Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristur hataði lögleysu – en þú?

Kristur hataði lögleysu – en þú?

Kristur hataði lögleysu – en þú?

„Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti [„lögleysu,“ NW]. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.“ — HEBREABRÉFIÐ 1:9.

1. Hvers annars en að elska réttlætið er krafist af öllum sönnum þjónum Jehóva Guðs?

 SANNIR þjónar Jehóva elska hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:30) Þeir vilja gleðja hjarta Jehóva með því að varðveita ráðvendni. (Orðskviðirnir 27:11) Til að gera það verða þeir ekki aðeins að elska réttlætið heldur líka að hata lögleysu. Fyrirmynd þeirra, Jesús Kristur, gerði það sannarlega. Um hann var sagt: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti [„lögleysu, NW].“ — Hebreabréfið 1:9.

2. Hvað er fólgið í lögleysu?

2 Hvað er lögleysa? Það er synd eins og Jóhannes postuli sýndi þegar hann skrifaði: „Hver, sem synd drýgir, drýgir líka lagabrot, og syndin er lagabrot.“ (1. Jóhannesarbréf 3:4, Bi. 1859) Lagabrot er „það að brjóta lög, athöfn sem stríðir gegn lögum.“ (Orðabók Menningarsjóðs) Lögleysa felur í sér allt sem er illt, óguðlegt, siðlaust, spillt og óheiðarlegt. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við að lögleysa og ranglæti er útbreiddara en nokkru sinni fyrr. Enginn vafi leikur á að við lifum þær ‚örðugu tíðir‘ sem Páll postuli sagði fyrir í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5. Í ljósi alls þessa ranglætis og lögleysu er gott að okkur skuli vera fyrirskipað að hata alla illsku! Til dæmis er okkur sagt: „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa.“ (Sálmur 97:10) Við lesum einnig: „Hatið hið illa og elskið hið góða.“ — Amos 5:15.

Þrenns konar hatur

3-5. Á hvaða þrjá vegu er sögnin „að hata“ notuð í orði Guðs?

3 Hvað merkir það að hata? Í orði Guðs er sögnin „að hata“ notuð á þrjá mismunandi vegu. Í fyrsta lagi er um að ræða hatur sprottið af illvilja og löngun til að vinna tjón þeim sem hataður er. Kristnir menn verða að forðast þess konar hatur. Það var það sem kom Kain til að myrða réttlátan bróður sinn, Abel. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Það var líka þess konar hatur sem trúarleiðtogarnir báru til Jesú Krists. — Matteus 26:3, 4.

4 Í öðru lagi notar Ritningin sögnina „að hata“ í merkingunni að elska minna. Til dæmis sagði Jesús: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lúkas 14:26) Ljóst er að Jesús átti einfaldlega við það að elska þetta minna en við elskum hann. Sagt er að Jakob hafi ‚hatað Leu‘ en í rauninni elskaði hann hana bara minna en Rakel. — 1. Mósebók 29:30, 31.

5 Að síðustu er sú merking orðsins „að hata“ sem við beinum athygli okkar sérstaklega að í þessari umfjöllun. Það er sú merking að hafa svo megna óbeit eða andstyggð á einhverjum eða einhverju að við forðumst að hafa nokkur tengsl við slíka persónu eða hlut. Í Sálmi 139 er talað um það sem ‚fullt hatur.‘ Þar segir Davíð: „Ætti ég eigi, [Jehóva], að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.“ — Sálmur 139:21, 22.

Hvers vegna við eigum að hata lögleysu

6, 7. (a) Fyrst og fremst hvers vegna ættum við að hata lögleysu? (b) Nefndu aðra mikilvæga ástæðu til að hata lögleysu.

6 Hvers vegna eigum við að hata lögleysu? Meðal annars til að geta haft sjálfsvirðingu og góða samvisku. Aðeins þannig getum við átt gott samband við réttlátan, elskuríkan, himneskan föður okkar, Jehóva. Davíð gaf gott fordæmi í þessu efni eins og sjá má af Sálmi 26. Til dæmis sagði hann: „Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.“ (Sálmur 26:5) Kærleikur okkar til Guðs og réttlætisins ætti að láta okkur finna til réttlátrar reiði — já, haturs — til alls sem er löglaust frá hans sjónarhóli, meðal annars löglausum verkum þeirra sem óhlýðnast Jehóva og hata hann. Enn fremur ættum við að hata lögleysu vegna þess að hún svívirðir nafn Guðs.

