Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Messías — sönn von?

Messías — sönn von?

Messías — sönn von?

Hann kallaði sig Móse. Rétt nafn hans er hins vegar löngu gleymt. Á fimmtu öld okkar tímatals fór hann um eyna Krít þvera og endilanga og sannfærði Gyðinga þar um að hann væri sá messías sem þeir voru að bíða. Hann sagði þeim að bráðlega yrði kúgun þeirra, útlegð og fjötrar á enda. Þeir trúðu honum. Þegar frelsunardagurinn rann upp fylgdu Gyðingarnir „Móse“ út á klett sem skagaði út í Miðjarðarhaf. Hann sagði þeim að þeir þyrftu ekki annað en að kasta sér í hafið, þá myndi það opnast fyrir þeim. Margir hlýddu og stukku út í hafið sem var ekkert á því að opnast fyrir þeim. Fjölmargir drukknuðu en sjómenn björguðu sumum. Móse fannst hins vegar hvergi. Þessi messías var horfinn.

HVAÐ er messías? Orðin „frelsari,“ „lausnari“ og „leiðtogi“ koma kannski upp í hugann. Margir ímynda sér að messías sé maður sem innblæs fylgjendum sínum von og hollustu og lofar að leiða þá til frelsis undan kúgun. Þar eð saga mannkynsins er að mestu leyti saga kúgunar og áþjánar er ekkert undarlegt að margir slíkir messíasar skuli hafa komið fram í aldanna rás. (Samanber Prédikarann 8:9.) En líkt og hinn sjálfskipaði Móse á Krít hafa þessir messíasar oftar valdið fylgjendum sínum vonbrigðum og tjóni en frelsi.

„Þetta er konungurinn Messías!“ Hinn virti rabbíni Akíba ben Jósef heilsaði Símeon Bar Kokhba með þessum orðum árið 132. Bar Kokhba var voldugur maður sem réði yfir öflugum her. Loksins, hugsuðu margir Gyðingar, var maðurinn fundinn sem bundið gæti enda á hina löngu kúgun Rómaveldis. Bar Kokhba mistókst og hundruð þúsunda samlanda hans guldu fyrir þau mistök með lífi sínu.

Á 12. öld kom fram annar messías meðal Gyðinga, nú í Jemen. Þegar kalífinn bað hann að gefa sér tákn um að hann væri messías stakk þessi maður upp á að kalífinn léti hálshöggva hann og að snögg upprisa hans yrði tekin gild sem tákn. Kalífinn féllst á það — og þar með var messíasinn í Jemen allur. Á sömu öld sagði maður að nafni Davíð Alroy Gyðingum í Miðausturlöndum að búa sig undir að fylgja sér á englavængjum heim til landsins helga. Margir trúðu að hann væri messías. Gyðingar í Baghdad biðu þolinmóðir uppi á þökum húsa sinna og í sæluvímunni kærðu þeir sig kollótta þótt þjófar rændu eigum þeirra á meðan.

Á 17. öld kom Sabbataí Zeví upp í Smýrnu. Hann boðaði Gyðingum út um alla Evrópu messíasardóm sinn. Kristnir menn lögðu líka eyrun við boðskap hans. Zeví hét fylgjendum sínum frelsun — að því er virðist með því að leyfa þeim að syndga hömlulaust. Þeir fylgjendur hans, sem voru honum nákomnastir, stunduðu kynsvall, stripl, saurlifnað og sifjaspell, og refsuðu sér síðan með því að lemja sig með svipum, velta sér nöktum í snjónum og grafa sig upp að hálsi í kaldri jörðinni. Er Zeví hélt til Tyrklands var hann handtekinn og sagt að hann yrði annaðhvort að snúast til íslams eða deyja. Hann snerist. Margir áhangenda hans voru höggdofa. Þrátt fyrir það var Zeví kallaður messías næstu tvær aldir meðal sumra.

Kristni heimurinn hefur einnig lagt af mörkum sína messíasa. Á 12. öld safnaði maður að nafni Tanchelm um sig her áhangenda og drottnaði yfir borginni Antwerpen. Þessi messías kallaði sig guð; hann seldi jafnvel fylgjendum sínum baðvatnið sitt og áttu þeir að drekka það sem sakramenti! Annar „kristinn“ messías hét Thomas Müntzer og var uppi á 16. öld í Þýskalandi. Hann var forsprakki uppreisnar gegn borgaralegum yfirvöldum á staðnum og sagði fylgjendum sínum að það væri stríðið við Harmagedón. Hann hét því að hann myndi grípa fallbyssukúlur óvinanna í ermar sér. En raunin varð önnur. Fylgjendur hans voru brytjaðir niður og Müntzer hálshöggvinn. Margir aðrir slíkir messíasar hafa komið fram innan kristna heimsins í aldanna rás.

