Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Innblásin fyrirmynd um kristið trúboðsstarf

Innblásin fyrirmynd um kristið trúboðsstarf

Innblásin fyrirmynd um kristið trúboðsstarf

„Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ — 1. KORINTUBRÉF 11:1.

1. Á hvaða vegu gaf Jesús fylgjendum sínum einstakt fordæmi til eftirbreytni? (Filippíbréfið 2:5-9)

 JESÚS gaf lærisveinum sínum svo sannarlega einstakt fordæmi. Hann yfirgaf fúslega himneska dýrð og kom niður til jarðar til að búa meðal syndugra manna. Hann var fús til að þola miklar þjáningar til að frelsa mannkynið og, það sem þýðingarmeira er, til að helga nafn föður síns á himnum. (Jóhannes 3:16; 17:4) Þegar Jesús átti dauðadóm yfir höfði sér sagði hann djarfmannlega: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ — Jóhannes 18:37.

2. Hvers vegna gat hinn upprisni Jesús falið lærisveinum sínum að halda áfram því starfi sem hann hafði hafið?

2 Fyrir dauða sinn veitti Jesús lærisveinum sínum frábæra þjálfun til að þeir gætu haldið áfram að bera sannleikanum um ríkið vitni. (Matteus 10:5-23; Lúkas 10:1-16) Þess vegna gat Jesús gefið þessa tilskipun eftir upprisu sína: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.

3. Hvernig jókst prédikunarstarfið en við hvaða svæði einskorðaðist það þó aðallega?

3 Næstu þrjú og hálft ár hlýddu lærisveinar Jesú þessari tilskipun en takmörkuðu kennslu sína við Gyðinga, menn sem tekið höfðu gyðingatrú og umskorna Samverja. Síðar, árið 36 lét Guð prédika fagnaðarerindið fyrir óumskornum manni, Kornelíusi, og heimili hans. Næsta áratuginn voru fleiri einstaklingar af þjóðunum leiddir inn í söfnuðinn. Starfið virðist þó að mestu leyti hafa einskorðast við svæðin við austanvert Miðjarðarhaf. — Postulasagan 10:24, 44-48; 11:19-21.

4. Hvaða markverð þróun átti sér stað um árið 47-48?

4 Eitthvað þurfti til að hvetja kristna menn eða gera þeim kleift að gera Gyðinga og menn af þjóðunum, sem voru búsettir á fjarlægari slóðum, að lærisveinum. Því var það að öldungar safnaðarins í Antíokkíu í Sýrlandi fengu þessi boð frá Guði: „Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til.“ (Postulasagan 13:2) Tökum eftir að Páll var þá þekktur undir sínu upprunalega nafni, Sál. Veitum líka athygli að Guð nefndi Barnabas á undan Páli, kannski vegna þess að Barnabas var á þeim tíma álitinn sá reyndari.

5. Hvers vegna er frásagan af trúboðsferð Páls og Barnabasar mikils virði fyrir kristna nútímamenn?

5 Hin ítarlega frásaga af trúboðsferð Páls og Barnabasar er mjög hvetjandi fyrir votta Jehóva, einkum trúboða og brautryðjendur sem hafa flust frá heimaslóðum sínum til að þjóna Guði á framandi stöðum. Athugun á 13. og 14. kafla Postulasögunnar mun áreiðanlega hvetja enn fleiri til að líkja eftir Páli og Barnabasi og auka hlutdeild sína í því þýðingarmikla starfi að gera menn að lærisveinum.

Eyjan Kýpur

6. Hvaða fordæmi gáfu trúboðarnir á Kýpur?

6 Trúboðarnir sigldu tafarlaust fá sýrlensku höfninni Selevkíu til eyjarinnar Kýpur. Þeir létu ekki setja sig út af sporinu eftir að þeir voru komnir í höfn í Salamis heldur tóku að boða „orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga.“ Þeir settust ekki bara að í borginni og biðu eftir því að eyjarskeggjar kæmu til þeirra. Nei, þeir líktu eftir fordæmi Jesú og störfuðu um „alla eyna.“ Þeir hafa vafalaust þurft að ferðast langar leiðir fótgangandi og skipta oft um náttstað, því að Kýpur er stór eyja og þeir fóru hana endilanga þar sem lengst er. — Postulasagan 13:5, 6.