7 Önnur ástæða fyrir því að þjónar Jehóva ættu að hata lögleysu er sú að hún er afar hættuleg og skaðleg. Hvaða afleiðingar hefur það að sá í holdið í þeirri merkingu að sá lögleysu? Páll aðvaraði: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ (Galatabréfið 6:7, 8) Við ættum því alls ekki að koma nálægt löglausum verkum. Við þurfum svo sannarlega að hata alla lögleysu til að tryggja okkar eigin velferð og hugarró.

Þeir sem hata lögleysu

8. Hver gaf bestu fyrirmyndina um það að hata lögleysu og hvaða ritningarstaðir sýna það?

8 Guð hefur gefið öllum skynsemigæddum sköpunarverum sínum besta fordæmið í því að hata lögleysu. Hann er réttlátlega reiður lögleysu og orð hans segir: „Sex hluti hatar [Jehóva] og sjö eru sálu hans andstyggð: drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.“ Við lesum einnig: „Að óttast [Jehóva] er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn — það hata ég.“ (Orðskviðirnir 6:16-19; 8:13) Enn fremur er okkur sagt: „Ég, [Jehóva], elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán.“ — Jesaja 61:8.

9, 10. Hvernig sýndi Jesús að hann hataði lögleysu?

9 Jesús Kristur líkti eftir föður sínum í því að hata lögleysu. Þannig lesum við: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti [„lögleysu,“ NW]. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.“ (Hebreabréfið 1:9) Jesús gaf okkur fordæmi um hatur af þessu tagi. Hann sýndi hatur sitt á lögleysunni með því að afhjúpa þá sem iðkuðu hana vísvitandi — falstrúarleiðtogana. Hann fordæmdi þá hvað eftir annað sem hræsnara. (Matteus 23. kafli) Við annað tækifæri sagði Jesús: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist.“ (Jóhannes 8:44) Jesús gekk svo langt í hatri sínu á lögleysunni að hann beitti valdi er hann hreinsaði musterið tvívegis af ágjörnum, trúarlegum hræsnurum. — Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:13-17.

10 Jesús sýndi líka hatur sitt á lögleysu og synd með því að halda sér algerlega frá henni. Þess vegna gat hann vel spurt andstæðinga sína: „Hver yðar getur sannað á mig synd?“ (Jóhannes 8:46) Jesús var „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum.“ (Hebreabréfið 7:26) Pétur staðfesti það og skrifaði um Jesú: „Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ — 1. Pétursbréf 2:22.

11. Hvaða dæmi höfum við í Ritningunni um ófullkomna menn sem hötuðu lögleysu?

11 En Jesús var fullkominn maður. Höfum við dæmi úr Ritningunni um ófullkomna menn sem í sannleika hötuðu lögleysu? Svo sannarlega! Til dæmis sýndu Móse og aðrir levítar sterkt hatur á lögleysu með því að lífláta 3000 skurðgoðadýrkendur að boði Jehóva. (2. Mósebók 32:27, 28) Pínehas sýndi mikið hatur á lögleysu er hann drap tvo saurlífismenn með spjóti. — 4. Mósebók 25:7, 8.

Hvernig hatur á lögleysu birtist

12. (a) Hvernig getum við sýnt hatur okkar á lögleysu? (b) Nefndu nokkrar raunhæfar leiðir til að forðast löglausar hugsanir.

12 Hvernig getum við nú á tímum sýnt hatur okkar á lögleysu? Með því að stýra hugsunum okkar, orðum og verkum. Við þurfum að temja okkur að hugsa um uppbyggileg atriði þegar hugurinn er ekki upptekinn af einhverju verkefni. Ef við erum andvaka að næturlagi höfum við kannski tilhneigingu til að láta hugann dvelja við neikvæðar hugsanir, svo sem eitthvert misrétti, ímyndað eða raunverulegt, eða kynferðislega hugaróra. Leyfðu slíku aldrei að komast að heldur temdu þér jákvæða hugsun. Reyndu til dæmis að leggja á minnið ritningargreinar, sæluboðin níu og hina níu ávexti andans. (Matteus 5:3-12; Galatabréfið 5:22, 23) Getur þú nafngreint postulana tólf? Kannt þú boðorðin tíu? Hvaða sjö söfnuðir eru ávarpaðir í Opinberunarbókinni? Það að leggja sönglagatexta Guðsríkis á minnið hjálpar okkur líka að halda huganum við það sem er satt, göfugt, rétt, hreint, elskuvert, gott afspurnar, dyggð og lofsvert. — Filippíbréfið 4:8.

