Allir sannkristnir menn verða að vera trúboðar
Allir sannkristnir menn verða að vera trúboðar
„Gjör verk trúboða.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:5.
1. Hvert var fagnaðarerindið sem trúboðar prédikuðu á fyrstu öld?
HVAÐ merkir það nú á dögum að vera trúboði? Ert þú trúboði? Orðið „trúboði“ er þýðing gríska orðsins euaggelistesʹ sem merkir „prédikari fagnaðarerindisins.“ Frá stofnsetningu kristna safnaðarins árið 33 lagði fagnaðarerindi kristninnar áherslu á hjálpræðisleið Guðs og boðaði að Jesús Kristur myndi koma aftur síðar til að ríkja sem konungur Guðsríkis yfir mannkyninu. — Matteus 25:31, 32; 2. Tímóteusarbréf 4:1; Hebreabréfið 10:12, 13.
2. (a) Hvernig hefur inntak fagnaðarerindisins auðgast á okkar dögum? (b) Hvaða skylda hvílir á öllum sannkristnum mönnum nú á dögum?
2 Frá 1914 hafa hrannast upp sannanir fyrir því að táknið, sem Jesús hafði gefið um endurkomu sína og ósýnilega nærveru, væri að uppfyllast. (Matteus 24:3-13, 33) Aftur gátu orðin „Guðs ríki er í nánd“ verið hluti fagnaðarerindisins. (Lúkas 21:7, 31; Markús 1:14, 15) Nú var tíminn kominn til að spádómur Jesú í Matteusi 24:14 myndi uppfyllast á stórkostlegan hátt: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Þess vegna felur trúboð núna í sér að kunngera kostgæfilega hið stofnsetta ríki Guðs og þá blessun sem það mun bráðlega færa hlýðnu mannkyni. Sú kvöð að vinna þetta verk og ‚gera menn að lærisveinum‘ hvílir á öllum kristnum mönnum. — Matteus 28:19, 20; Opinberunarbókin 22:17.
3. (a) Hvaða aðra merkingu hefur orðið „trúboði“? (Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 770, 2. dálk, 2. grein.) (b) Hvaða spurningar vekur það?
3 Auk þess að nota orðið „trúboði“ almennt um þá sem prédika fagnaðarerindið notar Biblían það í sérstakri merkingu um þann sem yfirgefur heimaslóðir sínar til að prédika fagnaðarerindið á ósnortnum svæðum. Á fyrstu öldinni voru margir slíkir trúboðar, svo sem Filippus, Páll, Barnabas, Sílas og Tímóteus. (Postulasagan 21:8; Efesusbréfið 4:11) En hvað um okkar sérstöku tíma frá 1914? Hafa þjónar Jehóva boðið sig fram sem boðbera trúarinnar jafnt á heimaslóðum sínum sem í fjarlægum löndum?
Vöxturinn frá 1914
4, 5. Hverjar voru horfurnar í trúboðsstarfinu skömmu eftir 1914?
4 Þegar dró að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918 mættu þjónar Guðs aukinni andstöðu bæði fráhvarfsmanna og klerka kristna heimsins og pólitískra bandamanna þeirra. Sannkristið boðunarstarf stöðvaðist næstum því í júnímánuði árið 1918 þegar forystumenn Varðturnsfélagsins í Bandaríkjunum voru dæmdir í 20 ára fangelsi fyrir falskar sakir. Hafði óvinum Guðs tekist að binda enda á prédikun fagnaðarerindisins?
5 Í marsmánuði árið 1919 var forystumönnum Félagsins óvænt sleppt úr fangelsi og síðar voru þeir hreinsaðir af hinum röngu ákærum sem höfðu orðið þess valdandi að þeir voru hnepptir í fangelsi. Þessir smurðu kristnu menn höfðu endurheimt frelsi sitt og gerðu sér ljóst að enn væri mikið starf óunnið áður en þeir myndu hljóta himnesk laun sem samerfingjar ríkis Guðs. — Rómverjabréfið 8:17; 2. Tímóteusarbréf 2:12; 4:18.
6. Hvernig gekk trúboðsstarfið frá 1919 til 1939?
6 Árið 1919 skýrðu innan við 4000 frá þátttöku í útbreiðslu fagnaðarerindisins. Næstu tvo áratugi á eftir buðu fjölmargir menn sig fram til trúboðsstarfs og sumir voru sendir til landa Afríku, Asíu og Evrópu. Árið 1939, eftir 20 ára prédikun Guðsríkis, voru þjónar Jehóva orðnir liðlega 73.000. Þessi einstaka aukning, sem átti sér stað þrátt fyrir miklar ofsóknir, líktist því sem gerðist í kristna söfnuðinum á fyrstu árum hans. — Postulasagan 6:7; 8:4, 14-17; 11:19-21.