7. (a) Hvaða einstakur atburður átti sér stað í Pafos? (b) Hvaða viðhorf hvetur þessi frásaga okkur til að hafa?

7 Þegar dvöl þessara tveggja manna var nærri á enda urðu þeir ánægjulegrar reynslu aðnjótandi í bænum Pafos. Landstjórinn á Kýpur, Sergíus Páll, hlýddi á boðskap þeirra og „tók trú.“ (Postulasagan 13:7, 12) Síðar skrifaði Páll: „Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.“ (1. Korintubréf 1:26) Sergíus Páll var þó valdamaður sem tók við trúnni. Þessi frásaga ætti að hvetja alla, einkum trúboða, til að vera jákvæðir fyrir því að bera vitni fyrir embættis- og valdamönnum eins og við erum hvött til í 1. Tímóteusarbréfi 2:1-4. Áhrifamenn hafa stundum reynst þjónum Guðs mjög hjálplegir. — Nehemíabók 2:4-8.

8. (a) Hvaða breyting varð á sambandi Barnabasar og Páls upp frá þessu? (b) Á hvaða hátt var Barnabas gott fordæmi?

8 Undir áhrifum anda Jehóva gegndi Páll stóru hlutverki í því að snúa Sergíusi Páli til trúar. (Postulasagan 13:8-12) Einnig virðist svo sem Páll hafi tekið forystuna upp frá þessu. (Berðu saman Postulasöguna 13:7 og Postulasöguna 13:15, 16, 43.) Það var í samræmi við það sérstaka verkefni sem Páll fékk frá Guði er hann tók trú. (Postulasagan 9:15) Vera má að þessi breyting hafi reynt á auðmýkt Barnabasar, en í stað þess að líta á þessa breytingu sem persónulega lítilsvirðingu er líklegt að hann hafi hegðað sér í samræmi við merkingu nafns síns, „huggunar sonur,“ og stutt Pál dyggilega alla trúboðsferðina og eins eftir hana er nokkrir kristnir Gyðingar véfengdu rétt þeirra til að prédika fyrir óumskornum heiðingjum. (Postulasagan 15:1, 2) Þetta er okkur öllum gott fordæmi, einnig þeim sem búa á Betel- og trúboðsheimilum! Við ættum alltaf að vera fús til að taka við guðræðislegri breytingu og styðja heilshugar þá sem skipaðir eru til forystu meðal okkar. — Hebreabréfið 13:17.

Háslétta Litlu-Asíu

9. Hvað lærum við af því að Páll og Barnabas skyldu vera fúsir til að fara til Antíokkíu í Pisidíu?

9 Frá Kýpur sigldu Páll og Barnabas norður til meginlands Asíu. Einhverra orsaka vegna, sem ekki er getið um, dvöldu trúboðarnir ekki í strandhéraðinu heldur lögðu upp í langa og hættulega ferð um 180 kílómetra veg til Antíokkíu í Pisidíu sem stendur á miðri hásléttu Litlu-Asíu. Til þess þurftu þeir að fara um fjallaskarð áður en þeir komu niður á sléttuna sem er í um 1100 metra hæð yfir sjávarmáli. Biblíufræðingurinn J. S. Howson segir: „Fjallabúarnir á mörkum hásléttunnar og undirlendis suðurstrandarinnar voru alræmdir lögleysingjar og ræningjar gegnum alla sögu fortíðar.“ Að auki stafaði trúboðunum hætta af náttúruöflunum. „Leysingar og flóð eru ekki jafneinkennandi fyrir nokkurt hérað í Litlu-Asíu og fjallasvæðið Pisidíu þar sem árnar brjótast fram við rætur stórra kletta eða ryðjast eftir þröngum gljúfrum,“ bætir Howson við. Þessi smáatriði hjálpa okkur að sjá fyrir okkur hvers konar ferðalög trúboðarnir voru fúsir til að leggja út í til að útbreiða fagnaðarerindið. (2. Korintubréf 11:26) Nú á dögum bjóða margir þjónar Jehóva líka alls konar hindrunum birginn í þeim tilgangi að ná til fólks og koma fagnaðarerindinu á framfæri við það.

