Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Staða kvenna í Ritningunni

Staða kvenna í Ritningunni

Staða kvenna í Ritningunni

„Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.“ — 1. MÓSEBÓK 2:23.

1, 2. Hvert halda sumir vera viðhorf Biblíunnar til kvenna? (b) Hvaða samanburð þurfum við að gera til að allir njóti sannmælis og hvað segir heimildarrit?

 HVERT er viðhorf Heilagrar ritningar til kvenna? Menn hafa ólíkar skoðanir á því. Í nýlegri bók um það efni segir: „Margir eru haldnir þeim hleypidómum að Biblían hafi lítilsvirt konuna.“ Sumir halda því fram að bæði hinn hebreski og gríski hluti Biblíunnar geri lítið úr konum. Er það rétt?

2 Til að allir njóti sannmælis er viðeigandi að athuga fyrst hvernig farið var með konur á biblíutímanum meðal manna og þjóða sem tilbáðu ekki Jehóva. Í sumum fornum menningarsamfélögum, sem dýrkuðu móðurgyðjuna, voru konur heiðraðrar sem frjósemistákn. Þær virðast hafa verið mikils metnar í Babýloníu og Egyptalandi. En annars staðar var hlutskipti þeirra lakara. Í Assýríu til forna gat maður lokað konuna sína inni að vild og jafnvel drepið hana ef hún var honum ótrú. Utan heimilis varð hún að hylja andlit sitt. Í Grikklandi og Róm áttu einungis auðugar konur, sem margar hverjar voru yfirstéttarvændiskonur, kost á menntun og nutu nokkurs frelsis. Það er því hressandi að lesa í The New International Dictionary of New Testament Theology: * „Ólíkt öðrum hluta trúarheims Austurlanda var hún [konan í Hebresku ritningunum] viðurkennd sem persóna og félagi mannsins.“ Þetta kemur vel fram í síðustu bók Hebresku ritninganna þar sem spámaður Jehóva lýsir eiginkonu manns sem ‚förunaut‘ hans og bætir svo við: „Bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar.“ — Malakí 2:14, 15.

Sköpuð sem félagi mannsins

3 og neðanmálsathugasemd. (a) Hvaða verkefni fól Jehóva Adam eftir sköpun hans? (b) Hvað má segja um Adam áður en Eva var sköpuð og má segja hið sama um „hinn síðari Adam,“ Jesú?

3 Samkvæmt Biblíunni skapaði Jehóva Adam „af leiri jarðar“ og setti hann í garðinn Eden til að yrkja hann og gæta. Guð leiddi öll dýr merkurinnar og fugla loftsins til Adams til að hann gæti virt þau fyrir sér og gefið þeim nöfn. Þann tíma sem það tók var Adam einn. Adam var fullkominn, heill og skorti ekkert til þeirra verkefna sem hann hafði fengið frá Jehóva fram til þessa. * Hann hafði ‚enga meðhjálp við sitt hæfi.‘ — 1. Mósebók 2:7, 15, 19, 20.

4, 5. (a) Hvað gerði Jehóva þegar það var ekki lengur gott fyrir Adam að vera einn? (b) Hvaða langtímaverkefni fól Jehóva Adam og Evu og hvers myndi það krefjast af þeim báðum?

4 Að nokkrum tíma liðnum lýsti Jehóva hins vegar yfir að það væri ‚eigi gott að maðurinn væri einsamall‘ og gerði ráðstafanir til að sjá Adam fyrir félaga er átt gæti hlut með honum í þeim verkefnum sem framundan væru. Hann svæfði Adam, tók eitt af rifjum hans og myndaði af því konu, ‚bein af hans beinum og hold af hans holdi.‘ Nú átti Adam sér ‚meðhjálp við sitt hæfi‘ eða félaga. „Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.‘“ — 1. Mósebók 1:25, 28; 2:18, 21-23.

5 Taktu eftir að þetta verkefni var gefið þeim báðum, bæði manninum og konunni. Samvinna þeirra átti ekki að vera takmörkuð við það eitt að uppfylla jörðina. Hún átti líka að fela í sér að gera jörðina undirgefna og drottna á réttan hátt yfir hinni óæðri sköpun. Það myndi krefjast bæði vitsmuna og andlegra eiginleika, og bæði maðurinn og konan höfðu nauðsynlega hæfileika og möguleika til að þroska þá í samræmi við vilja Guðs.

