Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skemmtun og afþreying – Njóttu kostanna, forðastu snörurnar

Skemmtun og afþreying – Njóttu kostanna, forðastu snörurnar

Skemmtun og afþreying – njóttu kostanna, forðastu snörurnar

„Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ — PRÉDIKARINN 2:24.

1. Hvernig hjálpa leiðbeiningar Guðs þjónum hans í sambandi við skemmtun og afþreyingu?

 ÞJÓNAR Jehóva hafa margvíslegt gagn af því að fylgja handleiðslu hans. Það sést glöggt á sviði skemmtunar og afþreyingar. Leiðsögn hans hjálpar kristnum mönnum að forðast öfgar til beggja átta. Til er trúhneigt fólk sem fylgir ströngum reglum um klæðnað og framkomu og lítur nánast á alla skemmtun sem syndsamlega. Flestir sækjast hins vegar eftir skemmtun í ýmsum myndum, jafnvel þeim sem stríða gegn lögum Jehóva og meginreglum. — Rómverjabréfið 1:24-27; 13:13, 14; Efesusbréfið 4:17-19.

2. Hvernig kom viðhorf Guðs til skemmtana snemma í ljós?

2 En hvað um þjóna Guðs? Mörgum sem byrja að nema Biblíuna kemur á óvart að Guð skuli hafa áskapað mönnunum hæfni til að njóta lífsins. Hann fékk fyrstu foreldrum okkar verk að vinna — en ekki þann niðurdrepandi þrældóm sem hefur einkennt líf flestra ófullkominna manna. (1. Mósebók 1:28-30) Hugsaðu þér á hve marga heilnæma vegu allir sem lifa í jarðneskri paradís geta notið þess að vera til. Hugsaðu þér gleði þeirra af því að virða fyrir sér villidýrin sem mönnum stendur engin ógn af, eða af margvíslegum húsdýrum sem gætu verið hluti daglegs lífs! Og hugsaðu þér hvílíka fæðu þeir geta lesið af ‚alls konar trjám sem eru girnileg á að líta og góð að eta af.‘ — 1. Mósebók 2:9; Prédikarinn 2:24.

3-5. (a) Hvaða tilgangi ætti skemmtun og afþreying að þjóna? (b) Hvers vegna megum við vera viss um að Guð latti Ísraelsmenn ekki þess að slaka á og skemmta sér?

3 Í raun væri hægt að líta á allt þetta sem skemmtun og afþreyingu. Í paradís verður markmið hennar hið sama og núna: að endurnæra og endurnýja krafta manna til áframhaldandi starfa. Þegar skemmtun hefur þau áhrif er hún gagnleg. Ber að skilja þetta svo að skemmtun eigi rétt á sér í lífi sannra guðsdýrkenda, enda þótt þeir búi ekki enn í paradís? Já. Insight on the Scriptures segir um skemmtanir meðal þjóna Jehóva til forna:

4 „Lýsingar Biblíunnar á skemmtanalífi og afþreyingu Ísraelsmanna eru ekki fyrirferðarmiklar. Þó er ljóst að skemmtun var álitin bæði eðlileg og æskileg, svo framarlega sem hún samrýmdist trúarlegum lífsreglum þjóðarinnar. Algengasta afþreyingin var hljóðfæraleikur, söngur, dans, samræður og einnig ýmsir leikir. Gátur og erfiðar spurningar voru hafðar í hávegum. — Dm 14:12.“ — 1. bindi, bls. 102.

5 Er Davíð sneri heim eftir að hafa unnið sigur slógu hebreskar konur upp mikilli gleði (sachaq á hebresku) og léku á lútur og bjöllutrommur. (1. Samúelsbók 18:6, 7) Aðalmerking hebreska orðsins sachaq er „hlátur“ og sumar biblíuþýðingar tala um „konurnar sem skemmtu sér.“ (Byington, Rotherham, The New English Bible) Frásagan segir að þegar verið var að flytja örkina hafi ‚Davíð og allt Ísraels hús skemmt sér frammi fyrir Jehóva með alls konar hljóðfæraleik.‘ Míkal, kona Davíðs, sýndi öfgafullt viðhorf því að hún tók það óstinnt upp að Davíð skyldi taka þátt í hátíðahöldunum. (2. Samúelsbók 6:5, 14-20, NW) Guð sagði fyrir að ísraelskir útlagar í Babýlon myndu láta svipuðum gleðilátum er þeir sneru heim aftur. — Jeremía 30:18, 19; 31:4; samanber Sálm 126:2.

