Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Erfiðleikar fjölskyldunnar — tímanna tákn

Erfiðleikar fjölskyldunnar — tímanna tákn

Erfiðleikar fjölskyldunnar — tímanna tákn

MARGIR líta á erfiðleika fjölskyldunnar sem merki þess að hið hefðbundna fjölskyldumynstur sé úrelt. Sumir sjá erfiðleikana sem afleiðingu pólitískra, efnahagslegra og þjóðfélagslegra breytinga. Aðrir líta einungis á þá sem hluta af herkostnaði tækninnar. En í raun benda þau vandamál, sem fjölskyldur kljást við nú á dögum, á eitthvað sem er margfalt þýðingarmeira. Taktu eftir orðum Biblíunnar í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-4:

„Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.“

Sýna þessi orð ekki hver sé raunveruleg undirrót þeirra vandamála sem við er að glíma nú á dögum? Erfiðleikar fjölskyldunnar eru greinilega bein afleiðing þess ástands sem spáð var að myndi verða á síðustu dögum þessa heims. Og mjög sterk rök eru fyrir því að þessir erfiðleikatímar hafi hafist árið 1914. * Upp frá því hefur ofurmannleg andavera, sem nefnd er Satan djöfullinn, látið finna sérstaklega fyrir lífshættulegum áhrifum sínum. — Matteus 4:8-10; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Upp frá 1914 hefur athafnasvið Satans verið takmarkað við næsta nágrenni jarðar og hann er „í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:7-12) Með því að Satan er svarinn óvinur þess Guðs, sem „hvert faðerni [„fjölskylda,“ NW] fær nafn af á himni og jörðu,“ er ekkert undarlegt að þrengt sé mjög að fjölskyldunni. (Efesusbréfið 3:15) Satan er staðráðinn í að snúa öllu mannkyni frá Guði. Hvaða betri leið gæti hann notað en að þjaka fjölskylduna með alls konar vandamálum?

Það þarf meira en tunguliprar kenningar svokallaðra sérfræðinga til að vernda fjölskylduna fyrir slíkri ofurmannlegri árás. Þó segir Biblían um Satan: „Ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.“ (2. Korintubréf 2:11) Það er töluverð vernd fólgin í því að vita hvaða myndir árásir hans taka á sig.

Peningar og vinna

Fjárhagslegur þrýstingur er eitt af öflugustu árásarvopnum Satans. Núna standa yfir „örðugar tíðir“ eða „streitutímar,“ eins og Revised Standard Version orðar 2. Tímóteusarbréf 3:1. Í þróunarlöndunum geta vandamál á borð við atvinnuleysi, lág laun og skort á brýnustu nauðsynjum valdið fjölskyldum miklum erfiðleikum. En jafnvel í tiltölulega efnuðum ríkjum valda efnahagserfiðleikar ýmsum vandamálum. Bandarísk könnun leiddi í ljós að peningar eru eitt algengasta deiluefni fjölskyldna. Bókin Secrets of Strong Families segir að sá „tími, athygli og orka,“ sem vinnan krefst, geti líka verið „lævís óvinur“ sem grefur undan samheldni hjóna.

Kringumstæður hafa neytt fleiri konur en nokkru sinni fyrr út á vinnumarkaðinn. Rithöfundurinn Vance Packard segir: „Um þessar mundir stunda mæður að minnsta kosti fjórðungs bandarískra ungbarna og barna yngri en þriggja ára einhvers konar vinnu utan heimilis.“ Að fullnægja næstum óseðjandi þörfum ungra barna auk þess að vinna utan heimilis getur verið óhemjulýjandi — og haft neikvæð áhrif bæði á foreldra og börn. Packard bætir því við að vegna skorts á fullnægjandi gæslu handa börnum í Bandaríkjunum fari „margar milljónir barna á mis við góða umönnun á fyrstu æviárum sínum.“ — Our Endangered Children.

