Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Menntun á tímum Biblíunnar

Menntun á tímum Biblíunnar

Menntun á tímum Biblíunnar

„Og þér skuluð kenna þau börnum yðar.“ — 5. MÓSEBÓK 11:19.

1. Hvað sýnir að Jehóva hefur áhuga á menntun þjóna sinna?

 JEHÓVA er hinn mikli kennari. Hann hefur aldrei haldið þjónum sínum í fáfræði. Hann hefur alltaf verið fús til að miðla þeim þekkingu. Hann kennir þeim vilja sinn og vegu. Um ótaldar árþúsundir var eingetinn sonur hans honum við hlið sem „verkstýra“ og var sífellt að læra. (Orðskviðirnir 8:30) Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann: „[Ég] tala . . . það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28) Elíhú talaði um Guð sem hinn óviðjafnanlega kennara og spurði: „Hver er slíkur kennari sem hann?“ (Jobsbók 36:22) Spámaðurinn Jesaja kallaði Jehóva „hinn mikla kennara“ fólks síns og spáði: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 30:20, NW; 54:13) Enginn vafi leikur á að Jehóva vill að skynsemigæddar sköpunarverur hans séu upplýstar og vel menntaðar.

Menntun á ættfeðratímanum

2, 3. (a) Hvernig litu hinir trúföstu ættfeður á menntun barna sinna og hvaða fyrirmæli gaf Jehóva Abraham? (b) Hvaða stórkostlegur tilgangur lá að baki boðinu um að mennta afkomendur Abrahams?

2 Einn grundvallarréttur fjölskylduhöfuðsins á ættfeðratímanum var kennsla barnanna og heimilismannanna. Fyrir þjóna Guðs var það trúarleg skylda að mennta börn sín. Jehóva sagði um þjón sinn Abraham: „Ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu [Jehóva] með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að [Jehóva] láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið.“ — 1. Mósebók 18:19.

3 Þessi orð Jehóva sýna að hann áleit menntun afar þýðingarmikla. Guð krafðist þess af Abraham, Ísak og Jakob að þeir kenndu heimilisfólki sínu réttláta vegu hans og dóma þannig að ókomnar kynslóðir yrðu í aðstöðu til að halda sér á vegi Jehóva. Þannig myndi Jehóva standa við loforð sín um afkvæmi Abrahams og blessun handa ‚öllum þjóðum jarðar.‘ — 1. Mósebók 18:18; 22:17, 18.

Menntakerfið í Ísrael

4, 5. (a) Hvaða greindi á milli menntakerfis Ísraels og annarra þjóða? (b) Hvaða annar mikilvægur munur er nefndur í Encyclopaedia Judaica og hvað stuðlaði vafalaust að þessum mun?

4 Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica segir: „Það er fyrst og fremst af Biblíunni sem við fáum skilið hvernig menntun var háttað í Ísrael til forna.“ Móse var fyrsti maðurinn er Jehóva notaði til að kenna Ísraelsmönnum. (5. Mósebók 1:3, 5; 4:5) Móse flutti þeim það sem Jehóva sagði honum. Þannig var það í raun fyrst og fremst Jehóva sem var kennari Ísraels. (2. Mósebók 24:3) Það í sjálfu sér greindi á milli menntakerfis Ísraels og annarra þjóða.

5 Sama heimildarrit segir: „Æðri menntun eða bókalærdómur í Mesópótamíu og Egyptalandi var formlegur og takmarkaður við stétt skrifara, en sú virðist ekki hafa verið raunin í Ísrael. Munurinn lá vafalaust í hinni einfaldari stafrófsritun Hebrea. . . . Það má ekki líta fram hjá mikilvægi stafrófsritunar í sögu menntunarinnar. Með henni var horfið frá hinni hefðbundnu skrifaramenningu Egyptalands, Mesópótamíu og Kanaanlands á annarri árþúsund. Að vera læs og skrifandi var ekki lengur sérkenni og einkaréttur atvinnuskrifara og prestastéttar sem var vel að sér í torskildu fleygrúnaletri og myndletri.“

