Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gætum hjarðarinnar með okkar mikla Skapara

Gætum hjarðarinnar með okkar mikla Skapara

Gætum hjarðarinnar með okkar mikla Skapara

„[Jehóva] er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.“ — SÁLMUR 23:1, 3.

1. Hvaða kærleiksríka hressingu veitir Jehóva okkur?

 TUTTUGASTI og þriðji sálmurinn, „Davíðssálmur,“ hefur hresst marga þreytta sál. Hann hefur örvað þær til að hafa það trúartraust sem látið er í ljós í 6. versinu: „Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi [Jehóva] bý ég langa ævi.“ Er það löngun þín að búa alla tíð í tilbeiðsluhúsi Jehóva í félagi við þjóna hans sem nú er verið að safna úr öllum þjóðum á jörðinni? „Hirðir og biskup sálna yðar,“ okkar mikli skapari Jehóva Guð, mun hjálpa þér að ná því marki. — 1. Pétursbréf 2:25.

2, 3. (a) Hvernig gætir Jehóva þjóna sinna á kærleiksríkan hátt? (b) Hvernig hefur „hjörð“ Jehóva stækkað stórkostlega?

2 Skapari „nýs himins og nýrrar jarðar“ er líka hinn mikli skipuleggjandi og hirðir kristna safnaðarins, ‚húss Guðs.‘ (2. Pétursbréf 3:13; 1. Tímóteusarbréf 3:15) Hann lætur sér mjög annt um að gæta þjóna sinna eins og Jesaja 40:10, 11 segir greinilega: „Sjá, hinn alvaldi [Jehóva] kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum. Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“

3 Í víðari skilningi innifelur þessi „hjörð“ þá sem hafa gengið lengi í kristnum sannleika og „unglömbin“ sem hefur verið safnað á allra síðustu tímum — svo sem þann mikla fjölda er lætur skírast núna í Afríku og Austur-Evrópu. Með sterkum verndararmlegg sínum safnar hann þeim í faðm sér. Þótt þeir hafi verið eins og tvístraðir sauðir eiga þeir núna innilegt samband við ástríkan Guð sinn og hirði.

Meðhirðir Jehóva

4, 5. (a) Hver er „góði hirðirinn“ og hvernig bentu spádómarnir á hann? (b) Hvaða aðgreiningarstarfi hefur Jesús umsjón með og með hvaða einstæðum árangri?

4 „Góði hirðirinn,“ Jesús Kristur, sem þjónar við hægri hönd föður síns á himnum, hugsar einnig um „sauðina“ af mikilli umhyggju. Hann lagði líf sitt í sölurnar, fyrst til gagns fyrir „litla hjörð“ smurðra fylgjenda sinna og síðan fyrir mikinn múg ‚annarra sauða‘ sinna nú á dögum. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:14, 16) Hirðirinn mikli, Jehóva Guð, ávarpar alla þessa sauði er hann segir: „Hér er ég sjálfur og dæmi . . . milli kindar og kindar. Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir. Og ég, [Jehóva], mun vera Guð þeirra, og þjónn minn Davíð mun vera höfðingi meðal þeirra. Ég, [Jehóva], hefi talað það.“ — Esekíel 34:20-24.

5 Nafngiftin ‚þjónn minn Davíð‘ er spádómleg tilvísun til Krists Jesú, þess ‚niðja‘ sem erfir hásæti Davíðs. (Sálmur 89:36, 37) Á þessum dómsdegi þjóðanna heldur meðhirðir og meðkonungur Jehóva, Kristur Jesús, sonur Davíðs, áfram að aðgreina ‚sauðina‘ úr hópi mannkyns frá þeim sem kannski segjast vera ‚sauðir‘ en eru í raun ‚hafrar.‘ (Matteus 25:31-33) Þessi ‚einkahirðir‘ er einnig vakinn upp til að næra sauðina. Við sjáum þennan spádóm uppfyllast á stórkostlegan hátt nú á dögum! Meðan stjórnmálamenn tala um að sameina mannkynið undir nýrri heimsskipan er einkahirðirinn í raun og veru að sameina sauðina af öllum þjóðum með slíkri vitnisburðarherferð á fjölda tungumála sem einungis skipulag Guðs gæti tekist á hendur.

6, 7. Hvernig hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ séð til þess að sauðirnir fái „mat á réttum tíma?“

6 Jafnhliða stöðugri útbreiðslu boðskaparins um Guðsríki til nýrra svæða sér hinn „trúi og hyggni þjónn“ smurðra kristinna manna um, í samræmi við fyrirmæli einkahirðisins, að allt sé gert til að senda út „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Mörg af hinum 33 útibúum Varðturnsfélagsins, þar sem prentun fer fram, eru að auka framleiðsluna til að svara vaxandi þörf fyrir fleiri og betri biblíukennslubækur og tímarit.