10, 11. (a) Hvernig hélt Páll sig við það sem áheyrendur hans þekktu eins og hann og skildu? (b) Hvers vegna urðu margir Gyðingar líklega forviða að heyra um þjáningar Messíasar? (c) Hvers konar hjálpræði benti Páll áheyrendum sínum á?

10 Með því að Gyðingar áttu samkunduhús í Antíokkíu í Pisidíu fóru trúboðarnir fyrst þangað til að gefa þeim sem best þekktu orð Guðs tækifæri til að taka við fagnaðarerindinu. Er Páli var boðið að tala stóð hann upp og flutti snilldarlega ræðu. Út í gegnum alla ræðuna hélt hann sig við það sem Gyðingar og trúskiptingar meðal áheyrenda þekktu eins og hann og skildu. (Postulasagan 13:13-16, 26) Að loknum inngangsorðum rifjaði Páll upp hina frægu sögu Gyðinga og minnti þá á að Jehóva hefði útvalið forfeður þeirra og síðan frelsað þá frá Egyptalandi, og eins hvernig hann hefði hjálpað þeim að sigra íbúa fyrirheitna landsins. Síðan beindi Páll athyglinni að samskiptum Jehóva við Davíð. Slíkt efni var Gyðingum á fyrstu öld hugleikið af því að þeir væntu þess að Guð myndi vekja upp afkomanda Davíðs sem frelsara og eilífan stjórnanda. Þegar hér var komið ræðunnar lýsti Páll djarflega yfir: „Af kyni hans [Davíðs] sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.“ — Postulasagan 13:17-23.

11 Margir Gyðingar væntu hins vegar annars konar frelsara, stríðshetju sem gæti frelsað þá undan yfirráðum Rómverja og hafið Gyðingaþjóðina yfir allar aðrar þjóðir. Þess vegna urðu þeir vafalaust forviða að heyra Pál segja að þeirra eigin trúarleiðtogar hefðu framselt Messías til aftöku. „En Guð vakti hann frá dauðum,“ lýsti Páll djarflega yfir. Undir lok ræðu sinnar benti hann áheyrendum á að þeir gætu hlotið stórkostlega frelsun. „Það skuluð þér því vita,“ sagði Páll, „að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af.“ Páll lauk ræðu sinni með því að hvetja áheyrendur sína til að fylla ekki flokk með þeim mörgu sem Guð sagði fyrir að myndu hunsa þessa stórkostlegu hjálpræðisráðstöfun. — Postulasagan 13:30-41.

12. Hvaða afleiðingar hafði ræða Páls og hvernig ætti það að vera okkur hvatning?

12 Hvernig brugðust áheyrendur við þessari vel fluttu biblíuræðu? „Margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, [fylgdu] þeim Páli og Barnabasi.“ (Postulasagan 13:43) Þetta er mjög hvetjandi fyrir okkur sem nú lifum! Megum við líka gera okkar besta til að koma sannleikanum á framfæri á áhrifaríkan hátt, bæði í opinberri þjónustu okkar og í athugasemdum og ræðum á safnaðarsamkomum okkar. — 1. Tímóteusarbréf 4:13-16.

13. Hvers vegna urðu trúboðarnir að yfirgefa Antíokkíu í Pisidíu og hvaða spurningar vakna um nýju lærisveinana?

13 Þeir sem nýlega höfðu sýnt áhuga í Antíokkíu í Pisidíu gátu ekki þagað yfir þessu fagnaðarerindi. Af því leiddi að „næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð [Jehóva].“ Og boðskapurinn var fljótur að berast út fyrir borgarmörkin. „Orð [Jehóva] breiddist út um allt héraðið.“ (Postulasagan 13:44, 49) Í stað þess að gleðjast yfir því fengu öfundsjúkir Gyðingar trúboðana rekna úr borginni. (Postulasagan 13:45, 50) Hvaða áhrif hafði það á nýju lærisveinana? Misstu þeir kjarkinn og gáfust upp?

