Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Menntun sem hefur tilgang

Menntun sem hefur tilgang

Menntun sem hefur tilgang

„Fræð hinn réttláta, og hann mun auka lærdóm sinn.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 9:9.

1. Hvers væntir Jehóva af þjónum sínum í sambandi við þekkingu?

 JEHÓVA er „Guð, sem allt veit.“ (1. Samúelsbók 2:3) Hann menntar þjóna sína. Móse sagði fyrir að aðrar þjóðir myndu segja um Ísrael: „Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð.“ (5. Mósebók 4:6) Sannkristnir menn ættu sömuleiðis að vera vel að sér. Þeir þurfa að skara fram úr sem nemendur orðs Guðs. Páll postuli benti á hver ætti að vera tilgangur slíks náms: „Vér [höfum] ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þér hegðið yður eins og [Jehóva] er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að [„nákvæmri,“ NW] þekkingu á Guði.“ — Kólossubréfið 1:9, 10.

2. (a) Hvað er nauðsynlegt til þess að afla sér nákvæmrar þekkingar á Guði? (b) Hvernig hefur hið stjórnandi ráð votta Jehóva tekið á því máli?

2 Í það minnsta einhver lágmarksmenntun er nauðsynleg til að geta aflað sér nákvæmrar þekkingar á Guði og tilgangi hans. En margir, sem hafa kynnst sannleikanum, búa í löndum þar sem litlir eða engir möguleikar voru á góðri almennri menntun. Þeir voru því illa settir. Til að yfirstíga þetta vandamál hefur hið stjórnandi ráð votta Jehóva um langt árabil mælt svo fyrir að lestrarkennsla skuli fara fram í þeim söfnuðum þar sem nauðsyn krefði. Fyrir liðlega 30 árum birti brasilíska dagblaðið Diário de Mogi grein sem hét: „Vottar Jehóva berjast gegn ólæsi.“ Þar sagði: „Hæfur leiðbeinandi tekur þolinmóður til við að . . . kenna öðrum lestur og skrift. . . . Nemendurnir verða, af sömu ástæðu og knýr þá til að vera þjónar Guðs, að auka þekkingu sína á málinu í þeim tilgangi að geta flutt ræður.“ Þúsundir manna um heim allan hafa á þennan hátt fengið hjálp til að verða góðir nemendur orðs Guðs. Þeir lögðu á sig þessa undirstöðumenntun í göfugum tilgangi.

Kunnátta er nauðsynleg til að vera fær þjónn Guðs

3, 4. (a) Hvers vegna hafa sannkristnir menn áhuga á menntun? (b) Hvernig var málum háttað í Ísrael og hvaða grundvallarmenntun er óhjákvæmileg í söfnuðum okkar nú á dögum?

3 Sannkristnir menn hafa áhuga á menntun, ekki aðeins menntunarinnar vegna heldur til að verða hæfari þjónar Jehóva. Kristur fékk öllum kristnum mönnum það verkefni að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim að halda allt það sem hann bauð þeim.‘ (Matteus 28:19, 20) Þeir verða sjálfir að byrja á því að læra til að geta kennt öðrum og það útheimtir góðar námsaðferðir. Þeir verða að vera færir um að rannsaka Ritninguna vandlega. (Postulasagan 17:11) Til að skila verkefni sínu vel af hendi verða þeir líka að vera vel læsir. — Sjá Habakkuk 2:2; 1. Tímóteusarbréf 4:13.

4 Eins og við sáum í greininni á undan er full ástæða til að ætla að yfirleitt hafi jafnvel börn í Forn-Ísrael verið læs og skrifandi. (Dómarabókin 8:14; Jesaja 10:19) Kristnir nútímaþjónar orðsins þurfa að skrifa hjá sér snyrtileg minnisatriði þegar þeir bera vitni hús úr húsi. Þeir skrifa bréf, skrifa hjá sér minnisatriði á samkomum og skrifa athugasemdir við námsefni sitt. Allt þetta útheimtir læsilega skrift. Bókhald og skýrsluhald innan safnaðarins útheimtir að minnsta kosti undirstöðukunnáttu í reikningi.

Kostir góðrar menntunar

5. (a) Hver er uppruni orðsins „skóli“? (b) Hvaða tækifæri ætti ungt fólk að grípa?