7 Hið stjórnandi ráð votta Jehóva gerir allt sem í þess valdi stendur til að þýðing rita á um 200 tungumál sé í hæsta gæðaflokki, og til að þýða rit á hver þau fleiri tungumál sem þarf til að ná yfir heimsakurinn allan. Það er gert til að framfylgja fyrirmælum Jesú til lærisveina sinna í Postulasögunni 1:8: „En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Enn fremur er verið að þýða Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar, sem er nú þegar fáanleg í heild eða að hluta á 14 tungumálum, á 16 Evrópu-, Afríku- og Austurlandamál til viðbótar.

Að njóta ‚friðar Guðs‘

8. Hvernig hefur friðarsáttmálinn, sem Jehóva hefur gert við sauðina, verið þeim til mikillar blessunar?

8 Fyrir milligöngu einkahirðisins, Krists Jesú, gerir Jehóva ‚friðarsáttmála‘ við vel nærða sauði sína. (Jesaja 54:10) Með því að iðka trú á úthellt blóð Jesú er sauðunum kleift að ganga í ljósinu. (1. Jóhannesarbréf 1:7) Þeir njóta ‚friðar Guðs sem er æðri öllum skilningi og varðveitir hjörtu þeirra og hugsanir í Kristi Jesú.‘ (Filippíbréfið 4:7) Eins og Esekíel 34:25-28 lýsir leiðir Jehóva sauði sína inn í andlega paradís sem felst í unaðslegu öryggi, hressandi velsæld og góðum afrakstri. Þessi ástríki hirðir segir um sauði sína: „Þeir munu búa óhultir á sinni jörð og viðurkenna, að ég er [Jehóva], þegar ég sundurbrýt oktré þeirra og frelsa þá undan valdi þeirra, er þá hafa þrælkað. . . . þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá.“

9. Hvaða tækifæri hafa þjónum Guðs opnast með því að ‚oktrén hafa verið sundurbrotin‘?

9 Víða um lönd hafa vottar Jehóva nú á síðustu árum fundið hvernig „oktré“ þeirra eru brotin sundur. Þeir njóta meira frelsis til að prédika en nokkru sinni fyrr. Og megum við öll, í hvaða landi sem er, nota vel það öryggi sem Jehóva veitir er við leggjum kapp á að ljúka verkinu. Jehóva stappar svo sannarlega í okkur stálinu er við nálgumst þá mestu þrengingatíma sem mannkynið á eftir að kynnast! — Daníel 12:1; Matteus 24:21, 22.

10. Hverjum hefur Jehóva séð fyrir til að aðstoða góða hirðinn, Krist Jesú, og hvernig ávarpaði Páll postuli suma þeirra?

10 Til undirbúnings hefndardegi sínum gegn hinum óguðlegu hefur Jehóva gefið undirhirða til að aðstoða góða hirðinn, Krist Jesú, við að annast hjörðina. Þeim er lýst í Opinberunarbókinni 1:16 sem fullkominni tölu ‚sjö stjarna‘ í hægri hendi Jesú. Á fyrstu öld ávarpaði Páll hóp þessara undirhirða, sem voru fulltrúar heildarinnar, og sagði: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.“ (Postulasagan 20:28) Núna þjóna tugþúsundir undirhirða í 69.557 söfnuðum um alla jörðina.

Undirhirðar til forystu

11. Hvernig hafa sumir hirðar tekið forystu með góðum árangri á svæðum þar sem oft er starfað?

11 Víða verða þessir undirhirðar að taka forystuna á svæðum sem oft hefur verið starfað gegnum á hinum síðustu dögum. Hvernig geta þeir viðhaldið góðum eldmóði meðal hjarðarinnar? Hirðarnir hafa gert það á hrósunarverðan hátt, og ein árangursrík leið er sú að hvetja til aðstoðarbrautryðjandastarfs og reglulegs brautryðjandastarfs. Margir hirðar hafa sjálfir tekið þátt í þessari þjónustu, og jafnvel þeir boðberar, sem hafa ekki getað gert það, hafa sýnt brautryðjandaanda og þjónað með gleði sem er góð leið til að vinna bug á áhugaleysi fólks á starfssvæðinu. (Sálmur 100:2; 104:33, 34; Filippíbréfið 4:4, 5) Þannig eru margir sauðumlíkir menn vaktir til vonarinnar um Guðsríki í heimi þar sem illska og allt að því stjórnleysi er allsráðandi. — Matteus 12:18, 21; Rómverjabréfið 15:12.

