Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Færið alla tíundina í forðabúrið“

„Færið alla tíundina í forðabúrið“

„Færið alla tíundina í forðabúrið“

„Reynið mig einu sinni á þennan hátt . . . hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins.“ — MALAKÍ 3:10.

1. (a) Hvað bauð Jehóva þjóð sinni á fimmtu öld f.o.t.? (b) Hvaða afleiðingar hafði það á fyrstu öld okkar tímatals er Jehóva kom til musterisins til að dæma?

 Á FIMMTU öld fyrir okkar tímatal höfðu Ísraelsmenn verið ótrúir Jehóva. Þeir höfðu komið með ónothæfar skepnur til musterisins sem fórnir og ekki greitt tíundina. Eigi að síður lofaði Jehóva að hann myndi úthella yfir þá ríkulegri blessun ef þeir færðu alla tíundina í forðabúrið. (Malakí 3:8-10) Um 500 árum síðar kom Jehóva fyrir milligöngu Jesú, sendiboða sáttmálans, til musterisins í Jerúsalem til að halda dóm. (Malakí 3:1) Sem þjóð reyndist Ísrael áfátt en einstaklingar, sem sneru sér aftur til Jehóva, hlutu ríkulega blessun. (Malakí 3:7) Þeir voru smurðir til að verða andlegir synir Jehóva, ný sköpun, „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 3:25, 26.

2. Hvenær átti Malakí 3:1-10 að hljóta síðari uppfyllingu og hvað er okkur boðið að gera í sambandi við hana?

2 Næstum 1900 árum síðar, árið 1914, var Jesús krýndur sem konungur hins himneska ríkis Jehóva og innblásin orð Guðs í Malakí 3:1-10 tóku að uppfyllast öðru sinni. Í tengslum við þennan hrífandi atburð er kristnum nútímamönnum boðið að færa alla tíundina í forðabúrið. Ef við gerum það munum við líka hljóta ríkulega blessun.

3. Hver var sendiboðinn sem undirbjó veginn fyrir Jehóva (a) á fyrstu öld? (b) fyrir fyrri heimsstyrjöldina?

3 Jehóva sagði um komu sína til musterisins: „Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér.“ (Malakí 3:1) Uppfylling þessa á fyrstu öld fólst í því að Jóhannes skírari kom til Ísraels og prédikaði iðrun synda. (Markús 1:2, 3) Átti sér stað undirbúningsstarf í tengslum við síðari komu Jehóva til musteris síns? Já, á áratugunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina komu Biblíunemendurnir fram á sjónarsviðið og kenndu hreinar biblíukenningar og afhjúpuðu lygar sem svívirtu Guð, svo sem kenningarnar um þrenningu og helvítiseld. Þeir vöruðu líka við því að heiðingjatímunum lyki árið 1914. Margir brugðust jákvætt við starfi þessara ljósbera sannleikans. — Sálmur 43:3; Matteus 5:14, 16.

4. Hvaða spurningu þurfti að útkljá á Drottins degi?

4 Árið 1914 hófst það sem Biblían kallar ‚Drottins dag.‘ (Opinberunarbókin 1:10) Afdrifaríkir atburðir áttu að eiga sér stað á þeim degi, meðal annars sá að borin yrðu kennsl á hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ og að hann yrði settur yfir „allar eigur“ húsbóndans. (Matteus 24:45-47) Árið 1914 sögðust þúsundir kirkjudeilda vera kristnar. Hvaða hóp myndi húsbóndinn, Jesús Kristur, viðurkenna sem trúan og hygginn þjón sinn? Þeirri spurningu yrði svarað þegar Jehóva kæmi til musterisins.

Komið til hins andlega musteris

5, 6. (a) Til hvaða musteris kom Jehóva til að halda dóm? (b) Hvaða dóm hlaut kristni heimurinn frá Jehóva?

5 En hvaða musteris kom hann til? Augljóslega ekki bókstaflegs musteris í Jerúsalem. Hið síðasta slíkra mustera var eyðilagt árið 70. Jehóva á sér hins vegar meira musteri sem musterið í Jerúsalem var táknmynd um. Páll talaði um þetta meira musteri og sýndi hve stórkostlegt það væri, með hið allra helgasta á himnum og forgarða á jörðinni. (Hebreabréfið 9:11, 12, 24; 10:19, 20) Það er þetta mikla andlega musteri sem Jehóva kom til í þeim tilgangi að halda dóm. — Samanber Opinberunarbókina 11:1; 15:8.

