Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva notar „heimsku“ til að bjarga þeim sem trúa

Jehóva notar „heimsku“ til að bjarga þeim sem trúa

Jehóva notar „heimsku“ til að bjarga þeim sem trúa

„Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.“ — 1. KORINTUBRÉF 1:21.

1. Hvernig ber að skilja það að Jehóva skuli nota „heimsku“ og hvernig vitum við að heimurinn í visku sinni þekkir ekki Guð?

 HVAÐ er nú þetta? Skyldi Jehóva nota heimsku? Reyndar ekki. Hins vegar getur hann notað og notar í reynd það sem heiminum virðist vera heimska. Hann gerir það til að bjarga þeim sem þekkja hann og elska. Viska heimsins dugir honum ekki til að kynnast Guði. Jesús Kristur tók það skýrt fram er hann sagði í bæn: „Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki.“ — Jóhannes 17:25.

2. Hvernig getur virst svo sem vegir Jehóva og vegir heimsins fari saman en hver er raunin?

2 Orð Jesú gefa til kynna að vegir Jehóva séu ólíkir vegum heimsins. Á yfirborðinu getur svo virst sem stefna heimsins fari saman við tilgang Guðs. Svo getur virst sem þessi heimur hafi blessun Guðs. Til dæmis segir Biblían að Guð ætli að koma á fót réttlátri stjórn sem muni færa mannkyninu á jörðinni frið, hamingju og velsæld. (Jesaja 9:6, 7; Matteus 6:10) Heimurinn básúnar að það sé einnig markmið hans að tryggja mönnum frið, velmegun og góða stjórn með svokallaðri nýrri heimsskipan. En markmið Guðs og heimsins eru ekki þau sömu. Tilgangur Jehóva er sá að réttlæta sig sem æðsta drottinvald alheimsins. Það mun hann gera með himneskri stjórn sem mun eyða öllum jarðneskum stjórnum. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 4:11; 12:10) Guð á því ekkert sameiginlegt með þessum heimi. (Jóhannes 18:36; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það er þess vegna sem Biblían talar um tvenns konar speki — ‚speki Guðs‘ og „speki heimsins.“ — 1. Korintubréf 1:20, 21.

Aðalveilan í speki heimsins

3. Hvers vegna myndi ný heimsskipan manna aldrei vera fullnægjandi, enda þótt viska heimsins geti virst tilkomumikil?

3 Í augum þeirra sem hafa ekki speki eða visku Guðs sér til leiðsagnar virðist viska heimsins mikil. Þar eru háfleygir, veraldlegir heimspekingar sem heilla hugann. Þúsundir æðri menntastofnana miðla þekkingu komna frá mönnum sem heimurinn álítur mestu hugsuði mannkyns. Gríðarmikil bókasöfn geyma þekkingarsjóð sem maðurinn hefur dregið saman gegnum margra alda reynslu. En þrátt fyrir það gæti hin nýja heimsskipanin, sem leiðtogar heimsins hyggjast koma á, einungis verið stjórn ófullkominna, syndugra og deyjandi manna. Þess vegna yrði sú heimsskipan ófullkomin og myndi endurtaka mörg af axarsköftum fortíðar og aldrei fullnægja öllum þörfum mannkyns. — Rómverjabréfið 3:10-12; 5:12.

4. Hverju er hin nýja heimsskipan, sem menn stefna að, undirorpin og með hvaða afleiðingum?

4 Hin nýja heimsskipan, sem menn hafa stungið upp á, er ekki aðeins undirorpin mannlegum veikleika heldur einnig áhrifum illskeyttra andavera — já, Satans djöfulsins og illra anda hans. Satan hefur blindað hugi manna þannig að þeir trúi ekki „fagnaðarerindinu um dýrð Krists.“ (2. Korintubréf 4:3, 4; Efesusbréfið 6:12) Þar af leiðandi hrjáir hver kvillinn á fætur öðrum heiminn. Hann berst og honum blæðir í átakanlegum tilraunum hans til að stjórna sjálfum sér án hjálpar Guðs og án tillits til vilja Guðs. (Jeremía 10:23; Jakobsbréfið 3:15, 16) Páll postuli hafði því fullkomlega rétt fyrir sér er hann sagði að „heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð.“ — 1. Korintubréf 1:21.

5. Hver er aðalveilan í speki þessa heims?

5 Hver er þá aðalveilan í speki þessa heims, þar á meðal í áformum hans um nýja heimsskipan? Hún er sú að heimurinn virðir að vettugi það sem aldrei er hægt ganga fram hjá sér að skaðlausu — hið æðsta drottinvald Jehóva Guðs. Hann neitar með hroka að viðurkenna drottinvald Guðs. Af ásettu ráði sleppir hann Jehóva í öllum þeim áformum sem hann gerir og reiðir sig á sína eigin hæfni og ráð. (Samanber Daníel 4:31-34; Jóhannes 18:37.) Biblían tekur af öll tvímæli um að „ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“ (Orðskviðirnir 9:10; Sálmur 111:10) Samt sem áður hefur heimurinn ekki einu sinni lært grundvallarskilyrði viskunnar. Hvernig getur hann þá náð markmiðum sínum án stuðnings Guðs? — Sálmur 127:1.