Vinnustaðurinn grefur oft undan einingu fjölskyldunnar. Margir dragast inn í ástarævintýri með vinnufélögum. Sumir gera sig upptekna af fánýtu framakapphlaupi og fórna fjölskyldulífi sínu fyrir starfsframa. (Samanber Prédikarann 4:4.) Maður nokkur varð svo gagntekinn af starfi sínu sem sölufulltrúi að eiginkona hans lýsti sjálfri þannig að hún væri „eiginlega einstæð móðir.“

Hjúskaparböndin veikjast

Hjónabandið sjálft sem stofnun eða hefð sætir líka árásum. Bókin The Intimate Environment segir: „Áður fyrr var reiknað með að hjón héldu saman nema annað hvort þeirra bryti alvarlega gegn hjúskaparheitinu — með hjúskaparbroti, grimmd eða algerri vanrækslu. Núna líta flestir á persónulega fullnægju sem tilgang hjónabandsins.“ Já, hjónabandið er notað sem mótefni gegn óhamingju, leiðindum eða einmanakennd — ekki sem ævilanga skuldbindingu gagnvart öðrum einstaklingi. Núna er áherslan lögð á það hvað hægt sé að hafa út úr hjónabandinu, ekki hvað lagt sé í það. (Lestu til samanburðar Postulasöguna 20:35.) Þessi „veigamikla viðhorfsbreyting til hjónabands“ hefur veikt hjúskaparböndin til muna. Þegar einstaklingsbundinni fullnægju er ekki lengur fyrir að fara er oft litið á skilnað sem auðvelda lausn.

Spádómur í Biblíunni lýsir fólki á „síðustu dögum“ svo að það ‚hafi á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneiti krafti hennar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:4, 5) Margir sérfræðingar telja að dvínandi áhrif trúar hafi átt sinn þátt í að veikja grundvöll hjónabandsins. Dr. Diane Medved segir í bók sinni The Case Against Divorce: „Flest trúarbrögð kenna að Guð hafi sagt hjónabandið vera varanlegt. Þegar maður er ekki viss um að Guð sé til eða trúir ekki á hann gerir maður það sem manni sýnist.“ Af því leiðir að fólk reynir ekki að finna nothæfar lausnir þegar vandamál verða í hjónabandi. „Það er fljótt til að gefast upp á öllu saman.“

Æskan sætir árásum

Börn eru að kikna undan álagi nútímans. Átakanlegur fjöldi barna sætir líkamlegu eða andlegu ofbeldi og kynferðislegri misnotkun af hendi foreldra sinna. Milljónir barna fara á mis við ástríka umhyggju beggja foreldra sinna, og sársaukinn, sem fylgir skilnaði þeirra, endist oft ævilangt.

Unglingar verða fyrir gífurlegum áhrifum úr öllum áttum. Fjórtán ára bandarískur unglingur er að jafnaði búinn að horfa á 18.000 morð og ótal aðrar myndir ofbeldis, siðlaust kynlíf, kvalafýsn og glæpi — aðeins með því að horfa á sjónvarpið. Tónlist hefur líka sterk áhrif á unglinga og stór hluti hennar er með hneykslanlega tvíræða, grófa eða jafnvel djöfullega undirtóna. Í skólunum standa unglingar frammi fyrir kenningum svo sem þróunarkenningunni er grafa gjarnan undan trú á Guð og Biblíuna. Hópþrýstingur kemur mörgum til að taka þátt í kynlífi fyrir hjónaband, misnota áfengi eða neyta ávana- og fíkniefna.

Undirrót erfiðleikanna

Fjölskyldan sætir þannig umfangsmiklum og mjög skaðlegum árásum úr öllum áttum. Hvað getur hjálpað fjölskyldum að komast af? Fjölskylduráðgjafinn John Bradshaw segir: „Uppeldisreglur okkar hafa ekki verið endurnýjaðar svo nokkru nemi í 150 ár. . . . Ég álít að gömlu reglurnar dugi ekki lengur.“ En fleiri mannareglur eru engin lausn. Jehóva Guð er höfundur fjölskyldunnar. Hann veit betur en nokkur annar hve mikilvægu hlutverki fjölskyldulíf gegnir í hamingju okkar og hvað þarf til að fjölskyldan sé sterk og hamingjusöm. Ætti það að koma okkur á óvart að orð hans, Biblían, skuli hafa lausnina á erfiðleikum fjölskyldunnar?

Þessi forna bók skýrir fyrir okkur hvað fór úrskeiðis í fjölskyldulífinu. Fyrstu hjónin, Adam og Eva, voru sett í undurfagran garð og fengu það umbunarríka en krefjandi verkefni að breyta allri jörðinni í paradís. Guð fól Adam að vera höfuð fjölskyldunnar. Eva átti að vinna með honum sem „meðhjálp“ hans eða „fylling.“ En Eva gerði uppreisn gegn þessu fyrirkomulagi. Hún braust undan forystu eiginmanns síns og óhlýðnaðist eina banninu sem Guð hafði sett þeim. Adam afsalaði sér forystu sinni og gekk í lið með henni í uppreisninni. — 1. Mósebók 1:26–3:6.