6. Hvernig hjálpa kristnu Grísku ritningarnar okkur að hafa rétt viðhorf til skemmtana?

6 Við ættum líka að leitast við að vera öfgalaus í afstöðu til skemmtana. Er okkur til dæmis ljóst að Jesús var ekki meinlætamaður? Hann tók sér tíma til að neyta hressandi máltíða, svo sem í ‚veislunni miklu‘ er Leví hélt. Þegar sjálfréttvísir menn fundu að því að Jesús æti og drykki vísaði hann viðhorfum þeirra á bug. (Lúkas 5:29-31; 7:33-36) Mundu líka að hann bæði sótti brúðkaupsveislu og lagði sitt af mörkum til hátíðahaldanna. (Jóhannes 2:1-10) Júdas, hálfbróðir Jesú, nefnir að kristnir menn hafi haldið „kærleiksmáltíðir,“ sýnilega máltíðir þar sem fátækir og þurfandi gátu notið matar og þægilegs, ánægjulegs félagsskapar. — Júdasarbréfið 12.

Skemmtun og afþreying á réttum stað og stund

7. Hvernig hvetur orð Guðs til jafnvægis í sambandi við afþreyingu og skemmtanir?

7 Prédikarinn 10:19 talar í jákvæðum tón um það að ‚til gleðskapar búi menn máltíðir, og vín gjöri lífið skemmtilegt.‘ Það hljómar tæplega svo að skemmtun sé röng eða slæm í sjálfri sér. Þó segir sama biblíubók: „Sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma . . . að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 4) Ljóst er því að Biblían fordæmir ekki viðeigandi skemmtun þótt hún komi með ýmis varnaðarorð. Hún ráðleggur okkur að halda skemmtun og afþreyingu í réttu hófi. Hún varar okkur líka við ýmsum hættum sem hafa verið allt of algengar þegar fólk hefur komið saman í stórum hópum. — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

8, 9. Hvers vegna ætti sá tími sem við lifum og það verkefni sem Guð hefur falið okkur, að hafa áhrif á skemmtun og afþreyingu?

8 Við nefndum að Gyðingarnir, sem sneru heim frá Babýlon, gáfu sér tíma til að slaka á og gleðjast þótt þeirra biðu mikil og erfið verkefni. Jeremía hafði hins vegar áður sagt að hann ‚sæti ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta sér.‘ (Jeremía 15:17) Guð fól honum að flytja boð um yfirvofandi dóm þannig að það var ekki rétti tíminn fyrir hann að skemmta sér.

9 Kristnir menn nú á tímum hafa það verkefni að boða vonarboðskap frá Guði en jafnframt að kunngera dóma hans gegn illu heimskerfi Satans. (Jesaja 61:1-3; Postulasagan 17:30, 31) Það ætti því að vera ljóst að við ættum ekki að leyfa skemmtanalífi að skipa fremsta sætið í lífi okkar. Við getum lýst þessu með dæmi. Með agnarlitlu af salti eða sérstöku kryddi er hægt að draga fram bragð matarins. Enginn eys svo miklu kryddi eða salti yfir matinn að ekkert bragð finnist af matnum sjálfum. Í samræmi við orð Jesú í Jóhannesi 4:34 og Matteusi 6:33 ætti fremsta hugðarefni okkar — matur okkar — að vera það að gera vilja Guðs. Þá verður afþreyingin eins og krydd. Hún ætti að hressa og auka kraft, ekki eyða kröftum okkar eða yfirgnæfa annað.

10. Hvers vegna ættum við öll að íhuga hve miklum tíma við verjum til afþreyingar?

10 En hugleiddu þetta: Ætli flestir myndu ekki segja, ef þeir væru spurðir, að þeir eyði aðeins hóflegum tíma og kröftum til skemmtunar og afþreyingar? Ef þeir væru á annarri skoðun myndu þeir breyta því. Bendir þetta ekki til að við ættum, hvert og eitt, að doka við og hugleiða alvarlega og hreinskilnislega hve stóru hlutverki skemmtun gegnir raunverulega í lífi okkar. Getur hugsast að hún hafi smátt og smátt tekið meiri tíma og rúm? Erum við til dæmis vön að kveikja sjálfkrafa á sjónvarpstækinu þegar við komum heim? Höfum við vanið okkur á að taka frá mikinn tíma í hverri viku til skemmtunar, svo sem öll föstudags- eða laugardagskvöld? Myndi okkur leiðast ef þessi tími rynni upp og við værum heima og hefðum ekkert skipulagt til skemmtunar? Tvær spurningar í viðbót: Erum við svo úrvinda sökum langrar vöku eða ferðalags, daginn eftir að við vorum að skemmta okkur, að við höfum ekki krafta eða löngun til að taka þátt í hinni kristnu þjónustu eða skila vinnuveitanda okkar góðu dagsverki? Ef skemmtun okkar eða afþreying hefur stundum eða oft þau áhrif, er hún þá í raun og veru viðeigandi og í góðu jafnvægi? — Samanber Orðskviðina 26:17-19.