7. Hvaða áþekkt ástand ríkti árið 47 og 1939 í sambandi við kristið trúboðsstarf?
7 Eigi að síður bjuggu langflestir vottar Jehóva á þeim tíma í enskumælandi mótmælendalöndum. Yfir þrír fjórðu þessara 73.000 boðbera Guðsríkis voru frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Nýja-Sjálandi. Líkt og árið 47 þurfti eitthvað til að hvetja boðbera trúarinnar til að sinna betur þeim löndum heims þar sem lítið trúboð hafði farið fram.
8. Hverju hafði Gíleaðskólinn áorkað árið 1992?
8 Hömlur og ofsóknir stríðsáranna megnuðu ekki að hindra hinn öfluga, heilaga anda Jehóva í að örva þjóna hans til að búa sig undir frekari aukningu. Árið 1943, meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi, kom skipulag Guðs á laggirnar Biblíuskólanum Gíleað í þeim tilgangi að útbreiða fagnaðarerindið víðar. Fram til marsmánaðar 1992 hafði skólin sent út 6517 trúboða til 171 lands. Auk þess voru karlmenn þjálfaðir til að annast útibú Varðturnsfélagsins erlendis. Árið 1992 höfðu 75 af 97 samhæfurum deildarnefndanna fengið þjálfun í Gíleaðskólanum.
9. Hvaða fræðsla hefur átt þátt í framförum trúboðsins og þess að gera menn að lærisveinum?
9 Auk Gíleaðskólans hafa önnur námskeið gert þjóna Jehóva hæfa til að færa út kvíarnar og bæta trúboðsstarf sitt. Til dæmis starfar Guðveldisskólinn í söfnuðum votta Jehóva um heim allan. Þetta fyrirkomulag, ásamt hinni vikulegu þjónustusamkomu, hefur þjálfað milljónir boðbera Guðsríkis til að ná góðum árangri í opinberri þjónustu sinni. Þá má nefna Ríkisþjónustuskólann sem veitir öldungum og safnaðarþjónum verðmæta þjálfun þannig að þeir geti betur annast hina vaxandi söfnuði. Þjónustuskóli brautryðjenda hefur hjálpað mörgum boðberum í fullu starfi að ná betri árangri í prédikunarstarfi sínu. Nú síðast hefur Þjónustuþjálfunarskólinn starfað í mismunandi löndum til að hjálpa ókvæntum öldungum og safnaðarþjónum að verða Tímóteusar nútímans.
10. Hvaða árangri hefur öll þessi frábæra þjálfun af hendi skipulags Guðs skilað? (Nefndu einnig upplýsingar úr rammagreininni.)
10 Hvaða árangri hefur öll þessi þjálfun skilað? Árið 1992 var hámarkstala votta Jehóva komin upp í næstum fjórar og hálfa milljón í 229 löndum. En ólíkt því sem var árið 1939 voru yfir 70 af hundraði þeirra frá kaþólskum löndum, rétttrúnaðarlöndum og löndum sem ekki töldust kristin, þar sem enska er ekki aðaltungumálið. — Sjá rammann „Aukningin frá 1939.“
Orsakir velgengninnar
11. Hverjum þakkaði Páll velgengni sína sem þjónn orðsins?
11 Vottar Jehóva þakka ekki sjálfum sér þessa aukningu. Þeir líta starf sitt sömu augum og Páll postuli sem sagði í bréfi sínu til Korintumanna: „Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig. Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.“ — 1. Korintubréf 3:5-7, 9.
12. (a) Hvaða hlutverki gegnir orð Guðs í árangursríku trúboði? (b) Hver hefur verið skipaður höfuð kristna safnaðarins og hvernig getum við sýnt honum undirgefni?
