Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nærvera Messíasar og stjórn hans

Nærvera Messíasar og stjórn hans

Nærvera Messíasar og stjórn hans

„Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“ — POSTULASAGAN 1:11.

1, 2. (a) Hvernig hughreystu tveir englar postula Jesú er hann steig upp til himna? (b) Hvaða spurningar vakna við það að Kristur skuli eiga að koma aftur?

 ELLEFU menn stóðu í austurhlíð Olíufjallsins og störðu upp til himins. Andartaki áður hafði Jesús Kristur verið mitt á meðal þeirra en síðan hafði hann stigið upp til himins og þeir höfðu séð hann fjarlægjast uns ský bar í milli. Þau ár, sem þessir menn höfðu verið með Jesú, höfðu þeir séð hann sanna rækilega að hann væri Messías; þeir höfðu meira að segja gengið gegnum sorgina samfara dauða hans og gleðina yfir upprisu hans. Núna var hann horfinn.

2 Skyndilega birtust tveir englar og hughreystu þá með þessum orðum: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“ (Postulasagan 1:11) Uppstigning Jesú til himna þýddi þó ekki að hann skipti sér ekki lengur af jörðinni og mannkyninu! Nei, Jesús myndi koma aftur. Vafalaust hafa þessi orð fyllt postulana von. Milljónir nútímamanna leggja líka mikið upp úr fyrirheiti Krists um að hann komi aftur. Sumir tala um það sem „endurkomu“ Krists eða „síðari komu.“ Flestir virðast þó gera sér litla grein fyrir því hvað endurkoma Krists raunverulega merki. Á hvaða hátt kemur Kristur aftur? Hvenær? Og hvernig hefur það áhrif á líf okkar núna?

Hvernig Kristur kemur aftur

3. Hverju trúa margir um endurkomu Krists?

3 „Ríki Guðs er endanlega, sýnilega og um alla eilífð stofnsett við síðari komu eða endurkomu Krists (parósía),“ að sögn bókarinnar An Evangelical Christology. Það er mjög útbreidd trú að Kristur muni snúa aftur sýnilega og opinberlega og bókstaflega allir jarðarbúar sjá hann. Margir vitna í Opinberunarbókina 1:7 því til stuðnings en þar stendur: „Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann.“ En ber okkur að skilja þetta vers bókstaflega?

4, 5. (a) Hvernig vitum við að okkur ber ekki að skilja Opinberunarbókina 1:7 bókstaflega? (b) Hvernig staðfesta orð Jesú sjálfs þennan skilning?

4 Munum að Opinberunarbókin er skrifuð „í táknum.“ (Opinberunarbókin 1:1, NW) Þessi ritningargrein hlýtur þess vegna að vera á táknmáli, því að hvernig eiga „þeir, sem stungu“ Krist að sjá hann koma aftur? Þeir hafa legið í gröfinni í næstum 2000 ár! Og englarnir sögðu að Kristur myndi koma aftur „á sama hátt“ og hann fór. Á hvaða hátt fór hann? Horfðu milljónir manna á það? Nei, aðeins fáeinir trúfastir fylgjendur hans sáu hann fara. Og horfðu postularnir bókstaflega á för Krists alla leið til himna meðan englarnir töluðu við þá? Nei, ský huldi Jesú sjónum þeirra. Einhvern tíma eftir það hlýtur hann að hafa horfið yfir í andaheiminn sem andavera, ósýnilegur augum manna. (1. Korintubréf 15:50) Postularnir sáu því ekki annað en upphafið að uppstigningu Jesú; þeir hafa ekki getað séð endi hennar og endurfundi hans við himneskan föður sinn, Jehóva. Það gátu þeir aðeins séð með augum trúarinnar. — Jóhannes 20:17.

5 Biblían kennir að Jesús komi aftur á mjög svipaðan hátt. Sjálfur sagði Jesús skömmu fyrir dauða sinn: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ (Jóhannes 14:19) Hann sagði einnig: „Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.“ (Lúkas 17:20) Í hvaða skilningi mun þá ‚hvert auga sjá hann‘? Til að svara því þurfum við fyrst að skilja greinilega hvað orð Jesú og fylgjenda hans í sambandi við endurkomu hans merkja.