11. Hvers vegna er viðeigandi að skoða vandlega hvað við veljum okkur til skemmtunar?

11 Það getur líka verið gott fyrir okkur að ígrunda hvert sé eðli þeirrar skemmtunar sem við stundum. Það eitt að við erum þjónar Guðs er engin trygging fyrir því að það sem við gerum okkur til skemmtunar sé viðeigandi. Pétur postuli þurfti að skrifa sumum smurðum kristnum mönnum eftirfarandi: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ (1. Pétursbréf 4:3) Hann var ekki að ásaka bræður sína um að líkja eftir því sem heimurinn var að gera, en hins vegar er mikilvægt fyrir kristna menn (þá og nú) að vera vel á verði því að það er auðvelt að fara út í skaðlega skemmtun. — 1. Pétursbréf 1:2; 2:1; 4:7; 2. Pétursbréf 2:13.

Varaðu þig á snörum

12. Hvers konar snöru erum við vöruð við í 1. Pétursbréfi 4:3?

12 Hvers konar snörum ættum við að vara okkur á? Nú, Pétur minntist á ‚ofdrykkju, óhóf og samdrykkjur.‘ Þýskur orðskýrandi skýrði grísku orðin, sem hér eru notuð, svo að þau hafi „aðallega verið notuð um drykkju í veislum.“ Svissneskur prófessor sagði að hér sé verið að tala um venjur sem voru algengar á þeim tíma: „Lýsingin hlýtur að vísa til skipulagðra samkvæma eða jafnvel klúbba þar sem hinar skammarlegu, umtöluðu athafnir fóru fram.“

13. Hvernig hefur það verið snara að bera fram áfengi í samkvæmum? (Jesaja 5:11, 12)

13 Áfengir drykkir í fjölmennum samkvæmum hafa verið mörgum snara. Ekki svo að skilja að Biblían banni hóflega neyslu slíkra drykkja; hún gerir það ekki. Því til sönnunar má nefna að Jesús bjó til vín í brúðkaupsveislu í Kana. Þar getur ekki hafa verið um neina ofdrykkju að ræða því að Jesús hefur fylgt heilræðum Biblíunnar um að umgangast ekki drykkjurúta. (Orðskviðirnir 23:20, 21) En taktu eftir einu: Veislustjórinn sagði að í öðrum veislum væri venja að bera fyrst fram góða vínið og ‚síðan hið lakara er menn væru orðnir ölvaðir.‘ (Jóhannes 2:10) Það var því algengt að Gyðingar yrðu ölvaðir í brúðkaupsveislum þar sem nóg vín var fyrir alla.

14. Á hvaða vegu gætu kristnir gestgjafar verið vakandi fyrir þeirri snöru sem áfengi getur verið?

14 Sumir kristnir gestgjafar hafa þar af leiðandi ákveðið að bjóða vín, bjór og aðra áfenga drykki aðeins ef þeir geta persónulega haft umsjón með því hvað gestum þeirra er borið eða hve mikið þeir drekka. Ef hópurinn er stærri en svo að gestgjafinn geti haft beina umsjón með honum, eins og var í brúðkaupum Gyðinganna er nefnd hafa verið, getur ótakmarkað áfengi verið hættuleg snara. Í hópi gestanna gæti verið maður sem átti við áfengisvandamál að stríða og sigraðist á því. Þú getur rétt ímyndað þér að óhindraður aðgangur að áfengi gæti freistað hans til að drekka í óhófi og spillt ánægjunni fyrir öllum. Umsjónarmaður og faðir í Þýskalandi lét þau orð falla að fjölskylda hans hafi ánægju af félagsskap trúbræðra sinna þegar komið væri saman til skemmtunar. Hann bætti þó við að hættan á vandamálum ykist stórlega þegar bjór stæði öllum til boða.