6 Hvenær gerðist það? Umtalsverðar sannanir liggja fyrir því að það hafi verið árið 1918. * Hvaða afleiðingar hafði það? Hvað kristna heiminn varðar sá Jehóva samtök með alblóðugar hendur, spillt trúkerfi sem hafði lifað skækjulífi með þessum heimi og tekið höndum saman með hinum auðugu og kúgað hina fátæku og kennt heiðnar kenningar í stað þess að iðka sanna tilbeiðslu. (Jakobsbréfið 1:27; 4:4) Fyrir munn Malakí hafði Jehóva varað við: „Ég . . . mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum.“ (Malakí 3:5) Kristni heimurinn hafði gert allt þetta og meira til. Árið 1919 var augljóst orðið að Jehóva hafði dæmt hann til tortímingar ásamt öðrum hlutum Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Þaðan í frá ómaði kallið til hjartahreinna manna: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni.“ — Opinberunarbókin 18:1, 4.

7. Hverja viðurkenndi Jesús sem trúan og hygginn þjón sinn?

7 Hver var þá hinn trúi og hyggni þjónn? Á fyrstu öldinni hófst hann með hinum smáa hópi sem brást jákvætt við vitnisburðarstarfi Jóhannesar skírara og Jesú, engli eða boðbera sáttmálans. Á okkar öld var hann þær fáu þúsundir sem brugðust jákvætt við undirbúningsstarfi Biblíunemendanna á árunum fyrir 1914. Þeir máttu þola erfiðar þrengingar í fyrri heimsstyrjöldinni en þeir sýndu að hjarta þeirra var hjá Jehóva.

Hreinsunarstarf

8, 9. Hvers konar hreinsun þurfti hinn trúi og hyggni þjónn á að halda árið 1918 og hverju hafði Jehóva lofað í því sambandi?

8 En jafnvel þessi hópur þarfnaðist hreinsunar. Sumir sem höfðu tengst hópnum reyndust vera óvinir trúarinnar og þá þurfti að hreinsa burt. (Filippíbréfið 3:18) Aðrir voru ófúsir að axla þá ábyrgð sem fylgdi því að þjóna Jehóva og fjarlægðust. (Hebreabréfið 2:1) Að auki voru enn eftir ýmsar babýlonskar athafnir sem þurfti að leggja niður. Skipulagslega þurfti einnig að hreinsa hinn trúa og hyggna þjón. Hann þurfti að læra og tileinka sér rétta hlutleysisafstöðu gagnvart þessum heimi. Og jafnhliða vaxandi spillingu heimsins þurfti hann að heyja harða baráttu til að halda söfnuðinum siðferðilega og andlega óspilltum. — Samanber Júdasarbréfið 3, 4.

9 Já, hreinsunar var þörf en Jehóva hafði í kærleika sínum lofað varðandi hinn krýnda Jesú: „Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að [Jehóva] hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er.“ (Malakí 3:3) Frá og með 1918 hefur Jehóva notað þennan engil eða sendiboða sáttmálans til að uppfylla loforð sitt um að hreinsa þjóna sína.

10. Hvers konar fórnir báru þjónar Guðs fram og hvað bauð Jehóva þeim?

10 Smurðir bræður Krists og múgurinn mikli, sem gekk til liðs við þá í þjónustu Jehóva, nutu allir góðs af því að Jehóva skyldi vera eins og málmbræðslumaður sem hreinsar silfur. (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15) Sem skipulag gengu þeir fram og ganga enn til að bera fram fórnargjafir á þann hátt sem rétt er. Og fórnir þeirra „geðjast [Jehóva] eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum.“ (Malakí 3:4) Það voru þeir sem Jehóva bauð á spádómlegan hátt: „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ — Malakí 3:10.

Fórnir og tíund

11. Hvers vegna er ekki lengur krafist fórna í samræmi við lögmál Móse?

11 Á dögum Malakí komu þjónar Guðs með bókstaflegar fórnir og tíund, svo sem korn, ávexti og búpening. Jafnvel á dögum Jesú færðu trúfastir Ísraelsmenn bókstaflegar fórnir í musterinu. En eftir dauða Jesú breyttist það allt. Lögmálið var numið úr gildi, og þar með ákvæðin um að bera skyldi fram tilgreindar, efnislegar fórnir og tíund. (Efesusbréfið 2:15) Jesús uppfyllti hina spádómlegu fyrirmynd sem fórnirnar undir lögmálinu voru. (Efesusbréfið 5:2; Hebreabréfið 10:1, 2, 10) Á hvaða hátt geta kristnir menn þá borið fram fórnir og tíund?

