„Við höfum fundið Messías!“
„Við höfum fundið Messías!“
„[Andrés] finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: ‚Við höfum fundið Messías!‘ (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)“ — JÓHANNES 1:41.
1. Um hvað bar Jóhannes skírari vitni í sambandi við Jesú frá Nasaret og hvað ályktaði Andrés um hann?
ANDRÉS horfði fast og lengi á Gyðinginn sem kallaður var Jesús frá Nasaret. Hann leit hvorki út eins og konungur, spekingur né rabbíni. Hann var ekki skartklæddur eins og konungur, hárið var ekki tekið að grána og hann var ekki ljós á hörund og með mjúkar hendur. Jesús var ungur — um þrítugur — með sigggrónar hendur og sólbrunnið hörund verkamanns. Það hefur því líklega ekki komið Andrési á óvart að hann skyldi vera smiður. Hvað sem því leið sagði Jóhannes skírari um þennan mann: „Sjá, Guðs lamb.“ Daginn áður hafði Jóhannes sagt eitthvað enn furðulegra: „Hann er sonur Guðs.“ Gat þetta verið rétt? Andrés eyddi nokkrum hluta dagsins í að hlusta á Jesú. Við vitum ekki hvað Jesús sagði, en við vitum að orð hans breyttu lífi Andrésar. Hann flýtti sér að leita bróður sinn, Símon, uppi og hrópaði: „Við höfum fundið Messías!“ — Jóhannes 1:34-41.
2. Hvers vegna er þýðingarmikið að íhuga sönnunargögnin fyrir því hvort Jesús hafi verið hinn fyrirheitni Messías?
2 Andrés og Símon (sem Jesús kallaði Pétur) urðu síðar postular Jesú. Eftir að Pétur hafði verið lærisveinn Jesú í liðlega tvö ár sagði hann við hann: „Þú ert Kristur [Messías], sonur hins lifanda Guðs.“ (Matteus 16:16) Hinir trúföstu postular og lærisveinar reyndust síðar fúsir til að hætta lífi sínu fyrir þessa trú. Núna sýna milljónir manna jafnsterka trú. En á hvaða sönnunum byggist hún? Það eru nú einu sinni sannanir sem skilja á milli trúar og trúgirni. (Sjá Hebreabréfið 11:1.) Við skulum því skoða þrjár leiðir til að sanna að Jesús hafi í raun verið Messías.
Ættleggur Jesú
3. Hvað tíunda guðspjöll Matteusar og Lúkasar um ættlegg Jesú?
3 Ættleggur Jesú er fyrsta sönnunin sem kristnu Grísku ritningarnar tilfæra fyrir því að hann sé Messías. Biblían sagði fyrir að Messías myndi koma af ætt Davíðs konungs. (Sálmur 132:11, 12; Jesaja 11:1, 10) Matteusarguðspjall hefst þannig: „Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.“ Matteus styður þessa djörfu fullyrðingu sína með því að rekja ætt Jesú gegnum stjúpföður hans, Jósef. (Matteus 1:1-16) Guðspjall Lúkasar rekur ætt Jesú gegnum móður hans, Maríu, til Davíðs, Abrahams og loks Adams. (Lúkas 3:23-38) * Þannig skjalfesta guðspjallaritararnir rækilega þá fullyrðingu sína að Jesús sé erfingi Davíðs, bæði í lagalegum skilningi og sökum ættartengsla.
4, 5. (a) Véfengdu samtíðarmenn Jesú að hann væri afkomandi Davíðs, og hvers vegna skiptir það máli? (b) Hvernig styðja heimildir utan Biblíunnar ætt Jesú?
4 Jafnvel efagjörnustu andstæðingar Messíasardóms Jesú geta ekki neitað því að hann sé sonur Davíðs. Hvers vegna? Ástæðurnar eru tvær. Í fyrsta lagi var sú staðhæfing endurtekin æ ofan í æ í Jerúsalem um áratuga skeið fyrir eyðingu borgarinnar árið 70. (Samanber Matteus 21:9; Postulasöguna 4:27; 5:27, 28) Ef það hefði verið rangt hefði hver sem var af andstæðingum Jesú — og þeir voru margir — getað sannað að Jesús væri svikahrappur einfaldlega með því að kanna ættlegg hans í ættarskrám hinna opinberu skjalasafna. * En mannkynssagan getur þess hvergi að nokkur maður hafi véfengt að Jesús væri afkomandi Davíðs konungs. Augljóst er að þeirri staðhæfingu varð ekki haggað. Vafalítið afrituðu Matteus og Lúkas nöfnin, sem þurfti til að sanna ætt hans, beint upp úr hinum opinberu skrám.
