Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Okkar mikli skapari og verk hans

Okkar mikli skapari og verk hans

Okkar mikli skapari og verk hans

STÓRKOSTLEGT! Hinir þrumandi Iguaçú- eða Niagarafossar, hin hrikalegu gljúfur í Arizóna eða á Havaji-eyjum, hinir fögru firðir Noregs eða Nýja-Sjálands — öll þessi náttúruundur kalla fram aðdáunaróp af vörum okkar. En eru þau aðeins tilviljanakennd afsprengi svokallaðrar móður náttúru? Nei, þau eru miklu meira en það! Þau eru verk mikils skapara, elskuríks föður á himnum sem hinn vitri konungur Salómon skrifaði um: „Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ (Prédikarinn 3:11) Menn myndu þurfa að hafa eilífðina fyrir sér til að leita uppi öll hin dýrlegu verk sem skaparinn hefur fyllt alheiminn af.

Við eigum okkur stórfenglegan skapara og það gleður okkur mjög að þessi almáttugi Guð skuli hafa „í lok þessara daga . . . til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.“ (Hebreabréfið 1:2) Þessi sonur, Jesús Kristur, kunni vel að meta hið stórfenglega sköpunarverk föður síns. Hann vísaði oft til þess í líkingum varðandi tilgang föður síns og þegar hann hvatti og uppörvaði áheyrendur sína. (Matteus 6:28-30; Jóhannes 5:35, 36) „Fyrir trú“ hafa margir skilið að undur sköpunarinnar voru gerð „með orði Guðs.“ (Hebreabréfið 11:3) Daglegt líf okkar ætti að endurspegla slíka trú. — Jakobsbréfið 2:14, 26.

Sköpunarverk Guðs okkar eru svo sannarlega mikilfengleg. Þau endurspegla frábærlega visku hans, mátt, réttlæti og kærleika. Til dæmis lét hann jörðina snúast um hallandi möndul og ganga á sporbaug um sólu í þeim tilgangi að hið komandi sköpunarverk hans, maðurinn, gæti notið hinna unaðslegu árstíðaskipta. Guð sagði: „Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.“ (1. Mósebók 8:22) Enn fremur bjó Guð jörðina ríkulega með verðmætum jarðefnum. Hann útbjó hana sérstaklega með ríkulegum birgðum vatns sem átti eftir að verða ómissandi efnisþáttur allra lífvera jarðar og nauðsynlegt þeim til viðhalds.

Í skipulegri röð sex ‚sköpunardaga,‘ sem hver um sig var þúsundir ára að lengd, bjó „andi Guðs“ jörðina undir búsetu mannsins. Ljósið sem gerir okkur kleift að sjá, loftið sem við öndum að okkur, þurrlendið sem við lifum á, gróðurinn, dagur og nótt, fiskar, fuglar og dýr — allt þetta gerði skapari okkar hvað af öðru manninum til ánægju og þjónustu. (1. Mósebók 1:2-25) Svo sannarlega getum við tekið undir með sálmaritaranum: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.

Meistaraverk sköpunarinnar

Er dró að lokum sjötta ‚sköpunardagsins‘ gerði Guð manninn og síðan maka hans, konuna. Þetta var meistaraverk hins jarðneska sköpunarverks, langtum stórkostlegra en öll hin efnislegu sköpunarverk sem á undan voru komin! Sálmur 115:16 segir okkur: „Himinninn er himinn [Jehóva], en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.“ Í samræmi við þetta gerði Jehóva okkur mannssálirnar þannig úr garði að við gætum bæði haft yndi af fyrri sköpunarverkum hans á jörðinni og notað þau. Við ættum svo sannarlega að vera þakklát fyrir augu okkar — margfalt flóknari en fullkomnasta ljósmyndavél — sem geta skynjað litbrigði umheimsins. Við höfum eyru — betri en nokkurt hljóðkerfi gert af mannahöndum — sem gera okkur kleift að njóta samræðna, tónlistar og blæfagurs fuglasöngs. Við höfum innbyggð talfæri, meðal annars tunguna sem er einkar fjölhæf. Í samvinnu við lyktarskynið eru bragðlaukar tungunnar okkur til mikils yndisauka þegar við neytum matar. Og svo sannarlega ættum við að vera þakklát fyrir snertingu ástríkrar handar. Við getum vissulega þakkað skapara okkar eins og sálmaritarinn gerði er hann sagði: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:14.

Ástúðleg gæska skapara okkar

Sálmaritarinn skrifaði: „Þakkið [Jehóva], því að hann er góður, . . . honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn [„ástúðleg gæska,“ NW] hans varir að eilífu,“ (Sálmur 136:1-4) Þessi ástúðlega gæska kemur honum núna til að gera stórkostlega hluti sem eru langtum mikilfenglegri en öll þau sköpunarverk sem við höfum lýst. Já, jafnvel meðan hann hvílist af ­efnislegu sköpunarstarfi vinnur hann að sköpunarstarfi á andlegu tilverusviði. Hann gerir það til svars við illskeyttri og óskammfeilinni ögrun sem hann varð fyrir. Hvernig þá?

Fyrsti maðurinn og konan voru sett í dýrlega paradís, Eden. Sviksamur engill, Satan, stillti sér hins vegar upp sem guði og leiddi þessi mannhjón út í uppreisn gegn Jehóva. Með réttu dæmdi Guð þau til dauða með þeim afleiðingum að börn þeirra, allt mannkynið, eru fædd syndug og deyjandi. (Sálmur 51:7) Frásaga Biblíunnar af Job gefur til kynna að Satan ögraði Guði og fullyrti að enginn maður gæti varðveitt ráðvendni við hann ef á reyndi. En Job sannaði að Satan væri foráttulygari líkt og margir aðrir trúfastir þjónar Guðs á biblíutímanum og fram til okkar daga hafa gert. (Jobsbók 1:7-12; 2:2-5, 9, 10; 27:5) Jesús, sem var fullkominn maður, sýndi óviðjafnanlega ráðvendni. — 1. Pétursbréf 2:21-23.

Þannig gat Jesús sagt að „höfðingi heimsins,“ Satan, ætti ekkert í honum. (Jóhannes 14:30) Eigi að síður er „allur heimurinn . . . á valdi hins vonda“ enn þann dag í dag. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Satan, sem véfengdi réttmæti drottinvalds Jehóva, hafa verið gefin um 6000 ár til að sýna hvort stjórn hans yfir mannkyninu gæti blessast. Honum hefur mistekist hrapallega eins og síversnandi heimsástand heldur áfram að bera vitni! Okkar elskuríki Guð, Jehóva, mun bráðlega afmá þetta spillta heimsþjóðfélag og verja þannig réttmætt drottinvald sitt yfir jörðinni. Það verður stórkostlegur léttir öllum mönnum sem þrá friðsama og réttláta stjórn. — Sálmur 37:9-11; 83:18, 19.

En það er ekki allt og sumt. Ástúðleg gæska Guðs mun sýna sig enn betur á grundvelli orða Jesú í Jóhannesi 3:16: „Því svo elskaði Guð heiminn [mannkynið], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Þessi endurreisn vonarinnar um eilíft líf handa mannkyni á jörðinni felur í sér nýja sköpun. Hver er hún? Hvernig kemur hún þjáðu mannkyni að gagni? Greinin á eftir svarar því.