Gleðjumst yfir okkar mikla Skapara
Gleðjumst yfir okkar mikla Skapara
„Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.“ — SÁLMUR 149:2.
1. Hvernig er mannkynið raunverulega á vegi statt, þrátt fyrir að fólk hrópi „loksins frelsi“?
ÖRÐUG vandamál, einna líkust ‚fæðingarhríðum,‘ þjaka heim nútímans. Það var þannig sem Jesús lýsti ástandinu í spádómi sínum um ‚endi veraldar,‘ þá miklu umbrotatíma sem hófust með fyrri heimsstyrjöldinni árið 1914. (Matteus 24:3-8) Margir stjórnmálamenn sjá ekkert annað en myrkur og sorta í framtíðinni. Þrátt fyrir að fólk í Austur-Evrópu hrópi „loksins frelsi“ lýsti fyrrverandi forseti á því svæði ástandinu í hnotskurn er hann sagði: „Offjölgun mannkyns og gróðurhúsaáhrifin, götin í ósonlaginu og alnæmið, hættan á að hryðjuverkamenn beiti kjarnavopnum og ört breikkandi bil milli hinna ríku í norðri og hinna fátæku í suðri, hættan á hungursneyð, eyðing lífhvolfsins og auðlinda jarðar, vaxandi áhrif viðskiptaheimsins gegnum sjónvarp á hugmyndir og viðhorf þjóðfélagsins og aukin hætta á svæðisbundnum styrjöldum — mannkyninu stafar veruleg ógn af öllu þessu og þúsundum annarra atriða.“ Enginn mannlegur máttur getur bægt frá þessari hættu sem ógnar tilveru mannkyns. — Jeremía 10:23.
2. Hver hefur varanlega lausn á vandamálum mannkyns og hvaða skref hefur hann nú þegar stigið?
2 Við getum hins vegar glaðst yfir því að okkar mikli skapari skuli hafa varanlega lausn á vandanum. Í spádómi Jesú eru ‚endalok heimskerfisins‘ tengd ósýnilegri „nærveru“ hans. (Matteus 24:3, 37-39, NW) Jehóva setti Jesú í hásæti sem Messíasarkonung til að skapa ‚nýjan himin.‘ Spádómarnir og uppfylling þeirra sýnir að þessi sögufrægi atburður átti sér stað á himnum árið 1914. * (2. Pétursbréf 3:13) Sem meðstjórnanda hins alvalda Drottins Jehóva er Jesú núna falið að dæma þjóðirnar og aðgreina auðmjúka, sauðumlíka menn á jörðinni frá þrjóskum mönnum sem líkt er við geithafra. Hinir óguðlegu ‚hafrar‘ eru merktir til „eilífrar refsingar“ eða eyðingar en ‚sauðirnir‘ til eilífs lífs á jarðnesku yfirráðasvæði ríkisins. — Matteus 25:31-34, 46.
3. Hvaða ástæðu hafa sannkristnir menn til að fagna?
3 Leifar hins andlega Ísraels á jörðinni, núna í félagi við mikinn múg þessara hlýðnu sauða, hafa ærið tilefni til að gleðjast yfir Jehóva, konungi eilífðarinnar, er hann fullnar tilgang sinn fyrir milligöngu ríkis sonar síns. Þeir geta sagt: „Ég gleðst yfir [Jehóva], sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins . . . eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi [Jehóva] láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.“ (Jesaja 61:10, 11) Þessi „spretta“ birtist í þeim milljónum sem er verið að safna núna út úr þjóðunum til að syngja Jehóva lof.
Starfinu ‚hraðað‘
4, 5. (a) Hvernig var samansöfnun þjóna Guðs sögð fyrir? (b) Hvaða einstæð aukning átti sér stað á þjónustuárinu 1992?
4 Samansöfnunin verður því hraðari sem nálgast endalok heimskerfis Satans. Okkar mikli skapari lýsir yfir: „Og lýður þinn — þeir eru allir réttlátir . . . þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með. Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:21, 22) Þessi hröðun kemur glögglega fram í þjónustuskýrslu votta Jehóva um árið 1992 sem birtist í flestum erlendum útgáfum þessa tímarits þann 1. janúar 1992 bls. 12 til 15.