6. Hvaða rök eru fyrir því í Biblíunni að Ísraelsmenn hafi verið læsir og skrifandi allt frá því að saga þeirra hófst?

6 Í Biblíunni má finna sönnur þess að Ísraelsmenn voru læsir og skrifandi. Jafnvel áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið var þeim sagt að rita lög Jehóva á dyrastafi sína og borgarhlið. (5. Mósebók 6:1, 9; 11:20; 27:1-3) Enda þótt þetta boð hafi vafalaust verið sett fram í óeiginlegri merkingu hefði það sannarlega verið merkingarlaust fyrir meðalmanninn hjá Ísrael ef hann hefði verið ólæs og óskrifandi. Ritningarstaðir svo sem Jósúabók 18:9 og Dómarabókin 8:14 sýna að það kunnu fleiri en leiðtogar eins og Móse og Jósúa að skrifa löngu áður en konungdæmi var komið á í Ísrael. — 2. Mósebók 34:27; Jósúabók 24:26.

Kennsluaðferðir

7. (a) Hvar fengu ísraelsk börn undirstöðumenntun að sögn Ritningarinnar? (b) Hvaða upplýsingar veitir franskur biblíufræðingur?

7 Í Ísrael kenndu báðir foreldrar börnum sínum frá mjög ungum aldri. (5. Mósebók 11:18, 19; Orðskviðirnir 1:8; 31:26) Í frönsku orðabókinni Dictionnaire de la Bible segir biblíufræðimaðurinn E. Mangenot: „Barnið var ekki fyrr farið að tala en því voru kennd fáein brot úr lögmálinu. Móðirin endurtók vers; þegar barnið kunni það lét hún það fá annað. Síðar voru barninu fengin í hendur í rituðu máli þau vers sem það kunni þegar utanbókar. Þannig kynntist það lestri og þegar það stækkaði gat það haldið trúfræðslu sinni áfram með því að lesa og hugleiða lögmál Drottins.“

8. (a) Hvaða undirstöðuaðferð var notuð við kennsluna í Ísrael en hvað einkenndi hana? (b) Hvað var notað sem minnishjálp?

8 Þetta bendir til að ein grundvallar kennsluaðferðin, sem notuð var, hafi verið utanbókarlærdómur. Það sem menn lærðu um lögmál Jehóva og samskipti hans við þjóna sína átti að ná til hjartans. (5. Mósebók 6:6, 7) Það átti að hugleiða það vandlega. (Sálmur 77:12, 13) Margvíslegar aðferðir voru notaðar til að hjálpa ungum sem öldnum að leggja hlutina á minnið. Stundum voru notaðar griplur þar sem versin stóðu í stafrófsröð miðað við fyrsta bókstaf (svo sem í Orðskviðunum 31:10-31), stafrím (orð sem byrja á sama staf eða hljóði) og tölur líkt og í síðari helmingi 30. kafla Orðskviðanna. Athyglisvert er að sumir fræðimenn telja Gezer-almanakið, eitthvert elsta dæmið um fornhebreskt ritmál, vera minnisæfingu skólapilts.

Námsefni og kennslugreinar

9. (a) Hvað var mikilvægur þáttur í námsdagskrá ísraelskra barna? (b) Hvað segir biblíualfræðibók um kennsluna í tengslum við hinar árlegu hátíðir?

9 Menntun í Ísrael takmarkaðist ekki við það að læra lestur og skrift. Saga var þýðingarmikil námsgrein. Það að læra um stórvirki Jehóva í þágu fólks hans var eitt af undirstöðuatriðum menntunarinnar. Þessar sögulegu staðreyndir þurfti að kenna kynslóð fram af kynslóð. (5. Mósebók 4:9, 10; Sálmur 78:1-7) Hinar árlegu hátíðir þjóðarinnar voru kjörin tækifæri fyrir höfuð fjölskyldunnar til að kenna börnum sínum. (2. Mósebók 13:14; 3. Mósebók 23:37-43) Í því sambandi segir The International Standard Bible Encyclopedia: „Gegnum fræðslu föðurins á heimilinu og skýringar hans á þýðingu hátíðanna lærðu hebresk börn um það hvernig Guð hafði opinberað sig þjóðinni áður fyrr, hvernig þau áttu að lifa í nútímanum og hver fyrirheit Guðs voru varðandi framtíð lýðs síns.“