5 Athyglisvert er að orðið „skóli“ er komið af gríska orðinu skholḗ sem merkti upphaflega „frí frá starfi, tómstundaiðja“ ellegar notkun þess tíma til einhverrar alvarlegrar iðju, svo sem náms. Síðar fékk það merkinguna staður þar sem slíkt nám fór fram. Þetta gefur til kynna að eitt sinn hafi einungis forréttindastéttin — í Grikklandi og flestum öðrum löndum — haft tómstundir sem það gat notað til náms. Hinar vinnandi stéttir voru yfirleitt fáfróðar. Í flestum löndum heims nú á dögum er börnum og ungu fólki ætlaður tími til náms. Ungir vottar ættu svo sannarlega að nýta sér vel þennan ákjósanlega tíma til að verða þjónar Jehóva sem eru vel að sér og duglegir. — Efesusbréfið 5:15, 16.

6, 7. (a) Nefndu suma kosti góðrar skólamenntunar. (b) Hvernig getur það reynst gagnlegt að læra erlent tungumál? (c) Í hvaða aðstöðu er fjöldi ungs fólks þegar það lýkur skólagöngu?

6 Almenn þekking í mannkynssögu, landafræði, raunvísindum og öðru slíku mun gera ungum vottum kleift að verða fjölhæfir þjónar orðsins. Skólaganga þeirra kennir þeim ekki aðeins margar námsgreinar heldur líka hvernig á að læra. Sannkristnir menn hætta ekki að læra og nema þegar skólanáminu lýkur. Hvaða gagn þeir hafa af því að nema mun hins vegar ráðast mikið af því að þeir viti hvernig á að nema. Bæði menntunin í skóla og innan safnaðarins getur hjálpað þeim að þroska íhygli sína og rökhugsun. (Orðskviðirnir 5:1, 2, NW) Þegar þeir lesa verða þeir færari um að átta sig á hvað sé þýðingarmikið, hvað sé þess virði að skrifa hjá sér og leggja á minnið.

7 Það að læra erlent tungumál til dæmis þroskar ekki bara skilningsgetu ungs fólks heldur gerir það líka gagnlegra skipulagi Jehóva. Við sumar deildarskrifstofur Varðturnsfélagsins hefur það reynst mörgum ungum bræðrum til gagns að geta reiprennandi talað eða lesið ensku. Enn fremur ættu allir kristnir þjónar orðsins að leggja sig fram um að geta tjáð sig skýrt og skilmerkilega á móðurmáli sínu. Fagnaðarerindið um ríkið verðskuldar að því sé komið á framfæri á skýru og málfræðilega réttu máli. Sannleikurinn er sá að margt ungt fólk í heimi nútímans á enn í erfiðleikum með að skrifa og tala rétt og leysa einföldustu reikningsdæmi þegar það lýkur skólagöngu, og það hefur sáralitla kunnáttu í mannkynssögu og landafræði.

Nægjanleg menntun

8. Hvaða ritningarstaðir tengjast veraldlegri menntun og getu manns til að sjá fyrir sér?

8 Það virðist því vel við hæfi að taka núna til athugunar viðhorf kristins manns til veraldlegrar menntunar. Hvaða meginreglur Biblíunnar tengjast þessu máli? Fyrst má nefna að í flestum löndum útheimtir tilhlýðileg undirgefni við „keisarann“ að kristnir foreldrar sendi börn sín í skóla. (Markús 12:17; Títusarbréfið 3:1) Ungir vottar ættu við skólanám sitt að muna eftir Kólossubréfinu 3:23 sem segir: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn.“ Önnur meginregla, sem kemur þessu við, er sú að kristnir menn ættu að geta séð fyrir sér, jafnvel þótt þeir séu þjónar orðsins sem brautryðjendur í fullu starfi. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12) Kristinn maður, sem er kvæntur, ætti að geta séð sómasamlega fyrir konu sinni og þeim börnum, sem þau kunna að eignast, og eiga lítið eitt aukreitis til að miðla þeim sem þurfandi eru og til að styðja prédikunarstarfið á staðnum og alþjóðastarfið. — Efesusbréfið 4:28; 1. Tímóteusarbréf 5:8.

9, 10. (a) Hver virðist þróunin vera víða um lönd? (b) Hvað gæti brautryðjandi talið viðunandi tekjur?

9 Hve mikla menntun þarf kristið ungmenni að fá til að virða þessar meginreglur Biblíunnar og uppfylla kristnar skyldur sínar? Það er breytilegt eftir löndum. Víða um lönd virðist þróunin hins vegar yfirleitt vera sú að til þess að hafa viðunandi tekjur er krafist meiri skólamentunar núna en var fyrir fáeinum árum. Skýrslur frá deildarskrifstofum Varðturnsfélagsins í ólíkum heimshlutum gefa til kynna að það sé víða erfitt fyrir þann, sem hefur aðeins lokið skyldunámi, að fá vinnu sem skilar viðunandi tekjum, og í sumum löndum jafnvel eftir framhaldsskólapróf eða stúdentspróf.

