir óguðlegu ‚lifðu ætíð áhyggjulausir.‘ Hann áttaði sig hins vegar á því að hugsun hans væri á villubraut og að hinir óguðlegu stæðu á ‚sleipri jörð.‘ Hann gerði sér ljóst að ekkert væri betra en að halda sér fast við Jehóva og tjáði Guði tilfinningar sínar þannig. „Ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína. Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, . . . en mín gæði eru það að vera nálægt Guði. Ég hefi gjört [Jehóva] að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.“ (Sálmur 73:12, 13, 18, 23, 27, 28) Í stað þess að öfunda hina óguðlegu, menn sem hafa enga von, af áhyggjulausu líferni sínu, skulum vil líkja eftir Asaf og halda okkur fast við Jehóva.

11. Hvers vegna er Daníel gott fordæmi um að halda sér nærri Jehóva og hvernig getum við líkt eftir honum?

11 Daníel var ákveðinn í því að vera staðfastur í bæninni, jafnvel þótt hann ætti á hættu að vera kastað í ljónagryfju fyrir að hlýða ekki opinberum hömlum á bænagerð. En Jehóva „sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna“ og bjargaði Daníel. (Daníel 6:7-10, 23, 27) Daníel hlaut ríkulega blessun fyrir það að vera þrautseigur í bæninni. Erum við líka staðföst í bæninni, einkum þegar prédikun okkar um Guðsríki mætir andstöðu?

Jesús, fyrirmynd okkar

12. (a) Hvaða fordæmi gaf Jesús við upphaf þjónustu sinnar í sambandi við bænina og hvernig getur það verið kristnum mönnum til góðs? (b) Hvað leiðir fyrirmyndarbæn Jesú í ljós í sambandi við bæn?

12 Allt frá upphafi jarðneskrar þjónustu sinnar sjáum við Jesú sem bænrækinn mann. Bænarhugur hans er hann var skírður er gott fordæmi þeim sem láta skírast nú á tímum. (Lúkas 3:21, 22) Hægt væri að biðja um hjálp Guðs til að framfylgja því sem vatsskírnin táknar. Jesús hjálpaði líka öðrum að nálgast Jehóva í bæn. Einhverju sinni er Jesús var að biðjast fyrir á ákveðnum stað sagði einn af lærisveinum hans við hann á eftir: „Herra, kenn þú oss að biðja.“ Jesús kom þá með fyrirmyndarbænina, sem yfirleitt er kölluð „Faðirvorið,“ þar sem efnisröðunin sýnir að nafn Guðs og tilgangur ætti að ganga fyrir öðru. (Lúkal 11:1-4) Við þurfum því í bænum okkar að hafa hlutina í réttu samhengi og jafnvægi og vanrækja ekki ‚þá hluti sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:9, 10) Að sjálfsögðu kemur stundum upp sérstök þörf eða ákveðið vandamál þarfnast athygli. Kristnir menn geta, líkt og Jesús, leitað styrks hjá Guði í bæn til að inna af hendi ákveðið verkefni eða horfast í augu við ákveðnar þrengingar eða hættur. (Matteus 26:36-44) Í einkabænum okkar getum við í raun komin inn á nálega öll svið lífsins.

13. Hvernig sýndi Jesús mikilvægi þess að biðja fyrir öðrum?

13 Með góðu fordæmi sínu sýndi Jesús hve mikilvægt væri að biðja í þágu annarra. Hann vissi að lærisveinar hans myndu verða hataðir og ofsóttir eins og hann var. (Jóhannes 15:18-20; 1. Pétursbréf 5:9) Þess vegna bað hann Guð um að ‚varðveita þá frá hinu illa.‘ (Jóhannes 17:9, 11, 15, 20) Og Jesús vissi af þeirri sérstöku prófraun sem Pétur átti í vændum og sagði honum: „Ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki.“ (Lúkas 22:32) Það er mjög gagnlegt ef við höldum líka áfram að biðja fyrir bræðrum okkar, að hugsa um aðra en ekki aðeins eigin vandamál og hugðarefni. — Filippíbréfið 2:4; Kólossubréfið 1:9, 10.

14. Hvernig vitum við að Jesús átti mjög náin tengsl við Jehóva út í gegnum jarðneska þjónustu sína, og hvernig getum við líkt eftir honum?

14 Út í gegnum þjónustu sína var Jesús staðfastur í bæninni og hélt sér fast við Jehóva. (Hebreabréfið 7:5-10) Í Postulasögunni 2:25-28 vitnar Pétur postuli í Sálm 16:8 og heimfærir orðin á Drottin Jesú Krist: „Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég [Jehóva] fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki.“ Það getum við líka gert. Við getum beðið Guð að vera okkur nærri og við getum sýnt traust okkar til Jehóva með því að hafa hann stöðugt fyrir hugskotssjónum okkar. (Samanber Sálm 110:5; Jesaja 41:10, 13.) Þá munum við umflýja alls konar erfiðleika því að Jehóva mun styðja okkur og við munum aldrei bifast.

15. (a) Í sambandi við hvað ættum við alltaf að vera staðföst í bæninni? (b) Hvaða aðvörun er gefin í sambandi við þakklæti?

