Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva með trygglyndi

Þjónaðu Jehóva með trygglyndi

Þjónaðu Jehóva með trygglyndi

„Gagnvart trygglyndum ert þú [Jehóva] trygglyndur.“ — 2. SAMÚELSBÓK 22:26, NW.

1. Hvernig kemur Jehóva fram við þá sem eru honum tryggir?

 ENGINN getur endurgoldið Jehóva allt það sem hann gerir fyrir þjóna sína. (Sálmur 116:12) Andlegar og efnislegar gjafir hans og miskunn er stórkostleg. Davíð konungur Ísraels til forna vissi að Guð er líka tryggur þeim sem eru honum tryggir. Davíð lét það í ljós í ljóði sem hann orti „þá er [Jehóva] frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls [konungs].“ — 2. Samúelsbók 22:1.

2. Nefndu nokkur atriði sem koma fram í ljóði Davíðs í 2. Samúelsbók 22. kafla.

2 Davíð hóf ljóð sitt (sem er hliðstætt Sálmi 18) með því að lofa Jehóva: „Hann er sá sem hjálpar“ með því að svara bænum. (2. Samúelsbók 22:2-7) Frá himnesku musteri sínu frelsaði Guð trúan þjón sinn af hendi öflugra óvina. (Vers 8-19) Davíð var þannig umbunað fyrir að varðveita vegu Jehóva og vera ráðvandur. (Vers 20-27) Þessu næst tíundar hann verk sem unnin voru í krafti Guðs. (Vers 28-43) Að síðustu nefndi Davíð lausn af hendi aðfinnslumanna heima fyrir og erlendra óvina og þakkaði Jehóva, honum sem „veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða.“ (Vers 44-51) Jehóva getur frelsað okkur líka ef við erum ráðvönd og reiðum okkur á styrk frá honum.

Það sem það merkir að vera trygglyndur

3. Hvað merkir trygglyndi eða hollusta í biblíulegum skilningi?

3 Ljóð Davíðs um frelsun veitir okkur þessa hughreystingu og fullvissu: „Gagnvart trygglyndum ert þú [Jehóva] trygglyndur.“ (2. Samúelsbók 22:26) Hér er notað hebreska orðið chasiðʹ sem merkir „sá sem er tryggur“ eða „sá sem sýnir ástúðlega góðvild.“ (Sálmur 18:25, neðanmáls, NW) Nafnorðið cheʹseð felur í sér hugmyndina um góðvild sem tengist með ástúð ákveðnu viðfangi uns tilganginum með því er náð. Jehóva sýnir þjónum sínum þess konar góðvild, líkt og þeir sýna honum. Þessi réttláta, heilaga hollusta eða trygglyndi er þýtt „ástúðleg góðvild“ og „tryggur kærleikur.“ (1. Mósebók 20:13; 21:23, NW) Í Grísku ritningunum felur „trygglyndi“ eða „hollusta“ í sér hugmyndina um heilagleika og lotningu sem tjáð er með nafnorðinu hosioʹtes og lýsingarorðinu hoʹsios. Slíkt trygglyndi felur í sér trúfesti og hollustu og merkir að vera einlægur og rækja vandlega allar skyldur sínar við Guð. Að vera Jehóva tryggur eða hollur merkir að halda sér svo fast við hann að það sé eins og sterkt lím bindi okkur honum.

4. Hvernig birtist hollusta við Jehóva?

4 Trygglyndi Jehóva sjálfs birtist á marga vegu. Til dæmis fullnægir hann dómi á óguðlegum vegna síns trygglynda kærleika til þjóna sinna og tryggðar sinnar við réttvísi og réttlæti. (Opinberunarbókin 15:3, 4; 16:5) Tryggð hans við sáttmála sinn við Abraham fékk hann til að vera langlyndur við Ísraelsmenn. (2. Konungabók 13:23) Þeir sem eru Guði tryggir geta reitt sig á að hann hjálpi þeim að ganga trúfastir allt til enda og mega treysta að hann muni eftir þeim. (Sálmur 37:27, 28; 97:10) Sú vitneskja að sál hans, ‚hins trúfasta‘ þjóns Guðs, yrði ekki eftir skilin í Séol styrkti Jesú. — Sálmur 16:10; Postulasagan 2:25, 27.

