Jehóva fyrirgefur ríkulega
Jehóva fyrirgefur ríkulega
„Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], . . . því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — JESAJA 55:7.
1. Hvaða blessunar eru þeir sem öðlast fyrirgefningu Jehóva aðnjótandi núna?
JEHÓVA fyrirgefur iðrunarfullum syndurum og gerir þeim kleift að búa við hugarfrið í andlegri paradís. Það kemur til af því að þeir uppfylla þessar kröfur: „Leitið [Jehóva] meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:6, 7.
2. (a) Hvað er átt við með því að ‚leita Jehóva‘ og ‚snúa sér til hans‘ eins og talað er um í Jesaja 55:6, 7? (b) Hvers vegna þurftu hinir útlægu Gyðingar í Babýlon að snúa sér til Jehóva og hvert varð hlutskipti sumra?
2 Til að ‚leita Jehóva‘ og ákalla hann á velþóknanlegan hátt verður óguðlegur maður að hætta röngu líferni sínu og láta af sérhverri hugsun um að gera öðrum mein. Þörfin á að ‚snúa sér til Jehóva‘ gefur til kynna að syndarinn hafi áður átt náið samband við Guð en yfirgefið hann. Svo var um Júdamenn. Ótrúmennska þeirra við Guð leiddi til útlegðar í Babýlon. Hinir útlægu Gyðingar þurftu að snúa sér til Jehóva með því að iðrast þeirra misgerða sem höfðu leitt til útlegðar þeirra í Babýlon og 70 ára auðnar heimalands þeirra sem sögð hafði verið fyrir. Árið 537 f.o.t. settust guðhræddar leifar Gyðinga, sem sleppt var úr Babýlon með opinberri tilskipun, aftur að í landinu. (Esrabók 1:1-8; Daníel 9:1-4) Svo stórkostleg voru áhrif þessarar endurreisnar að Júda var líkt við paradísina Eden. — Esekíel 36:33-36.
3. Hvernig hafa leifar hins andlega Ísraels orðið fyrir svipaðri reynslu og hinir guðhræddu útlagar sem sneru heim til Júda?
3 Andlegir Ísraelsmenn hafa orðið fyrir svipaðri lífsreynslu og hinir guðhræddu Gyðingar sem sneru aftur heim til Júda eftir útlegðina í Babýlon. (Galatabréfið 6:16) Leifar hins andlega Ísraels breyttu ýmsu í háttum sínum og hugsunarhætti strax eftir fyrri heimsstyrjöldina. Árið 1919 lauk útlegð þeirra frá fullri velþóknun Guðs í Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Með því að þeir iðruðust synda sinna, sem fólust í ótta við menn og aðgerðaleysi í þjónustu Jehóva, frelsaði hann þá frá Babýlon hinni miklu, leiddi þá aftur til sinnar réttmætu, andlegu eignar og tók að nota þá á ný við að prédika boðskapinn um Guðsríki. Síðan þá hefur blómgast andleg paradís meðal þjóna Guðs, heilögu nafni hans til vegsauka. (Jesaja 55:8-13) Í hinni fornu fyrirmynd og í eftirmynd nútímans höfum við þannig skýr merki þess að blessun fylgi fyrirgefningu Guðs og að Jehóva fyrirgefi svo sannarlega iðrunarfullum mönnum ríkulega.
4. Hvað óttast sumir þjónar Jehóva?
4 Nútímaþjónar Jehóva geta því treyst á fyrirgefningu hans. Eigi að síður eru sumir þeirra örvilnaðir yfir syndum fortíðarinnar og sektarkenndin nánast bugar þá. Þeim finnst þeir ekki þess verðir að búa í hinni andlegu paradís. Sumir óttast meira að segja að þeir hafi drýgt ófyrirgefanlega synd og hljóti aldrei fyrirgefningu Jehóva. Er það sennilegt?
Sumar syndir eru ófyrirgefanlegar
5. Hvers vegna er hægt að segja að sumar syndir séu ófyrirgefanlegar?
5 Sumar syndir eru ófyrirgefanlegar. Jesús Kristur sagði: „Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.“ (Matteus 12:31) Lastmæli gegn heilögum anda eða starfskrafti Guðs er því ekki fyrirgefið. Páll postuli hafði óbeint orð á því er hann skrifaði: „Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir . . . en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.“ — Hebreabréfið 6:4-6.