6. (a) Hvers vegna nægja orðin „koma“ og „endurkoma“ ekki til að ná fram merkingu gríska orðsins parósía? (b) Hvað sýnir að parósía eða „nærvera“ er ekki bara stutt heimsókn?

6 Sannleikurinn er sá að Kristur gerir meira en aðeins að „koma“ aftur. Orðin „koma“ eða „endurkoma“ gefa til kynna einstakan, stundlegan viðburð. Gríska orðið, sem Jesús og fylgjendur hans notuðu, merkir hins vegar miklu meira. Orðið parósía merkir bókstaflega „það að vera við hliðina á“ eða „nærvera.“ Flestir fræðimenn eru sammála um að þetta orð feli í sér ekki aðeins komuna sjálfa heldur líka nærveruna sem fylgir — eins og þegar um er að ræða opinbera heimsókn konungborinnar persónu. Þessi nærvera er ekki örstutt heldur stendur hún ákveðið, tiltekið tímabil. Í Matteusi 24:37-39 líkti Jesús „komu [parósía, nærveru] Mannssonarins“ við ‚daga Nóa‘ sem náðu hámarki með flóðinu. Nói vann að smíði arkarinnar og varaði hina óguðlegu við um áratuga skeið áður en flóðið kom og sópaði burt hinu gamla heimskerfi. Á sama hátt stendur ósýnileg nærvera Krists yfir í nokkra áratugi áður en hún nær líka hámarki með mikilli tortímingu.

7. (a) Hvað sannar að parósía eða „nærvera“ Krists er ekki sýnileg mennskum augum? (b) Hvenær og hvernig uppfyllast ritningargreinarnar sem lýsa endurkomu Krists svo að „hvert auga“ muni sjá hann?

7 Parósía Jesú er greinilega ekki sýnileg augum manna í bókstaflegum skilningi. Ef svo væri, hvers vegna eyddi Jesús þá eins miklum tíma og við munum sjá nú á eftir í að gefa fylgjendum sínum tákn til að þeir gætu áttað sig á hvenær hann væri nærverandi? * Þegar Kristur kemur til að eyða heimskerfi Satans verður nærvera hans öllum augljós. Það er þá sem „hvert auga mun sjá hann.“ Jafnvel andstæðingar Jesú munu, sér til skelfingar, geta séð að stjórn Krists er veruleiki. — Sjá Matteus 24:30; 2. Þessaloníkubréf 2:8; Opinberunarbókina 1:5, 6.

Hvenær hefst hún?

8. Hvaða atburður markar upphaf nærveru Krists og hvar átti hann sér stað?

8 Nærvera Messíasar hefst með atburði sem uppfyllir margendurtekið stef í Messíasarspádómunum: Hann er krýndur sem konungur á himnum. (2. Samúelsbók 7:12-16; Jesaja 9:6, 7; Esekíel 21:26, 27) Jesús sýndi sjálfur að nærvera hans ætti að vera tengd konungdómi hans. Í allnokkrum líkingum líkti hann sér við húsbónda sem yfirgefur hús sitt og þræla og fer í langt ferðalag „í fjarlægt land“ þar sem hann tekur við „konungdómi.“ Eina slíka líkingu sagði hann sem hluta af svari við spurningu lærisveina sinna um það hvenær parósía hans myndi hefjast; aðra vegna þess að „þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.“ (Lúkas 19:11, 12, 15; Matteus 24:3; 25:14, 19) Meðan hann var maður á jörðinni var þess enn langt að bíða að hann yrði krýndur en það átti að eiga sér stað í hinu ‚fjarlæga landi‘ á himnum. Hvenær myndi það gerast?

9, 10. Hvað sannar að Kristur ríkir nú á himnum og hvenær hóf hann stjórn sína?

9 Þegar lærisveinar Jesú spurðu hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ svaraði Jesús með því að lýsa þeim tíma í smáatriðum. (Matteus 24. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli; sjá einnig 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókina 6. kafla.) Þetta tákn er í raun ítarleg lýsing á ólgutímum. Þetta eru tímar sem einkennast af alþjóðlegum styrjöldum, auknum glæpum, hnignandi fjölskyldulífi, farsóttum, hungursneyð og jarðskjálftum — ekki aðeins staðbundnum heldur á heimsmælikvarða. Hljómar þetta kunnuglega? Hver dagur sem líður staðfestir að 20. öldin samsvarar fullkomlega lýsingu Jesú.

