Jólin — eru þau leiðin til að fagna Jesú?
Jólin — eru þau leiðin til að fagna Jesú?
FÆÐING frelsarans, hins langþráða Messíasar, var sannarlega mikill fagnaðartími. „Sjá,“ tilkynnti engill fjárhirðum í nágrenni Betlehem, „ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ Fjöldi engla tók undir og lofsöng Guði: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúkas 2:10-14) Sumir kunna að álykta sem svo að kristnir menn eigi að líkja eftir englunum og láta í ljós gleði yfir komu Krists til jarðar á þeim tíma.
Þetta er ekki fyrsta dæmið í frásögu Biblíunnar um að englar hafi sungið lofsöng. Er undirstöður jarðar voru lagðar ‚sungu morgunstjörnurnar gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu.‘ (Jobsbók 38:4-7) Þessi atburður er ekki nákvæmlega tímasettur í Biblíunni. (1. Mósebók 1:1, 14-18) Hversu gleðilegur sem þessi atburður kann að hafa verið hafa kristnir menn ekki haldið því fram að þeir ættu að halda ár hvert upp á sköpun jarðar og ef til vill að taka upp á arma sína heiðna hátíð í því skyni, úr því að englarnir fögnuðu.
En það hafa þeir menn gert er halda jólin hátíðleg sem fæðingarhátíð Jesú Krists. Nálega allar áreiðanlegar uppflettibækur staðfesta að fæðingardagur Jesú sé óþekktur. Biblían lætur ósagt hvenær hann var.
„Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð“
„Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins,“ skrifaði Páll postuli er hann leiðrétti skipulagsleysi sem var í söfnuðinum í Korintu til forna. Í sama samhengi spurði hann: „Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?“ (1. Korintubréf 14:8, 33) Ef Guð regluseminnar ætlaði kristnum mönnum að halda fæðingu sonar hans á jörð hátíðlega, hefði hann þá eftirlátið ófullkomnum mönnum að velja að eigin geðþótta heiðinn hátíðisdag í því skyni og taka upp óguðlega siði?
Fáein dæmi úr Biblíunni sýna fram á að viðskipti Jehóva Guðs við lýð sinn eru ekki með þeim hætti. Er hann krafðist þess af Ísraelsmönnum að halda árlegar hátíðir undir Móselögunum, tilgreindi hann ákveðna daga og sagði þeim hvernig þeir ættu að halda þessar hátíðir. (2. Mósebók 23:14-17; 3. Mósebók 23:34-43) Jesús Kristur, sem gaf aldrei fyrirmæli um að haldið skyldi upp á fæðingu sína, bauð fylgjendum sínum hins vegar að halda einn ákveðinn dag hátíðlegan. „Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn,“ þann 14. nísan árið 33, kom Jesús því á að kvöldmáltíð Drottins skyldi haldin hátíðleg, og notaði til hennar ósýrt brauð og vín. Fyrirmæli hans voru þessi: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (1. Korintubréf 11:23, 24) Lúðurblásturinn um það hvenær kvöldmáltíð Drottins skuli haldin hátíðleg er skýr og ótvíræður. En hvað þá um jólin? Hvergi finnum við í Biblíunni nokkurt boð um að halda fæðingu Krists hátíðlega og okkur er ekki heldur sagt hvenær eða hvernig.
‚Til að ávinna fólk‘
„Auðvitað veit ég að jólin eru af heiðnum uppruna,“ sagði prestur við Síonarkirkjuna í Tókíó, „en svo lengi sem venjulegt fólk
hefur áhuga á kristninni þann 25. desember og kemur til að læra kenningar hins háttvirta Jesú eiga jólin heima í kristninni.“ Margir taka undir rök hans. Álítur þú slíkar tilslakanir réttar?Sumir halda því fram að jafnvel Páll hafi slakað til í því skyni að ávinna menn til fylgis við trúna. „Ég [hef] gjört sjálfan mig að þræli allra,“ skrifaði hann, „til þess að ávinna sem flesta. . . . Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus . . . til þess að ávinna hina lögmálslausu. . . . Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ (1. Korintubréf 9:19-23) Réttlæta þessi orð að tekin sé upp heiðin hátíð í því skyni að laða heiðna menn til kristni?
