Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafnaðu veraldlegum draumórum, kepptu eftir veruleika guðsríkis

Hafnaðu veraldlegum draumórum, kepptu eftir veruleika guðsríkis

Hafnaðu veraldlegum draumórum, kepptu eftir veruleika guðsríkis

„Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — MATTEUS 6:33.

1. Hvaða viðvörun gefur orð Guðs varðandi hið táknræna hjarta og hver er ein helsta leið þess til að blekkja okkur?

 „VARÐVEIT hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) Hvers vegna þurfti Salómon konungur að gefa þessa viðvörun? Vegna þess að „svikult er hjartað fremur öllu öðru.“ (Jeremía 17:9) Einhver helsta leið hins táknræna hjarta til að blekkja okkur er að koma okkur til að sökkva okkur ofan í veraldlega draumóra. En hvað eru draumórar? Þeir eru óraunhæfar ímyndanir, dagdraumar, það að láta hugann reika stefnulaust. Þegar þessir dagdraumar verða að veraldlegum draumórum eru þeir ekki bara tímasóun heldur líka mjög skaðlegir. Þess vegna verðum við að hafna þeim algerlega. Reyndar munum við, ef við hötum lögleysu eins og Jesús gerði, varðveita hjartað gegn því að sökkva sér niður í veraldlega draumóra. — Hebreabréfið 1:8, 9.

2. Hvað eru veraldlegir draumórar og hvers vegna ættum við að hafna þeim?

2 En hvað eru veraldlegir draumórar? Þeir eru draumórar sem eru einkennandi fyrir þennan heim er Satan ræður yfir. Um hann skrifaði Jóhannes postuli: „Allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:16; 5:19) Hvers vegna verða kristnir menn að hafna veraldlegum draumórum? Vegna þess að slíkir draumórar vekja upp eigingjarnar langanir í huganum og hjartanu. Að láta sig dreyma dagdrauma um það sem er rangt getur í raun verið æfing í huganum fyrir það sem einstaklingurinn á eftir að gera. Lærisveinninn Jakob aðvarar okkur: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ — Jakobsbréfið 1:14, 15.

Fordæmi til viðvörunar

3. Hvert er besta dæmið til viðvörunar um skaðsemi eigingjarnra draumóra?

3 Við skulum skoða fáein dæmi sem sýna hvers vegna við verðum að hafna veraldlegum draumórum. Satan djöfullinn er eitt skýrasta dæmið um það tjón sem getur hlotist af því að sökkva sér niður í eigingjarna draumóra. Hann leyfði slíku mikillæti að vaxa í hjarta sér að hann tók að öfunda Jehóva af einstæðri stöðu hans sem drottinvaldur alheimsins og tók að girnast tilbeiðslu. (Lúkas 4:5-8) Óraunsæir draumórar? Svo sannarlega! Það verður sannað umfram allan vafa þegar Satan verður bundinn um þúsund ár og sérstaklega þegar honum verður kastað í ‚eldsdíkið‘ sem er hinn annar dauði. — Opinberunarbókin 20:1-3, 10.

4. Hvernig blekkti Satan Evu?

4 Við höfum annað dæmi til viðvörunar, fyrstu konuna, Evu. Satan notaði Evu sem leið til að reyna að fullnægja metnaðarlöngun sinni og tældi hana með því að koma þeim draumórum inn hjá henni að hún myndi ekki deyja ef hún æti forboðna ávöxtinn, heldur myndi hún verða eins og Guð og vita sjálf hvað væri gott og illt. Voru þessir draumórar óraunsæir, eigingjarnir? Já, það voru þeir eins og sjá má af því hvernig Jehóva fordæmdi Evu og mann hennar, Adam, þegar hann hélt dóm yfir þeim. Afleiðingin var sú að þau glötuðu réttinum til að lifa í paradís, bæði handa sjálfum sér og öllum ófullkomnum afkomendum sínum. — 1. Mósebók 3:1-19; Rómverjabréfið 5:12.

5. Hvað olli því að sumir englasynir Guðs féllu og hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá?

5 Sumir englasynir Guðs eru einnig fordæmi til viðvörunar. (1. Mósebók 6:1-4) Í stað þess að vera ánægðir með þá blessun sem þeir nutu, að vera í návist Jehóva á himnum, gerðu þeir sér upp draumóra um konur á jörðinni og hversu ánægjulegt það væri að eiga kynmök við þær. Þar eð þessir óhlýðnu englar gerðu alvöru úr draumórum sínum eru þeir núna innilokaðir í andlegu myrkri, í Tartarus, og bíða þess að þeir verði afmáðir í lok þúsundáraríkis Jesú Krists. — 2. Pétursbréf 2:4; Júdasarbréfið 6; Opinberunarbókin 20:10.