Eyðileggingaráhrif þess að víkja frá fyrirkomulagi Guðs komu þegar í stað í ljós. Adam og Eva voru ekki lengur hrein og saklaus og fylltust skömm og sektarkennd. Adam, sem hafði áður lýst konu sinni á fögru ljóðmáli, talaði nú kuldalega um hana sem ‚konuna sem þú gafst mér.‘ Þessi neikvæðu orð voru aðeins upphafið að erfiðleikum hjónabandsins. Misheppnaðar tilraunir Adams til að ná aftur forystuhlutverki sínu myndu hafa í för með sér að hann ‚drottnaði yfir eiginkonu sinni.‘ Eva myndi aftur á móti „hafa löngun til“ manns síns, líklega óhóflega eða úr jafnvægi. — 1. Mósebók 2:23; 3:7-16.

Ekki er að undra að hjónaerjur Adams og Evu skyldu hafa skaðleg áhrif á afkomendur þeirra. Fyrsti sonur þeirra, Kain, framdi morð með köldu blóði. (1. Mósebók 4:8) Lamek, afkomandi Kains, jók á hnignun fjölskyldunnar með því að gerast fyrsti fjölkvænismaðurinn sem sögur fara af. (1. Mósebók 4:19) Þannig gáfu Adam og Eva afkomendum sínum að erfðum bæði synd og dauða og sjúkt fjölskyldumynstur sem hefur verið hlutskipti mannkynsins allar götur síðan. Núna á síðustu dögum hefur sundrung fjölskyldunnar náð hámarki.

Fjölskyldur sem dafna

Ekki eru þó allar fjölskyldur að kikna undan álagi nútímans. Ein hjón með tvær dætur búa í litlu bæjarfélagi í Bandaríkjunum. Enda þótt kynslóðabil milli foreldra og barna sé algengt meðal nágranna þeirra gætir þess ekki hjá þeim og þau hafa ekki áhyggjur af því að dætur þeirra fari að fikta við fíkniefni eða kynlíf. Á mánudagskvöldum, þegar aðrir unglingar sitja sem límdir við sjónvarpið, safnast öll fjölskyldan saman við borðstofuborðið til biblíunáms. „Mánudagskvöld er kvöldið okkar til að vera saman og tala saman,“ segir hann. „Dætrum okkar finnst þær geta talað óhikað við okkur um vandamál sín.“

Einstæð móðir í New York á líka mjög náið samband við dætur sínar tvær. Hvert er leyndarmál hennar? „Við höfum slökkt á sjónvarpinu á virkum dögum,“ segir hún. „Við ræðum saman um ritningarstað í Biblíunni á hverjum degi. Við tökum okkur líka eitt kvöld til fjölskyldubiblíunáms.“

Báðar þessar fjölskyldur eru vottar Jehóva. Þær fylgja þeim leiðbeiningum sem fjölskyldum eru gefnar í Biblíunni — leiðbeiningum sem duga. En þessar fjölskyldur eru ekkert einsdæmi. Til eru svipaðar fjölskyldur í hundruðþúsundatali sem sjá góðan árangur af því að fylgja þeim reglum sem þessi bók setur um fjölskyldulíf. * Hverjar eru þessar reglur? Hvernig geta þær komið þér og fjölskyldu þinni að gagni? Við hvetjum þig til að lesa svörin í greinunum sem hefjast á næstu blaðsíðu.

[Neðanmáls]

^ Frekari rök fyrir því að hinir síðustu dagar hafi hafist árið 1914 er að finna í 18. kafla bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Vottar Jehóva bjóða fólki ókeypis biblíunám og aðstoð við að nota meginreglur Biblíunnar innan fjölskyldunnar. Þú getur komist í samband við þá með því að skrifa eða hringja til útgefenda þessa tímarits.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Bágur efnahagur veldur fjölskyldum miklum erfiðleikum í þróunarlöndunum.

Ljósmynd: Bandaríski sjóherinn.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Margar fjölskyldur standast álag nútímans með því að fylgja meginreglum Biblíunnar.