13. Hvers konar tal hötum við ef við hötum lögleysu?

13 Enn fremur sýnum við að við hötum lögleysu með því að forðast allt óhreint tal. Margt veraldlegt fólk hefur ánægju af því að segja og hlusta á klúra brandara en kristnir menn mega ekki einu sinni hafa tilhneigingu til að hlusta á slíkt. Þess í stað ættum við að ganga burt og forðast að taka þátt í nokkrum samræðum sem leiðast út á slíkar brautir. Ef við höfum ekki tök á að ganga burt getum við að minnsta kosti sýnt með svipbrigðum okkar að við hötum slíkt tal. Við þurfum að fara eftir þessu góða ráði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Við ættum ekki að saurga okkur með því að tala það sem er óhreint eða með því að hlusta á það.

14. Hvernig mun hatur á lögleysu vernda okkur á sviði viðskipta og atvinnu?

14 Hatur okkar á lögleysu verður líka að beinast gegn öllum syndugum iðkunum. Það að hata lögleysu mun hjálpa okkur að falla ekki í þá gildru að láta undan í þessu efni. Sannkristnir menn iðka ekki synd. (Samanber 1. Jóhannesarbréf 5:18.) Við verðum til dæmis að hata alla óheiðarlega viðskiptahætti. Margir vottar Jehóva hafa sætt þrýstingi til að gera eitthvað óheiðarlegt fyrir vinnuveitendur sína en neitað því. Kristnir menn hafa jafnvel verið fúsir til að missa vinnuna frekar en gera eitthvað sem stríðir gegn samvisku þeirra sem er þjálfuð af Biblíunni. Enn fremur viljum við sýna hatur okkar á lögleysu með því að brjóta ekki umferðarlög og stinga ekki undan þegar við eigum að greiða skatta eða tolla. — Postulasagan 23:1; Hebreabréfið 13:18.

Að hata kynferðislegan óhreinleika

15. Hvaða góðum tilgangi þjónaði það að áskapa mönnum sterka kynhvöt?

15 Sem kristnir menn verðum við sérstaklega að hata allan óhreinleika sem tengist kynferðismálum. Það þjónaði tvennum tilgangi hjá Guði að áskapa mannkyninu sterka kynhvöt. Bæði tryggði það að mannkynið dæi ekki út og eins stuðlaði það mjög að hamingju manna. Jafnvel fátækt fólk, ólæst og óskrifandi eða bágstatt á aðra vegu getur haft mikið yndi af hjónalífinu. Jehóva hefur samt sem áður sett því ramma hvernig megi njóta þessa sambands, og þann ramma verður að virða. — 1. Mósebók 2:24; Hebreabréfið 13:4.

16. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til kynferðislega óhreinna skemmtana og athafna?

16 Ef við hötum lögleysu forðumst við vandlega allar kynferðislega óhreinar athafnir og siðlausa skemmtun. Við forðumst því allar siðferðilega vafasamar bækur, tímarit og dagblöð. Eins gætum við þess, ef við hötum lögleysu, að horfa ekki á neitt það sem er óhreint, hvort heldur er í sjónvarpi, kvikmyndum eða á leiksviði. Ef við komumst að raun um að dagskrárefnið er siðlaust ættum við að finna okkur knúin til að slökkva samstundis á sjónvarpstækinu eða hafa hugrekki til að yfirgefa leikhúsið eða kvikmyndahúsið. Eins ætti það að hata lögleysu að koma okkur til að forðast alla tónlist sem er kynæsandi annaðhvort í texta eða takti. Við sækjumst ekki eftir þekkingu á því sem er siðlaust heldur erum við eins og „ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ — 1. Korintubréf 14:20.

17. Hvaða ráð gefur Kólossubréfið 3:5 sem getur hjálpað okkur að vera siðferðilega hrein?

17 Það er mjög viðeigandi að okkur skuli gefið þetta ráð: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn.“ (Kólossubréfið 3:5) Enginn vafi leikur á því að við þurfum að beita okkur hörðu ef við ætlum að vera staðráðin í að halda okkur siðferðilega hreinum. The Expositor’s Bible Commentary segir um grísku sögnina sem þýdd er „deyðið“ í Kólossubréfinu 3:5: „Hún gefur í skyn að við eigum ekki aðeins að bæla niður eða hafa hemil á illum verkum og viðhorfum. Við eigum að þurrka þau út, að útrýma algerlega hinum gömlu lífsháttum. Ef til vill má koma kraftinum í henni til skila með sögninni ‚að steindrepa.‘ . . . Bæði merking sagnarinnar og kraftur sagnbeygingarinnar gefur í skyn þróttmikinn, sársaukafullan, persónulegan ásetning.“ Við ættum þess vegna að forðast klám eins og það væri hættulegur, smitnæmur og banvænn sjúkdómur, því að það er það siðferðilega og andlega. Kristur lét í ljós svipaða hugsun þegar hann talaði um að losa sig við hönd, fót eða jafnvel auga ef það hneykslaði okkur. — Markús 9:43-48.