15. Hvernig er hægt að tryggja viðeigandi umsjón í samkvæmum?

15 Í brúðkaupinu í Kana var ‚veislustjóri.‘ (Jóhannes 2:8) Ekki er þar með sagt að fjölskylda, sem býður til sín gestum til matar eða félagsskapar, þurfi að skipa veislustjóra. Eiginmaðurinn ber eðlilega ábyrgð á því að hafa umsjón með samkvæminu. En hvort heldur það eru aðeins tvær fjölskyldur sem koma saman eða hópurinn er eitthvað stærri ætti að vera ljóst að einhver ber ábyrgð á því sem fram fer. Margir foreldrar ganga úr skugga um það þegar syni þeirra eða dóttur er boðið í samkvæmi. Þeir hafa samband við gestgjafann til að spyrja hver hafi umsjón með samkvæminu í heild og sé viðstaddur uns því lýkur. Kristnir foreldrar hafa jafnvel gert ráðstafanir til að vera viðstaddir þannig að bæði unga fólkið og þeir sem eldri eru geti notið þess að vera saman.

16. Hvað ber að íhuga í sambandi við fjölda gesta?

16 Útibú Varðturnsfélagsins í Kanada skrifar: „Sumir öldungar hafa skilið leiðbeiningarnar um það að takmarka stærð samkvæmis sem svo að fjölmennar brúðkaupsveislur væru brot á þeim leiðbeiningum. Þeir hafa dregið þá ályktun að fyrst okkur sé ráðlagt að hafa samkvæmi okkar á meðal af viðráðanlegri stærð væri rangt að hafa 200 eða 300 gesti í brúðkaupsveislu.“ * Í stað þess að einblína á einhvern ákveðinn gestafjölda ætti að leggja megináherslu á viðeigandi umsjón, óháð því hve margir eru viðstaddir. Jesús útvegaði töluvert magn af víni í brúðkaupsveislunni í Kana sem bendir til að hún hafi verið nokkuð fjölmenn, en ljóst er að góð umsjón var með öllu sem fram fór. En svo var ekki alltaf á þeim tíma og þegar umsjón var ekki næg kann það að hafa stafað af því að gestir voru of margir. Því stærri sem hópurinn er, þeim mun meira er krafist af þeim sem umsjónina hefur því að þá er auðveldara fyrir þá sem hneigjast til óhófs að láta til sín taka. Samkvæmi þar sem umsjón er ófullnægjandi getur leitt til vafasamra athafna. — 1. Korintubréf 10:6-8.

17. Hvernig er hægt að sýna kristilegt jafnvægi þegar lögð eru drög að samkvæmi?

17 Skipulagning og undirbúningur er hluti góðrar umsjónar með samkvæmi. Ekki er nauðsynlegt að setja einhverja sérstaka umgjörð um það til að gera það einstakt eða eftirminnilegt, en líkja þar með eftir veraldlegum samkvæmum svo sem grímudansleikjum. Getur þú ímyndað þér trúfasta Ísraelsmenn í fyrirheitna landinu skipuleggja teiti þar sem allir áttu að klæðast eins og heiðingjar í Egyptalandi eða annars staðar? Heldur þú að þeir myndu setja á dagskrá lostafulla dansa eða tryllingslega tónlist sem var kannski í tísku meðal heiðingjanna? Við Sínaífjall leiddust þeir út í tónlist og dans eins og var kannski vinsælt í Egyptalandi. Við vitum hvernig Guð og þroskaður þjónn hans, Móse, litu á þá skemmtun. (2. Mósebók 32:5, 6, 17-19) Gestgjafi eða umsjónarmaður samkvæmis ætti því að íhuga hvort þar verði sungið og dansað; og ef svo er ætti hann að fullvissa sig um að það sé í samræmi við kristnar meginreglur. — 2. Korintubréf 6:3.

18, 19. Hvað sýnir það að Jesú skyldi vera boðið í brúðkaup og hvað getum við lært af því?

18 Að lokum skulum við muna að ‚Jesú og lærisveinum hans var boðið til brúðkaupsins.‘ (Jóhannes 2:2) Að sjálfsögðu geta einstaklingar eða fjölskyldur farið í heimsókn til vina til þess einfaldlega að eiga saman þægilega og ánægjulega stund. Þegar um er að ræða fyrirfram skipulögð samkvæmi sýnir reynslan hins vegar að forðast má ýmis vandamál með því að athuga fyrirfram hverjir verða viðstaddir. Öldungur í Tennessee í Bandaríkjunum lagði áherslu á það en hann á syni og dætur sem þjóna núna í fullu starfi. Áður en hann eða konan hans þáðu boð eða leyfðu börnum sínum að gera það hafði hann samband við gestgjafann til að fullvissa sig um að það væri fyrirfram ákveðið hverjir kæmu. Það verndaði fjölskyldu hans fyrir snörum sem sumir hafa fallið í er hafa sótt skemmtun sem var öllum opin, hvort heldur það var máltíð, útivistarferð eða íþróttir.