10 Hvað er átt við með „viðunandi tekjum“? Ekki er verið að vísa til hátekjustarfa. „Viðunandi“ merkir samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs „sem hægt er að una við, þolanlegur.“ Hvað mætti kalla „viðunandi“ eða nægjanlegt til dæmis handa þeim sem vilja vera boðberar fagnaðarerindisins í fullu starfi? Slíkir einstaklingar þurfa yfirleitt að vinna hluta úr degi til að komast hjá að vera bræðrum sínum eða fjölskyldum „til þyngsla.“ (1. Þessaloníkubréf 2:9) Tekjur þeirra gætu kallast „viðunandi“ eða „þolanlegar“ ef þær nægja þeim til að framfleyta sér sómasamlega og jafnframt hafa nægan tíma og krafta aflögu til að gera kristinni þjónustu sinni góð skil.

11. Hvers vegna hafa sum ungmenni hætt brautryðjandastarfi og hvaða spurning kemur upp?

11 Hver er oft staða mála núna? Skýrt hefur verið frá því að í sumum löndum hafi margir unglingar af góðum ásetningi hætt skólagöngu að skyldunámi loknu til þess að gerast brautryðjendur. Þeir höfðu enga verkmenntun eða starfsréttindi. Ef foreldrar þeirra hlupu ekki undir bagga með þeim urðu þeir að finna sér vinnu hluta úr degi. Sumir hafa þurft að þiggja vinnu sem kallaði á langan vinnudag til að ná endum saman. Þeir útkeyrðu sig líkamlega og urðu að hætta í brautryðjandastarfinu. Hvað geta slíkir einstaklingar gert til að sjá fyrir sér og hefja brautryðjandastarf að nýju?

Heilbrigt viðhorf til menntunar

12. (a) Hvaða tvær öfgar í viðhorfum til menntunar mun kristinn maður forðast? (b) Hvaða tilgangi ætti menntun að þjóna fyrir vígða votta Jehóva og börn þeirra?

12 Heilbrigt viðhorf til menntunar getur hjálpað. Í hugum margra ungmenna í heiminum er menntun stöðutákn, eitthvað sem hjálpar þeim að klífa þjóðfélagsstigann, lykill að velmegun og lífsháttum efnishyggjunnar. Í hugum annarra er skólanám leiðindastarf sem ljúka þarf af eins fljótt og mögulegt er. Hvorugt þessara viðhorfa hæfa sannkristnum mönnum. En hvað mætti þá kallast „heilbrigt viðhorf“? Kristnir menn ættu að líta á menntun sem leið að marki. Núna á þessum síðustu dögum er það tilgangur þeirra að þjóna Jehóva eins mikið og á eins árangursríkan hátt og mögulegt er. Ef grunnskólamenntun eða jafnvel framhaldsskólapróf eða stúdentspróf gerir þeim einungis kleift að fá í heimalandi sínu vinnu sem gefur þeim ekki nægilegar tekjur til að sjá sér farborða sem brautryðjendur, þá mætti íhuga einhverja menntun til viðbótar eða verkþjálfun. Markmið slíkrar menntunar myndi beinlínis vera það að geta tekið upp þjónustu í fullu starfi.

13. (a) Hvernig hefur systir á Filippseyjum getað haldið áfram brautryðjandastarfi jafnhliða því að rækja skyldur sínar við fjölskylduna? (b) Hvaða viðvörun er tímabær?

13 Sumir hafa sótt námskeið sem hafa opnað þeim atvinnumöguleika er hafa gert þeim kleift að hefja eða taka aftur upp þráðinn í þjónustu í fullu starfi. Systir á Filippseyjum var fyrirvinna fjölskyldu sinnar en langaði til að gerast brautryðjandi. Deildarskrifstofan segir svo frá: „Henni hefur reynst það mögulegt af því að hún hefur fengið viðbótarmenntun til að geta starfað sem löggiltur endurskoðandi.“ Í sömu skýrslu segir: „Hér eru fjölmargir sem eru í námi en hafa jafnhliða því getað skipulagt tíma sinn þannig að þeir geti verið brautryðjendur. Yfirleitt verða þeir betri boðberar þar sem þeir eru ástundunarsamari, svo framarlega sem þeir verða ekki of metnaðarfullir hvað varðar hin veraldlegu mál.“ Síðasta athugasemdin ætti að vera okkur umhugsunarefni. Ef þörf virðist vera á viðbótarmenntun má ekki missa sjónar á tilganginum með henni eða láta hann breytast í það að þjóna markmiðum efnishyggjunnar.