14. Hvers vegna gátu andstæðingarnir ekki bælt niður það starf sem trúboðarnir höfðu byrjað og hvað lærum við af því?

14 Nei, það gerðu þeir ekki því að þetta var verk Guðs. Trúboðarnir höfðu líka lagt traustan grundvöll til trúar á upprisu Drottins Jesú Krists. Ljóst er því að nýju lærisveinarnir litu á Krist, ekki trúboðana, sem leiðtoga sinn. Þess vegna lesum við að þeir hafi verið „fylltir fögnuði og heilögum anda.“ (Postulasagan 13:52) Þetta er mjög hvetjandi fyrir trúboða og aðra sem gera menn að lærisveinum nú á dögum! Ef við gerum okkar með auðmýkt og kostgæfni blessa Jehóva Guð og Jesús Kristur þjónustu okkar. — 1. Korintubréf 3:9.

Íkóníum, Lýstra og Derbe

15. Hvernig fóru trúboðarnir að í Íkóníum og með hvaða árangri?

15 Páll og Barnabas ferðuðust nú um 140 kílómetra í suðaustur til næstu borgar, Íkóníum. Ótti við ofsóknir hindraði þá ekki í að fara eins að og þeir höfðu gert í Antíokkíu. Biblían segir um árangurinn: „Mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.“ (Postulasagan 14:1) Enn á ný æstu Gyðingar, sem tóku ekki við fagnaðarerindinu, til andstöðu. En trúboðarnir þraukuðu og dvöldu talsverðan tíma í Íkóníum til að hjálpa nýju lærisveinunum. Þegar Páll og Barnabas komust á snoðir um að andstæðingar þeirra meðal Gyðinga hyggðust grýta þá töldu þeir skynsamlegast að forða sér til næsta starfssvæðis, „borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.“ — Postulasagan 14:2-6.

16, 17. (a) Hvað kom fyrir Pál í Lýstru? (b) Hvaða áhrif höfðu viðskipti Guðs við postulann á ungan mann í Lýstru?

16 Hugrakkir í bragði „héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið“ á þessu nýja, ósnortna svæði. (Postulasagan 14:7) Þegar Gyðingar í Antíokkíu í Pisidíu og Íkóníum fréttu þetta komu þeir alla leiðina til Lýstru og töldu mannfjöldann á að grýta Pál. Nú gafst Páli ekki ráðrúm til að forða sér og var grýttur þannig að andstæðingarnir héldu að hann væri dáinn. Síðan drógu þeir hann út fyrir borgina. — Postulasagan 14:19.

17 Getur þú ímyndað þér hversu mjög þetta hlýtur að hafa fengið á nýju lærisveinana? En hvílíkt undur. Þegar þeir umkringdu Pál reis hann á fætur! Biblían getur þess ekki hvort ungur maður sem hét Tímóteus var einn þessara nýju lærisveina. Víst er þó að hann frétti einhvern tíma af viðskiptum Guðs við Pál og það hafði djúptæk áhrif á ungan huga hans. Páll skrifaði í síðara bréfi sínu til Tímóteusar: ‚Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, . . . slíku sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:10, 11) Páll kom aftur til Lýstru um einu eða tveim árum eftir að hann var grýttur og komst þá að raun um að Tímóteus var til mikillar fyrirmyndar sem kristinn maður og „bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð.“ (Postulasagan 16:1, 2) Páll valdi hann því sem ferðafélaga. Það hjálpaði Tímóteusi að vaxa andlega og þegar fram liðu stundir varð hann svo hæfur að Páll gat sent hann í heimsóknir til ýmissa safnaða. (Filippíbréfið 2:19, 20; 1. Tímóteusarbréf 1:3) Nú á dögum hafa kostgæfir þjónar Guðs einnig mjög góð áhrif á unga fólkið og margt af því verður, eins og Tímóteus, dugandi þjónar Guðs þegar það vex úr grasi.

18. (a) Hvað gerðist hjá trúboðunum í Derbe? (b) Hvaða tækifæri stóð þeim nú opið en hvað ákváðu þeir að gera?

18 Morguninn eftir að Páll slapp naumlega undan dauða í Lýstru hélt hann með Barnabasi til Derbe. Nú eltu engir andstæðingar og Biblían segir að þeir hafi ‚gert marga að lærisveinum.‘ (Postulasagan 14:20, 21) Eftir að hafa stofnað söfnuð í Derbe stóðu Páll og Barnabas frammi fyrir ákvörðun. Fjölfarinn rómverskur vegur lá frá Derbe til Tarsus og þaðan var stutt fyrir þá að fara aftur til Antíokkíu í Sýrlandi. Ef til vill var það þægilegasta leiðin til baka og trúboðunum getur hafa fundist að þeir verðskulduðu hvíld. En Páll og Barnabas líktust meistara sínum og skynjuðu að önnur þörf var brýnni. — Markús 6:31-34.