12 Enginn vafi leikur á að hinn undraverði vöxtur votta Jehóva stafar af blessun Guðs. Hann er verk Guðs. Með því að þeir gera sér það ljóst halda þeir áfram að leggja sig fram við að nema orð Guðs reglulega. Allt sem þeir kenna í trúboðsstarfi sínu byggja þeir á Biblíunni. (1. Korintubréf 4:6; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Annar lykill að árangursríku trúboðsstarfi þeirra er sá að þeir viðurkenna fullkomlega hann sem Guð hefur skipað höfuð safnaðarins, Drottin Jesú Krist. (Efesusbréfið 5:23) Kristnir menn á fyrstu öld sýndu það með því að vinna með þeim sem Jesús skipaði postula. Þessir menn, ásamt öðrum öldungum í söfnuðinum í Jerúsalem, mynduðu hið stjórnandi ráð kristna safnaðarins á fyrstu öld. Frá himnum notaði Drottinn Jesús Kristur þennan hóp þroskaðra kristinna manna til að útkljá deilumál og hafa yfirumsjón með trúboðinu. Dyggileg samvinna Páls við þessa ráðstöfun Guðs leiddi til vaxtar í þeim söfnuðum sem hann heimsótti. (Postulasagan 16:4, 5; Galatabréfið 2:9) Eins er það nú á dögum að kristnir trúboðar mega treysta á góðan árangur í þjónustu sinni ef þeir halda sér fast við orð Guðs og lúta fúslega handleiðslu hins stjórnandi ráðs. — Títusarbréfið 1:9; Hebreabréfið 13:17.
Að meta aðra sér fremri
13, 14. (a) Hvað ráðlagði Páll postuli í Filippíbréfinu 2:1-4? (b) Hvers vegna er þýðingarmikið að muna eftir þessu heilræði þegar við tökum þátt í trúboðsstarfinu?
13 Páll postuli sýndi þeim sem leituðu sannleikans ósvikinn kærleika og áleit sig hvorki yfir þá hafinn né fremri sökum kynþáttar síns. Þess vegna gat hann ráðlagt trúbræðrum sínum að ‚meta aðra meira en sjálfa sig.‘ — Filippíbréfið 2:1-4.
14 Sannkristnir trúboðar nú á tímum eru ekki heldur yfirlætislegir í samskiptum við menn af ólíkum kynþáttum og uppruna. Vottur Jehóva frá Bandaríkjunum, er sendur var sem trúboði til Afríku, segir: „Ég veit bara að við erum þeim [heimamönnum] ekkert æðri. Kannski höfum við meiri peninga og það sem kallað er formleg menntun, en þeir búa yfir eiginleikum skara fram úr okkar.“
15. Hvernig geta þeir sem falið er að starfa erlendis sýnt væntanlegum lærisveinum ósvikna virðingu?
15 Með því að sýna þeim sem við deilum fagnaðarerindinu með ósvikna virðingu auðveldum við þeim að taka við boðskap Biblíunnar. Það er einnig til bóta þegar trúboði sýnir að hann er ánægður með að búa meðal þeirra sem honum hefur verið falið að hjálpa. Farsæll trúboði, sem hefur eytt síðustu 38 árum í Afríku, segir: „Innst inni finnst mér þetta vera heimili mitt og að hinir í söfnuðinum, þar sem ég þjóna, séu bræður mínir og systur. Mér finnst ég ekki vera eins og heima hjá mér þegar ég skrepp heim til Kanada í frí. Síðustu vikuna, sem ég er í Kanada, verð ég mjög óþreyjufull að komast aftur til Afríku. Þannig líður mér alltaf. Ég segi biblíunemendum mínum og bræðrunum og systrunum hve ánægð ég sé að vera aftur komin til þeirra og þau kunna að meta það að mig skuli langa til að vera hjá þeim.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:8.
16, 17. (a) Hvaða áskorun hafa margir trúboðar og boðberar tekið í þeim tilgangi að ná betri árangri í þjónustu sinni? (b) Hvað gerðist hjá trúboða einum af því að hann talaði tungu heimamanna?
16 Sumir hafa lagt á sig að læra nýtt tungumál þegar þeir hafa fundið fjölmennan samfélagshóp á starfssvæði sínu sem talar annað tungumál, og sýna með því að þeir meta aðra meira en sjálfa sig. „Í suðurhluta Afríku gætir stundum vantrausts milli fólks af afrískum uppruna og evrópskum,“ segir trúboði. „En þessi tilfinning hverfur fljótt ef við tölum tungu heimamanna.“ Það að tala tungu þeirra sem við segjum frá fagnaðarerindinu er mikil hjálp til að ná til hjartna þeirra. Það kostar erfiði, úthald og auðmýkt. Trúboði í Asíulandi segir: „Það getur verið prófraun að vera stöðugt aðhlátursefni manna vegna sífelldra mismæla. Það getur virst auðveldari kosturinn að gefast upp.“ En kærleikur til Guðs og náungans hjálpaði þessum trúboða að þrauka. — Markús 12:30, 31.