5 Hið nýja boðberahámark, 4.472.787, er einstakt. Aukningin nemur 193.967 sem svarar til 4,5 prósenta fleiri boðbera Guðsríkis en árið áður. Tala skírðra árið 1992 var 301.002 og hefur aldrei verið hærri. Hún endurspeglar þá staðreynd að fólk tekur við sannleika Biblíunnar hópum saman. Það gleður okkur sannarlega að á þessum ‚degi myrkurs og dimmu‘ skuli „mikil og voldug þjóð,“ sem er fjölmenn eins og engisprettusveimur, bera Guðsríki vitni „til endimarka jarðarinnar.“ (Jóel 2:2, 25; Postulasagan 1:8) Allt frá hinu kalda Alaska, þar sem flugvél Varðturnsfélagsins hefur farið yfir 50 ferðir til snjótepptra landsvæða, til sviðinna eyðimarka Malí og Búrkína Fasó og hinna dreifðu eyja Míkrónesíu, skína þjónar Jehóva eins og ‚ljós fyrir þjóðirnar, svo þeir séu hjálpræði hans til endimarka jarðarinnar.‘ — Jesaja 49:6.
6, 7. Hvaða óvæntar breytingar hafa átt sér stað á síðustu árum og hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við þeim?
6 Jehóva hefur verið eins og vígi og sterkur turn til verndar og viðhalds fólki sínu. Víðsvegar um jörðina hafa vottar Jehóva mátt þola áratugalanga, grimmilega kúgun og ofsóknir. (Sálmur 37:39, 40; 61:4, 5) En nýverið, eins og fyrir kraftaverk, hefur hömlum og hindrunum verið aflétt í 21 landi þannig að þjónar Guðs geta núna boðað tálmunarlaust að okkar mikli skapari hafi sett Krist sem konung yfir allri jörðinni. — Sálmur 2:6-13.
7 Nota þjónar Jehóva hið nýfengna frelsi sitt vel? Taktu eftir þeirri aukningu sem tilgreind er í skýrslunni um Búlgaríu, Rúmeníu og fyrrum Sovétríkin, svo og um Angóla, Benín og Mósambík í Afríku. Aukningin í Saír hefur líka verið einstök. Með gleði í hjörtum svara bræður okkar, sem hafa hlotið frelsi, kallinu: „Þakkið [Jehóva], því að hann er góður, . . . honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu.“ (Sálmur 136:1, 4) Þessar þakkir birtast í kostgæfri þjónustu við samansöfnun annarra sauðumlíkra manna til fylgis við Guðsríki.
8. Hvernig hafa nýir dýrkendur Jehóva komið „fljúgandi eins og ský“ í Austur-Evrópu? Í Afríku?
8 Aðsóknin að mótum þjóna Jehóva í fyrrverandi kommúnistaríkjum Evrópu síðastliðið sumar var með eindæmum. Fjöldi skírðra var þó enn undraverðari eins og skýrslan ber með sér. Svipað átti sér stað í Tógó í Afríku þar sem banni var aflétt þann 10. desember 1991. Í mánuðinum á eftir var haldið landsmót. Mánaðarlegt boðberameðaltal var þá 6443 en aðsókn að mótunum rauk upp í 25.467 og 556 létu skírast — 8,6 prósent boðbera. Eins og Jesaja 60:8 lýsir koma þessir nýju dýrkendur Jehóva „fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna“ í söfnuðum þjóna Jehóva.
9. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að kristnir menn í löndum, þar sem nýlega hefur fengist frelsi, geti ‚etið og mettast‘?
9 Hungur manna í Austur-Evrópu og Afríku í andlega fæðu er einnig satt. Prentsmiðjur Varðturnsfélagsins í Þýskalandi, Ítalíu og Suður-Afríku hafa sent fjölmarga bílfarma af ritum á mörgum tungumálum til andlega sveltandi landa. Áður þurftu margir vottar að láta útslitin tímarit ganga frá manni til manns en núna fá þeir nægtir andlegrar fæðu. Þeir fagna því að eiga hlutdeild í uppfyllingu spádómsins: „Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn [Jehóva], Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört.“ — Jóel 2:26.
