Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þarfnast mannkynið í raun og veru messíasar?

Þarfnast mannkynið í raun og veru messíasar?

Þarfnast mannkynið í raun og veru messíasar?

„HEIMURINN ÞARFNAST MESSÍASAR“

Svohljóðandi fyrirsögn birtist í The Financial Post í Toronto í Kanada árið 1980. Orðin voru höfð eftir Aurelio Peccei, forseta og stofnanda hins þekkta hugmyndabanka sem kallaður er Rómarklúbburinn. Að sögn blaðsins áleit Peccei að „leiðtogi gæddur sérstökum hæfileika til að hrífa fjöldann — hvort heldur hann er vísindamaður, stjórnmálamaður eða trúarleiðtogi — sé eina hjálpræðisvon heimsins frá því þjóðfélagslega og efnahagslega umróti sem ógnar siðmenningunni.“ Hvað heldur þú? Er heimurinn raunverulega í slíkum nauðum staddur að mannkynið þarfnist Messíasar? Lítum á aðeins eitt þeirra vandamála sem heimurinn á við að etja — hungursneyð.

TVÖ stór, brún augu stara á þig af mynd í dagblaði eða tímariti. Þetta eru barnsaugu. Á myndinni er stúlka, tæplega fimm ára. En augun fá þig ekki til að brosa. Það er enginn barnslegur glampi í þeim, enginn gleði- og undrunarsvipur, ekkert sakleysislegt traust. Augun eru full af skilningsvana kvöl, slævandi sársauka, vonleysi, hungri. Barnið sveltur. Það hefur aldrei þekkt annað en hungur og kvöl.

Margir kæra sig ekki um að horfa á slíkar myndir. Þú ert kannski einn þeirra svo að þú flettir í flýti yfir á næstu blaðsíðu. Ekki svo að skilja að þér standi á sama, en þú finnur til vanmáttar þíns af því að þig grunar að þessari stúlku verði ekki bjargað. Tærðir útlimir og þaninn kviður er hvort tveggja merki þess að líkami hennar sé þegar byrjaður að eyða sjálfum sér. Líklega er stúlkan dáin þegar þú sérð myndina. Það sem verra er, þú veist að hún er aðeins eitt tilfelli af ótalmörgum.

Hversu umfangsmikið er vandamálið eiginlega? Getur þú séð fyrir þér 14 milljónir barna? Fæstir geta það; þau eru einfaldlega of mörg til að sjá þau fyrir sér. Reyndu þá að ímynda þér íþróttaleikvang sem tekur 40.000 áhorfendur. Hugsaðu þér síðan að hann sé sneisafullur af börnum — hvert einasta sæti, röð eftir röð, heilt haf barnsandlita. Það myndi þurfa 350 slíka leikvanga fulla af börnum til að ná tölunni 14 milljónir. Það þyrfti að troðfylla Laugardalsvöllinn í Reykjavík þúsund sinnum til að ná sömu tölu. Að sögn Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, er það sá fjöldi barna yngri en fimm ára sem deyr á hverju ári í þróunarlöndunum af völdum vannæringar og sjúkdóma sem auðvelt væri að fyrirbyggja. Það samsvarar næstum heilum íþróttaleikvangi fullum af börnum á hverjum degi! Ef þú bætir við tölu fullorðinna, sem eru hungraðir, fer talan upp í einn milljarð manna sem eru vannærðir til langs tíma litið.

Hvers vegna allt þetta hungur?

Reikistjarnan jörð framleiðir nú sem stendur meiri marvæli en mannkynið getur torgað og gæti framleitt meira. Eigi að síður deyja 26 börn á hverri mínútu úr vannæringu og sjúkdómum. Á þessari sömu mínútu eyðir heimurinn um tveim milljónum Bandaríkjadala (yfir 120 milljónum ÍSK) í stríðsundirbúning. Getur þú ímyndað þér hvað allir þessir peningar — eða aðeins brot af þeim — gætu gert fyrir þessi 26 börn?

Ljóst er að hungrið í heiminum stafar ekki bara af matvæla- eða peningaskorti. Vandamálið á sér miklu dýpri rætur. Eins og argentínskur prófessor, Jorge E. Hardoy, orðar það: „Heimurinn í heild hefur alltaf verið vanhæfur til að deila þægindum, valdi, tíma, auðlindum og þekkingu með þeim sem þarfnast þess meir.“ Já, vandamálið er ekki úrræðaskortur heldur maðurinn sjálfur. Græðgi og eigingirni virðast ráðandi öfl í mannlegu samfélagi. Auðugasti fimmtungur jarðarbúa býr við sextugfalt meiri vörur og þjónustu en fátækasti fimmtungurinn.

Vissulega reyna sumir í fullri einlægni að færa hungruðum mat, en aðstæður, sem þeir fá ekkert um ráðið, lama slíkar tilraunir að mestu. Hungur hrjáir oft lönd þar sem borgarastríð geisar eða uppreisnarástand ríkir, og ekki er óalgengt að andstæðar fylkingar komi í veg fyrir að hjálpargögn berist hinum þurfandi. Báðir aðilar óttast að leyfi þeir matvælum að berast til óbreyttra borgara á óvinasvæði séu þeir að næra óvininn. Jafnvel stjórnvöld beita stundum hungri sem pólitísku vopni.

Engin lausn í sjónmáli?

Því miður eru hinar hungruðu milljónir í heiminum ekki eina alvarlega vandamálið sem nútímamenn eiga við að etja. Hömlulaus eyðilegging og eitrun umhverfisins, þrálát stríðsplágan sem svelgir milljónir mannslífa, ofbeldisglæpafaraldurinn sem elur á ótta og vantrausti alls staðar og stöðugt hrakandi siðferði sem virðist undirrót margs af þessu böli — allar þessar alvarlegu hættur leggjast á eitt og staðfesta sama, óhagganlega sannleikann — að maðurinn getur ekki stjórnað sjálfum sér svo vel fari.

Það er vafalítið ástæðan fyrir því að margir örvænta um að lausn finnist á vandamálum heimsins. Aðrir hugsa eins og Aurelio Peccei, ítalski fræðimaðurinn sem nefndur var í upphafi greinarinnar. Ef finnast á einhver lausn, hugsa þeir, verður hún að koma frá óvenjulegum, kannski jafnvel ofurmannlegum aðila. Því er messíasarhugmyndin einkar aðlaðandi. En er raunhæft að vonast eftir messíasi eða er það bara óskhyggja?

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 2]

Forsíðumyndir: Efri mynd: U.S. Naval Observatory. Neðri mynd: NASA

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]

Ljósmynd: WHO, P. Almasy

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 4]

Ljósmynd: WHO, P. Almasy

Ljósmynd: Bandaríski sjóherinn