Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ný sköpun kemur fram!

Ný sköpun kemur fram!

Ný sköpun kemur fram!

„EKKERT er nýtt undir sólinni,“ sagði hinn vitri konungur Salómon einu sinni. (Prédikarinn 1:9) Það er rétt og satt um efnisheiminn sem við lifum í, en hvað um hið mikla, andlega tilverusvið? Á því sviði varð sá sem er meiri en Salómon, já, mesta mikilmenni sem uppi hefur verið, einstæð ný sköpun. Hvernig bar það til?

Árið 29 að okkar tímatali bauð hinn fullkomni maður Jesús sig fram til að skírast hjá Jóhannesi skírara í ánni Jórdan. „En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ (Matteus 3:16, 17) Þannig varð maðurinn Kristur Jesús fyrsti einstaklingur nýrrar sköpunar, smurður til að gera vilja Guðs. Síðar varð Jesús, á grundvelli fórnardauða síns, meðalgangari nýs sáttmála milli Guðs og útvalins hóps manna. Hver og einn þeirra er „skapaður á ný,“ getinn af anda Guðs til himneskrar vonar og á fyrir sér að ríkja með Jesú í ríki hans á himnum. — 2. Korintubréf 5:17; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Hebreabréfið 9:15.

Í aldanna rás hefur þessum smurðu, anda­getnu kristnu mönnum, hinum eina sannkristna söfnuði sem er í sjálfu sér ný sköpun, verið safnað til samfélags við Krist. Guð kallaði hann út úr þessum heimi í ákveðnum tilgangi eins og Pétur postuli segir: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Líkt og var hjá Kristi Jesú, hinni upphaflegu nýju sköpun Guðs, er prédikun fagnaðarerindisins meginskylda þessarar nýju sköpunar. (Lúkas 4:18, 19) Sem einstaklingar verða meðlimir hans, alls 144.000, að „íklæð­ast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:24; Opinberunarbókin 14:1, 3) Það útheimtir að þeir rækti ‚ávöxt andans‘ sem lýst er í Galatabréfinu 5:22, 23 og sinni ráðsmennsku sinni af trúfesti. — 1. Korintubréf 4:2; 9:16.

Hvað um þessa nýju sköpun nú á tímum? Árið 1914 rættust orð Opinberunarbókarinnar 11:15 eins og tímaáætlun Biblíunnar sýnir: „Drottinn [Jehóva] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.“ Fyrsta verk Krists var að kasta Satan og djöflaenglum hans niður af himnum til næsta nágrennis jarðarinnar. Það skapaði „vei“ fyrir jörðina í mynd fyrri heimsstyrjaldarinnar og þeirra þrenginga sem fylgdu henni. — Opinberunarbókin 12:9, 12, 17.

Það var einnig merki til þeirra sem eftir voru af nýju sköpuninni um að þeir yrðu að taka þátt í að uppfylla spádóm Jesú: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið [hið stofnsetta] verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Hver er þessi ‚endir‘? Jesús heldur áfram: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ — Matteus 24:3-14, 21, 22.

Andi Jehóva knúði þessa smurðu einstaklinga nýju sköpunarinnar til að snúa sér af alefli að umfangsmestu prédikunarherferð sem hefur nokkurn tíma átt sér stað á jörðinni. Kostgæfum boðberum Guðsríkis fjölgaði úr fáeinum þúsundum árið 1919 upp í hér um bil 50.000 um miðjan fjórða áratuginn. Eins og spáð var barst „raust þeirra . . . út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.“ — Rómverjabréfið 10:18.

Yrði einungis þeim sem eftir voru af nýju sköpuninni safnað saman til hjálpræðis? Nei, því að spádómarnir höfðu sagt að englar Guðs myndu halda aftur af vindum þrengingarinnar miklu uns lokið væri við að safna ekki aðeins þessum andlegu Ísraelsmönnum, sem fara áttu til himna, heldur einnig öðrum, það er að segja ‚miklum múgi, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Hver yrðu örlög þeirra? Þeir myndu koma óskaddaðir „úr þrengingunni miklu“ til að eignast eilíft líf á jörð sem verður paradís. — Opinberunarbókin 7:1-4, 9, 14.