17 Eins og skiljanlegt er hefur það jákvæð áhrif á fólk ef útlendingur leggur sig fram við að koma fagnaðarerindinu á framfæri á þeirra tungu. Stundum hefur það óvænta blessun í för með sér. Systir, sem var trúboði í Afríkulandinu Lesótó, var að tala á sesótó við aðra konu sem vann í listvefnaðarbúð. Ráðherra í ríkisstjórn annars Afríkuríkis var í skoðunarferð um fyrirtækið og heyrði á tal þeirra. Hann gekk til þeirra og hrósaði henni hlýlega, og þá fór hún að tala við hann á hans eigin tungu. „Hvers vegna kemur þú ekki til [míns lands] til að starfa meðal þjóðar minnar, úr því að þú talar líka svahílí?“ spurði hann. Trúboðinn svaraði háttvíslega: „Það myndi vera einkar ánægjulegt. En ég er vottur Jehóva og sem stendur er starf okkar bannað með lögum í landi þínu.“ Hann svaraði: „Ekki halda að við séum allir á móti starfi ykkar. Margir okkar eru hlynntir starfi votta Jehóva. Kannski átt þú einhvern tíma eftir að kenna hindrunarlaust meðal þjóðar minnar.“ Nokkru síðar frétti trúboðinn sér til mikillar gleði að vottum Jehóva hefði verið veitt trúfrelsi í því landi.
Fús til að láta af rétti sínum
18, 19. (a) Á hvaða mikilvægan hátt lagði Páll sig fram um að líkja eftir meistara sínum, Jesú Kristi? (b) Segðu frá atviki (því sem nefnt er í greininni eða annars staðar frá) sem sýnir mikilvægi þess að forðast það að hneyksla þá sem við deilum fagnaðarerindinu með.
18 Þegar Páll postuli skrifaði: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists,“ hafði hann verið að ræða um nauðsyn þess að hneyksla ekki aðra. Hann sagði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.“ — 1. Korintubréf 10:31-33; 11:1.
19 Trúboðar eins og Páll, sem eru fúsir til að fórna einhverju fyrir þá sem þeir prédika fyrir, uppskera mikla blessun. Til dæmis fóru hjón, sem eru trúboðar í Afríkulandi, út að borða á hóteli á staðnum í tilefni af brúðkaupsafmæli sínu. Í fyrstu ætluðu þau að panta vín með matnum, enda er hófleg notkun áfengis ekki fordæmd í Biblíunni. (Sálmur 104:15) Þau ákváðu þó að láta það vera ef svo skyldi fara að það hneysklaði einhvern. „Nokkru síðar hittum við mann sem var matreiðslumaður á hótelinu,“ segir eiginmaðurinn, „og við hófum biblíunám með honum. Löngu síðar sagði hann okkur: ‚Munið þið eftir því þegar þið komuð á hótelið til að borða? Við stóðum öll innan við eldhúsdyrnar og fylgdumst með ykkur. Kirkjutrúboðarnir höfðu nefnilega sagt okkur að það væri rangt af okkur að drekka. Þegar þeir komu á hótelið voru þeir hins vegar fljótir að panta vín. Við höfðum því ákveðið með sjálfum okkur að við myndum ekki hlusta á ykkur prédika fyrir okkur ef þið pöntuðuð vín.‘“ Núna er matreiðslumaðurinn og nokkrir fleiri, sem unnu á hótelinu, skírðir vottar.
Enn er nóg að gera
20. Hvers vegna er afar mikilvægt að við sýnum úthald sem kostgæfir trúboðar og hvaða gleðirík sérréttindi grípa margir?
20 Margir þrá enn að heyra fagnaðarerindið nú er endalok þessa illa heimskerfis nálgast óðfluga, og það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr fyrir alla kristna menn að halda út sem trúfastir boðberar trúarinnar. (Matteus 24:13) Getur þú aukið hlutdeild þína í þessu starfi með því að verða trúboði í sérstökum skilningi eins og Filippus, Páll, Barnabas, Sílas og Tímóteus? Margir eru að gera eitthvað svipað með því að gerast brautryðjendur og bjóða sig fram til þjónustu þar sem þörfin er meiri.
