Uppskera kristna heimsins í Afríku
Uppskera kristna heimsins í Afríku
DRAUMUR Charles Lavigeries um að gera Alsírbúa að „kristinni þjóð“ varð aldrei annað en draumur. Núna eru 99 af hundraði Alsírbúa múslímar og kristni heimurinn hefur farið halloka á stórum svæðum í Norður-Afríku. En hvað um aðra hluta Afríku?
„Kristnin hefur snúið fleirum til trúar í svörtu Afríku en í öllum öðrum hlutum þriðja heimsins samanlögðum,“ fullyrðir dr. J. H. Kane, í bókinni A Concise History of the Christian World Mission. En eru þeir sem snúist hafa kristnir í raun og veru? „Ein alvarleg hætta í afrísku kirkjunni er ‚kristin heiðni,‘“ viðurkennir dr. Kane. Að tala um „afrísku kirkjuna“ er auk þess villandi því að afrísku kirkjurnar skipta hreinlega þúsundum og hver hefur sitt tilbeiðsluform. Hvers vegna?
Sundrungu sáð
Sundrungunni var sáð jafnvel áður en trúboðarnir undu upp segl og sigldu til Afríku. Trúboðsfélag Lundúna sótti félagsmenn til ólíkra kirkjudeilda og á ferð sinni til trúboðssvæðisins deildu trúboðarnir hatrammlega um kenningar. Ágreiningurinn hlaut óhjákvæmilega að magnast eftir að þeir höfðu komið sér fyrir á trúboðsstöðvunum.
„Trúboðarnir deildu harkalega hver við annan og við yfirmenn sína í heimalandinu, yfirleitt á kostnað kristniboðsmarkmiða sinna. . . . Trúboðarnir virtust eyða jafnmiklum tíma og kröftum í að setja þessar deilur á blað og í að reyna að snúa fólkinu til trúar,“ segir prófessor Robert Rotberg í bók sinni Christian Missionaries and the Creation of Northern Rhodesia 1880-1924.
Stundum leiddu þrætur trúboðanna til klofningstrúboðs. Trúboðar kaþólskra og mótmælenda kepptu grimmilega um trúskiptinga. Þessi sundrung hlaut líka að endurspeglast í fylgjendum þeirra. Með tímanum yfirgáfu milljónir Afríkubúa trúboðskirkjurnar og stofnuðu sínar eigin kirkjudeildir.
„Óháðu afrísku kirkjurnar er að finna út um gervalla Afríku,“ segir dr. Kane sem er sérfræðingur í kristniboðssögu. „Samanlagt eru um sjö þúsund sjálfstæðir hópar innan þessarar hreyfingar.“ Orsakanna er ekki aðeins að leita í samkeppni milli trúboða með ólíkar trúarskoðanir. Í bók sinni, The Missionaries, útskýrir Geoffrey Moorhouse að „gremja vegna yfirlætis hvítra“ hafi verið önnur ástæða „svörtu siðbótarinnar.“
Kristni eða evrópskur kynþáttahroki?
„Trúboðarnir voru haldnir mikilmennskubrjálæði,“ viðurkennir dr. Kane. Þeir „álitu að kristin trú yrði að haldast í hendur við menningu og forystu Evrópubúa,“ segir Adrian Hastings í bók sinni African Christianity.