12. Hvers konar andlegar fórnir og gjafir bera kristnir menn fram?

12 Hjá þeim eru fórnirnar fyrst og fremst andlegar. (Samanber Filippíbréfið 2:17; 2. Tímóteusarbréf 4:6.) Til dæmis talaði Páll um prédikunarstarfið sem fórn er hann sagði: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ Hann benti á annars konar andlegar fórnir, sem hægt væri að færa, er hann hvatti: „En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebreabréfið 13:15, 16) Þegar foreldrar hvetja börn sín til að hefja brautryðjandastarf má segja að þeir séu að fórna Jehóva þeim, mjög svipað og Jefta fórnaði Guði, sem hafði veitt honum sigur, dóttur sinni að „brennifórn.“ — Dómarabókin 11:30, 31, 39.

13. Hvers vegna er þess ekki krafist af kristnum mönnum að þeir gefi bókstaflega tíunda hluta tekna sinna?

13 En hvað um tíundina? Er kristnum mönnum skylt að leggja fyrir tíunda hluta tekna sinna og greiða hann skipulagi Jehóva, ekki ósvipað og gert er hjá sumum kirkjufélögum kristna heimsins? Nei, þess er ekki krafist. Hvergi er að finna í Ritningunni slíka reglu fyrir kristna menn. Þegar Páll var að safna samskotum handa þurfandi mönnum í Júdeu minntist hann ekki á sérstakan hundraðshluta er leggja bæri fram. Þess í stað sagði hann: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Er Páll talaði um þá sem gegndu sérstakri þjónustu benti hann á að sumir ættu rétt á að þeim væri haldið uppi með frjálsum framlögum, en sjálfur kvaðst hann reiðubúinn að vinna til að sjá fyrir sér. (Postulasagan 18:3, 4; 1. Korintubréf 9:13-15) Engin tíund var tiltekin í þessum tilgangi.

14. (a) Hvers vegna táknar tíundin ekki að við gefum okkur Jehóva að fullu og öllu? (b) Hvað táknar tíundin?

14 Ljóst er að fyrir kristna menn táknar tíundin eða stendur fyrir eitthvað annað. Í Biblíunni táknar talan tíu oft jarðneskan fullkomleika. Táknar þá tíundin að við gefum okkur Jehóva að fullu og öllu? Nei, þegar við vígjumst Jehóva og gefum tákn um það með vatnsskírn, þá erum við að gefa okkur honum að fullu og öllu. Frá vígsludegi okkar eigum við ekkert sem tilheyrir ekki Jehóva nú þegar. Hins vegar leyfir Jehóva einstaklingum að gefa af efnum sínum og kröftum. Tíundin táknar því þann hluta eigna okkar og krafta sem við færum Jehóva eða notum í þjónustu hans sem tákn um kærleika okkar til hans og viðurkenningu á þeirri staðreynd að við tilheyrum honum. Tíund nútímans þarf ekki að vera bara tíund. Í sumum tilvikum er hún minna; í öðrum tilvikum meira. Hver og einn ber fram það sem hjarta hans knýr hann til og það sem aðstæður hans leyfa.

15, 16. Hvað er innifalið í andlegri tíund okkar?

15 Hvað er fólgið í þessari andlegu tíund? Til dæmis gefum við Jehóva af tíma okkar og kröftum. Tíminn sem við verjum á samkomunum, í það að sækja mótin eða í þjónustunni á akrinum, allt þetta erum við að gefa Jehóva — það er hluti af tíundinni okkar. Sá tími og kraftar sem við notum til að heimsækja sjúka og hjálpa öðrum — þetta er líka hluti af tíundinni. Aðstoð við byggingu ríkissala og þátttaka í viðhaldi og hreinsun þeirra er einnig hluti tíundarinnar.

16 Tíundin okkar er líka fólgin í fjárframlögum. Hinn einstæði vöxtur skipulags Jehóva á síðustu árum hefur haft í för með sér auknar fjárhagsskuldbindingar. Það vantar nýja ríkissali, bætta aðstöðu við útibú Félagsins og nýjar mótshallir, auk þess að viðhalda þarf þeim byggingum sem þegar eru til. Eins þarf verulegt fé til þess að standa straum af útgjöldum þeirra sem hafa boðið sig fram til sérstakrar þjónustu — og þeir færa oft miklar, persónulegar fórnir til að geta gert það. Árið 1992 nam kostnaðurinn við að halda uppi trúboðum, farandumsjónarmönnum og sérbrautryðjendum, og þá er allt annað ótalið, ríflega 45 milljónum Bandaríkjadala eða sem svarar rúmlega 2,8 milljörðum íslenskra króna. Það var að öllu leyti fjármagnað með frjálsum framlögum.