6. Hvað sker úr um hvort synd sé ófyrirgefanleg eða ekki?
6 Guð einn veit hvort einhver hefur drýgt ófyrirgefanlega synd. Páll varpaði hins vegar ljósi á þetta mál er hann skrifaði: „Ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi.“ (Hebreabréfið 10:26, 27) Sá sem syndgar af ásettu ráði er þrjóskur og einþykkur. Þeim sem heldur þrjóskufullur og af ásettu ráði áfram að iðka synd eftir að hann kynnist sannleikanum er ekki fyrirgefið. Það er því ekki fyrst og fremst syndin sjálf sem ræður því hvort hún er fyrirgefin eða ekki, heldur miklu frekar hjartalagið og í hvaða mæli er um ásetning að ræða. Ef kristnum manni líður hins vegar afar illa vegna rangrar breytni sinnar, þá benda djúpar áhyggjur hans sennilega til að hann hafi ekki drýgt ófyrirgefanlega synd.
Syndir þeirra voru ófyrirgefanlegar
7. Hvers vegna getum við sagt að sumir af trúarlegum andstæðingum Jesú hafi drýgt ófyrirgefanlega synd?
7 Sumir trúarleiðtogar Gyðinga, sem voru andsnúnir Jesú, drýgðu yfirvegaða og þar með ófyrirgefanlega synd. Enda þótt þessir klerkar sæju heilagan anda Guðs að verki fyrir milligöngu Jesú, þegar hann gerði gott og vann kraftaverk, fullyrtu þeir að hann hefði kraft sinn frá Belsebúl eða Satan djöflinum. Þeir syndguðu andspænis óumdeilanlegum vitnisburði um starfsemi anda Guðs. Þannig drýgðu þeir ófyrirgefanlega synd því að Jesús sagði: „Þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.“ — Matteus 12:22-32.
8. Hvers vegna var synd Júdasar Ískaríots ófyrirgefanleg?
8 Synd Júdasar Ískaríots var líka ófyrirgefanleg. Með því að svíkja Jesú var hann vísvitandi og yfirvegað að láta þá hræsni og óheiðaleika, sem hann hafði tamið sér, ná hámarki. Til dæmis spurði Júdas þegar hann sá Maríu smyrja Jesú með dýrri ilmolíu: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Jóhannes postuli bætir við: „Ekki sagði [Júdas] þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.“ Skömmu síðar sveik Júdas Jesú fyrir 30 silfurpeninga. (Jóhannes 12:1-6; Matteus 26:6-16) Að vísu fékk Júdas samviskubit eftir á og svipti sig lífi. (Matteus 27:1-5) Honum var þó ekki fyrirgefið af því að með yfirvegaðri og þrálátri sjálfselsku sinni og svikum syndgaði hann gegn heilögum anda. Það var því vel við hæfi að Jesús skyldi kalla Júdas ‚son glötunarinnar‘! — Jóhannes 17:12; Markús 3:29; 14:21.
Syndir þeirra voru fyrirgefnar
9. Hvers vegna fyrirgaf Guð syndir Davíðs í sambandi við Batsebu?
9 Það er mikill munur á syndum sem framdar eru af ásetningi og syndum sem Guð fyrirgefur. Tökum Davíð konung í Ísrael sem dæmi. Hann framdi hjúskaparbrot með Batsebu, konu Úría, og lét síðan Jóab búa svo um hnútana að Úría félli í bardaga. (2. Samúelsbók 11:1-27) Hvers vegna sýndi Guð Davíð miskunn? Fyrst og fremst vegna sáttmálans um ríkið en einnig vegna þess að Davíð var sjálfur miskunnsamur og iðrun hans einlæg. — 1. Samúelsbók 24:4-7; 2. Samúelsbók 7:12; 12:13.
10. Hvers vegna fyrirgaf Guðs syndir Péturs, þótt alvarlegar væru?
10 Tökum einnig Pétur postula sem dæmi. Hann syndgaði alvarlega með því að afneita Jesú aftur og aftur. Hvers vegna fyrirgaf Guð Pétri? Ólíkt Júdasi Ískaríot hafði Pétur verið heiðarlegur í þjónustu Guðs og Krists. Synd þessa postula stafaði af veikleika holdsins og hann iðraðist í einlægni og „grét beisklega.“ — Matteus 26:69-75.
