,Láttu framför þína vera augljósa‘
,Láttu framför þína vera augljósa‘
„Þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“ — 1. KORINTUBRÉF 13:11.
1. Hvernig ber vöxtur vitni um undur sköpunarverksins?
ÚR EGGI sem er svo agnarsmátt að það sést aðeins í smásjá getur vaxið hvalur sem verður fullvaxinn meira en 30 metra langur og yfir 80 tonn að þyngd. Af einu smæsta fræinu getur vaxið risafura sem nær yfir 100 metra hæð. Svo sannarlega má segja að vöxturinn sé eitt af undrum lífsins. Eins og Páll postuli sagði getum við gróðursett og vökvað en það er hins vegar ‚Guð sem gefur vöxtinn.‘ — 1. Korintubréf 3:7.
2. Hvers konar vöxtur var sagður fyrir í Biblíunni?
2 En til er annars konar vöxtur sem er álíka undraverður. Það er sá vöxtur sem Jesaja spámaður sagði fyrir: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Þessi spádómur er um vöxt þjóðar Guðs og aðaluppfylling hans á sér stað á okkar dögum.
3. Hvernig sýnir skýrslan um þjónustuárið 1992 að Jehóva er að hraða starfi þjóna sinna?
3 Í skýrslu þjónustuársins 1992 um starf votta Jehóva um allan heim sést að boðberafjöldi Guðsríkis náði nýju hámarki, 4.472.787, og að alls létu 301.002 einstaklingar skírast á árinu. Samfara straumi svona margra nýrra einstaklinga voru myndaðir 3350 nýir söfnuðir með tilsvarandi fjölda nýrra farandsvæða og umdæma. Það eru yfir níu söfnuðir á dag, næstum eitt nýtt farandsvæði annan hvern dag. Þetta er alveg ótrúlegur vöxtur! Augljóslega hefur Jehóva verið að hraða starfinu og blessað erfiði þjóna sinna. — Sálmur 127:1.
Tími sjálfsrannsóknar
4. Hvaða spurningar verður að íhuga þegar við lítum til framtíðarinnar?
4 Þótt það sé uppörvandi að sjá þessa blessun fylgir henni ákveðin ábyrgð. Verða nægilega margir þroskaðir og fúsir einstaklingar til að annast andlegar þarfir allra þessara nýju bræðra? Er við lítum til framtíðarinnar er yfirþyrmandi að hugsa um hve marga brautryðjendur, safnaðarþjóna, öldunga og farandumsjónarmenn muni þurfa til að hlúa að vextinum, og líka hve marga sjálfboðaliða verður þörf fyrir á deildarskrifstofum og Betelheimilum um allan heim til að styðja þetta starf. Hvaðan mun allt þetta fólk koma? Það leikur enginn vafi á því að uppskeran er mikil, en hverjir eru núna í stakk búnir til að annast alla þá verkamenn sem þarf til uppskerunnar? — Matteus 9:37, 38.
5. Hvernig aðstæður eru sums staðar vegna hins öra vaxtar?
5 Til dæmis hefur verið skýrt frá því að í sumum heimshlutum sé að finna söfnuði með allt að hundrað boðbera Guðsríkis en aðeins einn öldung ásamt einum eða tveimur safnaðarþjónum. Stundum þarf einn öldungur að þjóna í tveimur söfnuðum. Annars staðar er þörfin fyrir hæfa kristna boðbera til að stjórna heimabiblíunámum svo mikil að setja verður áhugasama einstaklinga á biðlista. Og á enn öðrum stöðum myndast nýir söfnuðir svo hratt að þrír, fjórir eða fimm söfnuðir verða að deila sama ríkissalnum. Kannski hefur þú séð slíkan vöxt þar sem þú býrð.
6. Hvers vegna er sjálfsrannsókn tímabær af okkar hálfu?
6 Hvað segir þetta okkur? Að með hliðsjón af tímunum þurfum við öll að rannsaka kringumstæður okkar til að sjá hvort við verjum tíma okkar og hæfileikum á sem bestan hátt til að svara þörfinni. (Efesusbréfið 5:15-17) Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum á fyrstu öldinni: „Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu.“ (Hebreabréfið 5:12) Eins og þessi orð benda á þurfa kristnir einstaklingar líka að vaxa. Og það er raunveruleg hætta á að menn sitji í því farinu að vera andleg börn í stað þess að vaxa til kristins þroska. Í samræmi við þetta hvetur Páll okkur: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ (2. Korintubréf 13:5) Hefur þú rannsakað sjálfan þig til að sjá hvort þú hafir vaxið andlega frá því að þú lést skírast? Hefur þú staðið í stað? Hvernig er hægt að dæma um það?