Sem betur fer hefur þessum mikla múgi, safnað úr um það bil 229 löndum, fjölgað upp í næstum 4.500.000 starfandi votta. Margir fleiri eru á leiðinni eins og sjá má af aðsókninni að minningarhátíðinni um dauða Jesú þann 17. apríl á síðasta ári, en hún var 11.431.171. Af öllum þessum milljónum tóku einungis 8683, sem játa sig vera eftir á jörðinni af hinni nýju sköpun, af brauðinu og víninu. Þessi fámenni hópur hefði aldrei af eigin rammleik getað annað hinu mikla prédikunarstarfi sem nú fer fram. Þær milljónir, sem mynda múginn mikla, vinna núna einhuga með þeim að því að ljúka verkinu. (Sefanía 3:9) Enn fremur gegna vel þjálfaðir meðlimir múgsins mikla núna stjórnarstörfum og öðrum ábyrgðarstörfum með hinu smurða stjórnandi ráði andlegra Ísraelsmanna, alveg eins og musterisþjónarnir, sem ekki voru Ísraelsmenn, unnu með prestunum að viðgerð á múrum Jerúsalem. — Nehemíabók 3:22-26.

Sköpun ‚nýs himins og nýrrar jarðar‘

Þessi samansöfnun er mjög gleðileg. Staðan er eins og Jehóva sagði að hún myndi verða: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði. Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.“ (Jesaja 65:17-19) Hinn nýi himinn, sem Jehóva skapar, verður að lokum myndaður af Kristi Jesú og 144.000 upprisnum meðlimum nýju sköpunarinnar sem hafa verið kallaðir fram úr hópi mannanna síðastliðnar 19 aldir. Hann er margfalt stórkostlegri en nokkur jarðnesk stjórn sem ríkti í hinni bókstaflegu Jerúsalem, jafnvel á dögum Salómons. Hann innifelur Nýja Jerúsalem, himneska borg sem lýst er í allri sinni glitrandi fegurð í Opinberunarbókinni 21. kafla.

Hin Nýja Jerúsalem er andleg brúður Krists, 144.000 smurðir fylgjendur hans sem sameinast brúðguma sínum á himnum eftir dauða sinn og andlega upprisu. Þeim er lýst í Opinberunarbókinni 21:1-4 sem ‚stígi þeir niður af himni frá Guði,‘ það er að segja að hann notar þá til að beina blessun sinni til mannkynsins hér á jörðinni. Þannig uppfyllist spádómurinn: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“

Við megum sannarlega vera þakklát Guði fyrir að skapa nýja himininn. Ólíkt hinum fallvöltu og spilltu stjórnum, sem hafa lengi þjakað mannkynið, verður þetta stjórnarfyrirkomulag Guðs varanlegt. Nýja sköpunin og andlegt afkvæmi hennar, múgurinn mikli, fagnar fyrirheiti Guðs: „Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti — segir [Jehóva] — eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.“ — Jesaja 66:22.

‚Nýja jörðin‘ hefst með þessu afsprengi hinna smurðu sem mynda nýju sköpunina. Það er hið nýja, guðhrædda mannfélag á jörð. Hatur, glæpir, ofbeldi, spilling og siðleysi mannfélagsins nú á tímum undirstrikar sannarlega þörfina á að skipt verði algerlega yfir í nýtt þjóðfélag á jörðinni undir umsjón hinna góðviljuðu nýju himna. Það er það sem Jehóva ætlast fyrir. Á sama hátt og hann hefur skapað nýju himnana er hann að skapa nýju jörðina með því að safna saman múginum mikla sem kjarna friðsams, nýs heimssamfélags. Einungis þetta samfélag mun bjargast lifandi „úr þrengingunni miklu.“ — Opinberunarbókin 7:14.

Hvað megum við búast við að fylgi í kjölfar þrengingarinnar miklu? Jesús hét postulum sínum sem voru fyrstir valdir til að mynda nýja himininn: „Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum.“ (Matteus 19:28) Allir hinir 144.000, sem mynda þessa nýju Jerúsalem, munu ásamt Jesú dæma mannkynið. Þá mun kærleikur koma í stað eigingirni og haturs sem mannlegt samfélag byggist á núna. Átök og ósætti ættflokka, kynþátta og þjóða verður upprætt. Upprisan mun jafnt og þétt kalla ástvini fram úr gröfinni. Trúfast mannkyn, sem skiptir milljörðum, verður ein stór, sameinuð fjölskylda sem lyft verður upp til eilífs lífs á jörð sem breytt verður í paradís.

Þetta verður annað og meira en einhver útópía eða Shangri-la. Það verður varanleg sköpun — ‚nýr himinn og ný jörð, sem við væntum eftir fyrirheiti hans, þar sem réttlæti býr.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Svo sannarlega eru þetta stórfenglegar framtíðarhorfur, stórkostlegt loforð hans sem sagði: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,“ og bætti svo við hinum trústyrkjandi orðum: „Þetta eru orðin trúu og sönnu.“ — Opinberunarbókin 21:5.