Frakkinn Charles Lavigerie var ekki eini trúboðsleiðtoginn sem var þeirrar skoðunar. John Philip, forstöðumaður Trúboðsfélags Lundúna í suðurhluta Afríku, var sama sinnis. Árið 1828 sagði hann hróðugur: „Trúboðar okkar eru . . . að efla breska hagsmuni, auka bresk áhrif og stækka breska heimsveldið. Hvar sem kristniboðinn dregur gunnfána sinn að húni meðal villimanna láta fordómar þeirra gegn nýlendustjórninni undan síga; þeir verða háðari nýlendunni við það að skapaðar eru gerviþarfir; . . . iðnaður, verslun og landbúnaður blómstrar og sérhver ósvikinn trúskiptingur meðal þeirra . . . verður bandamaður og vinur nýlendustjórnarinnar.“
Er það nokkur furða að stjórnvöld Evrópuríkja skyldu líta á slíka trúboða sem nytsöm verkfæri til að færa út kvíarnar og stækka nýlendurnar? Trúboðarnir voru hinir ánægðustu með það að Evrópuríki skyldu stofna nýlendur í Afríku. Þannig lýstu þeir yfir á heimsráðstefnu trúboða í Edinborg árið 1910: „Það væri . . . ógerlegt að gera alltaf greinarmun á markmiðum trúboðans og markmiðum stjórnarinnar.“
Ríktu sem konungar í Afríku
Sumir trúboðar reiddu sig á herstyrk nýlendustjórnarinnar til að halda fram valdi sínu. Bresk herskip voru stundum notuð til að jafna strandbæi við jörðu af því að íbúar höfðu ekki viljað beygja sig undir yfirráð trúboðanna. Árið 1898 lét Dennis Kemp, meþódistatrúboði í Vestur-Afríku, í ljós „þá bjargföstu sannfæringu að Guð noti núna breska landherinn og sjóherinn til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd.“
Fyrir kom að trúboðarnir sölsuðu undir sig veraldleg völd ættflokkahöfðingja eftir að þeir höfðu komið sér fyrir. „Trúboðar á vegum Trúboðsfélags Lundúna beittu oft valdi til að framfylgja guðræðislögum sínum,“ segir prófessor Rotberg. „Löng svipa úr verkaðri flóðhestahúð, nefnd cikoti, var eitt uppáhaldsverkfæri þeirra til að tjá vanþóknun sína. Hún var hiklaust notuð til að hýða Afríkubúa af minnsta tilefni.“ „Einn afrískur trúskiptingur,“ segir David Lamb í bók sinni The Africans, „minnist þess að anglíkanskur trúboði í Úganda, þekktur sem Bwana Botri, steig oft niður úr ræðustóli við guðsþjónustur til að
berja Afríkumenn, sem komu seint, með reyrpriki.“Trúboðinn James Mackay var stórhneykslaður yfir þessu framferði og lagði fram formlega kæru til stjórnenda Trúboðsfélags Lundúna. Hann aðvaraði: „Við erum ekki álitnir hvítu mennirnir sem færa þeim gleðitíðindin um kærleika Guðs heldur hafa þeir illan bifur á okkur og óttast okkur.“
Heimsstyrjaldirnar
„Í meira en öld hafði verið hamrað linnulaust og með látum á því við [Afríkubúa] að stríð og allar þær villimannlegu hvatir, sem það leysti úr læðingi, væri bæði tilgangslaust og af hinu illa,“ segir bókin The Missionaries. En þá braust fyrri heimsstyrjöldin út árið 1914 milli svokallaðra kristinna þjóða í Evrópu.
„Trúboðar af nálega öllum þjóðernum soguðust út í stríðið mikla,“ segir Moorhouse. Sér til háðungar hvöttu trúboðarnir afríska trúskiptinga sína til að taka afstöðu. Sumir trúboðar leiddu jafnvel afrískar hersveitir í bardaga. Prófessor Stephen Neill lýsir áhrifum stríðsins vel í bókinni History of Christian Missions: „Evrópuþjóðir, sem höfðu hástöfum haldið því fram að þær hefðu einkaleyfi á kristni og siðmenningu, höfðu hellt sér í blindni og ráðvillu út í borgarastríð sem átti eftir að ganga mjög nærri efnum þeirra og svipta þær allri dyggð.“ „Síðari heimsstyrjöldin rak aðeins endahnútinn á það sem hin fyrri hafði komið til leiðar,“ heldur Neill áfram. „Siðferðileg sýndarmennska Vesturlandaþjóða reyndist ekkert nema uppgerð; ‚kristni heimurinn‘
var afhjúpaður sem goðsögnin ein. Nú var ekki lengur hægt að tala um ‚hin kristnu Vesturlönd.‘“Auðskilið er að svörtu siðbótinni skyldi vaxa fiskur um hrygg eftir fyrri heimsstyrjöldina. En hvað um þá Afríkubúa sem héldu tryggð við kirkjur kristna heimsins? Var þeim kenndur sannleikur Biblíunnar eftir þetta?
