‚Hver er sem Jehóva, Guð okkar?‘
‚Hver er sem Jehóva, Guð okkar?‘
„Hver er sem [Jehóva], Guð vor? Hann situr hátt.“ — SÁLMUR 113:5.
1, 2. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á Guð og Biblíuna? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
ÞEIR sem lofsyngja Jehóva njóta mikillar blessunar. Það eru mikil sérréttindi að tilheyra þessum hamingjusama hópi. Sem vottar Jehóva tökum við á móti heilræðum, lögum, kenningum, fyrirheitum og spádómum orðs Guðs, Biblíunnar. Við fögnum því að læra frá Ritningunni og vera „af Guði fræddir.“ — Jóhannes 6:45.
2 Þar eð vottar Jehóva bera djúpa lotningu fyrir Guði geta þeir spurt: „Hver er sem [Jehóva], Guð vor?“ (Sálmur 113:5) Þessi orð sálmaritarans bera vitni um trú. En hvers vegna hafa vottarnir slíka trú á Guð? Hvaða ástæður hafa þeir til að lofsyngja Jehóva?
Trú og lofsöngur við hæfi
3. Hvað eru hallelsálmarnir og hvers vegna eru þeir kallaðir því nafni?
3 Það er réttlætanlegt að trúa á Jehóva vegna þess að hann er einstæður Guð. Það er undirstrikað í Sálmi 113, 114 og 115 sem eru hluti hinna sex hallelsálma. Að sögn rabbínaskóla Hillels voru Sálmur 113 og 114 sungnir við páskamáltíð Gyðinga eftir að hellt var í annan vínbikarinn og þýðing hátíðarinnar útskýrð. Sálmur 115 til 118 voru sungnir eftir fjórða vínbikarinn. (Samanber Matteus 26:30.) Þessir sálmar eru kallaðir „hallelsálmar“ vegna þess hve oft orðin „halelúja“ — lofið Jah — eru endurtekin í þeim.
4. Hvað merkir orðið „halelúja“ og hve oft stendur það í Biblíunni?
4 „Halelúja“ er umritun hebresks orðs sem kemur 24 sinnum fyrir í Sálmunum. Annars staðar í Biblíunni kemur grísk mynd þess fjórum sinnum fyrir í tengslum við gleði yfir eyðingu Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða, og fögnuði samfara því að Jehóva Guð byrjaði að ríkja sem konungur. (Opinberunarbókin 19:1-6) Við ætlum nú að rannsaka þrjá hallelsálma og við skulum reyna að ímynda okkur að við séum að syngjum þá Jehóva til lofs.
Lofið Jah!
5. Hvaða spurningu svarar Sálmur 113 og við hverja eiga fyrirmælin í Sálmi 113:1, 2 sérstaklega?
5 Sálmur 113 svarar því hvers vegna við eigum að lofa Jehóva. Hann hefst með orðunum „Halelúja. Þjónar [Jehóva], lofið, lofið nafn [Jehóva]. Nafn [Jehóva] sé blessað héðan í frá og að eilífu.“ (Sálmur 113:1, 2) „Halelúja.“ Já, „lofið Jah!“ Þetta boð á einkanlega við þjóna Guðs núna á ‚endalokatímanum.‘ (Daníel 12:4) Héðan í frá og um alla eilífð skal nafn Jehóva vera upphafið um víða veröld. Vottar hans boða núna að Jehóva sé Guð, Kristur konungur og að ríki hans hafi verið stofnsett á himnum. Satan djöfullinn og skipulag hans geta ekki komið í veg fyrir að Jehóva sé sungið lof.
6. Hvernig er Jehóva lofaður „frá sólarupprás til sólarlags“?
6 Lofsöngurinn mun hljóma uns Jehóva lætur hann fylla alla jörðina. „Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn [Jehóva] vegsamað.“ (Sálmur 113:3) Hér er ekki aðeins átt við daglega tilbeiðslu jarðneskra sköpunarvera. Sólin rís í austri og sest í vestri og skín yfir alla jörðina. Alls staðar þar sem sólin skín eiga allir menn, sem hafa verið frelsaðir úr fjötrum falstrúarbragða og skipulags Satans, bráðlega eftir að lofsyngja nafn hans. Þessi söngur mun reyndar aldrei taka enda og núna syngja smurðir vottar Jehóva hann ásamt þeim sem verða jarðnesk börn konungsins Jesú Krists. Hvílík sérréttindi að mega syngja Jehóva lof!