‚Barnaskapur‘
7. Hvað verðum við að gera til að andleg framför verði augljós?
7 „Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn,“ sagði Páll postuli. (1. Korintubréf 13:11) Í andlegum uppvexti okkar vorum við öll eitt sinn sem börn í hugsun og atferli en til að framför okkar verði augljós þurfum við að leggja niður „barnaskapinn“ eins og Páll sagði. Hvað er sumt af því sem telst barnaskapur?
8. Nefndu eitt atriði sem flokkast undir andlegan barnaskap samkvæmt orðum Páls í Hebreabréfinu 5:13, 14.
8 Beinum fyrst athyglinni að orðum Páls í Hebreabréfinu 5:13, 14: „Hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ ‚Skilur þú boðskap réttlætisins‘? Þekkir þú orð Guðs, Biblíuna, nægilega vel til að geta notað það til að „greina gott frá illu“? Páll segir að þroskaðir menn séu færir um það vegna þess að þeir næri sig reglulega á ‚fastri fæðu.‘ Þannig er löngun eða lyst á andlegri fæðu góð vísbending um hvort einhver hafi vaxið andlega eða sé enn þá andlegt barn.
9. Hvernig er andleg matarlyst manna vísbending um andlega framför þeirra?
9 Hvernig er þá andleg matarlyst þín? Hvernig lítur þú á þær gnóttir andlegrar fæðu sem Jehóva sér okkur reglulega fyrir í mynd biblíunámsrita og kristinna samkoma og móta? (Jesaja 65:13) Vafalaust fagnar þú mjög ef ný rit koma út á hinum árlegu umdæmismótum. En hvað gerir þú við þau er heim kemur? Hvað gerir þú þegar ný tölublöð Varðturnsins eða Vaknið! berast þér? Tekur þú þér tíma til að lesa þessi rit eða flettir þú aðeins í gegnum þau til að sjá fyrirsagnirnar og stingur þeim síðan með hinum á bókahilluna? Hægt væri að spyrja svipaðra spurninga varðandi kristnar samkomur. Sækir þú allar samkomurnar reglulega? Undirbýrðu þig fyrir þær og tekur jafnframt þátt í þeim? Sumir virðast hafa tamið sér slæmar andlegar neysluvenjur, fara lauslega yfir efnið og borða á hlaupum ef svo má segja. Þannig var það svo sannarlega ekki hjá sálmaritaranum sem sagði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ Enn fremur sagði Davíð konungur: „Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.“ (Sálmur 35:18; 119:97) Hve mikils við metum andlegar ráðstafanir segir augljóslega til um andlega framför okkar.
10. Hvaða andlegan barnaskap er bent á í Efesusbréfinu 4:14?
10 Páll benti á annan andlegan barnaskap er hann aðvaraði: „Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ (Efesusbréfið 4:14) Eins og foreldrar vita ósköp vel eru börn forvitin um alla hluti. Á vissan hátt er þetta jákvæður eiginleiki því hann gerir þeim kleift að rannsaka og læra og verða smám saman að þroskuðum einstaklingum. En hættan felst í því að þau geta auðveldlega látið eitt af öðru draga til sín athyglina. Og það sem verra er, þessi forvitni barnanna getur oft leitt til alvarlegra vandamála vegna reynsluleysis og þau geta jafnvel stofnað sjálfum sér og öðrum í hættu. Þetta á líka við um andleg börn.
11. (a) Hvað hafði Páll í huga með því að nota orðalagið „hverjum kenningarvindi“? (b) Hvaða ‚vindar‘ blása nú á dögum?
