Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jólin — hvers vegna eru þau svona vinsæl í Japan?

Jólin — hvers vegna eru þau svona vinsæl í Japan?

Jólin — hvers vegna eru þau svona vinsæl í Japan?

TRÚIN á jólasveininn á sér djúpar rætur í Japan þar sem búddhatrú og sjintótrú eru ríkjandi. Árið 1989 sendu japönsk börn jólasveininum í Svíþjóð 160.000 bréf. Engin þjóð sendi fleiri bréf. Börnin skrifuðu í von um að fá óskir sínar uppfylltar, hvort heldur þau langaði í leikfangatölvu sem kostaði 18.000 jen (8200 ÍSK) eða tölvuleik sem kostaði 12.500 jen (5700 ÍSK).

Fyrir japanskar stúlkur hefur það sérstaka þýðingu að eiga stefnumót við pilt á aðfangadagskvöldi. „Í könnun meðal ungra kvenna sögðust 38 af hundraði hafa gert áætlanir fyrir aðfangadagskvöld með mánaðar fyrirvara,“ að sögn dagblaðsins Mainichi Daily News. Ungir menn hafa ekki allir hreint tilefni með því að vilja vera með vinstúlkum sínum á aðfangadagskvöldi. „Það er góð hugmynd að biðjast fyrir í hljóði með vinstúlku þinni,“ sagði í tímariti ætluðu ungum mönnum. „Gerið það á einhverjum spennandi stað. Þá verður samband ykkar fljótt nánara.“

Japanskir eiginmenn vonast líka til að kalla fram einhvern töframátt með því að kaupa hina hefðbundnu „skrauttertu“ á leiðinni heim úr vinnunni. Með því að bregða sér í hlutverk jólasveinsins halda þeir sig geta bætt fyrir það að vanrækja fjölskylduna á öðrum árstímum.

Já, jólin hafa sannarlega fest rætur meðal Japana þótt þeir teljist ekki kristin þjóð. Í könnun á vegum verslanakeðju sögðust 78 af hundraði þátttakenda gera sér dagamun um jólin. Það er gríðarlega hátt hlutfall hjá þjóð þar sem einungis 1 af hundraði landsmanna telur sig kristinnar trúar. Þótt menn játi búddhatrú eða sjintótrú sjá þeir ekkert athugavert við það að halda upp á þessa „kristnu“ hátíð. Hinn kunni Ise-helgidómur sjintótrúarmanna tilgreinir 25. desember í almanaki sínu sem „fæðingardag Krists,“ ásamt japönskum hátíðum. En það að sjá menn, sem ekki játa kristna trú, á kafi í jólahaldi vekur eigi að síður þessa spurningu:

Hverra hátíð eru jólin?

Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir jólin svo: „Ein af trúarhátíðum kristinna manna (hin helsta á Norðurlöndum) haldin 24.-26. des. . . . til minningar um fæðingu Jesú Krists.“ Jólin hafa verið álitin tækifæri fyrir „kristna menn“ til að „sameinast í gleði sinni á fæðingardegi Krists.“

Þeim sem halda upp á jólin sem hreina trúarhátíð gremst stundum við þá sem setja á þau veraldlegan svip með gleðskap sínum og gjafaflóði. Sumir telja það jafnvel jaðra við guðlast. „Í Japan er gengið hvað lengst í grófri verslunarhyggju: þar er enginn Kristur,“ skrifaði Bandaríkjamaður sem búsettur er í Japan. „Í augum Vesturlandabúa er það ekki kalkúninn [sem er yfirleitt ekki á markaði í Japan] sem vantar heldur mikilvægasti þátturinn, andi jólanna,“ skrifaði annar maður um jólahald Japana.

Hver er þá andi jólanna? Er það andrúmsloftið sem fylgir guðsþjónustu með jólasálmum, kertaljósi og grenigreinum í hinni einu, árlegu pílagrímsferð margra til kirkjunnar? Eða er það kærleikurinn, góða skapið og gjafirnar sem örva marga til að vera örlátir? Er það sú ró sem færist yfir stríðsvöllinn meðan hermenn halda nokkurra daga „frið á jörð“?

Svo furðulegt sem það er megnar andi jólanna oft ekki einu sinni að skapa jólafrið á heimilinu. Í niðurstöðum könnunar, sem gerð var á Englandi árið 1987, var talið að ‚borgarastríð‘ myndi brjótast út á 70 af hundraði breskra heimila um jólaleytið það ár. Átök út af peningum voru talin algengasta orsökin. Óhófleg drykkja og það að rækja ekki hlutverk sitt í fjölskyldunni var einnig talið leiða til átaka.

„Ég hef verið að velta fyrir mér hvort við séum ekki að fara á mis við eitthvað í sambandi við raunverulegt gildi jólanna,“ skrifaði maður frá Vesturlöndum sem nú er búsettur í Japan, er hann heimsótti föðurland sitt um jólaleytið nýverið. „Á hverju ári finn ég fyrir sömu þránni þann 25. desember að snúa aftur til hins gamaldags jólahalds frá fornri tíð — til hinnar heiðnu hátíðar sem haldin var til að fagna vetrarsólstöðum með tilheyrandi svalli og trjáadýrkun. Við höfum enn allan hinn heiðna ytri búning — mistilteininn, jólaviðinn, þininn og svo framvegis — en einhvern veginn hafa jólin aldrei verið söm eftir að kristnir menn rændu þeim og breyttu í trúarhátíð.“

Óneitanlega eru jólin heiðin hátíð. Frumkristnir menn héldu þau ekki hátíðleg „vegna þess að þeir álitu það heiðinn sið að halda upp á fæðingu nokkurs manns,“ segir The World Book Encyclopedia. Rekja má gleðskapinn og gjafirnar til hinnar heiðnu Satúrnusarhátíðar og nýársgleði.

Ef jólin eru í eðli sínu heiðin hljóta kristnir menn að spyrja sig að því hvort jólin séu hátíð kristinna manna. Við skulum kanna hvað Biblían segir um það að halda upp á fæðingu Krists.

[Rammi á blaðsíðu 4]

Uppruni jólahalds

Enda þótt smáatriðin séu hjúpuð rökkri fortíðarinnar liggja fyrir vísbendingar um það að árið 336 hafi kirkjan í Róm verið farin að halda einhvers konar jólahátíð. „Jólin voru af ásettu ráði dagsett þann 25. desember,“ segir The New Encyclopædia Britannica, „í þeim tilgangi að víkja úr vegi aðalhátíð sólguðsins.“ Það var þá sem heiðnir menn héldu svallveislur sínar, bæði á hinni rómversku Satúrnusarhátíð og vetrarsólstöðuhátíð Kelta og Germana. The New Caxton Encyclopedia segir að „kirkjan hafi gripið tækifærið til að kristna þessar hátíðir.“