Hið eðlilega hlutverk konunnar

6. (a) Hvað gefur Biblían til kynna um líkamsstyrk karla og kvenna? (b) Hvernig er hyggilegt af konum að rökhugsa í því skyni að viðurkenna fyrirkomulag Jehóva?

6 Að sjálfsögðu hlaut það að krefjast líkamskrafta að gera sér jörðina undirgefna. Í óendanlegri visku sinni skapaði Jehóva fyrst Adam, síðan Evu. Hún var sköpuð „af manninum,“ „vegna mannsins,“ og hafði augljóslega ekki líkamsburði á við hann. (1. Tímóteusarbréf 2:13; 1. Korintubréf 11:8, 9; samanber 1. Pétursbréf 3:7.) Þetta er ein af staðreyndum lífsins sem margir kvenréttindasinnar og fleiri konur líka eiga erfitt með að sætta sig við. Þær myndu tvímælalaust vera hamingjusamari ef þær reyndu að skilja hvers vegna Jehóva kom málunum þannig fyrir, og viðurkenna þannig það hlutverk sem Guð hefur gefið þeim. Þeim sem kvarta undan ráðstöfun Guðs mætti líkja við næturgala sem er í fýlu í hreiðri sínu út af því að hann er ekki jafnsterkur og mávurinn, í stað þess að setjast á grein hátt yfir jörðu og syngja af þakklæti yfir þeim einstæðu gjöfum sem Guð hefur gefið honum.

7. Hvers vegna var Adam í góðri aðstöðu til að fara með yfirráð yfir Evu og börnum er þau myndu eignast, en var það Evu til tjóns?

7 Áður en Eva var sköpuð hafði Adam vafalaust aflað sér töluverðrar lífsreynslu. Á þeim tíma hafði Jehóva gefið honum ýmis fyrirmæli. Adam átti að koma þeim áleiðis til konu sinnar og koma þannig fram sem talsmaður Guðs. Rökrétt var að hann ætti að taka forystuna í öllu er varðaði tilbeiðslu og þau verk sem Guð hafði falið þeim og þau áttu að vinna í þeim tilgangi að gegna hlutverki sínu. Er þeim fæddust börn átti hann að vera höfuð fjölskyldunnar. En það átti ekki að vera konu hans til tjóns. Það yrði henni til góðs vegna þess að hún ætti sér hann að bakhjarli er hún beitti því valdi sem Guð hafði gefið henni yfir börnunum.

8. Hvert er fyrirkomulag Guðs eins og það er útlistað í Biblíunni?

8 Samkvæmt skipan Guðs var Adam ábyrgur gagnvart Jehóva. Eva var undir formennsku Adams, þau börn, sem til kæmu, yrðu undir stjórn foreldra sinna og dýrin lutu yfirráðum mannkynsins. Maðurinn og konan höfðu hvort sitt hlutverk og gátu bæði lifað hamingjusömu og auðugu lífi. Þannig gat allt farið „sómasamlega fram og með reglu.“ — 1. Korintubréf 11:3; 14:33, 40.

Syndin raskar hlutverki konunnar

9, 10. Hvaða afleiðingar hafði syndafallið fyrir manninn og konuna og hvað hefur það haft í för með sér fyrir margar konur?

9 Eins og við var að búast raskaðist þessi góða skipan er synd og ófullkomleiki hélt innreið sína í hina upprunalegu paradís. (Rómverjabréfið 7:14-20) Það hafði í för með sér erfiðleika fyrir hinn uppreisnargjarna mann og óhlýðna konu hans. (1. Mósebók 3:16-19) Síðan þá hafa margir eigingjarnir menn misnotað réttmæta stöðu sína og valdið konum miklum þjáningum í aldanna rás.

10 Jehóva sá fyrir þessar afleiðingar syndarinnar og sagði við Evu: „Þú [munt] hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ (1. Mósebók 3:16) Þessi harkalega yfirdrottnun hefur ekki verið rétt beiting á forystu mannsins. Hún hefur endurspeglað syndugt ástand mannsins og eins ófullkomleika konunnar, því að stundum hafa konur liðið fyrir það að reyna að sölsa undir sig vald manna sinna.