Verk Guðs fullnað

19, 20. (a) Hvernig blessaði Jehóva trúboðana fyrir það að snúa aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu? (b) Hvaða lærdóm geta nútímaþjónar Jehóva dregið af þessu?

19 Í stað þess að velja stystu leiðina heim sýndu trúboðarnir það hugrekki að snúa við og heimsækja aftur sömu borgir og þeir höfðu verið í lífshættu í. Blessaði Jehóva þá fyrir þessa óeigingjörnu umhyggju fyrir nýju sauðunum? Já, svo sannarlega, því að frásagan segir að þeim hafi tekist að ‚styrkja lærisveinana og hvetja þá til að vera staðfastir í trúnni.‘ Þeir sögðu nýju lærisveinunum: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.“ (Postulasagan 14:21, 22) Páll og Barnabas minntu þá líka á köllun þeirra sem samerfingja að hinu komandi ríki Guðs. Við ættum nú á tímum að hvetja nýja lærisveina með sama hætti. Við getum styrkt þá til að halda út gegnum prófraunir með því að minna þá á vonina um eilíft líf á jörð undir stjórn sama Guðsríkis og Páll og Barnabas prédikuðu.

20 Áður en Páll og Barnabas yfirgáfu hverja borg hjálpuðu þeir söfnuðinum á staðnum að koma á betra skipulagi hjá sér. Ljóst er að þeir þjálfuðu hæfa karlmenn og skipuðu þá til forystu. (Postulasagan 14:23) Vafalaust stuðlaði það að enn meiri aukningu. Eins er það nú á dögum að trúboðar og aðrir flytjast stundum burt og halda áfram sínu góða starfi annars staðar þar sem þörfin er meiri, eftir að hafa hjálpað óreyndum einstaklingum að taka framförum uns þeir geta axlað ábyrgð.

21, 22. (a) Hvað gerðist eftir að Páll og Barnabas höfðu lokið trúboðsferð sinni? (b) Hvaða spurningar vekur það?

21 Trúboðarnir gátu verið mjög ánægðir er þeir sneru að lokum aftur til Antíokkíu í Sýrlandi. Frásaga Biblíunnar segir að þeir hafi „fullnað“ það verk sem Guð hafði trúað þeim fyrir. (Postulasagan 14:26) Skiljanlegt er að frásagnir þeirra hafi vakið „mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.“ (Postulasagan 15:3) En hvað um framtíðina? Ætluðu þeir að láta sér nægja unnin afrek? Ekki aldeilis. Eftir að hafa fundað með hinu stjórnandi ráði í Jerúsalem til að fá skorið úr deilunni um umskurnina lögðu tvímenningarnir aftur upp í trúboðsferðir. Nú fóru þeir hvor í sína áttina. Barnabas tók Jóhannes Markús með sér og hélt til Kýpur en Páll fann sér nýjan starfsfélaga, Sílas, og ferðaðist um Sýrland og Kilikíu. (Postulasagan 15:39-41) Það var í þeirri ferð sem hann valdi hinn unga Tímóteus og tók hann með sér.

22 Biblían greinir ekki frá árangrinum af annarri trúboðsferð Barnabasar. Páll hélt hins vegar til nýrra svæða og stofnaði söfnuði í að minnsta kosti fimm borgum — Filippí, Beroju, Þessaloníku, Korintu og Efesus. Hver var lykillinn að einstæðum árangri Páls? Geta kristnir boðberar nú á tímum notfært sér sömu meginreglur og reyndust Páli svona vel?

Manst þú?

◻ Hvers vegna er Jesús einstakt fordæmi til eftirbreytni?

◻ Á hvaða hátt var Barnabas gott fordæmi?

◻ Hvað lærum við af ræðu Páls í Antíokkíu í Pisidíu?

◻ Hvernig luku Páll og Barnabas því verkefni sem þeim hafði verið falið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þolgæði Páls postula í ofsóknum hafði varanleg áhrif á hinn unga Tímóteus.