5. Hvers krefst Jehóva af þjónum sínum úr því að hann er trygglyndur og hvaða spurningu munum við ígrunda?

5 Þar eð Jehóva Guð er trygglyndur krefst hann trygglyndis af þjónum sínum. (Efesusbréfið 4:24) Til dæmis verða karlmenn að vera trygglyndir til að vera hæfir til útnefningar sem safnaðaröldungar. (Títusarbréfið 1:8) Hvað gæti komið þjónum Jehóva til að þjóna honum með trygglyndi?

Jákvætt mat á því sem við höfum lært

6. Hvernig ættum við að líta á það sem við höfum lært af Biblíunni og hvað ættum við að muna varðandi slíka þekkingu?

6 Þakklæti fyrir það sem við höfum lært frá Biblíunni ætti að koma okkur til að þjóna Jehóva með hollustu. Páll postuli hvatti Tímóteus: „En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Mundu að slík þekking kom frá Guði fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.

7. Hvað ætti öldungunum að finnast um andlegu fæðuna sem Guð gefur fyrir milligöngu hins trúa þjóns?

7 Einkanlega ættu hinir útnefndu öldungar að meta að verðleikum hina næringarríku andlegu fæðu sem Guð gefur fyrir milligöngu hins trúa þjóns. Fyrir mörgum árum skorti fáeina öldunga slíkt jákvætt mat. Einstaklingur, sem varð vitni að því, sagði að þessir menn hafi „gagnrýnt greinarnar í Varðturninum og ekki viljað taka við þeim sem . . . sannleiksboðleið Guðs og hafi stöðugt verið að reyna að hafa áhrif á hugarfar annarra.“ En trygglyndir öldungar reynda aldrei að koma öðrum til að hafna nokkru af andlegu fæðunni sem Guð lætur í té fyrir milligöngu hins trúa þjóns.

8. Hvað eigum við að gera ef við skiljum ekki til fulls eitthvert biblíuatriði sem hinn trúi og hyggni þjónn kemur fram með?

8 Sem vígðir vottar Jehóva verðum við öll að sýna honum og skipulagi hans tryggð. Við ættum aldrei einu sinni að ígrunda það að snúa baki við hinu undursamlega ljósi Guðs og fara út á fráhvarfsbraut sem getur leitt til andlegs dauða núna og tortímingar að lokum. (Jeremía 17:13) En hvað þá ef við eigum erfitt með að meðtaka eða skilja til fulls eitthvert biblíuatriði sem hinn trúi þjónn hefur komið fram með? Þá skulum við auðmjúk í bragði viðurkenna hvar við lærðum sannleikann og biðja um visku til að standast þessa prófraun uns henni lýkur með því að ítarlegri skýringar eru birtar um málið. — Jakobsbréfið 1:5-8.

Metum hið kristna bræðralag að verðleikum

9. Hvernig sýnir 1. Jóhannesarbréf 1:3-6 að kristnir menn verða að láta bróðurþel ríkja sín á meðal?

9 Ef við metum af öllu hjarta vináttuböndin innan kristins bræðralags okkar er það okkur einnig hvatning til að þjóna Jehóva með trygglyndi. Samband okkar við Guð og Krist getur ekki verið andlega heilbrigt ef þennan anda skortir. Jóhannes postuli sagði smurðum kristnum mönnum: „Það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. . . . Ef vér segjum: ‚Vér höfum samfélag við hann,‘ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.“ (1. Jóhannesarbréf 1:3-6) Þessi meginregla á við um alla kristna menn, hvort heldur von þeirra er himnesk eða jarðnesk.