10 Sagnfræðingar eru sammála um að árið 1914 hafi markað straumhvörf í sögu mannkyns, að það hafi verið eftir það ár sem mörg þessara vandamála urðu óviðráðanleg og mögnuðust upp í það að verða heimsvandamál. Já, heimsatburðirnir, sem uppfylla biblíuspádómana, benda allir á árið 1914 sem það ár er Jesús tók að ríkja sem konungur á himnum. Enn fremur inniheldur spádómur í 4. kafla Daníelsbókar tímareikning sem bendir okkur á þetta sama ár — 1914 — sem tímann er skipaður konungur Jehóva átti að taka við völdum. *

Hvers vegna erfiðleikatími?

11, 12. (a) Hvers vegna er erfitt fyrir suma að trúa því að Kristur ríki á himnum á þessari stundu? (b) Hvernig gætum við lýst með dæmi því sem gerðist eftir að Jesús var krýndur sem konungur?

11 Sumum kann þó að vera spurn hvers vegna slíkir erfiðleikar skuli vera í heiminum ef Messías stjórnar frá himnum. Er stjórn hans áhrifalaus? Skýrum þetta með dæmi: Segjum sem svo að illur forseti ráði lögum og lofum í landi einu. Spillt áhrif hans teygja anga sína út um allt samfélagið. En þá fara fram forsetakosningar og góður maður sigrar. Hvað svo? Í sumum lýðræðisríkjum líða nokkrir mánuðir áður en nýi forsetinn tekur við embætti. Hvað gera þessir tveir menn á því tímabili? Ræðst góði maðurinn þegar í stað á allt hið illa, sem forveri hans hefur látið af sér leiða, og umbyltir því? Ætli hann myndi ekki öllu heldur í fyrstu einbeita sér að höfuðborginni, skipa nýja stjórn og leysa frá störfum óheiðarlega virktarvini og skósveina fyrrverandi forseta? Þannig getur hann, þegar hann tekur að fullu við stjórnartaumunum, tryggt að hann geti stjórnað frá hreinu og skilvirku valdasetri. Og ætli spillti forsetinn reyndi ekki að notfæra sér þann stutta tíma, sem hann hefur eftir, til að hafa með klækjum af landinu allan þann hag sem hann getur áður en hann verður alveg valdalaus?

12 Í reynd er margt líkt með þessu og parósíu Krists. Opinberunarbókin 12:7-12 sýnir að fyrsta verk Krists, eftir að hann var gerður konungur á himnum, var að úthýsa Satan og illum öndum hans af himnum og hreinsa þannig stjórnarsetur sitt. Þar með beið Satan ósigur sem lengi hafði verið beðið eftir. Hvernig hegðar hann sér á þeim ‚nauma tíma‘ sem hann hefur uns Kristur tekur öll völd hér á jörð? Líkt og spillti forsetinn reynir hann að hafa eins mikið og hann getur út úr þessu gamla heimskerfi. Hann er ekki á höttunum eftir peningum; hann sækist eftir mannslífum. Hann vill gera eins marga og hann mögulega getur afhuga Jehóva og ríkjandi konungi hans.

13. Hvernig sýnir Ritningin að það myndu verða erfiðir tímar á jörðinni við upphaf stjórnar Krists?

13 Það er því ekkert undarlegt að upphafið að stjórn Messíasar sé ‚vei fyrir jörðina.‘ (Opinberunarbókin 12:12) Sálmur 110:1, 2, 6 sýnir einnig að Messías stjórnar í byrjun ‚mitt á meðal óvina sinna.‘ Það er ekki fyrr en síðar sem hann knosar ‚þjóðirnar‘ og gereyðir þeim ásamt öllu öðru sem tilheyrir spilltu heimskerfi Satans!