Önnur trúarbrögð hafa líka sína messíasa. Íslam bendir á Mahdí, ‚hann sem Guð leiðbeinir,‘ og segir hann eiga að koma á réttlæti. Í hindúatrú hafa sumir sagst vera avatarar eða ýmsir guðir holdi klæddir. Og, eins og The New Encyclopædia Britannica nefnir, „hefur jafnvel búddhatrú, sem er alls engin messíasartrú, komið þeirri hugmynd á meðal Mahayana-hópa að Búddha Maitreya framtíðarinnar eigi að stíga niður frá himneskum bústað sínum og leiða hina trúföstu til paradísar.“

Messíasar 20. aldar

Þörfin fyrir ósvikinn messías hefur aldrei verið brýnni en á okkar öld. Það kemur því ekki á óvart að margir skuli hafa gert tilkall til þeirrar nafngiftar. Í Afríkuríkinu Kongó voru Simon Kimbangu og arftaki hans, Andre „Jesús“ Matswa, hylltir sem messíasar á þriðja, fjórða og fimmta áratugnum. Þeir dóu en fylgjendu þeirra búast enn við að þeir snúi aftur og komi á þúsundáraríki í Afríku.

Þessi öld hefur líka séð uppgang svonefndra „fraktdýrkenda“ í Nýju-Gíneu og Melanesíu, en það eru trúarhópar sem einkennast af tilraunum til að komast yfir vörur iðnvæddra þjóða með undraverðum hætti. Þeir búast við að hvítir menn, líkir messíasi, komi með skipi eða flugvél og færi þeim ríkidæmi og hamingjutíma er jafnvel dauðir muni rísa upp.

Iðnaðarþjóðirnar hafa líka átt sína messíasa. Sumir eru trúarleiðtogar, þeirra á meðal Sun Myung Moon, sjálfskipaður arftaki Jesú Krists sem miðar að því að hreinsa heiminn með sameinaðri fjölskyldu áhangenda sinna. Stjórnmálaleiðtogar hafa líka reynt að gegna messíasarhlutverki. Adolf Hitler er illræmdasta dæmi aldarinnar en hann talaði af mikillæti um þúsundáraríki sem hann hugðist koma á.

Stjórnmálaleg heimspeki og stofnanir hafa líka tekið sér messíasarhlutverk. Til dæmis segir The Encyclopedia Americana að messíanskur undirtónn sé í stjórnmálakenningu Marx-Lenínista. Og Sameinuðu þjóðunum er víða haldið á lofti sem einu friðarvon mannkynsins og virðast þær í hugum margra vera orðnar staðgengill messíasar.

Raunveruleg von?

Þetta stutta yfirlit sýnir svo ekki verður um villst að saga messíasarhreyfinganna er mestan part saga blekkinga, brostinna vona og drauma sem aldrei rættust. Það kemur því varla á óvart að margir nútímamenn skuli vera orðnir tortryggnir á að nokkur messías sé í vændum.

Áður en við vísum messíasarvoninni algerlega á bug ættum við hins vegar fyrst að kynna okkur hvaðan hún er komin. Orðið „messías“ er komið úr Biblíunni. Hebreska orðið er masjiʹach, „hinn smurði.“ Á biblíutímanum voru konungar og prestar stundum skipaðir í embætti með smurningarathöfn þar sem ilmolíu var hellt yfir höfuð þeirra. Orðið masjiʹach var því réttilega notað um þá. Þá voru einnig aðrir menn smurðir eða skipaðir í sérstakar stöður án smurningarathafnar. Móse er kallaður ‚Kristur‘ eða „hinn smurði“ í Hebreabréfinu 11:24-26 vegna þess að hann var útvalinn sem spámaður og fulltrúi Guðs.

Þessi skilgreining á messíasi sem „hinn smurði“ skilur milli messíasa Biblíunnar og þeirra falsmessíasa sem við höfum fjallað um. Messíasar Biblíunnar voru hvorki sjálfskipaðir né útvaldir af aðdáendahópi. Skipun þeirra kom að ofan, frá Jehóva Guði sjálfum.

Enda þótt Biblían tali um marga messíasa upphefur hún einn þeirra yfir alla hina. (Sálmur 45:8) Þessi Messías er aðalpersónan í biblíuspádómunum, lykillinn að uppfyllingu þeirra fyrirheita Biblíunnar sem hrífa okkur mest. Og þessi Messías tekur í alvöru á þeim vandamálum sem nú er við að etja.

Frelsari mannkynsins

Messías Biblíunnar tekur á vandamálum mannkynsins með því að grafast fyrir rætur þeirra. Þegar fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, gerðu uppreisn gegn skapara sínum að undirlagi uppreisnargjarnrar andaveru, Satans, voru þau í reynd að eigna sér réttinn til að stjórna. Þau vildu fá að ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. Þar með yfirgáfu þau kærleiksríka stjórn Jehóva, sem verndaði þau, og steyptu mannkyninu út í ringulreið og óhamingju sinnar eigin stjórnar, ófullkomleika og dauða. — Rómverjabréfið 5:12.