11 En hvað hafði Páll í huga þegar hann sagði að andleg börn hrektust af „hverjum kenningarvindi“? Orðið ‚vindur‘ er hér þýðing gríska orðsins anemos sem International Critical Commentary segir að sé greinilega „valið til að hæfa hugmyndinni um óstöðugleika.“ Það sést vel af orðum Páls í framhaldinu: „Tæld af slægum mönnum.“ Orðið ‚slægur‘ í frummálinu hefur grunnmerkinguna „spilateningar“ eða „teningaspil,“ það er að segja áhættuspil. Kjarni málsins er sá að við stöndum stöðugt frammi fyrir nýjum hugmyndum og möguleikum sem geta virst skaðlausir, girnilegir og jafnvel ómaksins verðir. Orð Páls eiga aðallega við um málefni er varða trú okkar — samkirkjuhreyfingar, félagsleg og pólitísk málefni og því um líkt. (Samanber 1. Jóhannesarbréf 4:1.) Frumreglan er líka í fullu gildi hvað varðar síbreytilega tískustrauma og tíðaranda heimsins — fatatísku, afþreyingu, mataræði, heilsu- eða líkamsræktaráhuga og svo framvegis. Vegna reynsluleysis og lakrar dómgreindar getur andlegt barn látið slíka hluti trufla sig um of og hindra sig þannig í að taka andlegum framförum og gegna mikilvægari kristnum skyldum sínum. — Matteus 6:22-25.
12. Hvernig eru lítil börn ólík fullorðnum hvað varðar ábyrgð?
12 Annað einkenni ungra barna er stöðug þörf þeirra fyrir hjálp og athygli. Þau eru sér hvorki meðvitandi um né hafa áhuga á ábyrgð; barnæskan er sá tími lífsins þegar næstum allt er bara skemmtun og leikir. Eins og Páll orðaði það ‚tala þau eins og börn, hugsa eins og börn og álykta eins og börn.‘ Þau ganga að því sem gefnum hlut að aðrir annist þau. Sama er hægt að segja um andleg börn. Þegar nýr einstaklingur flytur sína fyrstu biblíuræðu eða byrjar að fara út í starfið á akrinum gera andlegir foreldrar hans með glöðu geði allt til að hjálpa honum. Hvað gerist ef hann heldur áfram að treysta á slíka hjálp og reynist ófær um að taka á sig þá ábyrgð að sjá um sig sjálfur? Það væri augljóst merki um að hann legði sig ekki nægilega fram við að taka til sín það sem verið væri að kenna honum.
13. Hvers vegna verður hver og einn að læra að bera sína eigin byrði?
13 Í þessu sambandi skulum við minnast orða Páls. Þótt hann áminni: „Berið hver annars byrðar,“ segir hann samt: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:2, 5) Það krefst að sjálfsögðu tíma og viðleitni af einstaklingnum að læra að axla kristna ábyrgð sína og það gæti þýtt að hann þyrfti að færa fórnir á vissum sviðum. Það væru hins vegar alvarleg mistök að leyfa sér að vera svo mikið fyrir glens og gaman lífsins, hvort sem það er afþreying, ferðalög, tækninýjungar eða jafnvel það að vera ónauðsynlega upptekinn af veraldlegri vinnu, að maður fylgdist bara með úr fjarlægð, ef svo má segja, og hefði enga löngun til að auka hlut sinn í því starfi að gera menn að lærisveinum eða leggja sig fram um að taka andlegum framförum og axla ábyrgð. „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður [„með fölskum röksemdum,“ NW].“ — Jakobsbréfið 1:22; 1. Korintubréf 16:13.
14. Hvers vegna ættum við ekki að sætta okkur við að sýna af okkur andlegan barnaskap?
14 Já, það er margs konar barnaskapur sem skilur greinilega milli barna og fullorðinna. En eins og Páll sagði er mikilvægast að við leggjum smám saman niður barnaskapinn og verðum fullorðin. (1. Korintubréf 13:11; 14:20) Að öðrum kosti gætum við orðið þroskaheft í andlegum skilningi. En hvernig geta menn tekið framförum? Hvað felst í því að taka út andlegan vöxt og ná fullum þroska?