Jehóva er óviðjafnanlegur
7. Hvaða tvennir yfirburðir Jehóva eru nefndir í Sálmi 113:4?
7 Sálmaritarinn bætir við: „[Jehóva] er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.“ (Sálmur 113:4) Þarna er vakin athygli á tvennum yfirburðum Jehóva: (1) Í augum Jehóva, hins hæsta, sem er „hafinn yfir allar þjóðir,“ eru þær eins og dropi úr skjólu eða ryk á vogarskálum; (Jesaja 40:15; Daníel 7:18) (2) dýrð hans er miklum mun meiri en dýrð efnishiminsins því að englarnir gera konunglegan vilja hans. — Sálmur 19:2, 3; 103:20, 21.
8. Hvers vegna og hvernig sýnir Jehóva lítillæti með því að gefa gaum að málum á himni og á jörð?
8 Snortinn af hágöfgi Jehóva sagði sálmaritarinn: „Hver er sem [Jehóva], Guð vor? Hann situr hátt og horfir djúpt á himni og á jörðu.“ (Sálmur 113:5, 6) Guð er svo hátt upp hafinn að hann verður að lúta lágt til að gefa gaum að því sem gerist á himni og jörð. Enda þótt Jehóva sé undir engan settur sýnir hann lítillæti með því að vera miskunnsamur og hafa meðaumkum með ómerkilegum syndurum. Að Jehóva skyldi gefa son sinn, Jesú Krist, sem ‚friðþægingarfórn‘ fyrir smurða kristna menn og fyrir allan mannheiminn vitnar um lítillæti hans. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
Jehóva er samúðarfullur
9, 10. Hvernig ‚upphefur Jehóva lítilmagnann og lætur hann sitja hjá tignarmönnum‘?
9 Sálmaritarinn leggur áherslu á samúð Jehóva þegar hann segir: „Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans. Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.“ (Sálmur 113:7-9) Þjónar Jehóva trúa því að hann geti frelsað ráðvanda menn sem líða skort, breytt stöðu þeirra og fullnægt réttmætum þörfum þeirra og þrám. ‚Hinn hái og háleiti lífgar anda hinna lítillátu og hjörtu hinna sundurkrömdu.‘ — Jesaja 57:15.
10 Hvernig ‚upphefur Jehóva lítilmagnann og lætur hann sitja hjá tignarmönnum?‘ Þegar það er vilji Guðs setur hann þjóna sína í virðingarstöðu líkt og tignarmanna. Það gerði hann fyrir Jósef sem varð matvælaráðherra Egyptalands. (1. Mósebók 41:37-49) Það þóttu mikil sérréttindi í Ísrael að sitja hjá tignarmönnum eða valdamönnum meðal þjóðar Jehóva. Slíkir menn nutu hjálpar Guðs og blessunar líkt og kristnir öldungar nú á tímum.
11. Hvers vegna má segja að Sálmur 113:7-9 eigi sérstaklega við þjóna Jehóva nú á tímum?
11 Hvað um það að ‚gera óbyrjuna glaða barnamóður?‘ Guð gaf óbyrjunni Hönnu son — Samúel sem hún helgaði þjónustu hans. (1. Samúelsbók 1:20-28) Þýðingarmeira er að frá og með Jesú og úthellingu heilags anda yfir lærisveina hans á hvítasunnunni árið 33 fór táknræn kona Guðs, hin himneska Síon, að eignast andleg börn. (Jesaja 54:1-10, 13; Postulasagan 2:1-4) Og á sama hátt og Guð leiddi Gyðinga aftur heim í land sitt eftir útlegðina í Babýlon, eins frelsaði hann hinar smurðu leifar ‚Ísraels Guðs‘ úr fjötrum Babýlonar og hefur blessað þær svo ríkulega að orðin í Sálmi 113:7-9 eiga við þær. (Galatabréfið 6:16) Sem drottinhollir vottar Jehóva gefa leifar hins andlega Ísraels og félagar þeirra með jarðneska von af öllu hjarta gaum að lokaorðunum í Sálmi 113: „Halelúja,“ eða „lofið Jah.“