14, 15. (a) Hvers vegna ætti ekki að setja neinar ósveigjanlegar reglur um menntun? (b) Hvaða veraldlega menntun hafa sumir bræður í ábyrgðarstöðum fengið en hvað hefur bætt það upp?

14 Í nokkrum löndum veita framhaldsskólar verkmenntun sem getur búið ungan kristinn mann undir einhverja iðn eða atvinnu eftir að hann útskrifast. En jafnvel í sumum löndum, þar sem slíkt býðst ekki, finna framtakssamir unglingar, sem hafa einungis hlotið almenna skólagöngu, sér hlutastarf sem gefur þeim nóg í aðra hönd til að sjá fyrir sér sem brautryðjendur. Það á þess vegna ekki að setja neinar ósveigjanlegar reglur hvorki með eða á móti viðbótarmenntun.

15 Margir sem gegna núna ábyrgðarstöðum á aðalstöðvum Félagsins eða við einhverja af deildarskrifstofum þess, eða þjóna sem farandumsjónarmenn, hafa aðeins fengið almenna skólamenntun. Þeir voru trúfastir brautryðjendur, hættu aldrei að læra, hlutu þjálfun og hefur verið trúað fyrir aukinni ábyrgð. Þeir sjá ekki eftir því. Á hinn bóginn kusu sumir jafnaldrar þeirra að afla sér háskólamenntunar og heltust úr lestinni, biðu ósigur fyrir trúskemmandi heimspeki og „speki þessa heims.“ — 1. Korintubréf 1:19-21; 3:19, 20; Kólossubréfið 2:8.

Að vega og meta kostnaðinn

16. (a) Hver ákveður hvort frekara nám er æskilegt og hvað ætti að hafa efst í huga? (b) Hvað ætti að taka með í reikninginn?

16 Hver ákveður hvort ungur kristinn maður ætti að leggja fyrir sig frekara nám eða starfsþjálfun? Hér kemur meginregla Biblíunnar um forystu inn í myndina. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 6:1) Á þeim grundvelli vilja foreldrar örugglega leiðbeina börnum sínum um val á starfi eða iðn og þar af leiðandi um hversu mikla menntun þarf til. Víða um lönd verður val varðandi menntun og atvinnu að liggja fyrir fljótlega eftir að komið er í framhaldsskóla. Þegar sá tími kemur þurfa kristnir foreldrar og unglingar að leita handleiðslu Jehóva til að velja viturlega og hafa þá málefni Guðsríkis efst í huga. Ungt fólk hefur mismunandi eðlishneigð og gáfur. Vitrir foreldrar munu taka mið af því. Öll heiðarleg vinna er virðingarverð hvort heldur hún útheimtir líkamlegt erfiði eða ekki. Þótt heimurinn kunni að upphefja skrifstofustörf en fara niðrandi orðum um það að vera duglegur að vinna með höndum sínum gerir Biblían það sannarlega ekki. (Postulasagan 18:3) Þegar því foreldrar og kristin ungmenni nú á tímum taka þá ákvörðun, eftir að hafa vandlega og í bæn vegið og metið kosti og galla, að farið skuli út í nám að afloknu almennu framhaldsskólanámi eða ekki, ættu aðrir í söfnuðinum ekki að gagnrýna þau.

17. Hvað ákveða sumir vottar í þágu barna sinna?

17 Ef kristnir foreldrar ákveða með fullri ábyrgðarkennd að veita börnum sínum frekari menntun eftir að námi í almennum framhaldsskóla lýkur er það þeirra einkaréttur. Lengd þessa náms yrði breytileg eftir því hvers konar iðn eða atvinna verður fyrir valinu. Af fjárhagsástæðum og til þess að auðvelda börnum sínum að hefja þjónustu í fullu starfi eins fljótt og auðið er hafa margir kristnir foreldrar valið stuttar námsbrautir í fagskólum eða tækniskólum handa börnum sínum. Í sumum tilvikum hafa ungmennin þurft að fara á lærlingssamning fyrir einhverja iðngrein en markmiðið hefur alltaf verið að láta líf sitt snúast að fullu og öllu um það að þjóna Jehóva.