Búið í haginn fyrir frekari aukningu
10. Hvað er öllum áhugasömum boðið, í ljósi hinnar miklu aðsóknar að minningarhátíðinni?
10 Aðsóknin að minningarhátíðinni um dauða Jesú um allan heim er sannarlega undraverð, en hún var 11.431.171 sem var 781.013 eða 7,3 prósentum fleiri en árið á undan. Verið velkomnir, allir þið hinir nýju! Gott væri ef allir slíkir, sem hafa nýlega sýnt áhuga, gætu notið góðs af heimabiblíunámi með einum af vottum Jehóva. (Sjá Jesaja 48:17.) Þjónustuskýrsla ársins sýnir að 4.278.068 slík námskeið voru haldin í hverjum mánuði sem er 8,4 prósenta aukning milli ára. Margir fleiri gætu þó notfært sér þessa þjónustu. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að koma reglulega til áhugasamra og nema Biblíuna ókeypis með þeim á þeirra eigin heimili, og hjálpa þeim þannig að ná góðri fótfestu á veginum til eilífs lífs. (Jóhannes 3:16, 36) Hví ekki að biðja um slíkt nám? Og mundu að þér er alltaf tekið tveim höndum í ríkissalnum! — Sálmur 122:1; Rómverjabréfið 15:7.
11, 12. (a) Hvaða vandamál er við að glíma í sumum löndum? (b) Á hvaða hátt á sér stað „jöfnuður“ milli auðugari og fátækari ríkja?
11 Það er mikil blessun fyrir söfnuð að hafa góðan ríkissal til umráða. Svo er þó ekki í þeim löndum þar sem trúfastir vottar hafa haldið út um langt árabil undir banni og komið saman með leynd í smáum hópum. Víða, þar sem svo háttar til, eru vottarnir frjálsir núna en hafa fáa ríkissali. Í einu Afríkulandi eru til dæmis 93 söfnuðir en aðeins þrír ríkissalir. Samkomur eru því venjulega haldnar á stórum, auðum landspildum. Oft sækja allt að 450 manns samkomur reglulega hjá 150 boðbera söfnuðum.
12 Í Austur-Evrópu er víða erfitt að kaupa fasteign eða byggja en þó hefur nokkuð áunnist. Áformað var að vígja vandað, nýtt húsnæði fyrir útibú félagsins í Póllandi þann 28. nóvember 1992. Rausnarleg framlög til alþjóðastarfs votta Jehóva eru notuð til að hjálpa bræðrum að byggja ríkissali og útbúa aðstöðu af öðru tagi. Þannig verður „jöfnuður“ þegar bræður, sem hafa efnislega „gnægð,“ gefa af örlæti sínu til að stuðla að því að andlegum þörfum safnaðanna í þeim löndum, sem verr eru sett, sé fullnægt. — 2. Korintubréf 8:13, 14.
Einn milljarður klukkustunda!
13. Hve margar stundir voru notaðar til prédikunar og kennslu árið 1992 og framlag hverra endurspeglar þessi tala?
13 Hvernig myndir þú nota einn milljarð klukkustunda? Allir sem hljóta eilíft líf munu geta notað þetta margar klukkustundir, og enn fleiri en það, til gefandi og ánægjulegrar þjónustu við Jehóva. En hugsaðu þér að þjappa svona mörgum klukkustundum saman í eitt ár! Það er það sem þjónum Jehóva tókst árið 1992. Þegar lagðar eru saman starfsskýrslur allra boðbera Guðsríkis kemur í ljós nýtt met, 1.024.910.434, í tölu stunda sem notaðar voru á besta hátt sem hugsast getur — til að lofsyngja okkar mikla skapara og ‚kenna opinberlega og í heimahúsum.‘ (Postulasagan 20:20) Að meðaltali gáfu 4.290.057 vottar skýrslu í hverjum mánuði. Þeir eru af öllum stigum þjóðfélagsins. Sumir hafa takmarkaðan tíma til að leggja af mörkum í starfi Guðsríkis. Þar má nefna fjölskyldufeður sem hafa fyrir heimili að sjá, aldraða og marga sem eiga við heilsuvandamál að stríða, svo og börn sem enn eru í skóla. Eigi að síður endurspeglar skýrsla hvers og eins kærleika til Jehóva og er metin sem slík. — Samanber Lúkas 21:2-4.