12. Hvaða alvarlegt vandamál er við að glíma þar sem vöxtur er mikill og hvernig er stundum tekið á því?

12 Annað vandamál er að oft skortir hæfa undirhirða til að gæta hjarðarinnar. Þar sem vöxturinn er ör, eins og í Austur-Evrópu, eru margir nýir söfnuðir án nokkurs útnefnds öldungs. Fúsir sauðir bera byrðina, en þeir eru óreyndir og hjálpar er þörf til að þjálfa sauðina sem streyma inn í söfnuðina. Í löndum svo sem Brasilíu, Mexíkó og Saír, þar sem vöxturinn er mjög ör, hafa tiltölulega ungir vottar verið notaðir til að skipuleggja þjónustuna og þjálfa aðra nýja. Brautryðjendur eru mikil hjálp og á þeim vettvangi geta systur þjálfað nýjar systur. Jehóva blessar árangur erfiðis þeirra með anda sínum. Aukningin heldur áfram. — Jesaja 54:2, 3.

13. (a) Um hvað ættu allir vottar að biðja þar eð uppskeran er svo mikil? (b) Hvernig var bænum þjóna Guðs svarað fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan hún stóð yfir?

13 Í löndum þar sem prédikunarstarfið stendur á gömlum merg, löndum þar sem hömlum hefur nýlega verið aflétt og á svæðum sem nýlega hafa opnast eru orð Jesú í Matteusi 9:37, 38 enn í fullu gildi: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Við þurfum líka að biðja Jehóva að vekja upp fleiri undirhirða. Hann hefur sýnt að hann getur það. Bæði fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan á henni stóð reyndu grimmir einræðisherrar, líkir Assýringum, að útrýma vottum Jehóva. En Jehóva svaraði bænum þeirra með því að fága skipulag þeirra, gera það guðræðislegt í reynd og sjá fyrir þeim ‚hirðum‘ sem þurfti. * Það var í samræmi við spádóminn: „Brjótist Assýringar inn í land vort og stígi þeir fæti á ættjörð vora, þá munum vér senda í móti þeim sjö hirða og átta þjóðhöfðingja“ — meira en nóg af dyggum öldungum til að taka forystuna. — Míka 5:4.

14. Hvaða brýn þörf er í skipulaginu og hvers eru bræður hvattir til?

14 Mikil þörf er á að allir skírðir karlmenn sækist eftir auknum sérréttindum. (1. Tímóteusarbréf 3:1) Þörfin er brýn. Endir þessa heimskerfis nálgast óðfluga. Habakkuk 2:3 segir: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. . . . hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ Bræður, getið þið lagt ykkur fram um að verða hæfir fyrir aukin sérréttindi í þessu hirðastarfi — áður en endirinn kemur? — Títusarbréfið 1:6-9.

Guðræðisleg fjárgæsla

15. Hvernig er þjóð Jehóva guðveldi?

15 Þjónar Jehóva þurfa að hafa guðræðisleg viðhorf til að eiga fulla hlutdeild í vexti skipulags hans. Hvernig geta þeir gert það? Nú, hvað er átt við með orðinu „guðræðislegur“? Webster’s New Twentieth Century Dictionary skilgreinir enska orðið theocracy, er merkir „guðræði, guðveldi,“ sem „stjórn Guðs yfir ríki.“ Það er í þessum skilningi sem „heilög þjóð“ Jehóva er guðveldi. (1. Pétursbréf 2:9; Jesaja 33:22) Sem meðlimir eða félagar þeirrar guðræðislegu þjóðar verða sannkristnir menn að lifa og þjóna í hlýðni við orð Guðs og meginreglur þess.

16. Hvernig getum við í grundvallaratriðum sýnt okkur guðræðisleg?

16 Páll postuli sýnir greinilega hvernig kristnir menn ættu að vera guðræðislegir. Fyrst, segir hann, eiga þeir að „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ Persónuleiki kristins manns verður að mótast eftir réttlátum meginreglum Guðs sem fram eru settar í orði hans. Hann verður að vera trúr Jehóva og lögum hans. Eftir að Páll hefur sýnt fram á hvernig hægt er að gera það hvetur hann: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 4:24-5:1) Við verðum, eins og hlýðin börn, að líkja eftir Guði. Það er guðræði í reynd þegar við sýnum að við látum Guð stjórna okkur í raun og veru. — Sjá einnig Kólossubréfið 3:10, 12-14.