10. Hvaða verkmenntun fengu drengir og stúlkur?

10 Sú menntun, sem foreldrarnir veittu, fólst meðal annars í verklegri þjálfun. Stúlkur lærðu heimilisfræði. Lokakafli Orðskviðanna sýnir að þau voru mörg og fjölbreytt eins og spuni, vefnaður, matargerð, verslun og almenn bústjórn. Drengir lærðu yfirleitt starf föður síns, hvort heldur það var búskapur eða einhver iðja eða handiðn. Síðar á tímum var það siður rabbína Gyðinga að segja: „Sá sem kennir ekki syni sínum nytsamlega iðju elur hann upp sem þjóf.“

11. Hvað sýnir hver var megintilgangur menntunar í Ísrael og hvaða lærdóm geta börn og unglingar nú á tímum dregið af því?

11 Hin andlega dýpt í kennsluaðferðum Ísraelsmanna er greinileg út í gegnum Orðskviðina. Þar sést að tilgangurinn var sá að kenna „hinum óreyndu“ háleit atriði svo sem visku, aga, skilning, innsæi, dómgreind, hyggindi, þekkingu og íhygli — allt í ‚ótta Jehóva.‘ (Orðskviðirnir 1:1-7; 2:1-14) Þar er undirstrikað hvaða áhugahvatir ættu að koma nútímaþjóni Guðs til að bæta menntun sína.

Prestar, levítar og spámenn

12. Hverjir, auk foreldra, áttu þátt í að mennta Ísraelsmenn og hver er frummerking hebreska orðsins sem þýtt er „lögmál“?

12 Enda þótt foreldrarnir hafi séð um grunnmenntunina menntaði Jehóva þjóð sína enn frekar með því að nota prestana, levítana sem ekki voru prestar og spámennina. Í síðustu blessunarorðum sínum yfir Levíættkvísl sagði Móse: „Þeir kenna Jakob dóma þína og Ísrael lögmál þitt.“ (5. Mósebók 33:8, 10) Það hefur mikla þýðingu í þessu samhengi að orðið „lögmál“ á hebresku (tórahʹ) er dregið af orðrót sem merkir, þegar hún er í sagnorðsmynd, „að sýna,“ „að kenna,“ „að fræða.“ Encyclopaedia Judaica segir: „Merking orðsins [tórah] er því ‚kennsla,‘ ‚kenning‘ eða ‚uppfræðsla.‘“

13. Hvers vegna var lögmál Ísraels ólíkt lagakerfi annarra þjóða?

13 Einnig þetta greindi Ísrael frá öðrum þjóðum og það jafnvel frá nútímaþjóðum. Þjóðir nútímans eiga sér lagasöfn sem almenningur þekkir aðeins brot af. Þegar menn komast í kast við lögin verða þeir að greiða lögfræðingum háa þóknun fyrir að verja þá. Lagaskólar eru fyrir sérfræðingana. Í Ísrael var lögmálið hins vegar leið Guðs til að segja fólki sínu hvernig hann vildi að það tilbæði hann og lifði í samræmi við vilja hans. Ólíkt öðrum lögbókum kvað það á um kærleika til Guðs og náungans. (3. Mósebók 19:18; 5. Mósebók 6:5) Lögmálið var langt frá því að vera kaldranalegur lagabálkur. Það lét í té kennisetningar, kennslu og leiðbeiningar um lífsveg sem menn urðu að tileinka sér.

14. Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jehóva hafnaði prestastétt Leví. (Malakí 2:7, 8)

14 Meðan prestar og levítar voru trúfastir sinntu þeir því ábyrgðarstarfi sínu að kenna lýðnum. En oftar en ekki vanræktu prestarnir þá skyldu sína að mennta þjóðina. Þessi skortur á menntun í lögmáli Guðs átti eftir að hafa ógnvænlegar afleiðingar bæði fyrir prestana og lýðinn. Á áttundu öld f.o.t. spáði Jehóva: „Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig, og með því að þér hafið gleymt lögmáli Guðs yðar, þá vil ég og gleyma börnum yðar.“ — Hósea 4:6.