Forfeðradýrkun Afríkubúa
Trúboðar kristna heimsins fordæmdu trúarsiði Afríkubúa, svo sem þann að leita til galdramanna í þeim tilgangi að friða látna forfeður. Samtímis héldu trúboðarnir því fram að allir menn hefðu ódauðlega sál. Þeir kenndu einnig að menn ættu að dýrka Maríu og „dýrlingana.“ Þessar kenningar staðfestu þá trú Afríkubúa að látnir ástvinir þeirra væru lifandi. Með því að dýrka trúarleg líkneski og tákn, svo sem krossinn, renndu trúboðarnir auk þess stoðum undir þann afríska sið að nota verndargripi til að verjast illum öndum.
Prófessor C. G. Baëta segir í bók sinni Christianity in Tropical Africa: „Afríkubúi getur sungið af hjartans lyst í kirkjunni: ‚Annað athvarf á ég ei,‘ og þó borið einhvers staðar á sér verndargrip, eða þá gengið rakleiðis úr kirkjunni til töframannsins án þess að finnast hann vera að brjóta nokkra grundvallarreglu.“ — Samanber 5. Mósebók 18:10-12 og 1. Jóhannesarbréf 5:21.
Margir trúboðar sögðu Afríkubúum að heiðnir forfeður þeirra kveldust í logum helvítis og að þeir myndu hljóta sömu örlög ef þeir tækju ekki við kenningum trúboðanna. En kenningin um eilífar kvalir stangast á við skýr orð sömu Biblíunnar og trúboðarnir lögðu svona mikið á sig til að þýða á afríkumál. — 1. Mósebók 3:19; Jeremía 19:5; Rómverjabréfið 6:23.
Biblían segir reyndar að syndugar mannssálir deyi og að ‚hinir dauðu viti ekki neitt.‘ (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Þeir Afríkubúar, sem fengu ekki tækifæri til að heyra sannleika Biblíunnar, eiga von um að vera með í væntanlegri ‚upprisu bæði réttlátra og ranglátra.‘ (Postulasagan 24:15) Þessir upprisnu einstaklingar verða fræddir um hjálpræðisráðstöfun Guðs. Síðan, ef þeir bregðast rétt og með þakklæti við henni, verður þeim umbunað með eilífu lífi á jörð sem verður paradís. — Sálmur 37:29; Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16.
Í stað þess að kenna þessi dásamlegu biblíusannindi hefur kristni heimurinn afvegaleitt Afríkubúa með falskenningum og trúhræsni. Víst er að hlutverk trúboða kristna heimsins í landvinningum nýlenduveldanna í Afríku á sér engan stuðning í Biblíunni. Þvert á móti sagði Jesús að ríki hans ‚væri ekki af þessum heimi‘ og að sannir fylgjendur hans yrðu ekki heldur „af heiminum.“ (Jóhannes 15:19; 18:36) Frumkristnir menn voru erindrekar Jesú Krists, ekki veraldlegra stjórna. — 2. Korintubréf 5:20.
Uppskera kristna heimsins í Afríku er því á heildina litið ósköp dapurleg. Hún einkennist af átakanlegri sundrung, tortryggni og „kristinni heiðni.“ Ofbeldið, sem hefur einkennt marga „kristna“ hluta Afríku, samræmist svo sannarlega ekki kenningum ‚Friðarhöfðingjans.‘ (Jesaja 9:6) Ávöxturinn af starfi kristna heimsins í Afríku stingur í stúf við orð Jesú um sanna fylgjendur sína. Í bæn til föður síns á himnum bað Jesús þess að þeir yrðu „fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig.“ — Jóhannes 17:20, 23; 1. Korintubréf 1:10.
Þýðir þetta að allt trúboðsstarf í Afríku hafi misheppnast? Alls ekki. Fjallað verður um hinn góða ávöxt sannkristins trúboðsstarfs í Afríku og út um heim allan í greinunum sem hefjast á næstu blaðsíðu.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Forystumenn Afríkutrúboðsins á síðustu öld, svo sem John Philip, álitu að evrópsk siðmenning og kristni væru eitt og hið sama.
[Rétthafi]
Cape Archives M450
[Mynd á blaðsíðu 7]
Trúboðar kristna heimsins ýttu undir afríska forfeðradýrkun með því að breiða út óbiblíulegar kenningar, svo sem um ódauðleika sálarinnar.
[Rétthafi]
Birt með leyfi Africana Museum í Jóhannesarborg.