15 Megi okkur aldrei vera áfátt í því að þakka Jehóva fyrir alla gæsku hans við okkur, já, fyrir hina ‚yfirgnæfanlegu náð Guðs‘ sem felur meðal annars í sér þá gjöf að syni hans skyldi fórnfært fyrir syndir okkar. (2. Korintubréf 9:14, 15; Markús 10:45; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 8:32; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Í nafni Jesú skulum við ‚jafnan þakka Guði, föðurnum.‘ (Efesusbréfið 5:19, 20; Kólossubréfið 4:2; 1. Þessaloníkubréf 5:18) Við verðum að gæta þess að verða ekki svo upptekin af því sem við ekki höfum eða eigin vandamálum að þakklæti okkar vegna þess sem við höfum dvíni.

Vörpum byrðum okkar á Jehóva

16. Hvað ættum við að gera þegar einhver byrði hvílir á okkur?

16 Þrautseigja í bæninni sýnir einnig hve djúpt guðrækni okkar ristir. Þegar við áköllum Guð hefur það góð áhrif á okkur, jafnvel áður en svarið kemur frá honum. Ef einhver byrði hvílir á huga okkar getum við haldið okkur fast við Jehóva með því að fylgja þessu ráði: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Með því að varpa öllum byrðum okkar — kvíða, áhyggjum, vonbrigðum, ótta og svo framvegis — á Guð í fullri trú á hann, þá fáum við ró í hjarta okkar, ‚frið Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ — Filippíbréfið 4:4, 7; Sálmur 68:20; Markús 11:24; 1. Pétursbréf 5:7.

17. Hvernig getum við öðlast frið Guðs?

17 Kemur þessi friður Guðs á augabragði? Þótt okkur kunni að létta eitthvað strax gildir einnig hér það sem Jesús sagði um það að biðja um heilagan anda: „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að knýja dyra og lokið verður upp fyrir ykkur.“ (Lúkas 11:9-13, NW) Með því að það er vegna heilags anda að við vörpum frá okkur áhyggjum okkar þurfum við að vera þrautseig í því að biðja um frið Guðs og hjálp hans til að bera byrðar okkar. Við megum vera viss um að staðfesta í bæninni mun veita okkur þann létti og hjartaró sem við sækjumst eftir.

18. Hvað gerir Jehóva fyrir okkur ef við vitum ekki nákvæmlega hvað við eigum að biðja um við vissar aðstæður?

18 En hvað nú ef við vitum ekki nákvæmlega hvað við eigum að biðja um? Við getum ekki alltaf tjáð hin innri andvörp okkar vegna þess að við skiljum ekki aðstæður okkar til fulls eða vitum ekki hvað við eigum að segja við Jehóva. Það er þá sem heilagur andi getur haft milligöngu fyrir okkur. Páll skrifaði: „Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.“ (Rómverjabréfið 8:26) Hvernig þá? Í orði Guðs eru innblásnir spádómar og bænir sem snerta aðstæður okkar. Hann lætur þær hafa eins konar milligöngu fyrir okkur. Hann tekur við þeim sem bænum er við myndum bera fram, ef við aðeins skildum merkingu þeirra hvað okkur varðar, og hann svarar þeim í samræmi við það.

Bænir og von halda áfram

19. Hvers vegna mun bæn og von halda áfram að eilífu?

19 Bænasamband við himneskan föður okkar mun halda áfram að eilífu, einkum að því er varðar þakklæti fyrir nýja heiminn og allar blessanir hans. (Jesaja 65:24; Opinberunarbókin 21:5) Við munum líka halda áfram að gleðjast í því sem við vonum, því að einhvers konar vonir munum við bera í brjósti að eilífu. (Samanber 1. Korintubréf 13:13.) Við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hvaða nýja hluti Jehóva mun láta koma fram þegar hinn sjálfskapaði hvíldardagur hans gagnvart jörðinni er liðinn. (1. Mósebók 2:2, 3) Um alla eilífð mun hann í kærleika sínum geyma þjónum sínum óvænta hluti, og framtíðin geymir þeim margt stórkostlegt sem tengist því að gera vilja hans.

20. Hver ætti að vera ásetningur okkar og hvers vegna?

20 Úr því að við höfum svona hrífandi framtíðarvon, megum við öll halda okkur fast við Jehóva með því að vera staðföst í bæninni. Megum við aldrei hætta að þakka himneskum föður okkar fyrir allar þær blessanir sem við njótum. Að því kemur að vonir okkar munu hljóta gleðiríka uppfyllingu, jafnvel umfram það sem við gátum ímyndað okkur eða séð fyrir, því að Jehóva „megnar að gera langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum.“ (Efesusbréfið 3:20) Við skulum því, í ljósi þessa, veita Jehóva Guði okkar, honum sem „heyrir bænir,“ lof, dýrð og þakkir um alla eilífð!

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna þurfum við að vera staðföst í bæninni?

◻ Hvað lærum við af bænum manna fyrir daga kristninnar?

◻ Hvað lærum við af fordæmi Jesú um bænina?

◻ Hvernig getum við varpað byrðum okkar á Jehóva og með hvaða árangri?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Daníel var staðfastur í bæninni þótt hann ætti á hættu að vera kastað í ljónagryfjuna.