15. (a) Hverja vakti Jehóva upp sem kennara í Ísrael, auk prestanna, og hvað skrifaði biblíufræðingur um hlutverk þeirra sem fræðara? (b) Hvernig fór að lokum fyrir Ísraels- og Júdamönnum vegna þess að þeir höfnuðu þekkingunni á Jehóva og vegum hans?

15 Auk presta vakti Jehóva upp spámenn sem kennara. Við lesum: „[Jehóva] hafði . . . aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ‚Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.‘“ (2. Konungabók 17:13) Franski biblíufræðimaðurinn Roland de Vaux sagði um hlutverk spámannanna sem kennara: „Einnig spámennirnir höfðu það hlutverk að fræða lýðinn; það var að minnsta kosti jafnstór þáttur í starfi þeirra og að segja framtíðina fyrir. Og spádómlegur innblástur ljáði prédikun þeirra þann myndugleika sem orð frá Guði hefur. Víst er að á konungatímanum voru spámennirnir trúar- og siðferðiskennarar lýðsins; og því má bæta við að þeir hafi verið albestu kennarar hans þótt ekki hafi alltaf verið mest mark á þeim tekið.“ Ísraelsþjóðin yfirgaf vegu Jehóva vegna skorts á réttri menntun af hendi prestanna og levítanna ásamt því að hún tók ekki mark á spámönnum Jehóva. Samaría féll í hendur Assýringum árið 740 f.o.t. og Babýloníumenn jöfnuðu Jerúsalem og musteri hennar við jörðu árið 607 f.o.t.

Menntun í útlegðinni og eftir hana

16, 17. (a) Hvaða menntun voru Daníel og félagar hans þrír neyddir til að stunda? (b) Hvernig gátu þeir stundað þessa babýlonsku menntun en jafnframt verið Jehóva trúfastir?

16 Um tíu árum fyrir eyðingu Jerúsalem herleiddi Nebúkadnesar konungur Jójakín konung og hóp höfðingja og tiginborinna manna til Babýlonar. (2. Konungabók 24:15) Þeirra á meðal voru Daníel og þrír aðrir ungir höfðingjasynir. (Daníel 1:3, 6) Nebúkadnesar fyrirskipaði að fjórmenningarnir skyldu stunda sérstakt þriggja ára nám í ‚ritum og tungu Kaldea.‘ Enn fremur var þeim ákveðinn ‚daglegur skammtur frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk.‘ (Daníel 1:4, 5) Það gat hugsanlega verið hættulegt fyrir nokkurra hluta sakir. Líklegt er að námsefnið hafi ekki aðeins verið þriggja ára tungumálanámskeið. Sumir telja að orðið „Kaldear“ í þessari ritningargrein merki „ekki Babýloníumenn sem þjóð heldur menntastéttina.“ (The Soncino Books of the Bible) Í skýringum sínum við Daníelsbók segir C. F. Keil: „Daníel og félagar hans áttu að fá menntun í speki hinna kaldeísku presta og menntamanna sem kennd var í skólum Babýlonar.“ Maturinn af konungsborði gerði þá einnig berskjaldaða fyrir því að brjóta gegn ákvæðum Móselaganna um mataræði. Hvernig farnaðist þeim?

17 Daníel talaði fyrir hönd Gyðinganna fjögurra og tók skýrt fram strax í upphafi að þeir myndu ekki borða eða drekka neitt það sem bryti gegn samvisku þeirra. (Daníel 1:8, 11-13) Jehóva blessaði þessa einarðlegu afstöðu og mýkti hjarta hins babýlonska embættismanns sem hafði umsjón með þeim. (Daníel 1:9, 14-16) Síðari atburðir í lífi allra hinna fjögurra ungu Hebrea sanna svo ekki verður um villst að þriggja ára skyldunámsefni þeirra í menningu Babýlonar lét þá ekki víkja frá djúpstæðri hollustu þeirra við Jehóva og hreina tilbeiðslu á honum. (Daníel 3. og 6. kafli) Jehóva hjálpaði þeim að komast óskaddaðir upp úr þessari þriggja ára nauðungarkaffæringu í æðri lærdóm Babýloníumanna. „Og þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum. Og í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.“ — Daníel 1:17, 20.