11. Hvað má segja um margar konur og hvað sagði rithöfundur einn um konur á ættfeðratímanum?

11 En í sama mæli og meginreglum Biblíunnar hefur verið fylgt hafa margar konur notið lífsfyllingar og hamingju. Þannig var það einnig á ættfeðratímanum. Um þetta tímabil segir Laurie Aynard í bók sinni La Bible au Féminin (Biblían í kvenkyni): „Það sem sérstaka athygli vekur í öllum þessum frásögum er hið mikilvæga hlutverk kvenna, sú virðing sem þær nutu í augum ættfeðranna, djarfmannlegt frumkvæði þeirra og það frelsisandrúmsloft sem þær lifðu í.“

Konur undir Móselögunum

12, 13. (a) Hver var staða kvenna undir Móselögunum? (b) Hvernig farnaðist konum andlega undir lögmálinu?

12 Samkvæmt lögmálinu, er Jehóva gaf fyrir milligöngu Móse, átti maðurinn að ‚unna‘ konu sinni. (5. Mósebók 13:6NW) Hann átti að virða sæmd hennar í kynlífinu og enga konu mátti misnota kynferðislega. (3. Mósebók 18:8-19) Karlar og konur stóðu jöfn frammi fyrir lögmálinu ef þau voru sek um hjúskaparbrot, sifjaspell eða kynmök við skepnur. (3. Mósebók 18:6, 23; 20:10-12) Fimmta boðorðið krafðist þess að börn sýndu föður sínum og móður jafnan heiður. — 2. Mósebók 20:12.

13 Framar öllu öðru gaf lögmálið konum tækifæri til að þroska sinn andlega mann. Þær nutu góðs af því að heyra lögmálið lesið. (Jósúa 8:35; Nehemía 8:2, 3) Þær áttu að halda hinar trúarlegu hátíðir. (5. Mósebók 12:12, 18; 16:11, 14) Þær tóku þátt í hinum vikulega hvíldardegi og gátu gengist undir nasíreaheit. (2. Mósebók 20:8; 4. Mósebók 6:2) Þær áttu persónulegt samband við Jehóva og báðu til hans sem einstaklingar. — 1. Samúelsbók 1:10.

14. Hvað segir kaþólskur biblíufræðimaður um hebreskar konur og hvað má segja um hlutverk kvenna undir lögmálinu?

14 Kaþólski biblíufræðimaðurinn Roland de Vaux segir um hebreskar konur: „Öll erfiðisvinnan á heimilinu kom vissulega í hennar hlut; hún leit eftir kvikfénaði, vann á ökrunum, eldaði matinn, spann og svo framvegis. En með öllu þessu striti ávann hún sér tillitssemi annarra og því fór fjarri að það lækkaði hana í virðingu. . . . Og þær fáu ritningargreinar, sem gefa okkur örlitla innsýn í hið innilega samband fjölskyldulífsins, sýna að ísraelsk eiginkona var elskuð af manni sínum og höfð með í ráðum, og að hann kom fram við hana sem jafningja. . . . Það er enginn vafi á því að þetta var hin eðlilega mynd. Hún endurspeglar nákvæmlega þá kenningu sem er varðveitt í 1. Mósebók þar sem sagt er að Guð hafi skapað konuna sem meðhjálp mannsins er hann átti að halda sig við (1. Mós. 2:18, 24); og síðasti kafli Orðskviðanna lofsyngur góða húsmóður er hlýtur blessun barna sinna og er stolt eiginmanns síns (Orðskv. 31:10-31).“ (Ancient Israel — Its Life and Institutions) Það er hafið yfir allan vafa að farið var vel með konur meðan Ísrael fylgdi lögmálinu.

Konur sem bera af

15. (a) Hvernig er Sara gott dæmi um rétt samband eiginmanns og eiginkonu? (b) Hvers vegna er frásagan um Rahab eftirtektarverð?