Hafnaðu veraldlegum draumórum

6, 7. Hvers vegna eru veraldlegir draumórar um efnislegan auð skaðlegir og villandi?

6 Við skulum nú íhuga eina algengustu og hættulegustu draumórana sem Satan ýtir undir. Í gegnum alls konar fjölmiðla er okkar freistað til að sökkva okkur niður í veraldlega draumóra. Þeir eru oft sprottnir af löngun í auð og efni. Í sjálfu sér er ekkert rangt við það að vera efnaður. Guðræknir menn, svo sem Abraham, Job og Davíð konungur, voru mjög auðugir, en þeir girntust ekki efnisleg auðævi. Draumórar um efnislega hluti koma fólki til að vinna þrotlaust svo árum skiptir til að afla sér auðs. Slíkir draumórar koma þeim líka til að leggja stund á alls konar fjárhættuspil eins og veðreiðar og happdrætti. Við skulum ekki ganga með einhverja tálsýn um það að vera ríkur. Ef við höldum að efnislegur auður tryggi öryggi okkar skulum við íhuga þennan raunsæja orðskvið: „Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.“ (Orðskviðirnir 11:4) Efnislegur auður nýtist ekki við að komast í gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ — Matteus 24:21; Opinberunarbókin 7:9, 14.

7 Efnislegir fjármunir geta hæglega blekkt okkur. Þess vegna er okkur sagt: „Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur í sjálfs hans ímyndun.“ (Orðskviðirnir 18:11) Já, aðeins „í sjálfs hans ímyndun“ því að efnislegur auður veitir litla vernd á tímum óðaverðbólgu, efnahagshruns, pólitískra umbrota eða banvæns sjúkdóms. Jesús Kristur varaði menn við þeirri flónsku að treysta á efnislegan auð. (Lúkas 12:13-21) Við höfum líka varnaðarorð Páls postula: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:10.

8. Hversu útbreiddir eru kynferðislegir draumórar og hvaða hætta stafar af þeim?

8 Aðrir draumórar tengjast oft óleyfilegu kynlífi. Að syndugt eðli mannsins þrái að gæla við kynferðislega draumóra sést af vinsældum þess sora sem fæst með því að hringja í ákveðin símanúmer til að hlusta á klámfengið efni. Í Bandaríkjunum er það atvinnugrein sem veltir milljörðum dollara á ári. Væri það ekki hræsni að virðast út á við hreinir kristnir menn en láta hugann í raun dvelja við óleyfilegt kynlíf? Og er ekki hætta á að slíkir draumórar leiði til siðlausra athafna? Það hefur gerst og hefur orðið þess valdandi að sumum hefur verið vikið úr kristna söfnuðinum fyrir saurlifnað eða hjúskaparbrot. Eru ekki allir sem láta hugann þráfaldlega dvelja við slíka draumóra að drýgja hór í hjarta sínu, í ljósi orða Jesú í Matteusi 5:27, 28?

9. Hvaða góð ráð inniheldur Ritningin til að vara okkur við veraldlegum draumórum?

9 Við þurfum að hafa aðvörun Páls í huga til að berjast gegn þeirri tilhneigingu syndugra hjartna okkar að sökkva sér ofan í slíka draumóra: „Enginn skapaður hlutur er honum [Guði] hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ (Hebreabréfið 4:13) Við ættum öllum stundum að vilja vera eins og Móse sem „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Já, við verðum sýknt og heilagt að segja við sjálfa okkur að veraldlegir draumórar séu vanþóknanlegir Jehóva og geti einungis orðið okkur til tjóns. Við verðum að láta okkur umhugað um að rækta alla ávexti anda Guðs, einkanlega sjálfstjórn, því að við fáum ekki umflúið þá staðreynd að ef við sáum í holdið munum við uppskera spillingu af holdinu. — Galatabréfið 5:22, 23; 6:7, 8.

Veruleiki Guðsríkis

10, 11. (a) Hvaða staðreyndir rökstyðja tilveru skaparans? (b) Hvað sannar að Biblían er í raun orð Guðs? (c) Hvaða sönnunargögn eru fyrir því að konungur Guðsríkis sé raunverulegur?