18. Hvaða menntunarátak var gert í Júda eftir herleiðinguna til Babýlonar?

18 Eftir herleiðinguna í Babýlon stóð Esra fyrir miklu menntunarátaki, en hann var prestur sem „hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál [Jehóva] og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.“ (Esrabók 7:10) Þar naut hann stuðnings trúfastra levíta sem „skýrðu lögmálið fyrir lýðnum.“ (Nehemía 8:7) Esra var „fræðimaður, vel að sér“ í Ritningunni. (Esrabók 7:6) Það var á hans dögum sem fræðimenn eða skriftlærðir menn urðu áberandi sem stétt.

Skólar rabbínanna

19. Hvaða stétt lærifeðra var komin fram í Ísrael á þeim tíme er Jesú kom til jarðarinnar og hvaða mikilvægar ástæður höfðu hann og lærisveinar hans fyrir því að leita sér ekki æðri menntunar Gyðinga?

19 Þegar komið var fram á daga Jesú voru fræðimennirnir orðnir fyrirstétt kennara sem tók erfikenningar fram yfir hinar sönnu kenningar orðs Guðs. Þeir höfðu yndi af því að láta ávarpa sig „rabbí“ sem var þá orðinn heiðurstitill er merkti „minn mikli“ eða „yðar ágæti.“ (Matteus 23:6, 7, NW neðanmáls) Í kristnu Grísku ritningunum eru fræðimennirnir oft settir í samband við faríseana sem voru sumir hverjir lögmálskennarar. (Postulasagan 5:34) Jesús sakaði báða hópana um að ógilda orð Guðs með erfikenningu sinni og með því að „kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Matteus 15:1, 6, 9) Það er því engin furða að hvorki Jesús né flestir af lærisveinum hans voru menntaðir í skólum rabbínanna. — Jóhannes 7:14, 15; Postulasagan 4:13; 22:3.

20. Hvað hefur þetta yfirlit yfir menntun á tímum Biblíunnar sýnt okkur og hvað bendir til að þjónar Jehóva þarfnist menntunar?

20 Þetta yfirlit yfir menntun á tímum Biblíunnar hefur sýnt að Jehóva er hinn mikli fræðari þjóna sinna. Fyrir milligöngu Móse kom hann á laggirnar skilvirku menntakerfi í Ísrael. Löngu síðar þróaðist þó kerfi æðri menntunar Gyðinga þar sem kennt var efni sem gekk í berhögg við orð Guðs. Jesús hafði ekki sótt slíkan skóla Gyðinga en var eigi að síður óviðjafnanlegur kennari. (Matteus 7:28, 29; 23:8; Jóhannes 13:13) Hann veitti lærisveinum sínum líka umboð til að kenna allt fram til endaloka heimskerfisins. (Matteus 28:19, 20) Til þess yrðu þeir að vera góðir kennarar og myndu þar af leiðandi þarfnast menntunar. Hvernig ættu þá sannkristnir menn nú á tímum að líta á menntun? Um það er fjallað í greininni á eftir.

Minnispróf

◻ Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva hefur áhuga á menntun þjóna sinna?

◻ Að hvaða leyti var menntakerfi Ísraels ólíkt því sem var hjá öðrum þjóðum?

◻ Hvaða menntun hlutu ísraelsk börn?

◻ Hvaða kennsluaðferðum var beitt í Ísrael?

◻ Hvers vegna stunduðu Jesús og lærisveinar hans ekki nám við æðri skóla Gyðinga?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Skyldumenntun í Babýlon gerði hvorki Daníel né félaga hans fráhverfa Jehóva.