19 Jesús latti menn þess að bjóða einungis til sín ættingjum, gömlum vinum, jafnöldrum eða fólki með svipaðan efnahag. (Lúkas 14:12-14; samanber Jobsbók 31:16-19; Postulasöguna 20:7-9.) Ef þú velur vandlega hverjum þú býður er auðveldara að hafa með í hópnum kristna menn á ólíkum aldri sem búa við ólíkar aðstæður. (Rómverjabréfið 12:13; Hebreabréfið 13:2) Fáeinir þeirra gætu verið andlega veikburða eða nýir sem geta notið góðs af félagsskap við þroskaða kristna menn. — Orðskviðirnir 27:17.

Skemmtun í réttu hófi

20, 21. Hvers vegna á skemmtun og afþreying rétt á sér í lífi okkar?

20 Það er viðeigandi fyrir okkur sem guðhrædda einstaklinga að gefa gaum að því sem við veljum okkur til skemmtunar og gæta góðs jafnvægis í því hve miklum tíma og kröftum við verjum til slíks. (Efesusbréfið 2:1-4; 5:15-20) Hinn innblásni ritari Prédikarans var þeirrar skoðunar: „Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.“ (Prédikarinn 8:15) Slík öfgalaus skemmtun getur hresst líkamann og firrt okkur vandamálum og vonbrigðum sem eru algeng í núverandi heimskerfi.

21 Svo dæmi sé tekið skrifaði austurrískur brautryðjandi gömlum vini: „Við fórum í mjög ánægjulega útivistarferð um daginn. Við vorum um 50 sem fórum að litlu vatni í grennd við Ferlach. Bróðir B—— ók á undan á sendibílnum sínum með þrjú grill, fellistóla, borð og jafnvel borðtennisborð. Við skemmtum okkur alveg konunglega. Systir nokkur var með harmóníku með sér þannig að það var sungið mikið af söngvum Guðsríkis. Bræðurnir, bæði ungir og gamlir, nutu félagsskaparins út í ystu æsar.“ Þessi brautryðjandasystir átti góðar minningar eftir þessa afþreyingu þar sem var gott eftirlit og engin ofdrykkja eða lausung. — Jakobsbréfið 3:17, 18.

22. Hvaða aðvörun ber okkur alltaf að hafa í huga þegar við skipuleggjum eða tökum þátt í samkvæmi?

22 Páll hvatti okkur til að gæta þess að láta ekki undan löngunum hins ófullkomna holds, ekki einu sinni að gera nein þau áform sem gætu gert okkur berskjölduð fyrir freistingum. (Rómverjabréfið 13:11-14) Það gildir einnig um skemmtun og afþreyingu. Þegar við heimfærum leiðbeiningar Páls á því sviði getum við forðast þær aðstæður sem hafa valdið sumum andlegu skipbroti. (Lúkas 21:34-36; 1. Tímóteusarbréf 1:19) Við munum frekar velja heilnæma afþreyingu sem hjálpar okkur að varðveita samband okkar við Guð. Þannig höfum við gagn af skemmtun og afþreyingu sem hægt er að líta á sem eina af hinum góðu gjöfum Guðs. — Prédikarinn 5:18.

[Neðanmáls]

^ Varðturninn 1. janúar 1985 gaf öfgalausar leiðbeiningar um brúðkaup og brúðkaupsveislur. Gagnlegt er fyrir væntanlegan brúðguma og brúði hans, svo og þá sem aðstoða þau, að rifja upp þetta efni áður en lögð eru drög að brúðkaupinu.

Hvað höfum við lært?

◻ Hvaða öfgalaust viðhorf til skemmtunar og afþreyingar finnum við í Biblíunni?

◻ Hvað ættum við að hugsa um í sambandi við það sem við gerum til afþreyingar og tímann sem fer í hana?

◻ Hvað getur kristinn gestgjafi gert til að forðast snörur?

◻ Hvaða gagn getur skemmtun og afþreying gert kristnum manni ef jafnvægis er gætt?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 30]

Gestgjafi í samkvæmi ber ábyrgð á því að gestir hans festist ekki í snöru.