Þegar Messías ríkir yfir jörðinni

14. Hvað mun Messías geta gert eftir að hann eyðir illu heimskerfi Satans?

14 Eftir að Messíasarkonungurinn Jesús Kristur eyðir heimskerfi Satans og öllum sem styðja það verður hann loksins í þeirri aðstöðu að geta uppfyllt stórkostlega biblíuspádóma um þúsundáraríkið. Jesaja 11:1-10 sýnir okkur hvers konar stjórnandi Messías verður. Vers 2 segir: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar.“

15. Hvað mun ‚andi kraftarins‘ þýða fyrir Messíasarstjórnina?

15 Hugleiddu hvað ‚andi kraftar‘ mun hafa í för með sér fyrir stjórn Jesú. Þegar hann var á jörðinni bjó hann yfir vissum krafti frá Jehóva sem gerði hann færan um að vinna kraftaverk. Og hann lét í ljós innilega löngun til að hjálpa fólki er hann sagði: „Ég vil.“ (Matteus 8:3) En kraftaverk hans á þeim tíma voru aðeins forsmekkur þess sem hann myndi gera þegar hann stjórnaði frá himnum. Jesús mun þá vinna kraftaverk á heimsmælikvarða! Sjúkir, blindir, heyrnarlausir, limlestir og haltir verða læknaðir í eitt skipti fyrir öll. (Jesaja 35:5, 6) Hungur mun endanlega tilheyra fortíðinni þegar meira en nóg verður til af mat og dreifing hans sanngjörn. (Sálmur 72:16) Hvað um þær ótöldu milljónir látinna manna sem Guði þóknast að muna eftir? Jesús mun líka hafa ‚kraft‘ til að reisa þá upp frá dauðum og gefa hverjum og einum tækifæri til að lifa að eilífu í paradís! (Jóhannes 5:28, 29) Samt sem áður verður Messíasarkonungurinn alltaf auðmjúkur, þrátt fyrir allan sinn mátt. Hann hefur ‚unun af því að óttast Jehóva.‘ — Jesaja 11:3.

16. Hvers konar dómari verður Messíasarkonungurinn og hvernig er það ólíkt sögu mennskra dómara?

16 Þessi konungur verður líka fullkominn dómari. Hann „mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.“ Hvaða mennskum dómara, nú eða fyrrum, er hægt að lýsa þannig? Jafnvel mjög vitur maður getur einungis dæmt eftir því sem hann sér og heyrir og beitt hverri þeirri visku eða dómgreind sem hann hefur. Þess vegna er hægt að villa um fyrir eða rugla dómara og kviðdómendur þessa gamla heimskerfis með lagaklækjum eða mótsagnakenndum vitnisburði. Oft eru það einungis hinir ríku og voldugu sem hafa efni á að ráða sér dugandi verjanda þannig að þeir nái rétti sínum. Þeir eru í raun að kaupa sér réttlæti. En svo verður ekki hjá Messíasardómaranum! Hann sér inn í hjarta mannsins. Ekkert fer fram hjá honum. Réttvísi, tempruð kærleika og miskunn, verður ekki söluvara. Hún mun alltaf ríkja. — Jesaja 11:3-5.

Hvernig stjórn hans hefur áhrif á þig

17, 18. (a) Hvaða hrífandi mynd af framtíð mannkyns er dregin upp í Jesaja 11:6-9? (b) Við hverja á þessi spádómur fyrst og fremst og hvers vegna? (c) Hvernig mun þessi spádómur rætast bókstaflega?

17 Eins og skiljanlegt er hefur stjórn Messíasar gríðarleg áhrif á þegna sína. Hún breytir fólki. Jesaja 11:6-9 sýnir hve umfangsmiklar þessar breytingar verða. Þessi spádómur dregur upp hrífandi mynd af hættulegum rándýrum — björnum, úlfum, hlébörðum, ljónum og höggormum — ásamt meinlausum húsdýrum og jafnvel börnum. En rándýrin eru hættulaus. Hvers vegna? Vers 9 svarar: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

18 Að sjálfsögðu getur ‚þekking á Jehóva‘ ekki haft nein áhrif á bókstafleg dýr. Þessi vers hljóta því fyrst og fremst að eiga við fólk. Stjórn Messíasar hleypir af stokkunum fræðsluáætlun um allan heiminn þar sem fólk verður frætt um Jehóva og vegu hans og öllum kennt að sýna náunga sínum kærleika, virðingu og sæmd. Í hinni komandi paradís mun Messías vinna það kraftaverk að reisa mannkynið upp til líkamlegs og siðferðilegs fullkomleika. Þau dýrslegu einkenni rándýrsins, sem spillir mannlegu eðli núna, verða horfin. Í bókstaflegum skilningi mun mannkynið loksins búa í friði við dýrin! — Samanber 1. Mósebók 1:28.