Prédikun Guðsríkis — heimskuleg eða gagnleg?

6, 7. (a) Hvað prédika þeir sem láta visku Guðs leiða sig en hvernig lítur heimurinn á þá? (b) Hvaða speki samræmist prédikun klerka kristna heimsins og með hvaða árangri?

6 Þeir sem á hinn bóginn þekkja Guð og hafa visku Guðs kjósa að láta hana leiðbeina sér. Eins og Jesús sagði fyrir prédika þeir „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina.“ (Matteus 24:14; 28:19, 20) Er slík prédikun gagnleg núna meðan jörðin er full af átökum, mengun, fátækt og þjáningum? Í augum veraldarvísra manna er slík prédikun um Guðsríki tóm heimska og gagnslaus með öllu. Þeir líta á prédikara Guðsríkis eins og hrúðurkarla sem sem íþyngja þjóðarskútunni og hægja á framförum í átt til þess pólitíska stjórnarfars sem þá dreymir um. Þar njóta þeir stuðnings klerkastéttar kristna heimsins sem prédikar í samræmi við speki heimsins og segir fólki ekki það sem það þarf að vita um nýjan heim Guðs og ríki hans, jafnvel þótt það hafi verið aðalkenning Krists. — Matteus 4:17; Markús 1:14, 15.

7 Sagnfræðingurinn H. G. Wells vakti athygli á þessari vanrækslu klerka kristna heimsins. Hann skrifaði: „Sú gríðarlega áhersla, sem Jesús lagði á kenninguna um það sem hann kallaði himnaríki, og það tiltölulega litla rúm sem hún fær í kenningu og starfi flestra kristinna kirkna er athyglisvert.“ En ef fólk af þessari kynslóð á að hljóta líf verður það fyrst að heyra um stofnsett ríki Guðs og til þess verða einhverjir að prédika fagnaðarerindið um það. — Rómverjabréfið 10:14, 15.

8. Hvers vegna er prédikun fagnaðarerindis Guðs það skynsamlegasta sem hægt er að gera núna en hvaða stefna væri skaðleg til langs tíma litið?

8 Prédikun gleðifrétta Guðs er því það nytsamlegasta sem hægt er að gera núna. Það stafar af því að boðskapurinn um Guðsríki veitir ósvikna von sem fyllir hjörtu manna gleði núna á síðustu dögum meðan „örðugar tíðir“ ganga yfir mannkynið. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Rómverjabréfið 12:12; Títusarbréfið 2:13) Lífið í þessum heimi er ótryggt og stutt en lífið í nýjum heimi Guðs verður eilíft og gleðiríkt og nægtir og friður verða hér á jörð. (Sálmur 37:3, 4, 11) Eins og Jesús Kristur sagði: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ Ef maður glatar rétti sínum til að lifa í nýjum heimi Guðs, hvað gagnar honum þá þessi heimur sem er að hverfa? Sú nautn sem hann hefur núna af efnislegum hlutum er stundleg, innantóm og einskis virði. — Matteus 16:26; Prédikarinn 1:14; Markús 10:29, 30.

9. (a) Hvað ráðlagði Jesús manni sem vildi bíða með að þiggja boð Jesú um að fylgja honum? (b) Hvaða áhrif ætti svar Jesú að hafa á okkur?

9 Maður, sem Jesús bauð að gerast fylgjandi sinn, sagði: „Leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Hvað ráðlagði Jesús honum að gera? Hann vissi að maðurinn myndi með þessu slá á frest geysiþýðingarmiklu starfi til þess eins að bíða uns foreldrar hans dæju úr elli og svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.“ (Lúkas 9:59, 60) Þeir sem sýna visku með því að hlýða Kristi geta ekki skotið sér undan því verkefni að prédika boðskapinn um Guðsríki. Viska Guðs veitir þeim vitneskju um að þessi heimur og stjórnendur hans eru dauðadæmdir. (1. Korintubréf 2:6; 1. Jóhannesarbréf 2:17) Stuðningsmenn drottinvalds Guðs vita að eina sanna von mannkynsins er fólgin í því að Guð skerist í leikinn og taki stjórnina í sínar hendur. (Sakaría 9:10) Þótt þeir sem búa yfir visku þessa heims trúi ekki á Guðsríki og vilji ekki að hin himneska stjórn komi, gera þeir sem leiðast af visku Guðs það sem er öðrum mönnum til góðs og búa þá undir eilíft líf í fyrirheitnum, nýjum heimi Jehóva. — Jóhannes 3:16; 2. Pétursbréf 3:13.