15 Hebresku ritningarnar segja frá mörgum konum er báru af sem þjónar Jehóva Guðs. Sara er ágætt dæmi um það hvernig guðhrædd kona getur bæði verið manni sínum undirgefin og eins hjálpað honum að taka ákvarðanir. (1. Mósebók 21:9-13; 1. Pétursbréf 3:5, 6) Frásagan af Rahab er eftirtektarverð. Hún afsannar þá ásökun að Jehóva sé haldinn kynþáttafordómum og sé harðneskjulegur við konur. Rahab var ekki ísraelsk og hún var vændiskona. Bæði viðurkenndi Jehóva hana sem tilbiðjanda sinn og lýsti hana einnig réttláta vegna mikillar trúar hennar er hún sýndi í verki með því að breyta líferni sínu. Að auki veitti hann henni þau einstæðu sérréttindi að vera formóðir Messíasar. — Matteus 1:1, 5; Hebreabréfið 11:31; Jakobsbréfið 2:25.

16. Hvað má sjá af fordæmi Abígail og hvers vegna var það réttlætanlegt sem hún gerði?

16 Frásagan af Abígail er ágætis dæmi sem sýnir að Jehóva krefst þess ekki að eiginkona hlýði manni sínum í blindni. Maðurinn hennar var auðugur og átti stórar hjarðir sauðfjár og geita. Hann var hins vegar „maður harður og illur viðureignar.“ Abígail neitaði að fylgja slæmu fordæmi eiginmanns síns. Hún sýndi góða dómgreind, skynsemi, auðmýkt og skjótræði og kom í veg fyrir aðstæður sem hefðu haft hörmulegar afleiðingar fyrir heimili hennar. Jehóva blessaði hana ríkulega fyrir. — 1. Samúelsbók 25:2-42.

17. (a) Hvaða einstæðra sérréttinda nutu sumar konur í Ísrael? (b) Hvað geta kristnar konur, er fá þjónustusérréttindi, lært af því er henti Mirjam?

17 Fáeinar konur voru meira að segja spákonur, svo sem Debóra á dómaratímanum. (Dómarabókin 4. og 5. kafli) Hulda var spákona í Júda, skömmu fyrir eyðingu Jerúsalem. (2. Konungabók 22:14-20) Mirjam er athyglisvert dæmi. Þótt talað sé um hana sem spákonu, senda af Jehóva, virðast sérréttindi hennar hafa stigið henni til höfuðs einu sinni. Hún viðurkenndi ekki það vald, sem Jehóva hafði gefið Móse, yngri bróður hennar, til að leiða Ísrael, og var refsað fyrir, þótt hún hafi bersýnilega iðrast og endurheimt stöðu sína. — 2. Mósebók 15:20, 21; 4. Mósebók 12:1-5; Míka 6:4.

Konur undir Gyðingdómnum

18, 19. Hver var staða kvenna undir Gyðingdómnum og hvernig kom hún til?

18 Eins og við höfum séð vernduðu Móselögin réttindi kvenna og þegar þeim var fylgt voru konur vel á vegi staddar. En er tímar liðu, einkanlega eftir eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t., þróaðist Gyðingdómurinn, trúarstefna er byggði meira á munnlegum erfðavenjum en hinu ritaða lögmáli Jehóva. Frá og með fjórðu öld f.o.t. tók Gyðingdómurinn upp gríska heimspeki í stórum stíl. Að stærstum hluta gáfu grískir heimspekingar réttindum kvenna lítinn gaum, þannig að staða kvenna versnaði samsvarandi undir Gyðingdómnum. Frá og með þriðju öld f.o.t. var farið að skilja milli karla og kvenna í samkunduhúsum Gyðinga og konur voru lattar þess að lesa Fimmbókaritið (lögmál Móse). Encyclopedia Judaica viðurkennir: „Af því leiddi að fáar konur voru menntaðar.“ Menntun var fyrst og fremst ætluð drengjum.

19 Í bók sinni Jerusalem in the Time of Jesus segir J. Jeremias: „Á heildina litið birtist staða kvenna í trúarlöggjöfinni best í þulunni sem var sífellt verið að endurtaka: ‚konur, þrælar (sem ekki voru Gyðingar) og börn.‘ . . . Við þetta má bæta að mjög oft var talað niðrandi um konur. . . . Við fáum því á tilfinninguna að Gyðingdómurinn á dögum Jesú hafi líka borið litla virðingu fyrir konum.“

Trúar konur sem væntu Messíasar

20, 21. (a) Hverjar voru í hópi þeirra er héldu sér vakandi er Messías átti að koma, þrátt fyrir fyrirlitningu trúarleiðtoga Gyðinganna á konum? (b) Hvað sýnir að Elísabet og María voru guðræknar konur?

