Það sem kristni heimurinn hefur sáð í Afríku
Það sem kristni heimurinn hefur sáð í Afríku
ÁRIÐ 1867 kom Charles Lavigerie, franskur kaþólikki, til Afríku sem nýskipaður erkibiskup yfir Alsír. „Guð hefur útvalið Frakkland til að gera Alsír að vöggu mikillar og kristinnar þjóðar,“ sagði hann.
Draumur Lavigeries teygði sig út fyrir landamæri Alsírs. Hann sendi trúboða yfir eyðimörkina í þeim tilgangi að „sameina Mið- og Norður-Afríku í samfélagi kristindómsins.“
Trúboðar mótmælenda höfðu þegar hafist handa í vestur-, suður- og austurhluta Afríku. Þeir máttu þola miklar þrautir, svo sem síendurtekna mýraköldu sem hafði í för með sér skjálfta, svita og óráð. Hitabeltissjúkdómar voru fljótir að veikla marga svo að þeir dóu skömmu eftir komu
sína til Afríku. En nýir fylltu í skörðin. Bandaríski stjórnmálamaðurinn Adlai Stevenson sagði: „Sérhver Afríkufari er sífellt minntur á hetjuskap trúboðanna. . . . Þeir börðust gegn mýgulusótt, blóðkreppusótt, sníklasótt og . . . ég sá . . . legsteina þeirra — út um alla Afríku.“Ávöxtur trúboðsins
Eftir því sem trúboðarnir færðu sig lengra inn í Afríku uppgötvuðu þeir að flestar ættkvíslanna voru ólæsar og óskrifandi. „Af hér um bil 800 tungumálum [Afríku] höfðu aðeins fjögur ritmál áður en trúboðarnir komu á vettvang,“ segir Ram Desai í bók sinni Christianity in Africa as Seen by Africans. Trúboðarnir fundu því upp ritmál fyrir þessi tungumál. Síðan sömdu þeir kennslubækur og hófust handa við að kenna fólki að lesa. Í þeim tilgangi byggðu þeir skóla út um Afríku alla.
Trúboðarnir reistu einnig spítala. „Enginn annar aðili hefur lagt jafnmikið af mörkum til mannúðarmála,“ viðurkennir Ram Desai. Auk læknishjálpar sóttust Afríkubúar eftir efnislegum gæðum Evrópu. Sumir trúboðar settu upp verslunarstöðvar í þeirri trú að það myndi laða menn til fylgis við trúna. Til dæmis stofnaði Basel-trúboðið frá Sviss verslunarfélag í Gana og komst að raun um að kakótré uxu vel þar. Núna er Gana þriðji stærsti kakóframleiðandi í heimi.
Trúboðar kristna heimsins unnu mikið afrek með því að þýða Biblíuna. En það að útbreiða boðskap Biblíunnar hefur í för með sér aðra, alvarlega ábyrgð. Kristni postulinn Páll vekur athygli á henni þegar hann spurði: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?“ Biblían leggur áherslu á að þeir sem kenna kristin fræði verði sjálfir að lifa eftir þeim góðu lífsreglum sem orð Guðs inniheldur. — Rómverjabréfið 2:21, 24.
Hvað má segja um trúboð kristna heimsins í Afríku? Hefur það heiðrað Guð Biblíunnar eða hefur það svikið hina kristnu kenningu?