5 Í öðru lagi staðfesta heimildir utan Biblíunnar að ættleggur Jesú hafi almennt verið viðurkenndur. Til dæmis segir Talmúd frá því að rabbíni á fjórðu öld hafi ráðist með ósvífni á Maríu, móður Jesú, fyrir að ‚lifa skækjulífi með smiðum,‘ en í sömu bókargrein er viðurkennt að „hún hafi verið afkomandi höfðingja og valdhafa.“ Eldra dæmi er að finna frá annarri öld þar sem sagnaritarinn Hegesippus greinir frá því að Dómitíanus Rómarkeisari hafi viljað útrýma öllum afkomendum Davíðs. Þá hafi einhverjir óvinir frumkristinna manna komið upp um afasyni Júdasar, hálfbróður Jesú, og sagt þá vera „af ætt Davíðs.“ Ef Júdas var kunnur sem afkomandi Davíðs, var Jesús það þá ekki líka? Tvímælalaust! — Galatabréfið 1:19; Júdasarbréfið 1.
Messíasarspádómar
6. Hve margir eru Messíasarspádómarnir í Hebresku ritningunum?
6 Önnur sönnun fyrir því að Jesús hafi verið Messías er uppfylling spádómanna. Margir spádómar um Messías eru í Hebresku ritningunum. Í ritverki sínu, The Life and Times of Jesus the Messiah, telur Alfred Edersheim upp 456 ritningargreinar í Hebresku ritningunum sem rabbínar til forna álitu eiga við Messías. En rabbínarnir gerðu sér margar rangar hugmyndir um Messías og margar ritningargreinanna, sem þeir bentu á, eiga alls ekkert við Messías. Þrátt fyrir það eru að minnsta kosti tugir spádóma sem sýna að Jesús er Messías. — Samanber Opinberunarbókina 19:10.
7. Nefndu nokkra spádóma sem Jesús uppfyllti meðan hann var á jörðinni?
7 Meðal þeirra má nefna spádóma um fæðingarbæ hans (Míka 5:2; Lúkas 2:4-11) og hin hörmulegu fjöldamorð á börnum sem áttu sér stað eftir fæðingu hans (Jeremía 31:15; Matteus 2:16-18). Auk þess var því spáð að hann yrði kallaður frá Egyptalandi (Hósea 11:1; Matteus 2:15); valdhafar þjóðanna myndu sameinast um að tortíma honum (Sálmur 2:1, 2; Postulasagan 4:25-28); hann yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga (Sakaría 11:12; Matteus 26:15) og jafnvel hvernig dauða hans bæri að höndum. — Sálmur 22:17, neðanmálsathugasemd í NW; Jóhannes 19:18, 23; 20:25, 27. *
Spáð um komu hans
8. (a) Hvaða spádómur tilgreinir nákvæmlega hvenær Messías átti að koma? (b) Hvaða tvö atriði verðum við að vita til að skilja þennan spádóm?
8 Við skulum beina athygli okkar að aðeins einum spádómi. Í Daníelsbók 9:25 var Gyðingum sagt hvenær Messías myndi koma. Þar stendur samkvæmt Nýheimsþýðingunni: „Þú ættir að vita og hafa það innsæi að frá því er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk til hins smurða höfðingja eru sjö vikur og auk þess sextíu og tvær vikur.“ Við fyrstu sýn kann þessi spádómur að virðast torræður en í almennum skilningi hvetur hann okkur til að finna út aðeins tvennt: tímann sem skal telja frá og tímalengdina. Tökum sem dæmi að þú hefðir kort þar sem sýnt væri að fjársjóður lægi grafinn „50 stengur austan við brunninn í bæjargarðinum.“ Þér gæti þótt það torskilið, einkum ef þú vissir ekki hvar þessi brunnur væri eða hve löng stöngin væri. Myndir þú ekki leita þér upplýsinga um hvort tveggja til að finna fjársjóðinn? Spádómur Daníels er mjög svipaður; eini munurinn er sá að það þarf að finna tímann sem telja skal frá og mæla síðan tímabilið sem á að líða.
9, 10. (a) Hvenær hófust hinar 69 vikur? (b) Hve langar eru vikurnar 69 og hvernig vitum við það?