„Heimska þeim er glatast“

10. (a) Hvaða starf tókst Sál frá Tarsus á hendur er hann snerist til trúar og hvernig leit hann á það? (b) Hvað voru Forn-Grikkir nafntogaðir fyrir en hvernig leit Guð á speki þeirra?

10 Sál frá Tarsus, síðar þekktur sem Páll postuli Jesú Krists, tókst á hendur þetta björgunarstarf. Er rökrétt að ætla að Jesús Kristur hafi verið að fela Sál heimskulegt starf þegar hann sneri honum til trúar? Páll var ekki þeirrar skoðunar. (Filippíbréfið 2:16) Á þeim tíma voru Grikkir álitnir mestu vitsmunamenn heims. Þeir stærðu sig af sínum miklu heimspekingum og vitringum. Enda þótt Páll hafi talað grísku fylgdi hann ekki grískri heimspeki og lærdómi. Hvers vegna? Vegna þess að slík viska þessa heims er heimska hjá Guði. * Páll sóttist eftir visku Guðs sem kom honum til að prédika fagnaðarerindið hús úr húsi. Mesti prédikari sögunnar, Jesús Kristur, hafði gefið fyrirmyndina og hafði fyrirskipað honum að vinna sama starf. — Lúkas 4:43; Postulasagan 20:20, 21; 26:15-20; 1. Korintubréf 9:16.

11. Hvað sagði Páll í hnotskurn um það verkefni sitt að prédika og um visku heimsins?

11 Páll segir um skipun sína um að prédika: „Kristur [sendi] mig . . . til að boða fagnaðarerindið, — og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt. Því að orð krossins [lausnarfórn Jesú] er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs. Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra. Hvar er vitringur [svo sem heimspekingurinn]? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku? Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.“ — 1. Korintubréf 1:17-21.

12. Hverju áorkar Jehóva með „heimsku prédikunarinnar“ og hver eru viðbrögð þeirra sem þrá ‚spekina sem að ofan er‘?

12 Þótt ótrúlegt kunni að virðast notar Jehóva sem prédikara þá hina sömu og heimurinn kallar heimska. Já, með heimsku þjónustunnar, sem þessir prédikarar inna af hendi, bjargar Guð þeim sem trúa. Jehóva býr svo um hnútana að prédikarar þessarar „heimsku“ geti ekki upphafið sjálfa sig, og aðrir menn geta ekki með réttu upphafið þá sem þeir hafa heyrt fagnaðarerindið frá. Það er til þess að „enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.“ (1. Korintubréf 1:28-31; 3:6, 7) Hlutverk prédikarans er að vísu þýðingarmikið, en það er boðskapurinn, sem honum hefur verið falið að prédika, sem stuðlar að hjálpræði einstaklingsins ef hann trúir honum. Þeir sem þrá ‚spekina sem að ofan er‘ fyrirlíta ekki boðskap prédikarans þótt hann virðist heimskulegur og lágt settur, sé ofsóttur og gangi hús úr húsi. Auðmjúkir menn virða boðbera Guðsríkis sem prédikara er kemur í nafni Jehóva með umboð frá honum. Þeir líta svo á að boðskapurinn, sem prédikarinn færir þeim munnlega og á prenti, sé mjög mikilvægur. — Jakobsbréfið 3:17; 1. Þessaloníkubréf 2:13.

13. (a) Hvernig litu Gyðingar og Grikkir á það að prédika Krist staurfestan? (b) Úr hvaða hópum manna voru ekki margir kallaðir til að vera fylgjendur Jesú og hvers vegna?

13 Páll heldur áfram umræðu sinni um aðferðir Guðs og segir: „Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari. Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir. En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.“ — 1. Korintubréf 1:22-27; samanber Jesaja 55:8, 9.

14. (a) Hvað benda vottar Jehóva á séu þeir beðnir að sýna starfsumboð sitt? (b) Hvers vegna neitaði Páll að þóknast Grikkjum með því að flíka veraldlegri visku?

14 Þegar Jesús var á jörðinni báðu Gyðingar um tákn af himni. (Matteus 12:38, 39; 16:1) En Jesús neitaði að gefa nokkurt tákn. Eins er það núna að vottar Jehóva gera ekki heldur nein tákn til að sanna hverjir þeir séu. Þess í stað benda þeir á umboð sitt til að prédika fagnaðarerindið eins og því er lýst í Biblíunni til dæmis í Jesaja 61:1, 2; Markúsi 13:10 og Opinberunarbókinni 22:17. Grikkir til forna sóttust eftir speki, æðri menntun í því sem tilheyrir þessum heimi. Enda þótt Páll væri menntaður í speki þessa heims neitaði hann að þóknast Grikkjum með því að flíka henni. (Postulasagan 22:3) Hann talaði og skrifaði á grísku almúgamáli, ekki klassískri grísku. Hann sagði Korintumönnum: „Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki. . . . Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar, til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.“ — 1. Korintubréf 2:1-5.

