Getur þessi máltíð haft þýðingu fyrir þig?
Getur þessi máltíð haft þýðingu fyrir þig?
FULLT tungl baðar landið mildu ljósi. Í stofu á efri hæð í húsi einu í hinni aldagömlu Jerúsalem sitja 12 karlmenn til borðs. Ellefu þeirra fylgjast af óskiptri athygli með kennara sínum er hann kynnir fyrir þeim mikilvæga, nýja trúarathöfn og talar til þeirra merkingarþrungnum orðum. Í einni frásögu af atburðinum segir:
„Jesús [tók] brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ‚Takið og etið, þetta er líkami minn.‘ Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns.‘ Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.“ — Matteus 26:26-30.
Þetta gerðist eftir sólsetur 14. dag mánaðarins nísan samkvæmt almanaki Gyðinga árið 33. Jesús og postular hans voru nýbúnir að halda páskahátíðina til að minnast frelsunar Ísraels úr fjötrum í Egyptalandi á 16. öld f.o.t. Kristur hafði látið Júdas Ískaríot, sem var í þann mund að svíkja hann, fara. Þess vegna voru aðeins Jesús og 11 trúfastir postular hans viðstaddir.
Þessi máltíð var ekki framhald páskamáltíðar Gyðinga. Hún var ný athöfn, síðar kölluð kvöldmáltíð Drottins. Jesús sagði fylgjendum sínum um þessa trúarathöfn: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19, 20; 1. Korintubréf 11:24-26) Hvers vegna sagði hann það? Og hvernig getur þessi aldagamli atburður hugsanlega haft þýðingu fyrir þig?