Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hver er ábyrgð kristinna manna í því að draga úr umhverfismengun?

Við sem erum vottar Jehóva höfum áhyggjur af hinum mörgu umhverfisvandamálum sem hrjá heimili okkar, jörðina. Við gerum okkur gleggri grein fyrir því en flestir aðrir að jörðin var sköpuð til að vera hreint og heilbrigt heimili fullkominnar, mennskrar fjölskyldu. (1. Mósebók 1:31; 2:15-17; Jesaja 45:18) Við höfum líka tryggingu Guðs fyrir því að hann muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Það er því rétt að leggja sig fram innan öfgalausra og skynsamlegra marka um að auka ekki að þarflausu á hina linnulausu umhverfiseyðingu af mannavöldum. Við skulum þó taka eftir orðinu „skynsamlegur.“ Það er líka biblíulega rétt að láta ekki umhverfismál og umhverfisvernd taka hug okkar allan.

Úrgangur verður til jafnvel við eðlileg, dagleg störf. Til dæmis verða oft til úrgangsefni við ræktun, meðferð og neyslu matvæla, þótt mörg þeirra brotni niður fyrir áhrif örvera. (Sálmur 1:4; Lúkas 3:17) Glóðarsteikti fiskurinn, sem Jesús matreiddi handa lærisveinum sínum eftir að hann var risinn upp, skildi trúlega eftir sig úrgang í mynd reykjar, ösku og fiskibeina. (Jóhannes 21:9-13) En bæði hin lífrænu og ólífrænu hringrásarkerfi jarðar eru gerð til að taka við slíkum úrgangi.

Þjónar Guðs ættu ekki að vera sinnulausir um umhverfismál. Jehóva krafðist þess af þjóð sinni til forna að hún gerði ráðstafanir til að ganga vel frá úrgangsefnum sem hafði þýðingu bæði hvað varðar umhverfisvernd og heilsuvernd. (5. Mósebók 23:9-14) Og með því að við þekkjum viðhorf hans til þeirra sem eru að eyða jörðina ættum við svo sannarlega ekki að loka augunum fyrir því sem við getum gert til að halda umhverfinu hreinu. Við getum sýnt það með því að ganga rétt frá sorpi og úrgangsefnum, einkanlega spilliefnum. Við gætum þess samviskusamlega að stuðla að endurvinnslu ýmissa úrgangsefna og höfum enn ríkari ástæðu til þess ef keisarinn gerir kröfur þar um. (Rómverjabréfið 13:1, 5) Og sumir fá vissa fullnægjukennd út úr því að ganga skrefi lengra, svo sem að nota umhverfisvænar vörur í stað þeirra sem myndu stækka sorpfjallið og auka sjávarmengun.

Það er hins vegar persónulegt mál hvers kristins manns hve langt hann gengur í þessa átt, umfram það sem kveðið er á um í lögum. Ljóst er af fjölmiðlum að ófullkomnum mönnum hættir mjög til að falla í þá gryfju að fara út í öfgar. Ráð Jesú eiga tvímælalaust við hér: „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. . . . Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ (Matteus 7:1, 3) Ef við höfum þetta í huga missum við síður sjónar á öðrum mikilvægum atriðum.

Spámaðurinn Jeremía skrifaði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Sökum þess að mannkynið hefur ekki skeytt um þessa meginreglu stendur það nú frammi fyrir ‚örðugum tíðum‘ eins og á er bent í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5. Og það sem Guð lét skrá í Opinberunarbókina 11:18 sannar að tilraunir manna til að leysa helstu umhverfisvandamál jarðar, þeirra á meðal mengun, munu ekki heppnast til fulls. Vera kann að nokkur árangur náist á einu sviði eða öðru, en engin varanleg lausn fæst nema Guð skerist í leikinn.

Þar af leiðandi einbeitum við kröftum okkar og fjármunum að lausn Guðs í stað þess að reyna að draga úr þeim sjúkdómseinkennum sem sjást á yfirborðinu. Þar fylgjum við fordæmi Jesú sem eyddi stærstum hluta þjónustu sinnar í að ‚bera sannleikanum vitni.‘ (Jóhannes 18:37) Í stað þess að næra heiminn eða ráða bót á útbreiddu þjóðfélagsmeini — svo sem mengun — benti Jesús á fullnaðarlausn þeirra vandamála sem hrjá mannkynið. — Jóhannes 6:10-15; 18:36.

Enda þótt kærleikur til náungans komi okkur til að menga ekki jarðveginn, loftið eða vatnið að þarflausu höldum við áfram að bera vitni um sannleikann. Það felur í sér að kenna fólki að fara eftir sannleika Biblíunnar og forðast þannig að spilla líkama sínum með reykingum, óhóflegri áfengisnotkun eða skaðlegum fíkniefnum. Þær milljónir manna, sem hafa gerst lærisveinar, hafa tamið sér hreinlæti og tillitssemi við aðra. Prédikunarstarfið hefur þannig stuðlað bókstaflega að því að draga úr almennri mengun nú á dögum. Þýðingarmeira er þó að kristnir lærisveinar kappkosta að endurnýja persónuleika sinn og bæta venjur sínar þannig að þeir eigi heima í hreinni paradís á jörð sem Guð mun mjög bráðlega gefa sönnum tilbiðjendum sínum.