21. Á hvaða hátt hafa þjónum Jehóva ‚opnast víðar dyr og verkmiklar‘?
21 Stutt er síðan gríðarstórir trúboðsakrar opnuðust í löndum Afríku, Asíu og Austur-Evrópu þar sem starf votta Jehóva var áður takmörkunum háð. Eins og var hjá Páli postula hafa þjónum Jehóva ‚opnast víðar dyr og verkmiklar.‘ (1. Korintubréf 16:9) Til dæmis ráða trúboðar, sem hafa nýlega komið til Afríkuríkisins Mósambík, ekki við að sinna öllu því fólki sem vill nema Biblíuna. Við getum fagnað því að starf votta Jehóva skuli hafa verið lögleyft þar þann 11. febrúar 1991!
22. Hvað verðum við öll að vera staðráðin í að gera, hvort sem mikið er starfað á heimasvæði okkar eða ekki?
22 Í löndum þar sem við höfum alltaf búið við trúfrelsi njóta bræður okkar líka áframhaldandi aukningar. Já, hvar sem við búum er enn ‚kappnóg að gera í verki Drottins.‘ (1. Korintubréf 15:58) Fyrst svo er skulum við halda áfram að nota viturlega þann tíma sem eftir er til að ‚gera verk trúboða, fullna þjónustu okkar.‘ — 2. Tímóteusarbréf 4:5; Efesusbréfið 5:15, 16.
Getur þú svarað?
◻ Hvað er trúboði?
◻ Hvað auðgaði inntak fagnaðarerindisins eftir 1914?
◻ Hvernig hefur trúboðsstarfið gengið síðan árið 1919?
◻ Hvað hefur öðru fremur stuðlað að velgengni trúboðsstarfsins?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 19]
Aukningin frá 1939
Skoðum dæmi frá þrem heimsálfum þangað sem Gíleaðtrúboðar voru sendir. Árið 1939 voru aðeins 636 boðberar Guðsríkis sem skýrðu frá starfi í Vestur-Afríku. Árið 1991 voru þeir komnir yfir 200.000 í 12 löndum Vestur-Afríku. Trúboðar hafa einnig stuðlað að hinum gríðarlega vexti í löndum Suður-Ameríku. Eitt þeirra er Brasilía þar sem boðberum Guðsríkis fjölgaði úr 114 árið 1939 í 335.039 í apríl 1992. Svipaður vöxtur átti sér stað eftir að trúboðar komu til Asíu. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru hinir fáeinu vottar Jehóva í Japan grimmilega ofsóttir og starf þeirra lagðist niður. Árið 1939 komu 13 trúboðar þangað til að hjálpa til við að endurskipuleggja starfið. Það þjónustuár skýrðu innan við tíu innfæddir boðberar frá starfi á akrinum fyrir allt landið en í apríl 1992 var heildartala boðbera 167.370.
[Rammi á blaðsíðu 21]
Kristni heimurinn og tungumálavandinn
Sumir af trúboðum kristna heimsins lögðu sig vel fram við að læra erlent tungumál en margir ætluðust til að heimamenn töluðu þeirra evrópumál. Eins og Geoffrey Moorhouse segir í bók sinni The Missionaries:
„Vandinn var sá að allt of oft var eini tilgangurinn með því að læra mál heimamanna álitinn sá að þýða Ritninguna. Bæði einstaklingar og trúboðsfélögin, sem þeir störfuðu hjá, gerðu fremur lítið til að tryggja að trúboði gæti talað reiprennandi við heimamann á hans eigin máli en það eitt getur skapað góðan skilning milli tveggja manna. Hver trúboði lærði hrafl í máli heimamanna . . . Umfram það fóru öll tjáskipti fram á hræðilegri og fíflalegri pidgin-ensku sem svo var kölluð, sem gerði sjálfkrafa ráð fyrir að hinn innfæddi Afríkubúi yrði að beygja sig undir staðla enska gestsins. Í versta falli var þetta ekkert annað en enn eitt tákn kynþáttahrokans.“
Árið 1922 birti Skóli austurlenskra og afrískra fræða í Lundúnum skýrslu um tungumálavandann. „Við álítum,“ segir í skýrslunni, „að kunnátta trúboðanna í máli innfæddra . . . sé að jafnaði hörmulega og jafnvel hættulega lítil.“
Trúboðar Varðturnsfélagsins hafa alltaf litið á það sem skilyrði að læra tungu heimamanna sem á sinn þátt í velgengni þeirra á trúboðsakrinum.