20 Þessi fyrirlitning á konum var enn eitt dæmi um það hvernig rabbínar Gyðinga ‚ógiltu orð Guðs með erfikenningu sinni.‘ (Markús 7:13) En þrátt fyrir þessa fyrirlitningu voru sumar guðræknar konur vökular þegar sá tími nálgaðist er Messías skyldi koma. Ein þeirra var Elísabet, kona levítaprestsins Sakaría. Hún og maður hennar voru bæði „réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum [Jehóva].“ (Lúkas 1:5, 6) Elísabet hlaut þá blessun af Jehóva að verða móðir Jóhannesar skírara, þótt hún væri ófrjó og komin við aldur. — Lúkas 1:7, 13.

21 Undir áhrifum heilags anda lét Elísabet í ljós djúpa ást sína til annarrar guðrækinnar konu sinnar samtíðar, frændkonu sem hét María. Er engillinn Gabríel kunngerði Maríu undir lok ársins 3 f.o.t. að hún myndi geta barn (með undraverðum hætti) ávarpaði hann hana: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs,“ og bætti við: „[Jehóva] er með þér.“ Skömmu síðar heimsótti María Elísabetu sem blessaði hana og ófætt barn hennar og kallaði Jesú ‚Drottin‘ áður en hann fæddist. Við það tók María að lofsyngja Jehóva sem ber glögglega vitni um djúpa guðrækni hennar. — Lúkas 1:28, 31, 36-55.

22. Hvaða guðhrædd kona sýndi, eftir fæðingu Jesú, að hún væri í hópi þeirra er biðu Messíasar?

22 Er Jesús var fæddur og María kom með hann í musterið í Jerúsalem, til að færa hann Jehóva, lét önnur guðhrædd kona, hin aldraða spákona Anna, í ljós gleði sína. Hún þakkaði Jehóva og talaði um Jesú við alla er biðu með óþreyju hins fyrirheitna Messíasar. — Lúkas 2:36-38.

23. Hvernig talar Pétur postuli um trúfastar konur fyrir daga kristninnar og hvaða spurningar verða skoðaðar í greininni á eftir?

23 Þegar jarðneskur þjónustutími Jesú nálgaðist voru enn til ‚helgar konur er settu von sína á Guð.‘ (1. Pétursbréf 3:5) Sumar þessara kvenna urðu lærisveinar Krists. Hvernig kom Jesús fram við þær? Eru til konur nú á dögum sem viðurkenna með gleði það hlutverk sem Biblían ætlar þeim? Um þessar spurningar verður fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ Þriðja bindi bls. 1055.

^ „Hinn síðari Adam,“ Jesús Kristur, var líka fullkominn og heill maður, þótt hann ætti ekki mennska konu. — 1. Korintubréf 15:45.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvernig var farið með konur í Ísrael, ólíkt því sem var í öðrum löndum?

◻ Hver var staða Adams og Evu og hvers vegna?

◻ Hver var staða ísraelskra kvenna undir lögmálinu og voru þær verr settar andlega en karlmenn?

◻ Nefndu sumt sem læra má af konum er báru af í Hebresku ritningunum.

◻ Hvaða góð fordæmi um trú er að finna þrátt fyrir viðhorf Gyðingdómsins?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 10]

‚SÚ KONA ER ÓTTAST JEHÓVA‘

10 Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur. 11 Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist. 12 Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína. 13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum. 14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að. 15 Hún fer á fætur fyrir dag, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum. 16 Hún hefir augastað á akri og kaupir hann, af ávexti handa sinna plantar hún víngarð. 17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum. 18 Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm, á lampa hennar slokknar eigi um nætur. 19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna. 20 Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða. 21 Hún er ekki hrædd um heimilisfólk sitt, þótt snjói, því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati. 22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. 23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins. 24 Hún býr til skyrtur og selur þær, og kaupmanninum fær hún belti. 25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi. 26 Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar. 27 Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð. 28 Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni: 29 ‚Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!‘ 30 Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast [Jehóva], á hrós skilið. 31 Gefið henni af ávexti handa hennar, og verk hennar skulu lofa hana í borgarhliðunum.“ — Orðskviðirnir 31:10-31.

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Konur gegndu virðingarstöðu innan fjölskyldunnar.