17, 18. (a) Hvaða áberandi eiginleika Guðs líkja guðræðislegir kristnir menn eftir? (b) Hvernig lagði Jehóva áherslu á höfuðeiginleika sinn í orðum sínum til Móse en hvaða viðvörun bætti hann við?

17 Hvaða höfuðeiginleika Guðs ættum við að líkja eftir? Jóhannes postuli svarar í 1. Jóhannesarbréfi 4:8 og segir: „Guð er kærleikur.“ Átta versum síðar, í 16. versi, endurtekur hann þessa mikilvægu meginreglu: „Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.“ Hirðirinn mikli, Jehóva, er persónugervingur kærleikans. Guðræðislegir hirðar líkja eftir honum með því að bera djúpan kærleika til sauða Jehóva. — Samanber 1. Jóhannesarbréf 3:16, 18; 4:7-11.

18 Guðvaldurinn mikli opinberaði sig Móse sem „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Þannig leggur Jehóva áherslu á hina ýmsu þætti þessa frábæra, guðræðislega eiginleika, kærleikans, en varar jafnframt eindregið við því að hann refsi fyrir misgerðir þegar það er verðskuldað.

19. Hvernig ættu kristnir hirðar að hegða sér á guðræðislegan hátt, ólíkt faríseunum?

19 Hvað merkir það að vera guðræðislegur fyrir þá sem gegna ábyrgðarstöðu í skipulaginu? Jesús sagði um fræðimenn og farísea sinnar samtíðar: „Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.“ (Matteus 23:4) Hvílík harðýðgi og kærleiksleysi! Ósvikið guðræði útheimtir að hjarðarinnar sé gætt með því að fara eftir kærleiksríkum meginreglum Biblíunnar, ekki með því að íþyngja sauðunum með endalausum mannareglum. (Samanber Matteus 15:1-9.) Guðræðislegir hirðar verða jafnframt að líkja eftir Guði með því að láta festu í því að halda söfnuðinum hreinum vera samtaka kærleika sínum. — Samanber Rómverjabréfið 2:11; 1. Pétursbréf 1:17.

20. Hvaða skipulagsráðstafanir viðurkenna guðræðislegir hirðar?

20 Sannir hirðar viðurkenna að núna á síðustu dögum hefur Jesús sett trúan og hygginn þjón sinn yfir allar eigur sínar og að heilagur andi hefur leiðbeint þessum þjóni við útnefningu öldunga til að gæta hjarðarinnar. (Matteus 24:3, 47; Postulasagan 20:28) Þess vegna fela guðræðisleg viðhorf í sér að bera djúpa virðingu fyrir þessum þjóni, fyrir þeim skipulagsráðstöfunum sem þjónninn hefur gert og fyrir öldungafyrirkomulaginu innan safnaðarins. — Hebreabréfið 13:7, 17.

21. Hvaða gott fordæmi gaf Jesús undirhirðum?

21 Jesús gaf sjálfur gott fordæmi og leitaði alltaf leiðsagnar hjá Jehóva og í orði hans. Hann sagði: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ (Jóhannes 5:30) Undirhirðar Drottins Jesú Krists ættu að tileinka sér áþekkt, auðmjúkt hugarfar. Ef öldungur leitar alltaf leiðsagnar í orði Guðs, eins og Jesús gerði, þá er hann í sannleika guðræðislegur. — Matteus 4:1-11; Jóhannes 6:38.

22. (a) Hvernig ættu allir að kappkosta að vera guðræðislegir? (b) Hvaða vinsamlegt boð gefur Jesús sauðum sínum?

22 Þið sem eruð skírðir karlmenn, sækist eftir því að verða hæfir til að gegna sérréttindum í söfnuðinum. Allir þið hinir ástkæru sauðir, keppið að því að vera guðræðislegir og líkið eftir Guði og Kristi í því að sýna kærleika. Megi bæði hirðar og hjörð fagna því að hafa þegið boð Jesú: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinar undir titlinum „Skipulag“ í Varðturninum þann 1. og 15. júní, 1938.

Getur þú svarað?

◻ Hver er „hjörð“ Jehóva og hverja innifelur hún?

◻ Hvernig kom Jesús fram sem „góði hirðirinn“ á fyrstu öld og hvernig gerir hann það núna?

◻ Hvaða lykilhlutverki gegna undirhirðarnir í því að annast hjörðina?

◻ Hver er grunnmerking hugtaksins „guðræði“?

◻ Hvernig ætti kristinn maður — einkum undirhirðir — að hegða sér til að vera guðræðislegur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Eins og umhyggjusamur fjárhirðir annast Jehóva hjörð sína.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Að líkja eftir kærleika Guðs er guðræði í verki.