Að hata falstrú og fráhvarf

18. Hvernig getum við látið í ljós hatur okkar á trúarlegri lögleysu?

18 Þá sýndi Jesús einnig hatur sitt á lögleysu með því að afhjúpa trúhræsnara. Vottar Jehóva nú á tímum sýna á sama hátt hatur sitt á allri hræsnisfullri, trúarlegri lögleysu. Hvernig? Með því að dreifa biblíuritum sem fletta ofan af Babýlon hinni miklu og sýna hvað hún raunverulega er — trúarskækja. Ef við í sannleika hötum löglausa trúhræsni afhjúpum við hiklaust Babýlon hina miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Við gerum það í þágu hjartahreinna manna sem hún hefur blindað og haldið í andlegum fjötrum. Í sama mæli og við í sannleika hötum lögleysu Babýlonar hinnar miklu erum við kostgæf í því að taka þátt í öllum greinum þjónustunnar við Guðsríki. — Matteus 15:1-3, 7-9; Títusarbréfið 2:13, 14; Opinberunarbókin 18:1-5.

19. Hvernig ættum við að líta á fráhvarfsmenn og hvers vegna?

19 Sú skylda að hata lögleysu snýr einnig að allri starfsemi fráhvarfsmanna. Við ættum að hafa sömu afstöðu til fráhvarfsmanna og Davíð sem lýsti yfir: „Ætti ég eigi, [Jehóva], að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.“ (Sálmur 139:21, 22) Fráhvarfsmenn okkar tíma hafa tekið höndum saman við ‚lögleysingjann,‘ klerka kristna heimsins. (2. Þessaloníkubréf 2:3, neðanmáls) Sem dyggir vottar Jehóva eigum við því alls ekkert saman við þá að sælda. Þar eð við erum ófullkomnir gætu hjörtu okkar hæglega komið okkur til að vera gagnrýnin á bræður okkar. Sem einstaklingar eru þeir sem mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ ófullkomnir menn. (Matteus 24:45-47) Þessi hópur er hins vegar trúr og hygginn. Fráhvarfsmenn gera sér mat úr yfirsjónum eða mistökum sem bræður í forystuhlutverkum virðast hafa gert. Öryggi okkar liggur í því að forðast áróður fráhvarfsmanna eins og eitur sem hann í reyndinni er. — Rómverjabréfið 16:17, 18.

20, 21. Hvernig má draga saman ástæðurnar fyrir því að hata lögleysu?

20 Við höfum séð að heimurinn er fullur af lögleysu sem er hið sama og synd. Það er ekki nóg fyrir okkur að elska réttlætið; við verðum líka að hata lögleysu. Sumir þeirra sem hafa verið gerðir rækir úr kristna söfnuðinum héldu kannski að þeir elskuðu réttlætið, en þeir hötuðu ekki lögleysu nægilega mikið. Við höfum líka séð hvers vegna við ættum að hata lögleysu. Við getum ekki haft góða samvisku og sjálfsvirðingu nema við gerum það. Enn fremur er lögleysa hið sama og að vera Jehóva Guði ótrú, og ávöxtur lögleysu er mjög beiskur — eymd, spilling og dauði.

21 Við höfum líka nefnt hvernig við sýnum að við hötum lögleysu. Við gerum það með því að koma alls ekki nærri neins konar óheiðarleika, kynferðislegu siðleysi eða fráhvarfi. Úr því að við viljum eiga þátt í að upphefja nafn Jehóva og þráum að gleðja hjarta hans verðum við ekki bara að elska réttlætið og vera önnum kafin í þjónustu hans, heldur líka að hata lögleysu eins og leiðtogi okkar og stjórnandi, Jesús Kristur.

Hvert er svar þitt?

Hvernig notar Ritningin sögnina „að hata“?

Nefndu nokkrar góðar ástæður til að hata lögleysu.

Hvaða góð dæmi höfum við um menn sem hötuðu lögleysu?

Hvernig getum við sýnt að við hötum lögleysu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jesús hreinsaði musterið vegna þess að hann hataði lögleysu.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Ef við hötum lögleysu forðumst við siðlaust skemmtiefni.