10. Hvernig leit Páll á Evódíu og Sýntýke enda þótt þær ættu greinilega erfitt með að leysa ágreining sín í milli?

10 Það kostar viðleitni að viðhalda bróðurþeli. Til dæmis virtust tvær kristnar konur, Evódía og Sýntýke, eiga erfitt með að setja niður ósamkomulag sín í milli. Páll hvatti þær því til að „vera samlyndar vegna Drottins.“ Hann bætti við: „Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók.“ (Filippíbréfið 4:2, 3) Þessar guðræknu konur höfðu barist hlið við hlið með Páli og öðrum „við boðun fagnaðarerindisins“ og hann var viss um að þær væru meðal hinna mörgu sem ‚ættu nöfn sín rituð í lífsins bók.‘

11. Hvað væri viðeigandi að hafa í huga ef trygglyndur kristinn maður lendir í andlegum erfiðleikum?

11 Kristnir menn ganga ekki með heiðursmerki til að sýna hvaða sérréttindi þeir hafi hlotið í skipulagi Jehóva og hvernig þeir hafi þjónað honum með hollustu. Ef þeir eiga í andlegum vandamálum væri það kærleikslaust að taka ekki tillit til margra ára dyggrar þjónustu við Jehóva! Líklega var sá sem kallaður er „trúlyndi samþjónn“ tryggur bróðir sem var meira en fús til að hjálpa öðrum. Ef þú ert öldungur, ertu þá ‚trúlyndur samþjónn,‘ reiðubúinn að veita umhyggjusama hjálp? Megum við öll líkja eftir Guði og íhuga hið góða, sem trúbræður okkar gera, og hjálpa þeim á kærleiksríkan hátt að bera byrðar sínar. — Galatabréfið 6:2; Hebreabréfið 6:10.

Við getum ekki farið annað

12. Hvaða afstöðu tók Pétur þegar orð Jesú komu ‚mörgum lærisveinum til að hverfa frá‘?

12 Við finnum okkur knúin til að þjóna Jehóva dyggilega með skipulagi hans ef við munum að við getum ekki leitað neitt annað ef við viljum hljóta eilíft líf. Þegar orð Jesú komu sumum ‚lærisveinum hans til að hverfa frá‘ spurði hann postula sína: „Ætlið þér að fara líka?“ Pétur svaraði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ — Jóhannes 6:66-69.

13, 14. (a) Hvers vegna hafði gyðingdómurin á fyrstu öld ekki velþóknun Guðs? (b) Hvað sagði gamalreyndur vottur Jehóva um sýnilegt skipulag Guðs?

13 „Orð eilífs lífs“ var ekki að finna í gyðingdómnum á fyrstu öld. Höfuðsynd hans var sú að hafna Jesú sem Messíasi. Engin af greinum gyðingdómsins byggðist eingöngu á Hebresku ritningunum. Saddúkearnir afneituðu tilvist engla og trúðu ekki á upprisuna. Enda þótt farísearnir hafi verið þeim ósammála að þessu leyti drýgðu þeir þá synd að ógilda orð Guðs með óbiblíulegum erfikenningum sínum. (Matteus 15:1-11; Postulasagan 23:6-9) Þessar erfikenningar þrælkuðu Gyðingana og gerðu mörgum erfitt að viðurkenna Jesú Krist. (Kólossubréfið 2:8) Kostgæfni vegna ‚erfikenninga forfeðra sinna‘ kom Sál (Páli) til að ofsækja fylgjendur Krists grimmilega í fáfræði sinni. — Galatabréfið 1:13, 14, 23.

14 Gyðingdómurinn hafði ekki hylli Guðs en Jehóva blessaði skipulag fylgjenda sonar síns — ‚menn sem voru kostgæfir til góðra verka.‘ (Títusarbréfið 2:14) Þetta skipulag stendur enn og maður, sem hefur verið vottur Jehóva lengi, sagði um það: „Ef eitthvað eitt hefur verið mér þýðingarmest hefur það verið það að halda mér fast við sýnilegt skipulag Jehóva. Reynsla mín fyrr á árum kenndi mér hve óskynsamlegt það væri að treysta á mannlega rökfærslu. Eftir að ég hafði komist að þeirri niðurstöðu ákvað ég að halda mér við hið trúfasta skipulag. Með hvaða öðrum hætti var hægt að öðlast hylli Jehóva og blessun?“ Hylli Guðs og eilíft líf er hvergi annars staðar að finna.

