Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjölskyldan sætir árásum!

Fjölskyldan sætir árásum!

Fjölskyldan sætir árásum!

„FJÖLSKYLDAN er elsta stofnun mannkynsins. Á marga vegu er hún hin mikilvægasta. Hún er helsta grundvallareining þjóðfélagsins. Heilar menningarþjóðir hafa staðið af sér strauma tímans eða horfið eftir því hvort fjölskyldulífið hvíldi á sterkum grunni eða veikum.“

Þannig fórust The World Book Encyclopedia orð árið 1973. Séð frá sjónarhóli nútímans taka þessi orð á sig ógnvænlegan, næstum illsvitandi blæ. Síðustu ár höfum við orðið vitni að nánast beinni árás á fjölskylduna. Hinn kunni ráðgjafi John Bradshaw segir: „Fjölskyldan á í vök að verjast nú á tímum. . . . Tíðir skilnaðir, unglingavandamál, stórfelld fíkniefnanotkun, flóðbylgja sifjaspella, næringarkvillar og líkamlegar misþyrmingar eru merki þess að eitthvað alvarlegt sé að.“

Svo sannarlega sjást „merki þess að eitthvað alvarlegt sé að“ á vettvangi fjölskyldulífs út um allan heim. The Unesco Courier sagði um ástandið í Evrópu: „Frá 1965 hefur hjónaskilnuðum stórfjölgað út um alla Evrópu. . . . Einstæðum foreldrum hefur fjölgað.“ Ekki fara þróunarlöndin heldur varhluta af erfiðleikum fjölskyldulífsins. Rithöfundurinn Hélène Tremblay segir: „Nútíminn er tími ringulreiðar hjá milljónum manna í þjóðfélögum sem hafa um aldaraðir búið við stöðuga, fyrirsjáanlega, óbreytanlega lífshætti.“

Andrúmsloftið sem ríkir á fjölmörgum heimilum nú á tímum vekur sérstakan ugg. Í Bandaríkjunum einum alast milljónir barna upp hjá drykkjusjúku foreldri. Heimilisofbeldi hefur einnig aukist óhugnanlega. Í bók sinni Intimate Violence segja rannsóknarmennirnir Richard Gelles og Murray Straus: „Í okkar samfélagi er heimilið líklegasti vettvangur líkamsárása, barsmíða og manndrápa og mestar líkur á að gerandinn sé ástvinur.“

Ef siðmenningin er í raun og veru háð styrk fjölskyldunnar er sannarlega ástæða til að óttast um framtíð siðmenningarinnar. En örlög siðmenningarinnar eru kannski sísta áhyggjuefni þitt. Trúlega hefur þú meiri áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi upplausn getur hugsanlega vitað á fyrir þína eigin fjölskyldu. Hvernig endar þetta? Traustur aðili hefur svar við því sem kann að koma þér á óvart.