14. Hvernig sýnir unga fólkið að það ‚man eftir skapara sínum‘?
14 Ung kynslóð er að vaxa upp í þjónustu Jehóva og til allrar hamingju fer langstærstur hluti hennar eftir orðum Salómons í Prédikaranum 12:1: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ Þetta unga fólk leggur sig fram við skólanám sitt og hlýtur jafnframt þjálfun guðrækinna foreldra í andlegum málum. Það hefur verið gleðilegt að sjá vænan hóp unglinga rísa úr sætum á undanförnum mótum og bjóða sig fram til skírnar. Það er líka gleðilegt að vita að margir eru, með því að læra einhverja iðn eða fag, að undirbúa sig á raunhæfan hátt fyrir brautryðjandastarf að skólagöngu lokinni. Þannig geta þeir séð fyrir sér eins og Páll postuli gerði, en hann sá sér farborða öðru hverju með tjaldsaumi. — Postulasagan 18:1-4.
15, 16. Hvernig hafa brautryðjendur og aðrir þjónar Guðs í fullu starfi stuðlað að framgangi starfs Guðsríkis og hvaða blessun hafa sumir þeirra hlotið?
15 Brautryðjendurnir og aðrir þjónar Guðs í fullu starfi leggja gríðarlega mikið af mörkum til framgangs starfi Guðsríkis. Brautryðjendum fjölgaði upp í 931.521 á síðasta ári þegar þeir voru flestir, en það er nýtt met. Með því að prédika daglega hús úr húsi og nema Biblíuna með fólki á heimilum þess verða þeir mjög leiknir í að tjá sig um Ritninguna. Margir hafa enn fremur orðið hæfir til að sækja Þjónustuskóla brautryðjenda. Þetta tveggja vikna námskeið hjálpar þeim að auka færni sína og gleði í því að vinna verk Guðs.
16 Einn og sérhver þessara trúföstu brautryðjenda getur tekið undir orðin í Jesaja 50:4: „Hinn alvaldi [Jehóva] hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum.“ Þeir eru margir sem eru orðnir þreyttir á hinum spillta heimi umhverfis sig en sækja hressingu í orð af munni hinna trúföstu brautryðjenda okkar. — Samanber Orðskviðina 15:23; Esekíel 9:4.
Stórfelldar byggingaframkvæmdir
17. Hvaða efnisleg uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum, auk andlegrar uppbyggingar?
17 Hin andlega velmegun votta Jehóva um allan heim kallar líka á efnislegan vöxt. Nauðsynlegt reynist að stækka prentsmiðjur, skrifstofur og Betelheimili og reisa ríkissali og mótshallir. Vottar Jehóva þurfa því að sinna verklegum byggingaframkvæmdum. Áþekkt byggingastarf átti sér stað á dögum Salómons konungs. Salómon reisti musteri til tilbeiðslu á Jehóva samkvæmt „byggingaruppdrætti . . . sem honum hafði borist vegna innblásturs,“ en Davíð faðir hans hafði fengið hann frá Jehóva. (1. Kroníkubók 28:11, 12, NW) Þannig uppbyggði Salómon ekki aðeins áheyrendur sína með ómetanlegum vísdómsorðum heldur stýrði líka efnislegum byggingaframkvæmdum er sköruðu fram úr því sem heimurinn hefur nokkurn tíma getað framkvæmt. — 1. Konungabók 6:1; 9:15, 17-19.
18, 19. (a) Hvaða fljótvirkum byggingaframkvæmdum stendur skipulag Jehóva í? (b) Hvernig hefur stuðningur anda Jehóva birst bæði í efnislegri og andlegri uppbyggingu?