15. Hvers vegna ber okkur að vinna með sýnilegu skipulagi Guðs og þeim sem bera ábyrgðina innan þess?

15 Hjörtu okkar ættu að knýja okkur til að vinna með skipulagi Jehóva vegna þess að við vitum að einungis því er stýrt af anda hans og það eitt kunngerir nafn hans og tilgang. Að sjálfsögðu eru þeir sem axla ábyrgðina innan þess ófullkomnir. (Rómverjabréfið 5:12) En „reiði [Jehóva] upptendraðist gegn“ Aroni og Mirjam þegar þau fundu að Móse og gleymdu að Guð hafði treyst honum, ekki þeim, fyrir ábyrgð. (4. Mósebók 12:7-9) Drottinhollir kristnir menn nú á dögum vinna með ‚þeim sem fara með forystuna‘ vegna þess að það er það sem Jehóva krefst. (Hebreabréfið 13:7, 17) Það að sækja kristnar samkomur reglulega og gefa athugasemdir til að ‚hvetja aðra til kærleika og góðra verka‘ er, ásamt öðru, merki um trygglyndi okkar. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Vertu uppbyggjandi

16. Hvaða löngun ætti einnig að koma okkur til að þjóna Jehóva dyggilega?

16 Löngun til að vera uppbyggjandi fyrir aðra ætti einnig að örva okkur til að þjóna Jehóva dyggilega. Páll skrifaði: „Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.“ (1. Korintubréf 8:1) Með því að viss tegund þekkingar blés upp þá sem höfðu hana hlýtur Páll að hafa átt við að kærleikurinn byggði einnig upp þá sem sýndu þann eiginleika. Bók eftir prófessorana Weiss og English segir: „Sá maður sem er fær um að elska er yfirleitt elskaður á móti. Hæfnin til að láta góðvild og tillitssemi ná til allra sviða lífsins . . . hefur áberandi uppbyggileg áhrif á þann sem sýnir slíkar tilfinningar og eins þann sem þær eru sýndar, þannig að báðir hafa ánægju af.“ Með því að sýna kærleika uppbyggjum við sjálfa okkur og aðra eins og gefið er í skyn í orðum Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

17. Hvernig byggir kærleikurinn upp og hvað hindrar hann okkur í að gera?

17 Í 1. Korintubréfi 8:1 notaði Páll gríska orðið agaʹpe er merkir kærleika sem lífsreglu. Hann byggir upp því að hann er langlyndur og góðviljaður, umber og þolir allt og bregst aldrei. Þessi kærleikur bægir frá skaðlegum kenndum, svo sem stolti og afbrýði. (1. Korintubréf 13:4-8) Slíkur kærleikur hindrar okkur í að kvarta undan bræðrum okkar sem eru ófullkomnir alveg eins og við. Hann hindrar okkur í að verða eins og ‚óguðlegu mennirnir‘ sem höfðu ‚læðst inn‘ meðal sannkristinna manna á fyrstu öld. Þessir menn ‚mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum,‘ greinilega með því að rægja einstaklinga svo sem smurða kristna umsjónarmenn er veitt hafði verið ákveðin tign. (Júdasarbréfið 3, 4, 8) Sökum hollustu við Jehóva skulum við aldrei láta undan freistingu til að gera eitthvað svipað.

Standið gegn djöflinum!

18. Hvað vildi Satan geta gert þjónum Jehóva en hvers vegna getur hann það ekki?

18 Sú vitneskja að Satan vilji spilla einingu okkar sem þjóna Guðs ætti að efla þá einbeitni okkar að þjóna Jehóva dyggilega. Satan vildi jafnvel gera út af við alla þjóna Guðs og jarðneskir þjónar djöfulsins drepa stundum sanna guðsdýrkendur. En Guð mun ekki leyfa Satan að drepa þá alla. Jesús dó til að hann „gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn.“ (Hebreabréfið 2:14) Einkum hefur valdasvið Satans verið takmarkað síðan honum var varpað niður af himnum eftir að Kristur varð konungur árið 1914. Og á tilsettum tíma Jehóva mun Jesús eyða Satan og skipulagi hans.

19. (a) Hvernig varaði þetta tímarit fyrir mörgum árum við tilraunum Satans? (b) Hvers ættum við að gæta í samskiptum við trúbræður okkar til að forðast snörur Satans?