Sönnun þess að Jehóva sé einstæður
12. Hvernig sýnir Sálmur 114 að Jehóva er einstakur?
12 Sálmur 114 vitnar til einstæðra atburða í sögu Ísraels til að sýna að Jehóva á engan sinn líka. Sálmaskáldið söng: „Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu, varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.“ (Sálmur 114:1, 2) Guð frelsaði Ísrael undan þrælkun Egypta sem töluðu tungu er var framandi fyrir Ísraelsmenn. Frelsun þjóna Jehóva, sem kallaðir eru Júda og Ísrael í ljóðrænni samsvörun, sýnir að Guð getur frelsað alla þjóna sína nú á tímum.
13. Hvernig lýsir Sálmur 114:3-6 drottinvaldi Jehóva og hvernig eiga orðin við reynslu Ísraels til forna?
13 Drottinvald Jehóva yfir allri sköpuninni er ljóst af orðunum: „Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan. Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb. Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan, þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?“ (Sálmur 114:3-6) Rauðahafið „flýði“ þegar Guð opnaði þjóð sinni braut gegnum það. Ísrael sá hina miklu hönd Jehóva að verki gegn Egyptum sem fórust þegar sjórinn steyptist yfir þá. (2. Mósebók 14:21-31) Guð sýndi mátt sinn á svipaðan hátt þegar Jórdan ‚hörfaði undan‘ þannig að Ísraelsmenn gátu gengið inn í Kanaanland. (Jósúabók 3:14-17) ‚Fjöllin hoppuðu sem hrútar‘ þegar Sínaífjall nötraði og reykur gekk upp af því við gildistöku lagasáttmálans. (2. Mósebók 19:7-18) Þegar kemur að hástigi sálmsins tekur sálmaritarinn að segja frá í spurnarformi, rétt eins og hið lífvana haf, ár, fjöll og hæðir hafi fyllst lotningu við að sjá mátt Jehóva birtast á þennan stórkostlega hátt.
14. Hverju áorkaði kraftur Jehóva við Meríba og Kades og hvernig ætti það að hafa áhrif á nútímaþjóna hans?
14 Sálmaritarinn hélt áfram að fjalla um mátt Jehóva og söng: „Titra þú, jörð, fyrir augliti [Jehóva], fyrir augliti Jakobs Guðs, hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.“ (Sálmur 114:7, 8) Hér gefur sálmaritarinn í skyn á táknmáli að mannkynið ætti að bera óttablandna lotningu fyrir Jehóva, Drottni og herra allrar jarðarinnar. Hann var ‚Guð Jakobs‘ eða Ísraels og hann er einnig Guð andlegra Ísraelsmanna og jarðneskra félaga þeirra. Í Meríba og Kades í eyðimörkinni sýndi Jehóva mátt sinn með því að sjá Ísrael fyrir vatni með kraftaverki og gera „klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.“ (2. Mósebók 17:1-7; 4. Mósebók 20:1-11) Slíkar áminningar um ógurlegan mátt Jehóva og ástríka umhyggju veita vottum hans gildar ástæður til óbifanlegrar trúar á hann.
Ólíkur skurðgoðum
15. Hvernig kann Sálmur 115 að hafa verið sunginn?
15 Sálmur 115 hvetur okkur eindregið til að lofa Jehóva og treysta honum. Sálmurinn segir að blessun og hjálp komi frá honum og sýnir að skurðgoð séu gagnslaus. Þessi sálmur kann að hafa verið sunginn sem víxlsöngur. Ein röddin gat sungið: „Þeir sem óttast [Jehóva] treysta [Jehóva]“ og söfnuðurinn kann að hafa svarað: „Hann er hjálp þeirra og skjöldur.“ — Sálmur 115:11.
16. Hvaða andstæður má draga upp milli Jehóva og skurðgoða þjóðanna?
16 Heiðurinn ætti ekki að veitast okkur heldur nafni Jehóva, Guði ástúðlegrar umhyggju, tryggs kærleika og sannleika. (Sálmur 115:1) Óvinir spyrja kannski hæðnislega: „Hvar er Guð þeirra?“ en þjónar Jehóva geta svarað: „Vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.“ (Vers 2, 3) Skurðgoð þjóðanna geta hins vegar ekkert því að þau eru styttur úr silfri og gulli gerðar af mannahöndum. Þótt þau hafi munn, augu og eyru eru þau mállaus, blind og heyrnarlaus. Þau hafa nef en finna ekki ilm, fætur en geta ekki gengið og háls þeirra kemur engu hljóði upp. Þeir sem búa til gagnslaus skurðgoð og þeir sem treysta þeim verða jafnlífvana. — Vers 4-8.