10 Besta leiðin til að hafna veraldlegum draumórum er sú að keppa eftir veruleika Guðsríkis. Öll þau atriði, sem flokkast undir veruleika Guðsríkis og eru verk Guðs, eru alger andstæða veraldlegra draumóra. Er Guð veruleiki? Enginn vafi leikur á tilvist hans. Hin sýnilega sköpun ber vitni um þá staðreynd. (Rómverjabréfið 1:20) Við erum minnt á það sem sagt var fyrir liðlega hundrað árum í bókinni The Divine Plan of the Ages, gefin út af Varðturnsfélaginu. Þar sagði: „Sá sem horft getur út í himingeiminn með sjónauka eða jafnvel með berum augum og séð þar óendanleik sköpunarverksins, formfegurð þess, reglu, samstillingu og fjölbreytileik, og efast eigi að síður um að skapari alls þessa sé honum óendanlega æðri bæði í visku og mætti, eða lætur sér detta í hug eitt andartak að slík regla hafi myndast af tilviljun, án skapara, hefur misst eða sniðgengið rökhyggju sína í slíkum mæli að réttilega má kalla hann það sem Biblían kallar hann, heimskingja (þann sem skortir eða sniðgengur skynsemi).“ — Sálmur 14:1.

11 Við lærum allt um Guðsríki í heilagri Biblíu. Er Biblían í raun og veru ritað orð Guðs? Hún er það svo sannarlega eins og sjá má af samræmi hennar, vísindalegri nákvæmni, krafti hennar til að breyta lífi fólks og ekki síst af uppfyllingu spádóma hennar. * Hvað um konung Guðsríkis, Jesú Krist? Var hann til í raun og veru? Frásagnir guðspjallanna og hin innblásnu bréf kristnu Grísku ritninganna eru samhljóða í skýrum og ítarlegum vitnisburði þess að Jesús Kristur hafi verið sannsöguleg persóna. Talmúð Gyðinga ber einnig vitni um að Jesús hafi verið til en þar er talað um hann sem persónu. Hið sama gera sagnaritarar Gyðinga og Rómverja á fyrstu öld.

12, 13. Hvaða staðreyndir bera vitni um að Guðsríki sé veruleiki?

12 Hvað um veruleika sjálfs Guðsríkis? Að mestu leyti gefur kristni heimurinn því engan gaum eins og glöggt má sjá af kvörtun kunns öldungakirkjumanns: „Það eru örugglega yfir þrjátíu ár síðan ég hef heyrt prest reyna að skýra fyrir sóknarbörnum sínum að Guðsríki sé raunverulegt.“ Samt sem áður er stefið í orði Guðs það að nafn Jehóva verði helgað fyrir atbeina ríkis hans. Guð gaf sjálfur fyrsta fyrirheitið um Guðsríki er hann sagði: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Ísraelsþjóðin, einkum á dögum Salómons konungs, var táknmynd Guðsríkis. (Sálmur 72) Enn fremur var Guðsríki stefið í prédikun Jesú. (Matteus 4:17) Hann lagði áherslu á það í mörgum dæmisögum og líkingum sínum, svo sem í Matteusi 13. kafla. Jesús sagði okkur að biðja um Guðsríki og halda áfram að leita þess fyrst. (Matteus 6:9, 10, 33) Minnst er á Guðsríki hátt í 150 sinnum í kristnu Grísku ritningunum.

13 Guðsríki er raunveruleg stjórn sem hefur mátt og vald og það mun uppfylla allar réttmætar væntingar. Það hefur sín eigin lög sem er að finna í Biblíunni. Fyrir tilstuðlan Guðsríkis hefur margt nú þegar orðið að veruleika. Það á sér drottinholla þegna — yfir 4.400.000 votta Jehóva. Í 229 löndum prédika þeir fagnaðarerindið um Guðsríki til uppfyllingar Matteusi 24:14. Á þjónustuárinu 1992 vörðu þeir 1.024.910.434 klukkustundum til að prédika boðskapinn um Guðsríki. Þetta starf skilar áþreifanlegum, varanlegum árangri er mikill fjöldi manna lærir hið ‚hreina tungumál‘ sem er sannleikur Biblíunnar. — Sefanía 3:9, NW.

Keppt eftir veruleika Guðsríkis

14. Hvernig getum við haft meiri mætur á veruleika Guðsríkis?

14 Hvernig getum við þá keppt eftir veruleika Guðsríkis? Von okkar verður að byggjast á sterkri sannfæringu. Hinn fyrirheitni nýi heimur Guðs verður að vera okkur raunverulegur. (2. Pétursbréf 3:13) Og við verðum að hafa trú á það fyrirheit að Guð muni ‚þerra hvert tár af augum okkar og dauðinn muni ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl verði framar til.‘ (Opinberunarbókin 21:4) Hvernig getum við verið viss um að þetta séu engir draumórar? Á þann hátt að það mun örugglega rætast á tilteknum tíma Guðs því að það er ómögulegt að hann ljúgi. (Títusarbréfið 1:1, 2; Hebreabréfið 6:18) Við þurfum að ígrunda þessi fyrirheit. Það að sjá okkur í huganum í nýjum heimi Guðs að njóta blessana hans eru ekki óraunsæir draumórar heldur merki um trú. Eins og Páll skilgreindi trú er hún „fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti [„skýr sönnun um veruleika,“ NW], sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Við skulum styrkja trú okkar með því að næra okkur reglulega á orði Guðs og kristnum ritum sem hjálpa okkur að skilja það og heimfæra. Og því meiri tíma sem við notum til að segja öðrum frá ríki Guðs, formlega og óformlega, þeim mun meira styrkjum við trú okkar og von.

