Menntaður maður
Menntaður maður
„BRÆÐUR, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.“ (1. Korintubréf 1:26) Eins og þessi orð gefa til kynna er það ekki hættulaust að vera gagnsýrður af veraldlegri speki eða vera háttsettur í þjóðfélaginu. Það getur verkað sem hindrun á að menn taki við fagnaðarboðskapnum. — Orðskviðirnir 16:5; Markús 10:25.
Eigi að síður tóku sumir á dögum Páls, sem voru „vitrir að manna dómi,“ við sannleikanum og einn þeirra var Páll sjálfur. Hann var vel menntaður, að því er virðist af alþekktu fólki kominn og kostgæfur kristniboði. Þannig sýndi hann að forréttindafólk í þessum heimi getur þjónað Jehóva ef hjartalag þess er rétt. Það getur jafnvel notað þá hæfni, sem það hefur öðlast í heiminum, í þjónustu Jehóva. — Lúkas 16:9.
Fæddur í Tarsus
Páll var fæddur í Tarsus, „ekki ómerkum bæ“ eins og hann síðar komst að orði. (Postulasagan 21:39) Sennilega var það þar sem hann aflaði sér málakunnáttu — einkum afburðaþekkingar í grísku — sem hafði ómetanlegt gildi í trúboðsstarfi hans. Lífið í Tarsus hefur ekki aðeins látið Pál komast í kynni við siði Gyðinga heldur einnig menningu annarra þjóða, og þá reynslu notfærði hann sér síðar meir sem postuli heiðingjanna. Hann kunni að koma þannig orðum að sannleikanum að þeir skildu. (1. Korintubréf 9:21) Sem dæmi má nefna ræðu þá er hann flutti Aþenubúum og sagt er frá í 17. kafla Postulasögunnar. Þar fléttaði hann fagmannlega saman tilvísunum til aþenskra trúarbragða og jafnvel orðum eins af skáldum þeirra við kynningu sína á sannleikanum.
Rómverskur ríkisborgari
Páll hafði aðra veraldlega yfirburði. Hann var rómverskur ríkisborgari og notaði það líka fagnaðarerindinu til framdráttar. Í Filippí voru hann og félagar hans húðstrýktir og varpað í fangelsi án dóms og laga. Það var ólöglegt að fara þannig með rómverskan ríkisborgara, og þegar Páll vakti athygli yfirvalda á því leyfðu þau honum að vera áfram og þjóna söfnuðinum þar áður en hann hélt til næsta áfangastaðar. — Postulasagan 16:37-40.
Síðar, þegar Páll var leiddur fyrir Festus landstjóra, notfærði hann sér rómverskt ríkisfang sitt til að skjóta máli sínu til keisarans. Þannig varði hann fagnaðarerindið frammi fyrir æðsta yfirvaldi Rómaveldis. — Postulasagan 25:11, 12; Filippíbréfið 1:7.
Páll hafði fengið verkmenntun sem reyndist honum notadrjúg seinna meir. Hann hafði lært tjaldgerð, líklega hjá föður sínum. Það var því að þakka að hann gat framfleytt sér í þjónustunni þegar þröngt var í búi. (Postulasagan 18:1-3) Hann hafði líka hlotið rækilega trúarlega menntun. Hann var alinn upp sem „farísei, af faríseum kominn.“ (Postulasagan 23:6) Hann lærði meira að segja við fætur Gamalíels, eins nafntogaðasta kennara Gyðinga. (Postulasagan 22:3) Slík menntun, ef til vill sambærileg við háskólamenntun í háum gæðaflokki nú á dögum, bendir til að fjölskylda hans hafi verið allmikið frammáfólk.
Rétt viðhorf
Uppruni Páls og þjálfun bauð upp á bjarta framtíð í gyðingdómnum. Hann hefði getað náð langt. En um leið og Páll viðurkenndi Jesú sem Messías breyttust markmið hans. Í bréfi til safnaðarins í Filippí lýsti hann í stórum dráttum sumum af þeim veraldlegu yfirburðum sem hann áður hafði haft og sagði: „En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn.“ — Filippíbréfið 3:7, 8.
Þessi menntaði maður horfði ekki um öxl löngunaraugum á það sem hann hefði getað gert við veraldlega menntun sína; hann notaði ekki heldur hið „mikla bókvit“ sitt til að láta öðrum finnast mikið til um. (Postulasagan 26:24; 1. Korintubréf 2:1-4) Þess í stað setti hann allt trúartraust sitt á Jehóva Guð og sagði með fyrri möguleika sína í huga: „Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.“ (Filippíbréfið 3:13, 14) Páll hafði mætur á andlegum verðmætum.
Í þjónustunni við Jehóva notaði Páll engu að síður það sem hann hafði áður lært. Þegar hann sagði um Gyðinga: „Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna,“ var hann að tala af eigin reynslu. (Rómverjabréfið 10:2) Sem starfandi farísei hafði hann svo sannarlega verið kappsfullur Guðs vegna og Ritningarinnar vegna. Eftir að Páll varð kristinn beindi nákvæm þekking kappsemi hans inn á rétta braut og hann gat notað fyrri menntun sína í réttlátum tilgangi. Í Hebreabréfinu, svo dæmi sé tekið, notaði hann djúptæka þekkingu sína á sögu Ísraels og tilbeiðslunni í musterinu til að sýna fram á yfirburði hinnar kristnu skipanar.
Sumir nútímamenn, sem eru vitrir á mælikvarða heimsins, taka líka við fagnaðarerindinu. Fólk með alls konar menntun og fólk af alls konar starfsstéttum og iðngreinum hefur tekið við sannleikanum og notað fyrri menntun sína og starfsþjálfun í þjónustu Jehóva. En hver svo sem veraldleg menntun kristinna manna er missa þeir aldrei sjónar á þeirri staðreynd að allra mikilvægustu hæfileikarnir eru andlegs eðlis. Þeir eru ‚það sem máli skiptir‘ vegna þess að þeir geta leitt okkur til eilífs lífs. — Filippíbréfið 1:10.