Skoðum vandlega samhengi orða Páls. Í 21. versi sagði hann: „ . . . þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists.“ Hann lét því ekki undan í málum sem fóru út fyrir lögmál Krists heldur ‚lifði eins og lögmálslaus‘ með því að taka tillit til staðbundinna siða, svo lengi sem þeir stríddu ekki gegn boðorðum kristninnar. *
Með þetta í huga skaltu ígrunda hvernig það lítur út, með hliðsjón af eftirfarandi boði Biblíunnar, að taka heiðna hátíð upp í „kristnina“: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? . . . Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? . . . Þess vegna segir [Jehóva]: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.“ (2. Korintubréf 6:14-17) Óháð því hvaða afsakanir eru bornar fram er ekki hægt að fagna Jesú sem frelsara með því að menga kristnina með heiðnum hátíðum. Það hefði verið óviðeigandi á fyrstu öldinni er Jesús kom í holdinu, og það er jafnóviðeigandi núna og í framtíðinni er Kristur kemur sem konungur til að fullnægja dómum Guðs. (Opinberunarbókin 19:11-16) Þeir sem kjósa að halda upp á heiðna hátíð í „kristnu“ dulargervi eru kannski jafnvel að afneita Jesú Kristi.
„Kristnir menn í felum“ ekki endurheimtir
Drögum lærdóm af því hvernig fór fyrir kaþólskum mönnum í Japan á þeim tíma er herforingjarnir réðu þar lögum og lofum (shogun-tímanum). Er ofsóknir hófust á hendur kaþólskum árið 1614 áttu um 300.000 kaþólskir menn í Japan um þrennt að velja: verða píslarvottar, ganga af trúnni eða fara í felur. Þeir sem fóru í felur voru kallaðir kristnir menn í felum. Til að felubúa trú sína tóku þeir upp ýmsa siði búddhatrúarmanna og sjintótrúarmanna. Í messuformi sínu ákölluðu þeir Maríu Kannon en það var María í dulargervi bodhisattva búddhatrúarinnar sem móðir með barn. * Hátíðir þeirra voru blanda búddhatrúar, kaþólskrar trúar og sjintósiða. Þegar þeir voru tilneyddir að sækja jarðarfarir búddhatrúarmanna söngluðu þeir hins vegar kristnar bænir og viðhöfðu modoshi, athöfn til að ógilda guðsþjónustu búddhatrúarmanna. Hvað varð um þessa „kristnu menn?“
„Þorra [þessara „kristnu manna í felum“] fór að þykja vænt um trúariðkun sína þannig að þeir áttu erfitt með að hætta að tilbiðja guði sjintrótrúarinnar og búddhatrúarinnar,“ segir í bókinni The Hidden Christians.
Er banninu var aflétt og kaþólskir trúboðar sneru aftur til Japans héldu flestir þessara „kristnu manna í felum“ sér sem fastast við samblandstrú sína.En gat kaþólska kirkjan með réttu gagnrýnt þessa „kristnu menn í felum“ sem neituðu að snúa aftur til rómversk-kaþólskrar trúar? Kaþólska kirkjan hefur líka tekið upp margar heiðnar kenningar og hátíðir, þeirra á meðal jólin. Ef kaþólskir menn og mótmælendur hafa blandað „kristni“ sína heiðni með því að taka upp heiðnar hátíðir, þótt þeir segist vera kristnir, mætti þá ekki segja að þeir væru líka að hafna Jesú Kristi?