17. Hvað ættum við að gefa sem andlega tíund?

17 En hvað ættum við að gefa sem andlega tíund? Jehóva tiltekur engan hundraðshluta. Þrátt fyrir það hvetur hollustukennd, óvikinn kærleikur til Jehóva og bræðranna og sú vitneskja að mikið liggi við til að bjarga mannslífum okkur til að koma með alla okkar andlegu tíund. Við finnum okkur knúin til að þjóna Jehóva af eins miklu kappi og við frekast getum. Ef við værum nísk á fjármuni okkar og krafta eða gæfum með ólund, þá jafngilti það því að ræna Guð. — Samanber Lúkas 21:1-4.

Yfirgnæfanleg blessun

18, 19. Hvernig hefur Jehóva blessað þjóna sína fyrir að koma með alla tíundina?

18 Frá 1919 hafa þjónar Jehóva verið örlátir á tíma sinn, krafta og fjármuni til stuðnings prédikunarstarfinu. Þeir hafa svo sannarlega fært alla tíundina í forðabúrið. Þar af leiðandi hefur Jehóva staðið við fyrirheit sitt og úthellt yfir þá yfirgnæfanlegri blessun. Það hefur birst hvað gleggst í tölulegum vexti þeirra. Þegar Jehóva kom til musteris síns árið 1918 voru hinir smurðu, sem þjónuðu honum, nokkur þúsund talsins, en nú eru þeir og félagar þeirra, hinir aðrir sauðir, orðnir langt yfir fjórar milljónir í 229 löndum. (Jesaja 60:22) Þeir hafa líka hlotið þá blessun að vaxa stöðugt í skilningi á sannleikanum. Hið spámannlega orð er þeim enn áreiðanlegra en áður var. Traust þeirra á uppfyllingu tilgangs Jehóva er orðið óhagganlegt. (2. Pétursbréf 1:19) Þeir eru svo sannarlega ‚lærisveinar Jehóva.‘ — Jesaja 54:13.

19 Fyrir munn Malakí sagði Jehóva fyrir enn frekari blessun: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16) Af öllum samtökum eða stofnunum, sem segjast kristnar, eru það einungis vottar Jehóva sem virða og hugsa um nafn Guðs og mikla það meðal þjóðanna. (Sálmur 34:4) Þeim er það mikið gleðiefni að vita að Jehóva skuli muna eftir trúfesti þeirra!

20, 21. (a) Hvaða blessunarríks sambands njóta sannkristnir menn? (b) Hvaða munur í sambandi við kristnina verður æ skýrari?

20 Hinar smurðu leifar eru útvalin þjóð Jehóva og múgurinn mikli, sem streymir til samfélags við þá, uppsker með þeim þá blessun sem fylgir sannri guðsdýrkun. (Sakaría 8:23) Jehóva lofar fyrir munn Malakí: „Þeir skulu vera mín eign — segir [Jehóva] allsherjar — á þeim degi, sem ég hefst handa, og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.“ (Malakí 3:17) Hvílík blessun að Jehóva skuli bera svona mikla umhyggju fyrir þeim!

21 Munurinn á sönnum kristnum mönnum og fölskum verður æ skýrari. Meðan þjónar Jehóva keppast við að fylgja kröfum hans sekkur kristni heimurinn dýpra og dýpra í spillingarfen þessa heims. Orð Jehóva hafa svo sannarlega ræst: „Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ — Malakí 3:18.

22. Hvaða blessanir megum við treysta á ef við höldum áfram að koma með alla tíundina?

22 Bráðlega mun reikningsskiladagurinn renna upp yfir falskristna menn. „Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim — segir [Jehóva] allsherjar — svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.“ (Malakí 4:1) Þjónar Jehóva vita að hann mun vernda þá á þeim tíma eins og hann verndaði andlega þjóð sína árið 70. (Malakí 4:2) Það er þeim mikil hughreysting að vita það! Við skulum því öll, uns það gerist, sýna að við metum Jehóva að verðleikum og elskum hann með því að færa alla tíundina í forðabúrið. Þá getum við treyst því að hann haldi áfram að blessa okkur ríkulega.

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum 1. nóvember 1987, bls. 12-18.

Getur þú svarað?

◻ Hvenær kom Jehóva til musterisins á okkar tímum í fylgd með engli sáttmálans?

◻ Hver er hinn trúi og hyggni þjónn og hvaða hreinsun þurfti hann að gangast undir eftir 1918?

◻ Hvers konar andlegar fórnir færa sannkristnir menn Jehóva?

◻ Hver er tíundin sem kristnir menn eru hvattir til að koma með í forðabúrið?

◻ Hvaða blessana njóta þjónar Guðs vegna þess að þeir koma með hina andlegu tíund?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 30]

Andleg tíund okkar felur í sér að bjóða fram krafta okkar og efni til að byggja ríkissali.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Vegna þeirrar blessunar, sem Jehóva hefur veitt þjónum sínum, hefur mikið þurft að byggja, meðal annars ríkissali og mótssali.