Það var því mjög kærleiksríkt af Jehóva Guði að velja þetta dimma augnablik mannkynssögunnar til að veita öllu mannkyni vonarglætu. Er Guð felldi dóm sinn yfir hinum mennsku uppreisnarseggjum sagði Guð fyrir að afkomendur þeirra myndu eiga sér bjargvætt. Þessi frelsari, sem var kallaður ‚sæðið,‘ myndi gera að engu áhrif hins hræðilega verks sem Satan vann í Eden; sæðið myndi merja höfuð ‚höggormsins,‘ Satans, tortíma honum. — 1. Mósebók 3:14, 15.

Allt frá öndverðu litu Gyðingar svo á þennan spádóm að hann fjallaði um Messías. Allmargir targúmar, endursagnir Gyðinga á hinum helgu ritum sem algengt var að menn notuðu á fyrstu öld, sögðu hvernig þessi spádómur myndi uppfyllast „á dögum konungsins Messíasar.“

Það er því ekkert undarlegt að menn trúarinnar hafi allt frá upphafi hrifist af þessu fyrirheiti um hið komandi sæði eða frelsara. Þú getur rétt ímyndað þér tilfinningar Abrahams er Jehóva sagði honum að sæðið myndi koma í hans ætt og að „allar þjóðir á jörðinni“ — ekki bara afkomendur hans — myndu „blessun hljóta“ vegna þessa sæðis. — 1. Mósebók 22:17, 18.

Messías og stjórnin

Síðari spádómar tengdu þessa von því að góðri stjórn yrði komið á. Í 1. Mósebók 49:10 var Júda, sonarsonarsyni Abrahams, sagt: „Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.“ Ljóst er að ‚sá sem valdið hafði‘ átti að stjórna — og hann átti ekki bara að stjórna Gyðingum heldur ‚þjóðunum.‘ (Samanber Daníel 7:13, 14.) Gyðingar til forna litu svo á að ‚sá sem valdið hafði‘ væri Messías; sumir targúmar Gyðinga settu einfaldlega orðið „Messías“ eða „konungurinn Messías“ í stað ‚sá sem valdið hefur.‘

Er ljós hinna innblásnu spádóma hélt áfram að vaxa var æ meira opinberað um stjórn þessa Messíasar. (Orðskviðirnir 4:18) Í 2. Samúelsbók 7:12-16 var Davíð konungi, afkomanda Júda, sagt að sæðið myndi koma í hans ættlegg. Og þetta sæði átti að vera óvenjulegur konungur. Hásæti hans eða stjórn myndi standa að eilífu! Jesaja 9:6, 7 styður það: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn [„stjórnin,“ King James Version] hvíla. . . . Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“

Getur þú séð slíka stjórn fyrir þér? Réttlátur og réttvís höfðingi kemur á friði og ríkir að eilífu. Sannarlega gerólíkt hinni ömurlegu halarófu falskra messíasa! Messías Biblíunnar er ekki sjálfskipaður leiðtogi á villigötum heldur heimsstjórnandi og ræður yfir öllum þeim mætti og valdi sem þarf til að breyta ástandinu í heiminum.

Þessar framtíðarhorfur eru afar þýðingarmiklar fyrir okkar erfiðu tíma. Mannkynið hefur aldrei þarfnast slíkrar vonar jafnmikið. Það er allt of auðvelt að vekja með sjálfum sér falskar vonir; þess vegna er mikilvægt fyrir hvern og einn okkar að íhuga vandlega þessa spurningu: Var Jesús frá Nasaret hinn boðaði Messías eins og svo margir trúa? Í greininni á eftir er málið skoðað.

[Rammi á blaðsíðu 6]

Býr Messías í New York?

Auglýsingaskilti, veggspjöld og ljósaskilti í Ísrael hafa fyrir skömmu flutt þennan boðskap: „Búðu þig undir komu Messíasar.“ Það eru lúbavitcharar, öfgarétttrúnaðarhópur hasída-gyðinga, sem standa fyrir þessari 25.000.000 króna kynningarherferð. Það er útbreidd trú meðal hópsins, sem telur 250.000 meðlimi, að yfirrabbíni hans, Menachem Mendel Schneerson í Brooklyn í New York, sé Messías. Hvers vegna? Schneerson kennir vissulega að Messías muni koma á dögum þessarar kynslóðar og að sögn tímaritsins Newsweek halda embættismenn lúbavitchara því fram að rabbíninn, sem er níræður, muni ekki deyja fyrr en Messías kemur. Um aldaraðir hefur þessi sértrúarhópur kennt að hver kynslóð geti af sér í það minnsta einn mann er sé hæfur til að vera Messías. Í augum fylgjenda hans virðist Schneerson vera slíkur maður og hann hefur engan arftaka tilnefnt. Að sögn Newsweek viðurkenna fæstir Gyðingar hann þó sem Messías. Að því er dagblaðið Newsday segir hefur keppinautur hans, rabbíninn Eliezer Schach sem er 96 ára, kallað hann „falskan messías.“

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sú trú að Móse frá Krít væri Messías kostaði marga lífið.