Endurheimt til sannrar kristni
Setsuko, sem var trúrækin kaþólsk kona í 36 ár, gerði sér loks grein fyrir því. Eftir síðari heimsstyrjöldina hafði hún reynt að fylla hið andlega tómarúm hjá sér með samfélagi við kaþólsku kirkjuna. ‚En ánægjulegt,‘ hugsaði hún með sér er hún sótti jólamessu og sá fagurlega skreytt jólatré inni í kirkjunni sinni og fyrir utan hana. „Ég var stolt af því hve fallegar jólaskreytingarnar okkar voru, enn fallegri en skreytingar kirknanna í grenndinni,“ sagði hún. Þrátt fyrir það hafði Setsuko í rauninni engan skilning á kenningum kaþólskrar trúar, jafnvel þótt hún kenndi í sunnudagaskóla um tíma. Þegar hún því vildi fara að taka meiri þátt í starfi kirkjunnar spurði hún prestinn sinn fáeinna spurninga. Í stað þess að svara þeim gerði presturinn lítið úr henni. Vonsvikin ákvað hún að rannsaka Biblíuna sjálf. Tveim vikum síðar heimsóttu vottar Jehóva hana og hún þáði boð þeirra um biblíunám á heimili sínu.
Hún segir: „Það var sársaukafullt fyrir mig að horfast í augu við biblíusannindi sem hröktu mínar fyrri trúarskoðanir. Ég fékk jafnvel mikið hárlos af völdum uppnámsins. Smám saman náði ljós sannleikans hins vegar að skína í hjarta mitt. Ég var agndofa að uppgötva að Jesús hefði ekki getað fæðst í köldum, votviðrasömum desembermánuði þegar fjárhirðar eru ekki vanir að vera með hjarðir sínar úti undir berum himni að nóttu til. (Lúkas 2:8-12) Þar fauk ímynd mín um fæðingu Jesú, því að við höfðum notað bómull fyrir snjó til að skreyta uppstillingar með fjárhirðum og sauðum.“
Eftir að hafa gengið úr skugga um hvað Biblían kennir í raun og veru ákvað Setsuko að hætta jólahaldi. Það kemur ekki lengur „jólafriður“ yfir hana einu sinni á ári heldur sýnir hún á hverjum degi gleðianda kristins örlætis.
Ef þú trúir einlæglega á Krist skaltu ekki láta þér gremjast þegar þú sérð heiðna menn spilla jólunum. Þeir eru einungis að endurtaka það sem jólin upprunalega voru — heiðin hátíð. Jólin leiða engan mann til að fagna Jesú Kristi sem er snúinn aftur sem ósýnilegur konungur á himni. (Matteus 24. og 25. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli) Þess í stað sýna sannkristnir menn kristinn anda allt árið og þeir boða fagnaðarerindið um ríkið sem Jesús er nú konungur yfir. Það er þannig sem Guð vill að við fögnum Jesú Kristi sem frelsara okkar og konungi Guðsríkis. — Sálmur 2:6-12.
[Neðanmáls]
^ Vert er að bera saman með hvaða tvennum hætti Páll brást við málum er snertu umskurnina. Þótt hann vissi að ‚umskurnin væri ekkert‘ umskar hann ferðafélaga sinn, Tímóteus, sem var Gyðingur í móðurætt. (1. Korintubréf 7:19; Postulasagan 16:3) Hins vegar forðaðist Páll að umskera Títus og var það grundvallaratriði hjá honum í átökunum við þá sem vildu koma á siðum og háttum Gyðinga. (Galatabréfið 2:3) Títus var Grikki og hafði því, ólíkt Tímóteusi, enga lögmæta ástæðu til að láta umskerast. Ef hann, sem var af heiðinni þjóð, léti umskerast ‚myndi Kristur ekkert gagnast honum.‘ — Galatabréfið 5:2-4.
^ Bodhisattva er í búddhatrúnni einstaklingur sem er að því kominn að öðlast nirvana en neitar sér um það til að geta leitt aðra til frelsunar.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Sannkristnir menn heiðra Jesú allt árið.