9 Fyrst þurfum við að finna upphafspunktinn, daginn sem „orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk.“ Síðan þurfum við að vita fjarlægðina frá þeim punkti, það er að segja hve langar þessar 69 (7 plús 62) vikur eru. Hvorugt er erfitt að finna út. Nehemía segir beinlínis að orðið um endurreisn múranna kringum Jerúsalem, og að endurreisn hennar skyldi þar með loksins lokið, hafi gengið út „á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs.“ (Nehemía 2:1, 5, 7, 8) Upphafspunkturinn okkar er þar með árið 455 f.o.t. *
10 Gátu þessar 69 vikur verið bókstaflegar vikur, sjö dagar hver? Nei, því að Messías kom ekki fram rétt liðlega ári eftir 455 f.o.t. Þess vegna eru flestir biblíufræðingar og fjölmargar biblíuþýðingar (meðal annarra Tanakh-útgáfa Gyðinga í neðanmálsathugasemd við þetta vers, svo og íslenska biblían frá 1859 sem talar í meginmálinu um „sjöundir (ára)“) sammála um að hér sé um að ræða „sjöundir ára.“ Hugmyndin um ‚sjöund ára‘ eða sjö ára tímabil var Gyðingum vel kunn. Á sama hátt og þeir héldu hvíldardag sjöunda hvern dag héldu þeir hvíldarár sjöunda hvert ár. (2. Mósebók 20:8-11; 23:10, 11) Hinar 69 sjöundir ára samsvöruðu því 69 sinnum 7 árum eða 483 árum. Við þurfum svo bara að telja. Ef við teljum 483 ár frá árinu 455 f.o.t. fáum við árið 29 eftir okkar tímatali — árið sem Jesús var skírður og varð masjiʹach, Messías! — Sjá „Seventy Weeks“ í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 899.
11. Hvernig getum við svarað þeim sem segja að þetta sé aðeins nútímatúlkun spádóms Daníels?
11 Sumir kunna að andmæla og segja að þetta sé aðeins nútímatúlkun spádómsins til að láta hann passa við söguna. Ef svo er, hvers vegna bjuggust menn við því á dögum Jesú að Messías kæmi á þeim tíma? Kristni sagnaritarinn Lúkas, rómversku sagnfræðingarnir Tacítus og Svetóníus, Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus og heimspekingurinn Fílon, sem var Gyðingur, voru allir uppi nálægt þeim tíma og báru vitni um þessar væntingar meðal Gyðinga. (Lúkas 3:15) Sumir fræðimenn nú á dögum halda því fram að það hafi verið kúgun Rómverja sem kom Gyðingum til að þrá að Messías kæmi á þeim tíma. En hvers vegna væntu Gyðingar þess að Messías kæmi þá en ekki á tímum grimmra ofsókna Grikkja öldum fyrr? Hvers vegna segir Tacítus að það hafi verið „dularfullir spádómar“ sem komu Gyðingum til að vænta þess að miklir valdhafar kæmu frá Júdeu og „næðu undir sig alheimsveldi“? Abba Hillel Silver viðurkennir í bók sinni A History of Messianic Speculation in Israel að „Messíasar hafi verið vænst á öðrum fjórðungi fyrstu aldar okkar tímatals,“ ekki vegna ofsókna Rómverja heldur vegna „tímareiknings sem þá var almennt þekktur,“ og var að hluta kominn úr Daníelsbók.
Bent á hann af himni ofan
12. Hvernig benti Jehóva á að Jesús væri Messías?
12 Þriðja sönnunin fyrir því að Jesús hafi verið Messías er vitnisburður Guðs sjálfs. Að sögn Lúkasar 3:21, 22 var Jesús, eftir að hann var skírður, smurður með heilagasta og sterkasta krafti alheimsins, heilögum anda Jehóva Guðs sjálfs. Og með sinni eigin röddu lýsti Jehóva yfir að hann hefði velþóknun á syni sínum, Jesú. Við tvö önnur tækifæri talaði Jehóva beint við Jesú af himni og lét þar með í ljós velþóknun sína: einu sinni að þrem postulum Jesú viðstöddum og öðru sinni í viðurvist fjölmenns áheyrendahóps. (Matteus 17:1-5; Jóhannes 12:28, 29) Enn fremur voru englar sendir af himni til að staðfesta að Jesús væri Kristur eða Messías. — Lúkas 2:10, 11.
13, 14. Hvernig sýndi Jehóva að hann viðurkenndi Jesú sem Messías?
