Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað ættu kristnir foreldrar að gera ef barn þeirra verður að sækja skóla þar sem trúfræðsla er skyldugrein?

Kristnir foreldrar hafa ekki áhuga á að láta innræta börnum sínum falska trú. Hins vegar getur sú staða komið upp að börn geti ekki neitað að sitja trúfræðslutíma, þótt þau myndu ekki taka þátt í falstrúarathöfnum eða helgisiðum.

Vinur Guðs, Abraham, gaf gott fordæmi í sambandi við trúfræðslu barna. Hann ól börn sín upp í Kanaanlandi þar sem þau voru umkringd villutrú og viðurstyggilegum „helgiathöfnum.“ (Samanber 2. Mósebók 34:11-15; 3. Mósebók 18:21-30; 5. Mósebók 7:1-5, 25, 26; 18:9-14.) Eigi að síður veitti hann fjölskyldu sinni trúarlega fræðslu. Guð treysti því að Abraham myndi ‚bjóða börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Jehóva með því að iðka rétt og réttlæti.‘ — 1. Mósebók 18:19.

Sem barn og unglingur naut Jesús einnig góðs af fræðslu fjölskyldunnar og safnaðarins í sannri guðsdýrkun. Þannig ‚þroskaðist hann að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.‘ — Lúkas 2:52.

Víðast hvar á jörðinni þiggja kristin börn veraldlega fræðslu í almennum skólum. Ekki er allt sem kennt er í fullu samræmi við sannindi Biblíunnar og fullsannaðar staðreyndir. Til dæmis hafa margar kynslóðir kristinna ungmenna þegið kennslu í vísindum og líffræði sem hluta af eðlilegu námi sínu. Flest hafa þau þannig kynnst ríkjandi kenningum um þróun lífsins og tengdum hugmyndum um „náttúrlegan“ uppruna lífsins á jörðinni.

Slík kynni hafa samt sem áður ekki snúið þessum kristnu börnum og ungmennum á sveif með hinni guðlausu þróunarkenningu. Hvers vegna? Vegna þess að þau höfðu, bæði heima og á kristnum samkomum, fengið nákvæmar upplýsingar fyrirfram byggðar á innblásnu orði Guðs sem átti drjúgan þátt í að ‚temja skilningarvit þeirra til að greina gott frá illu.‘ (Hebreabréfið 5:14) Margir foreldrar hafa numið með börnum sínu hina öfgalausu umfjöllun um þróunarkenninguna sem er að finna í bókinni Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? * Sá bakhjarl olli því að þessi skólabörn tóku ekki trúanlega þá fræðslu sem þau fengu í skólanum um þróunarkenninguna. Samt sem áður gátu þau sýnt með svörum sínum í kennslustundum og á prófum að þau fylgdust með og gátu lært þau þekkingaratriði sem kennd voru. Sum höfðu jafnvel tækifæri til að koma fram með aðrar skýringar í samræmi við þær staðreyndir sem skapari mannsins kennir í Biblíunni. — 1. Pétursbréf 3:15.

En hvað um þær kennslustundir í skólanum sem eru helgaðar ríkjandi trú á viðkomandi stað eða trúarbrögðum almennt?

Ólíklegt er að slík kennsla sé algerlega hlutlaus og sett fram eingöngu sem ómengaðar upplýsingar. Kennarinn getur jafnvel iðkað viðkomandi trú sjálfur og reynt að hafa áhrif á hugi og hjörtu nemendanna. Vottar Jehóva kjósa því að undanþiggja börn sín trúfræðslu skólanna. Börnin geta hugsanlega notað tíma sinn betur með því að fara í skólabókasafnið og ljúka undirbúningi fyrir aðrar kennslustundir eða gera heimaverkefnin sín.

Sums staðar hefur slíkri málaleitan hins vegar verið hafnað og skóli eða yfirvöld jafnvel krafist þess að öll börn sæki kennslu í trúfræðslu og ljúki því námi til að geta útskrifast. Hver fjölskylda verður að ákveða fyrir sig hvað hún gerir í slíku tilviki.

Sumir þjónar Guðs til forna hafa gegn vilja sínum lent í þeirri aðstöðu að þurfa að kynnast trúarkenningum eða sitja undir trúarathöfnum, en hafa þó varðveitt hollustu sína við hinn sanna Guð. Svo var líklega um Móse. Hann var alinn upp sem dóttursonur Faraós og var „fræddur í allri speki Egypta.“ (Postulasagan 7:20-22) Í þeirri kennslu fólst sennilega trú og trúarathafnir sem algengar voru í Egyptalandi. En hin framúrskarandi kennsla, sem Móse bersýnilega hlaut hjá fjölskyldu sinni og ef til vill öðrum Hebreum, verndaði hann greinilega. — 2. Mósebók 2:6-15; Hebreabréfið 11:23-26.

Hugleiddu einnig fordæmi hinna þriggja ungu Hebrea, félaga Daníels, sem hlutu sérstaka kennslu í Babýlon og voru gerðir að starfsmönnum stjórnarinnar. (Daníel 1:6, 7) Þeir gátu ekki leyft sér að gera eða neita hverju sem þeim sýndist. Einhverju sinni ákvað Nebúkadnesar að þeir kæmu saman ásamt öðrum embættismönnum við gulllíkneski sem hann hafði látið reisa í Dúradal, en þar áttu að fara fram þjóðræknisathafnir. Hvað gerðu Hebrearnir þrír? Við getum verið viss um að þeir hefðu kosið að koma hvergi, en um það var ekki að ræða. * Engu að síður reyndust þeir trúir sannfæringu sinni og trú á alvaldan Guð. Guðrækin samviska þeirra leyfði þeim að vera viðstaddir enda þótt þeir neituðu einbeittir í bragði að taka þátt í nokkurri falstrúarathöfn. — Daníel 3:1-18.

Sé öllum nemendum skylt að sækja trúfræðslutíma og ef til vill að læra að því marki að þeir geti staðist próf geta börn sannkristinna foreldra hugsanlega sótt slíka kennslu, líkt og Hebrearnir þrír voru viðstaddir að boði Nebúkadnesars. En kristið barn eða unglingur myndi láta Guð skipa fyrsta sætið. Það þarf ekki að andmæla hverri einustu rangri staðhæfingu eða óbiblíulegri iðkun sem aðrir taka þátt í, líkt og Hebrearnir þrír reyndu ekki að koma í veg fyrir að aðrir féllu fram fyrir gulllíkneskinu. Kristin börn og unglingar myndu hins vegar ekki sjálf taka þátt í tilbeiðsluathöfnum, sameiginlegum bænum, trúarlegum söng eða öðru slíku.

Þessi börn og unglingar ættu að leggja sig fram á öðrum tímum við að afla sér uppbyggjandi þekkingar frá ‚heilagri ritningu sem getur veitt þeim speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Með samræðum og skoðanaskiptum við börn sín ættu foreldrar að fylgjast stöðugt með því sem verið er að kenna í skólanum. Þannig geta þeir séð hvað þurfi að leiðrétta eða skýra frá Biblíunni, þannig að börnin þeirra verði ekki ráðvillt eða leiðist á villubrautir.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Biblían getur þess ekki að Daníel hafi verið í Dúradal. Vera kann að hann hafi verið hærra settur í stjórnkerfinu en hinir Hebrearnir og hafi þar með getað komist hjá því að fara þangað.