15. Á hvað minnir Pétur þá sem hæðast að fagnaðarerindinu og hvernig er núverandi ástand líkt því sem var á dögum Nóa?

15 Núna á síðustu dögum eru þeir sem spotta gleðifréttirnar um hinn komandi nýja heim Guðs og yfirvofandi endalok þessa heims minntir á það sem Pétur postuli sagði um heiminn á dögum Nóa, að ‚vatnsflóðið gekk yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.‘ (2. Pétursbréf 3:3-7) Hvað gerði Nói þegar hann vissi að þessi endalok voru í nánd? Margir hugsa einungis um hann sem arkarsmið en Pétur segir að þegar Guð lét flóðið koma yfir heim fortíðar hafi hann ‚varðveitt Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann.‘ (2. Pétursbréf 2:5) Í sinni veraldlegu visku gerðu þessir óguðlegu menn fyrir flóðið vafalítið gys að því sem Nói prédikaði og kölluðu hann heimskan óraunsæismann með brenglað veruleikaskyn. Sannkristnir menn nú á dögum eru í svipaðri aðstöðu því að Jesús líkti okkar kynslóð við daga Nóa. En þótt menn hæðist að prédikun fagnaðarerindisins er hún meira en orðin tóm. Líkt og prédikun Nóa hefur hún í för með sér hjálpræði fyrir prédikarann og þá sem hlusta á hann! — Matteus 24:37-39; 1. Tímóteusarbréf 4:16.

‚Verðum heimsk til að verða vitur‘

16. Hvað verður um speki þessa heims í Harmagedón og hverjir munu lifa af inn í nýjan heim Guðs?

16 Bráðlega, í Harmagedón, mun Jehóva Guð gera alla „speki spekinganna“ að engu. Hann mun sópa burt ‚hyggindum hyggindamannanna‘ sem hafa spáð því hvernig ný heimsskipan þeirra myndi bæta hlutskipti mannkyns. ‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ mun brenna upp til agna allar rökbrellur, heimspeki og visku þessa heims. (1. Korintubréf 1:19; Opinberunarbókin 16:14-16) Þeir einir lifa af þetta stríð og öðlast líf í nýjum heimi Guðs er hlýða því sem þessi heimur kallar heimsku — já, fagnaðarerindinu um dýrlegt ríki Jehóva.

17. Hvernig hafa vottar Jehóva orðið ‚heimskir‘ og hvað eru prédikarar fagnaðarerindis Guðs staðráðnir í að gera?

17 Vottar Jehóva eru leiddir af anda hans og skammast sín ekki fyrir að prédika það sem heimurinn kallar heimsku. Í stað þess að reyna að vera veraldarvísir verða þeir ‚heimskir.‘ Hvernig? Með því að prédika Guðsríki þannig að þeir verði vitrir eins og Páll skrifaði: „Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur.“ (1. Korintubréf 3:18-20) Þeir sem Jehóva sendir til að prédika fagnaðarerindið vita að boðskapur þeirra getur bjargað mannslífum og þeir munu halda áfram að prédika hann linnulaust uns þessi heimur líður undir lok ásamt speki sinni í stríðinu við Harmagedón. Bráðlega mun Jehóva Guð upphefja drottinvald sitt yfir alheimi og veita öllum, sem núna trúa og fara eftir „heimsku prédikunarinnar,“ eilíft líf.

[Neðanmáls]

^ Þrátt fyrir allar heimspekirökræður og rannsóknir Forn-Grikkja sýna rit þeirra að þeir fundu engan grundvöll að raunverulegri von. Prófessorarnir J. R. S. Sterrett og Samuel Angus benda á: „Engar bókmenntir geyma átakanlegri harmtölur út af sorgum lífsins, hverfulleik kærleikans, blekkingu vonarinnar og miskunnarleysi dauðans.“ — Funk and Wagnalls New „Standard“ Bible Dictionary, 1936, bls. 313.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvaða tvenns konar speki er til?

◻ Hver er aðalveilan í speki heimsins?

◻ Hvers vegna er prédikun fagnaðarerindisins það skynsamlegasta sem hægt er að gera núna?

◻ Hvað verður bráðlega um alla speki heimsins?

◻ Hvers vegna skammast vottar Jehóva sín ekki fyrir að prédika það sem heimurinn kallar heimsku?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Grikkir sóttust eftir veraldlegri visku og litu margir á prédikun Páls sem heimsku.