13 Jehóva sýndi velþóknun á sínum smurða með því að gefa honum kraft til að vinna máttarverk. Til dæmis bar Jesús fram spádóma sem sögðu fyrir ýmis smáatriði mannkynssögunnar — og sumir ná allt til okkar daga. * Hann vann líka kraftaverk, svo sem þau að metta hungraðan mannfjölda og lækna sjúka. Hann vakti jafnvel upp dána. Bjuggu fylgjendur hans einfaldlega til sögur af þessum máttarverkum eftir á? Nei, Jesús vann mörg kraftaverk sín í viðurvist sjónarvotta sem stundum skiptu þúsundum. Jafnvel óvinir Jesú gátu ekki neitað því að hann hefði raunverulega gert þetta. (Markús 6:2; Jóhannes 11:47) Og hvers vegna gátu fylgjendur Jesú verið svona hreinskilnir þegar þeirra eigin mistök voru annars vegar, ef þeir spunnu síðan upp slíkar sögur? Hefðu þeir verið reiðubúnir að deyja fyrir trú sína ef hún var byggð á uppspuna sjálfra þeirra? Nei, kraftaverk Jesú eru sögulegar staðreyndir.
14 Guð bar enn frekar vitni um að Jesús væri Messías. Fyrir tilstilli heilags anda sá hann svo um að sönnunargögnin fyrir messíasardómi Jesú væru skráð niður og yrðu hluti af útbreiddustu bók allrar mannkynssögunnar sem þýdd hefur verið á flest tungumál.
Hvers vegna viðurkenndu Gyðingar ekki Jesú?
15. (a) Hve umfangsmikil eru sönnunargögnin fyrir því að Jesús sé Messías? (b) Hvaða væntingar Gyðinga leiddu marga þeirra til að hafna Jesú sem Messíasi?
15 Samanlagt fela þessi þrjú sönnunarsvið í sér mörg hundruð staðreyndir sem benda á að Jesús sé Messías. Nægir það ekki? Hugsaðu þér að þú ætlaðir að opna bankareikning eða sækja um greiðslukort og væri þá sagt að þrenn mismunandi skilríki nægðu ekki — þú þyrftir að koma með mörg hundruð. Það væri í hæsta máta ósanngjarnt! Þá hlýtur að vera nógu rækilega bent á Jesú í Biblíunni. Hvers vegna neituðu þá margir af samlöndum Jesú að viðurkenna nokkrar sannanir fyrir því að hann væri Messías? Vegna þess að sönnunargögn, þótt mikilvæg séu sem grundvöllur sannrar trúar, hafa ekki sjálfkrafa í för með sér trú. Því miður trúa margir því sem þeir vilja trúa, jafnvel í berhögg við yfirþyrmandi sönnunargögn. Hvað Messías varðaði höfðu flestir Gyðingar mjög ákveðnar hugmyndir um hvers þeir óskuðu. Þeir vildu pólitískan messías, mann sem gæti hrundið kúgun Rómverja og endurreist Ísrael til dýrðar sem í efnislegu tilliti líktist dögum Salómons. Hvernig gátu þeir þá viðurkennt þennan óbreytta smiðsson, þennan Nasarea sem hafði engan áhuga á stjórnmálum eða efnislegum auði? Og síðast en ekki síst: Hvernig gat hann verið Messías eftir að hann þjáðist og dó smánarlegum dauðdaga á kvalastaur?
16. Hvers vegna urðu fylgjendur Jesú að leiðrétta væntingar sínar í sambandi við Messías?
16 Dauði Jesú var mikið áfall jafnvel fyrir lærisveina hans. Eftir dýrlega upprisu hans vonuðust þeir augljóslega til að hann myndi „endurreisa ríkið handa Ísrael“ þegar í stað. (Postulasagan 1:6) En þeir höfnuðu ekki Jesú sem Messíasi einfaldlega af því að hann uppfyllti ekki persónulegar vonir þeirra. Þeir iðkuðu trú á hann sem byggðist á þeim ríkulegu sönnunargögnum sem fyrir lágu og skilningur þeirra jókst smám saman; leyndardómarnir skýrðust. Þeim varð ljóst að Messías gæti ekki uppfyllt alla spádómana um sig á stuttu æviskeiði sínu sem maður á jörðinni. Einn spádómurinn talaði jafnvel um að hann kæmi lítillátur ríðandi á ösnufola en annar sagði að hann kæmi í dýrð á skýjum! Hvernig gátu þeir báðir ræst? Augljóslega yrði hann að koma öðru sinni. — Daníel 7:13; Sakaría 9:9.