Hvernig framfarir verða augljósar
15. Lýstu meginatriðum vaxtarferlisins.
15 Nú, hvernig á vöxtur sér stað í náttúrunni? „Allar lífverur byrja lífið sem ein fruma,“ segir The World Book Encyclopedia. „Fruman tekur til sín efni sem hún breytir í byggingareiningar sem hún þarf til að vaxa. Með þessum hætti vex hver einstök fruma innan frá. Fruman getur síðan margfaldast og skipt sér til að mynda aðrar frumur. Þetta ferli uppbyggingar, margföldunar og skiptingar er vöxtur.“ Athyglisverðast við þetta er að vöxturinn á sér stað innan frá. Þegar rétt næring er innbyrt, melt og notuð verður útkoman vöxtur. Þetta sést greinilega hjá nýfæddu barni. Eins og við vitum er barninu séð reglubundið fyrir sérútbúinni fæðu, móðurmjólkinni, sem er auðug af fitu og prótínum, efnum sem eru nauðsynleg til vaxtar. Hver er árangurinn? Vöxtur barnsins, mældur í þyngdar- og hæðaraukningu, er meiri á fyrsta æviárinu en á nokkru öðru eðlilegu uppvaxtarári síðar á ævinni.
16. Hvers konar vöxtur er sjáanlegur hjá flestum nýjum biblíunemendum og hvernig er hann mögulegur?
16 Margt sem við lærum af þessu náttúrlega vaxtarferli getum við heimfært upp á andlega framför okkar frá frumstigi til fullþroska. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að hafa reglufasta næringaráætlun. Rifjaðu upp þann tíma þegar þú byrjaðir fyrst að nema Biblíuna. Ef þú ert eins og flestir aðrir vissir þú nánast ekkert um orð Guðs. En þú bjóst þig undir og hafðir biblíunám viku eftir viku og á tiltölulega skömmum tíma náðir þú að skilja allar grundvallarkenningar Biblíunnar. Þú verður að viðurkenna að það var undraverður vöxtur og hann kom til af því að þú nærðist reglulega af orði Guðs!
17. Hvers vegna er regluleg andleg næringaráætlun óhjákvæmileg?
17 En hvernig er ástatt núna? Fylgir þú enn þá reglulegri næringaráætlun? Menn ættu aldrei að láta sér detta í hug að fyrst þeir hafi látið skírast þurfi þeir ekki lengur á reglulegu og kerfisbundnu námi að halda til að innbyrða nærandi andlega fæðu. Jafnvel þótt Tímóteus væri þroskaður kristinn umsjónarmaður hvatti Páll hann: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Sérhvert okkar hefur enn brýnni þörf fyrir að gera þetta! Ef þú hefur áhuga á að gera andlega framför þína augljósa er slík viðleitni óhjákvæmileg.
18. Hvernig verður andleg framför manna augljós?
18 Að láta framför sína vera augljósa merkir ekki að leggja sig sérstaklega fram við að bera þekkingu sína á torg eða reyna að vekja aðdáun annarra. Jesús sagði: „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist“ og „af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ (Matteus 5:14; 12:34) Þegar hjörtu okkar og hugskot eru full af því góða í orði Guðs getum við ekki annað en látið það í ljós bæði í orði og verki.
19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera varðandi andlega framför okkar og með hvaða árangur í huga?
19 Spurningin er því þessi: Nemur þú Biblíuna reglulega og sækir kristnar samkomur til að taka á móti hinu næringarríka fræðsluefni sem getur örvað innri, andlegan vöxt þinn? Gerðu þig ekki ánægðan með að vera aðgerðarlaus áhorfandi þegar um andlegan þroska er að ræða. Stígðu ákveðin skref til að tryggja að þú nýtir þér til fulls þá ríkulegu andlegu fæðu sem Jehóva veitir. Ef þú ert einn þeirra sem ‚hafa yndi af lögmáli Jehóva og lesa lögmál hans í hálfum hljóðum dag og nótt,‘ þá er líka hægt að segja um þig: „Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ (Sálmur 1:2, 3) Hvað er þá hægt að gera til að tryggja að þú haldir áfram að taka andlegum framförum? Það munum við ræða í næstu grein.
Getur þú svarað?
◻ Hvers vegna er tímabært að kanna andlega framför okkar?
◻ Hvernig tengist andlegur vöxtur andlegri matarlyst?
◻ Hvað er átt við með „hverjum kenningarvindi“?
◻ Hvers vegna verður hver og einn að bera eigin byrði?
◻ Hvernig næst andleg framför?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 13]
Tekur þú þér tíma til að lesa biblíurit?