18 Nú á dögum byggja vottar Jehóva ekki eftir byggingaruppdráttum innblásnum af Guði en þeir hafa samt sem áður anda Guðs. Eins og á dögum Ísraels kemur þessi andi þeim til að byggja á þann hátt að fólk í heiminum undrast. (Sakaría 4:6) Tíminn er naumur. Ríkissali og aðrar byggingar vantar án tafar. Í sumum löndum er daglegt brauð að ríkissalir séu reistir á fáeinum dögum. Síðastliðin 10 ár hafa til dæmis verið byggðir 306 salir í Kanada, allir á tæplega tveim dögum. Vegna hins öra vaxtar í starfi Jehóva um heim allan eru alls 43 ný útibú eða viðbætur við útibú Félagsins annaðhvort í byggingu eða á teikniborðinu. Einnig er verið að ljúka við 30 hæða íbúðabyggingu í Brooklyn sem hýst getur um þúsund Betelsjálfboðaliða. Í Patterson í New Yorkríki er biblíufræðslumiðstöð í byggingu, stærsta framkvæmd sem Varðturnsfélagið hefur nokkru sinni ráðist í, og er verkið langt á undan áætlun.
19 Þessar framkvæmdir eru unnar af slíkri skilvirkni og í slíkum gæðaflokki að byggingafyrirtæki í fremstu röð í heiminum undrast. Hvers vegna? Vegna hins mikla framlags vígðra votta Jehóva. Andi hans knýr þá ekki aðeins til að gefa af efnum sínum til stuðnings framkvæmdunum heldur líka til að gefa af öllu hjarta af tíma sínum og kröftum. Byggingastaðirnir mora af reyndum verkamönnum sem hafa helgað krafta sína þessu verki. Þar eru engin verkföll og enginn slæpist við vinnuna. Andi Jehóva knýr menn til verka alveg eins og hann knúði þá sem gerðu tjaldbúðina á dögum Móse og þá sem reistu musterið á dögum Salómons. Sá eiginleiki, sem fyrst og fremst er krafist af þessum verkamönnum, er andlegt hugarfar. — Samanber 2. Mósebók 35:30-35; 36:1-3; 39:42, 43; 1. Konungabók 6:11-14.
20. (a) Í hvaða mæli á enn eftir að prédika fagnaðarerindið? (b) Hvaða blessunarrík framtíð bíður þjóna Jehóva?
20 Salómon hélt byggingaframkvæmdum sínum áfram eftir að musterinu var lokið. (2. Kroníkubók 8:1-6) Við vitum ekki í hvaða mæli nútímavottum Jehóva á eftir að fjölga með tilsvarandi þörf fyrir ríkissali og aðra aðstöðu. Við vitum þó að þegar fagnaðarerindið um ríkið hefur verið prédikað í þeim mæli sem Jehóva ákveður mun endirinn, ‚þrengingin mikla,‘ koma. (Matteus 24:14, 21) Á jörð sem ágjarnir menn fá ekki lengur að eyða mun ‚nýr himinn og ný jörð‘ Jehóva færa mannkyni ótaldar blessanir. Megum við þess vegna ‚gleðjast og fagna ævinlega yfir því sem Guð skapar‘ og lofa okkar mikla skapara fyrir. — Jesaja 65:17-19, 21, 25.
[Neðanmáls]
^ Sjá bókina „Let Your Kingdom Come,“ útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 105-16, 186-9.
Getur þú svarað?
◻ Hvaða ástæður höfum við til að gleðjast yfir okkar mikla skapara?
◻ Hvaða aukning átti sér stað á þjónustuárinu 1992?
◻ Hvaða ríkulega blessun hafa þjónar Jehóva hlotið í löndum þar sem starfið var áður bannað?
◻ Hvernig hafa unglingar og brautryðjendur stuðlað að aukningu í skipulagi Jehóva?
◻ Hvernig hafa þjónar Jehóva verið uppteknir bæði af efnislegri og andlegri uppbyggingu?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíð 13]
Síðastliðið ár var eytt yfir milljarði klukkustunda til að prédika og kenna.
[Mynd á blaðsíð 10]
Þau hundruð þúsunda, sem létu skírast á síðasta ári, bera vitni um blessun Jehóva yfir prédikun og kennslu þjóna sinna.
[Mynd á blaðsíð 12]
Mikill fjöldi ungs fólks sýnir að það ‚man eftir skapara sínum.‘