Hvers vegna Messías varð að deyja
17. Hvernig sýndi spádómur Daníels að Messías yrði að deyja og hvers vegna myndi hann deyja?
17 Enn fremur kom skýrt fram í messíasarspádómunum að Messías yrði að deyja. Til dæmis sagði spádómurinn, sem sagði fyrir komu Messíasar, strax í næsta versi: „Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir [sem fylgdu hinum sjö sjöundum eða vikum] mun hinn smurði [Messías] afmáður verða.“ (Daníel 9:26) Hebreska orðið karaþʹ, sem hér er þýtt „afmáður,“ er sama orðið og notað var um dauðadóm undir Móselögunum. Enginn vafi lék á að Messías yrði að deyja. Hvers vegna? Vers 24 svarar: „Til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti.“ Gyðingar vissu vel að einungis fórn, dauði, gæti friðþægt fyrir syndir. — 3. Mósebók 17:11; samanber Hebreabréfið 9:22.
18. (a) Hvernig sýnir 53. kafli Jesaja að Messías yrði að deyja? (b) Hvaða þversögn virðist vera í þessum spádómi?
18 Jesajabók 53. kafli talar um Messías sem sérstakan þjón Jehóva er yrði að þjást og deyja til að breiða yfir syndir annarra. Vers 5 segir: „Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða.“ Sami spádómur opinberar að þessi Messías yrði að deyja sem „sektarfórn“ og segir síðan að hann skyldi „lifa langa ævi og áformi [Jehóva] fyrir hans hönd framgengt verða.“ (Vers 10) Er það ekki þversögn? Hvernig gat Messías dáið og síðan ‚lifað langa ævi‘? Hvernig gat hann fórnað sjálfum sér og síðan látið ‚áformi Jehóva framgengt verða‘? Já, hvernig gat hann dáið og verið dáinn án þess að uppfylla mikilvægasta spádóminn um sig, þann að hann myndi ríkja að eilífu sem konungur og færa öllum heimi frið og hamingju? — Jesaja 9:6, 7.
19. Hvernig greiðir upprisa Jesú úr mótsögninni sem virðist vera í spádómunum um Messías?
19 Þessi mótsögn, sem hér virðist vera, var leyst með einu undraverðu kraftaverki. Jesús var vakinn upp frá dauðum. Hundruð hjartahreinna Gyðinga voru sjónarvottar að þessum dýrlega veruleika. (1. Korintubréf 15:6) Páll postuli skrifaði síðar: „Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.“ (Hebreabréfið 10:10, 12, 13) Já, það var eftir að Jesús yrði reistur upp til lífs á himnum og eftir að hafa ‚beðið‘ um tíma sem hann yrði loks krýndur sem konungur og léti til skarar skríða gegn óvinum föður síns, Jehóva. Í hlutverki sínu sem himneskur konungur hefur Jesús áhrif á líf hvers einasta núlifandi manns. Hvernig? Það er efni næstu greinar.
[Neðanmáls]
^ Þegar Lúkas 3:23 segir: „Sonur Jósefs, sonar Elí,“ er augljóslega átt við „son“ í merkingunni „tengdasonur“ því að Elí var faðir Maríu. — Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 913-17.
^ Jósefus, sagnaritari Gyðinga, sýnir greinilega að slíkar skrár voru aðgengilegar fyrir árið 70 þar sem hann rekur sína eigin ætt. Þessar skrár virðast hafa eyðilagst þegar Jerúsalemborg var lögð í rúst þannig að eftir það gat enginn staðhæft að hann væri Messías, með því að rekja ætt sína.
^ Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 387.
^ Traustar heimildir eru fyrir því í fornum grískum, babýlonskum og persneskum ritum að fyrsta ríkisár Artahsasta (Artaxerxesar) konungs hafi verið 474 f.o.t. Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 614-16, 900.
^ Í einum slíkum spádómi sagði Jesús fyrir að falskir messíasar myndu koma fram á hans dögum og eftir það. (Matteus 24:23-26) Sjá greinina á undan.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna ættum við að skoða sönnunargögnin fyrir því að Jesús hafi verið hinn fyrirheitni Messías?
◻ Hvernig styður ættleggur Jesú að hann hafi verið Messías?
◻ Hvernig eiga spádómar Biblíunnar þátt í að sanna að Jesús hafi verið Messías?
◻ Hvernig staðfesti Jehóva persónulega að Jesús væri Messías?
◻ Hvers vegna höfnuðu svo margir Gyðingar Jesú sem Messíasi og hvers vegna var það órökrétt?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hvert kraftaverk Jesú, og þau voru mörg, var sönnun þess að hann væri Messías.