18. Hvað ætti að hafa í huga ef ákveðið er að fara út í viðbótarnám?

18 Ef farið er út í viðbótarnám er víst að hvötin þar að baki ætti ekki að vera sú að öðlast dýrðarljóma vegna námsafreka eða ryðja sér braut að ævistarfi sem nýtur mikillar virðingar í heiminum. Vanda skyldi valið á námsbrautum. Þetta tímarit hefur lagt áherslu á hætturnar sem fylgja æðri lærdómi og það með réttu, því að mörg æðri menntun andmælir hinni „heilnæmu kenningu“ Biblíunnar. (Títusarbréfið 2:1; 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Að auki hafa margar æðri menntastofnanir orðið gróðrarstíur lögleysis og siðleysis allt frá því á sjöunda áratugnum. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur eindregið ráðið fólki frá því að fara út í þess konar umhverfi. (Matteus 24:12, 45) Það verður hins vegar að viðurkenna að nú orðið standa kristin ungmenni frammi fyrir sömu hættum í almennum framhaldsskólum, tækniskólum og jafnvel á vinnustöðum. — 1. Jóhannesarbréf 5:19. *

19. (a) Hvers ættu þeir að gæta sem ákveða að leggja út í viðbótarnám? (b) Hvernig hafa sumir notað menntun sína til góðs?

19 Ef ákveðið er að fara út í viðbótarmenntun væri ráðlegt fyrir ungan vott að búa hjá foreldrum sínum meðan á því stendur, sé þess nokkur kostur, sem gerði honum kleift að viðhalda eðlilegum kristnum námsvenjum, samkomusókn og prédikunarstarfi. Allt frá byrjun ætti einnig að taka eindregna afstöðu með meginreglum Biblíunnar. Hafa ber hugfast að Daníel og þrír hebreskir félagar hans voru fangar í útlegð þegar þeir voru skyldaðir til að stunda framhaldsnám í Babýlon, en þeir varðveittu ráðvendni sína jafnt og þétt. (Daníel 1. kafli) Ungir vottar í fjölmörgum löndum hafa getað látið andleg mál sitja í fyrirrúmi um leið og þeir sóttu námskeið eða skóla til að búa sig undir hlutastörf sem bókhaldarar, iðnaðarmenn, kennarar, þýðendur, túlkar eða önnur störf gem gáfu nægilega af sér til þess að þeir gætu haft brautryðjandastarfið sem sitt aðalstarf. (Matteus 6:33) Mörg þessara ungmenna hafa síðar orðið farandumsjónarmenn eða Betelsjálfboðaliðar.

Sameinað, menntað fólk

20. Hvaða veraldlegur greinarmunur á ekki heima meðal þjóna Jehóva?

20 Allir þjónar Jehóva, hvort heldur þeir vinna skrifstofustörf, iðnaðar- eða verkamannastörf, stunda búskap eða vinna við þjónustu, verða að vera iðnir nemendur í Biblíunni og færir kennarar. Sú færni, sem allir afla sér í lestri, námi og kennslu, ryður gjarnan úr vegi þeim greinarmun sem heimurinn gerir milli verkafólks og skrifstofufólks. Það stuðlar að þeirri einingu og gagnkvæmri virðingu sem er sérstaklega áberandi meðal sjálfboðaliðanna á Betelheimilunum og við byggingaframkvæmdir Varðturnsfélagsins þar sem andlegir eiginleikar eru mjög mikilvægir og þeirra er krafist af öllum. Þar vinna reyndir skrifstofumenn með færum verkamönnum, og allir sýna að þeir meti og elski hver annan. — Jóhannes 13:34, 35; Filippíbréfið 2:1-4.

21. Hvert ætti að vera markmið kristinna ungmenna?

21 Foreldrar, leiðbeinið börnum ykkar að því takmarki að verða nytsamir meðlimir nýheimssamfélagsins! Kristin ungmenni, notið menntunartækifæri ykkar sem leið til að gera ykkur fær um að höndla í enn ríkari mæli sérréttindi ykkar í þjónustunni við Jehóva! Megið þið öll sem uppfrætt fólk reynast vera vel undirbúnir meðlimir hins guðræðislega samfélags, bæði núna og að eilífu á hinni ‚nýju jörð‘ sem Guð hefur heitið. — 2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 50:4; 54:13; 1. Korintubréf 2:13.

[Neðanmáls]

^ Sjá einnig Varðturninn, (enska útgáfu), 1. september 1975, bls. 542-4.

Reyndu minnið

◻ Hvers vegna hafa sannkristnir menn áhuga á menntun?

◻ Hvaða öfgar í viðhorfum til menntunar forðast sannkristnir menn?

◻ Hvaða hættur samfara viðbótarmenntun ætti að taka með í reikninginn og hvers ætti þá að gæta?

◻ Hvaða veraldlegur greinarmunur á ekki heima meðal þjóna Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Með því að leggja sig fram við nám geta kristin ungmenni orðið nytsamari meðlimir nýheimssamfélagsins.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Ef farið er út í frekari menntun ætti hvötin að vera löngun til að þjóna Jehóva betur.