15. Hvaða skyldu höfum við gagnvart hinni kristnu þjónustu?

15 Við þurfum líka að vinna í samræmi við veruleika Guðsríkis með því að auka þjónustu okkar að gæðum. Hvernig getum við gert það úr því að enn er svona mikið ógert? (Matteus 9:37, 38) Það er satt sem máltækið segir að svo lengi lærir sem lifir. Óháð því hve mörg ár við höfum tekið þátt í að bera vitni getum við alltaf bætt okkur. Með því að verða hæfari í að beita orði Guðs verðum við færari um að hjálpa öðrum að heyra rödd konungsins, Jesú Krists. (Samanber Jóhannes 10:16.) Þegar við höfum í huga að eilíf örlög fólks eru í veði ættum við að vilja fara rækilega yfir svæði okkar þannig að við gefum fólki ítrekað tækifæri til að sýna hvar það stendur, annaðhvort sem ‚sauðir‘ eða ‚hafrar.‘ (Matteus 25:31-46) Að sjálfsögðu merkir það að halda nákvæma skrá um þau heimili þar sem enginn var heima og sérstaklega um þá sem sýndu áhuga á boðskapnum um Guðsríki.

Haltu áfram að leita Guðsríkis

16. Hverjir hafa gefið gott fordæmi í því að keppa eftir veruleika Guðsríkis og hvernig „hremma“ þeir ríkið?

16 Einlæg viðleitni er nauðsynleg til að halda áfram að keppa eftir veruleika Guðsríkis. Er ekki kostgæft fordæmi þeirra sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum okkur til hvatningar? Þeir hafa keppt eftir veruleika Guðsríkis um áratuga skeið og Jesús lýsti því þannig: „Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er himnaríkið það markmið sem menn keppa að og þeir sem keppa að því hremma það.“ (Matteus 11:12, NW) Hugsunin í þessu versi er ekki sú að óvinir hernemi Guðsríki heldur er átt við starfsemi þeirra sem eiga ríkið í vændum. Biblíufræðimaður sagði: „Á þennan hátt er lýst hinu ákafa, ómótstæðilega kappi og baráttu eftir hinu komandi Messíasarríki.“ Hinir smurðu hafa hvergi dregið af sér til að komast inn í Guðsríki. Hinir ‚aðrir sauðir‘ verða að vera jafnatorkusamir til að vera hæfir sem jarðneskir þegnar Guðsríkis. — Jóhannes 10:16.

17. Hvert verður hlutskipti þeirra sem keppa eftir veraldlegum draumórum?

17 Við lifum svo sannarlega tíma sérstakra tækifæra. Þeir sem sækjast eftir veraldlegum draumórum munu vakna einn góðan veðurdag fyrir bláköldum veruleikanum. Hlutskipti þeirra er vel lýst með þessum orðum: „Eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur.“ (Jesaja 29:8) Víst er að veraldlegir draumórar geta aldrei gert nokkurn mann ánægðan og hamingjusaman.

18. Hvaða stefnu ættum við að fylgja í ljósi þess að Guðsríki er veruleiki og hvaða framtíðarhorfur eigum við þá í vændum?

18 Ríki Jehóva er veruleiki. Það stjórnar nú þegar. Þetta illa heimskerfi á hins vegar varanlega eyðingu yfir höfði sér. Þess vegna skulum við taka til okkar heilræði Páls: „Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ (1. Þessaloníkubréf 5:6) Megum við beina hjörtum okkar og hugum að veruleika Guðsríkis og njóta þannig eilífrar blessunar. Og megi það verða hlutskipti okkar að heyra konung þessa ríkis segja við okkur: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — Matteus 25:34.

[Neðanmáls]

^ Sjá bókina Er Biblían í raun og veru orð Guðs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hverju svarar þú?

Hvað eru veraldlegir draumórar og hvers vegna ættum við að hafna þeim?

Hvaða dæmi má nefna um heimsku þess að sökkva sér niður í veraldlega draumóra?

Hvaða staðreyndir sanna að skaparinn, ritað orð hans, Jesús Kristur og Guðsríki er raunverulegt?

Hvernig getum við styrkt trú okkar á veruleika Guðsríkis?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Veraldlegir draumórar stafa oft af löngun í efnislegan auð.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Ein leið til að keppa eftir veruleika Guðsríkis er að prédika fagnaðarerindið.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Keppir þú eftir veruleika Guðsríkis með því að nema orð Guðs kappsamlega?