19 Þetta tímarit aðvaraði einu sinni: „Ef Satan djöfullinn getur valdið ringulreið meðal þjóna Guðs, getur komið þeim til að deila og takast á sín á milli eða sýna og byggja upp með sér eigingirni sem myndi spilla kærleika þeirra til bræðranna, þá myndi honum þar með takast að gleypa þá.“ (Varðturninn, 1. maí 1921, bls. 134) Leyfum djöflinum aldrei að spilla einingu okkar, kannski með því lokka okkur til að rægja hver annan eða deila. (3. Mósebók 19:16) Megi Satan aldrei takast að gabba okkur þannig að við persónulega vinnum þeim sem þjóna Jehóva tjón eða gerum þeim erfiðara fyrir. (Samanber 2. Korintubréf 2:10, 11.) Förum heldur eftir orðum Péturs: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni.“ (1. Pétursbréf 5:8, 9) Með því að standa einarðlega gegn Satan varðveitum við blessunarríka einingu okkar sem þjónar Jehóva. — Sálmur 133:1-3.

Haltu þig nærri Guði í bæn

20, 21. Hvers vegna er náið bænasamband við Jehóva tengt því að þjóna honum dyggilega?

20 Að halda sér nærri Jehóva í bæn hjálpar okkur að halda áfram að þjóna honum dyggilega. Þegar við sjáum að hann svarar bænum okkar dregur það okkur enn nær honum. Páll hvatti til þess að við reiddum okkur á Jehóva Guð og ættum náið bænasamband við hann: „Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.“ (1. Tímóteusarbréf 2:8) Til dæmis er það mjög þýðingarmikið að öldungar reiði sig á Guð og eigi náið bænasamband við hann. Slík hollusta við Jehóva þegar þeir koma saman til að ræða málefni safnaðarins á sinn þátt í að koma í veg fyrir endalausar þrætur og hugsanleg reiðiköst.

21 Það að reiða okkur á Jehóva Guð og tala við hann í bæn hjálpar okkur að sinna þeim verkefnum sem við höfum í þjónustu hans. Maður, sem hafði þjónað Jehóva trúfastur um áratugaskeið, gat sagt: „Séum við fús til að þiggja hvert það verkefni sem okkur er falið í heimsskipulagi Guðs og gegna skyldu okkar án þess að hvika, kallar það fram velþóknunarbros Jehóva af því að við höfum gert okkar besta. Jafnvel þótt verkefnið, sem okkur er falið, virðist lítilmótlegt kemur oft í ljós að mörg önnur mikilvæg verkefni væru óframkvæmanleg ef það væri ekki gert samviskusamlega. Ef við erum auðmjúk og höfum áhuga á að vegsama nafn Jehóva en ekki okkar eigið, þá getum við verið viss um að við verðum alltaf ‚staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Jehóva.‘“ — 1. Korintubréf 15:58.

22. Hvaða áhrif ættu hinar mörgu blessanir Jehóva að hafa á hollustu okkar?

22 Óháð því hvað við gerum í þjónustu Jehóva getum við að sjálfsögðu ekki endurgoldið honum það sem hann hefur gert fyrir okkur. Við finnum til mikils öryggis innan skipulags Guðs þar sem við erum umkringd vinum hans! (Jakobsbréfið 2:23) Jehóva hefur blessað okkur með einingu sem er sprottin af svo djúpri bróðurást að Satan getur ekki einu sinni upprætt hana. Við skulum því halda okkur fast við tryggan föður okkar á himnum og vinna saman sem þjónar hans. Þjónum Jehóva með trygglyndi nú og um alla eilífð.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað merkir það að vera trygglyndur?

◻ Nefndu sumt af því sem ætti að koma okkur til að þjóna Jehóva dyggilega?

◻ Hvers vegna verðum við að standa gegn djöflinum?

◻ Hvernig getur bæn hjálpað okkur að vera trygglyndir þjónar Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 31]

Dyggir þjónar Jehóva leyfa ekki óvini sínum, djöflinum sem er eins og ljón, að spilla einingu sinni.