11. Hvernig skilgreinir þú hugtakið iðrun og hvað ætti einstaklingur að gera ef hann iðrast í sannleika?
11 Dæmin hér á undan sýna að jafnvel þeir sem drýgja alvarlegar syndir geta fengið fyrirgefningu Jehóva Guðs. En hvaða viðhorf eru forsenda fyrirgefningar? Sönn iðrun er nauðsynleg ef kristinn maður á villubraut á að hljóta fyrirgefningu Guðs. Að iðrast merkir að snúa af syndabraut vegna samviskubits yfir fyrri afbrotum eða vera fullur eftirsjár eða hryggðar vegna þess sem maður hefur gert eða ekki gert. Sá sem iðrast í einlægni harmar hvern þann blett, smán, skugga eða rýrð sem synd hans hefur kastað á nafn Jehóva og skipulag, og þá erfiðleika og sorg sem hún hefur valdið. Iðrunarfullur syndari ber líka ávöxt í samræmi við það, hann vinnur verk samboðin iðruninni. (Matteus 3:8; Postulasagan 26:20) Hafi hann til dæmis haft fé af einhverjum gerir hann skynsamlegar ráðstafanir til að bæta tjónið. (Lúkas 19:8) Slíkur iðrunarfullur kristinn maður hefur góðar, biblíulegar ástæður til að treysta að Jehóva fyrirgefi ríkulega. Hverjar eru þær?
Ástæður til að treysta á fyrirgefningu Guðs
12. Á hvað grundvelli gefur Sálmur 25:11 til kynna að iðrunarfullur syndari geti beðið um fyrirgefningu?
12 Iðrunarfullur syndari getur með trúartrausti beðið um fyrirgefningu á grundvelli nafns Jehóva. Davíð bað: „Sakir nafns þíns, [Jehóva], fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.“ (Sálmur 25:11) Slík bæn, samfara iðrun vegna þeirrar rýrðar sem syndarinn hefur kastað á nafn Guðs, ætti líka að koma í veg fyrir grófar syndir í framtíðinni.
13. Hvaða hlutverki gegnir bænin í fyrirgefningu Guðs?
13 Jehóva Guð svarar innilegum bænum villuráfandi en iðrunarfullra þjóna sinna. Til dæmis daufheyrðist Jehóva ekki við bænum Davíðs sem bað af öllu hjarta eftir að hann gerði sér grein fyrir hvílíka stórsynd hann hafði framið í sambandi við Batsebu. Orð Davíðs í Sálmi 51 tjá margvíslegar tilfinningar þeirra er biðja auðmjúklega um fyrirgefningu. Hann bað: „Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni. Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ — Sálmur 51:3, 4, 19.
14. Hvernig fullvissar Ritningin okkur um að Guð fyrirgefi þeim sem iðka trú á lausnarfórn Jesú?
14 Guð fyrirgefur þeim sem iðka trú á lausnarfórn Jesú. Páll skrifaði: „Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.“ (Efesusbréfið 1:7) Orð Jóhannesar postula hafa svipaða merkingu: „Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
15. Hvað verður iðrunarfullur syndari að gera til að njóta miskunnar Guðs áfram?
15 Miskunn Jehóva gefur iðrunarfullum syndara ástæðu til að treysta því að hægt sé að fyrirgefa honum. Nehemía sagði: „Þú ert Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur.“ (Nehemíabók 9:17; samanber 2. Mósebók 34:6, 7.) Að sjálfsögðu verður syndarinn að leggja sig fram um að halda lög Guðs til að njóta miskunnar Guðs áfram. Eins og sálmaritarinn sagði: „Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín. Mikil er miskunn þín, [Jehóva], lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.“ — Sálmur 119:77, 156.
16. Hvaða hughreysting er fólgin í því að Jehóva skuli taka tillit til hins synduga eðlis okkar?
16 Sú staðreynd að Jehóva tekur tillit til syndugs eðlis okkar hughreystir einnig iðrunarfullan syndara og gefur honum tilefni til að biðja til Guðs í trausti þess að hann fyrirgefi honum. (Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12) Sálmaritarinn Davíð var mjög hughreystandi er hann sagði: „Hann [Jehóva Guð] hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:10-14) Já, himneskur faðir okkar er jafnvel enn miskunnsamari og samúðarfyllri en mennskir foreldrar.