19. Hvernig hefur stjórn Messíasar áhrif á líf manna núna á síðustu dögum?

19 En mundu að Messías ríkir núna. Nú þegar eru þegnar ríkis hans að læra að búa saman í friði og þar með uppfyllist Jesaja 11:6-9 í einum skilningi. Enn fremur hefur Jesús í nálega 80 ár verið að uppfylla Jesaja 11:10: „Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.“ Fólk af öllum þjóðum er að snúa sér til Messíasar. Hvers vegna? Vegna þess að allt frá því að hann tók við völdum hefur hann staðið sem „hermerki.“ Hann hefur látið kunngera nærveru sína um allan heim samkvæmt hinni yfirgripsmiklu fræðsluáætlun sem lýst var hér að ofan. Jesús sagði sjálfur fyrir að prédikun um allan heim yrði eitt hinna áberandi merkja um nærveru hans fyrir endalok þessa gamla heimskerfis. — Matteus 24:14.

20. Hvaða viðhorf ættu allir þegnar Messíasarstjórnarinnar að forðast og hvers vegna?

20 Nærvera Krists sem konungur er því ekki eitthvert fjarlægt, fræðilegt fyrirbæri sem gerir ekkert annað gagn en að vera heimspekilegt deiluefni guðfræðinga. Stjórn hans hefur áhrif á og breytir lífi manna hér á jörðinni, alveg eins og Jesaja sagði að hún myndi gera. Jesús hefur leitt milljónir þegna ríkis síns út úr þessu spillta heimskerfi. Ert þú slíkur þegn? Þá skaltu þjóna þessu ríki með öllum þeim eldmóði og gleði sem herra okkar verðskuldar! Það er að vísu ósköp auðvelt að þreytast og gefast upp, að taka undir tortryggni heimsins og spyrja: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans?“ (2. Pétursbréf 3:4) En eins og Jesús sagði sjálfur: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:13.

21. Hvernig gætum við öll lært að meta Messíasarvonina meir?

21 Með hverjum deginum sem líður nálgast dagurinn mikli þegar Jehóva skipar syni sínum að opinbera öllum heiminum nærveru sína. Láttu von þína um þann dag aldrei dofna. Íhugaðu Messíasardóm Jesú og eiginleika hans sem ríkjandi konungur. Hugsaðu líka um Jehóva Guð, höfundinn og hugsuðinn að baki hinni stórkostlegu Messíasarvon sem Biblían gefur. Er þú gerir það mun sama tilfinning og gagntók Pál postula vafalaust ná sífellt sterkari tökum á þér. Hann skrifaði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ — Rómverjabréfið 11:33.

[Neðanmáls]

^ Árið 1864 skrifaði guðfræðingurinn R. Govett: „Mér virðist þetta vera alveg ótvírætt. Það að gefið skuli vera tákn um nærveruna sýnir að hún fer leynt. Við þurfum ekkert tákn til að láta okkur vita af nærveru þess sem við sjáum.“

^ Nánari upplýsingar er að finna í bókunum „Let Your Kingdom Come,“ bls. 133-9 og Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, bls. 138-141.

Hvert er svar þitt?

◻ Á hvaða hátt átti Kristur að koma aftur?

◻ Hvernig vitum við að parósía Krists er ósýnileg og stendur um alllangan tíma?

◻ Hvenær hefst nærvera Krists og hvernig vitum við það?

◻ Hvers konar himneskur stjórnandi er Messías?

◻ Á hvaða vegu hefur stjórn Krists áhrif á líf þegna hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Vonin um að Jesús kæmi aftur var trúföstum postulum hans mikils virði.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Þegar Jesús ríkir frá himnum mun hann vinna kraftaverk á heimsmælikvarða.

[Rétthafi]

Jörðin: Byggt á ljósmynd frá NASA