17. Hvaða áhrif hefur trúföst þjónusta manns fram til þessa á fyrirgefningu Guðs?
17 Iðrunarfullur syndari getur beðið um fyrirgefningu í trausti þess að Jehóva gleymi ekki trúfastri þjónustu hans fram til þessa. Nehemía var ekki að biðja um fyrirgefningu synda sinna en sagði þó: „Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ (Nehemíabók 13:31) Iðrunarfullur kristinn maður getur leitað hughreystingar í orðunum: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — Hebreabréfið 6:10.
Hjálp öldunganna
18. Hvað ætti að gera ef synd kristins manns hefur gert hann andlega sjúkan?
18 Hvað nú ef kristnum manni finnst hann óhæfur til að vera áfram í hinni andlegu paradís eða er ófær um að biðja vegna þess að synd hans hefur gert hann andlega sjúkan? „Þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. „Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og [Jehóva] mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.“ Já, safnaðaröldungar geta beðið á áhrifaríkan hátt með og fyrir trúbróður sínum í von um að hann endurheimti andlegt heilbrigði sitt. — Jakobsbréfið 5:14-16.
19. Hvað verður brottrækur einstaklingur að gera til að hljóta fyrirgefningu og inngöngu í söfnuðinn á ný?
19 Jafnvel þótt dómnefnd geri iðrunarlausan syndara rækan er ekki víst að hann hafi drýgt ófyrirgefanlega synd. Til að hljóta fyrirgefningu og inngöngu í söfnuðinn á ný þarf hann hins vegar að hlýða lögum Guðs í auðmýkt, bera ávöxt samboðinn iðruninni og leita til öldunganna um inngöngu. Eftir að saurlífismaður var gerður rækur úr söfnuðinum í Korintu til forna skrifaði Páll: „Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum. Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð. Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.“ — 2. Korintubréf 2:6-8; 1. Korintubréf 5:1-13.
Guð gefur styrk
20, 21. Hvað getur hjálpað manni sem hefur áhyggjur af því að hann kunni að hafa drýgt ófyrirgefanlega synd?
20 Hæfileg hvíld og nægur svefn getur hjálpað ef heilsubrestur eða streita vekur ótta með þér um að þú kunnir að hafa drýgt ófyrirgefanlega synd. En öðru fremur ættir þú að muna eftir orðum Péturs: „Varpið allri áhyggju yðar á [Guð], því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ Og láttu Satan aldrei draga úr þér kjark því að Pétur bætti við: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En Guð allrar náðar . . . mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.“ — 1. Pétursbréf 5:6-10.
21 Ef þú ert yfirbugaður af iðrun en óttast að þú kunnir að hafa drýgt ófyrirgefanlega synd skaltu því muna að Guð er alltaf vitur, réttlátur og kærleiksríkur. Biddu til hans í trú. Haltu áfram að neyta andlegu fæðunnar sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té. (Matteus 24:45-47) Hafðu samfélag við trúbræður þína og taktu reglulega þátt í hinni kristnu þjónustu. Það mun styrkja trú þína og losa þig við sérhvern ótta um að Guð hafi kannski ekki fyrirgefið synd þína.
22. Hvað skoðum við næst?
22 Íbúar andlegu paradísarinnar geta leitað hughreystingar í þeirri vitneskju að Jehóva fyrirgefi ríkulega. Líf þeirra er þó ekki þrengingalaust nú á dögum. Kannski eru þeir niðurdregnir út af ástvinamissi eða alvarlegum veikindum náins vinar. Eins og við munum sjá hjálpar Jehóva þjónum sínum og leiðir þá með heilögum anda sínum undir þeim kringumstæðum sem öðrum.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað sannar að Jehóva „fyrirgefur ríkulega“?
◻ Hvaða synd er ekki fyrirgefanleg?
◻ Undir hvaða kringumstæðum eru syndir manns fyrirgefnar?
◻ Hvers vegna geta iðrunarfullir syndarar treyst á fyrirgefningu Guðs?
◻ Hvaða hjálp stendur iðrunarfullum syndurum til boða?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 10]
Veist þú hvers vegna Davíð og Pétri var fyrirgefið en Júdasi Ískaríot ekki?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Aðstoð safnaðaröldunga getur verið kristnum manni mikil, andleg hjálp.