17. Hvað ættum við að gera úr því að hinir dánu geta ekki lofsungið Jehóva og hvers vegna?
17 Því næst er hvatt til þess að treysta Jehóva sem hjálpara og verndarskildi Ísraels, prestaættar Arons og allra sem óttast Guð. (Sálmur 115:9-11) Við óttumst Jehóva, berum djúpa lotningu fyrir honum og heilnæman ótta við að misþóknast honum. Við trúum líka að ‚skapari himins og jarðar‘ blessi trúa dýrkendur sína. (Vers 12-15) Himinninn er hásæti Guðs en hann gerði jörðina að eilífu heimili drottinholls og hlýðins mannkyns. Úr því að hinir dánu eru þögulir og meðvitundarlausir og geta ekki lofað Jehóva ættum við, hinir lifandi, að gera það með fullkominni tryggð og hollustu. (Prédikarinn 9:5) Þeir einir sem lofa Jehóva munu öðlast eilíft líf og geta ‚lofað Jehóva‘ að eilífu með því að tala lofsamlega um hann „að eilífu.“ Við skulum því taka undir með þeim sem hlýða hvatningunni: „Halelúja“ eða „lofið Jah.“ — Sálmur 115:16-18.
Stórkostlegir eiginleikar Jehóva
18, 19. Á hvaða vegu greina eiginleikar Jehóva hann frá falsguðum?
18 Ólíkt lífvana skurðgoðum er Jehóva lifandi Guð og eiginleikar hans stórkostlegir. Hann er ímynd kærleika og er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann er svo sannarlega ólíkur hinum grimma guði Kanverja, Mólok, sem færð voru börn að fórn! Talið er að þetta guðalíkneski hafi verið í mannsmynd en með nautshöfuð. Sagt er að líkneskið hafi verið hitað uns það var rauðglóandi og börnunum síðan kastað í útrétta arma þess þar sem þau féllu niður í eldsofninn fyrir neðan. En Jehóva er svo kærleiksríkur og miskunnsamur að honum hafði ekki einu sinni „í hug komið“ að láta færa slíkar mannafórnir. — Jeremía 7:31.
19 Meðal höfuðeiginleika Jehóva eru einnig fullkomin réttvísi, óendanleg viska og almætti. (5. Mósebók 32:4; Jobsbók 12:13; Jesaja 40:26) Hvað um guðdóma goðafræðinnar? Í stað þess að iðka réttlæti voru guðir og gyðjur Babýloníumanna hefnigjarnar. Guðir Egypta voru ekkert afbragð annarra hvað visku snerti heldur lýst sem hefðu þeir mannlega veikleika. Það kemur ekki á óvart því að falsguðir og -gyðjur eru uppfinning ‚skynlausra‘ manna sem þykjast vera vitrir. (Rómverjabréfið 1:21-23) Guðir Grikkja eiga að hafa gert samsæri hver gegn öðrum. Goðsagnir herma til dæmis að Seifur hafi misbeitt valdi sínu og steypt föður sínum, Krónusi, af stóli en hann hafði sjálfur steypt föður sínum, Úranusi, af stóli. Það er mikil blessun að þjóna og lofa Jehóva, hinn lifandi og sanna Guð sem sýnir fullkominn kærleika, réttvísi, visku og mátt!
Jehóva verðskuldar eilíft lof
20. Hvaða ástæður benti Davíð konungur á fyrir því að lofsyngja nafn Jehóva?
20 Eins og hallelsálmarnir sýna verðskuldar Jehóva eilíft lof. Á líkan hátt sagði Davíð frammi fyrir söfnuðinum þegar hann og aðrir Ísraelsmenn gáfu til musterisbyggingarinnar: „Lofaður sért þú, [Jehóva], Guð Ísraels, forföður vors, frá eilífð til eilífðar. Þín, [Jehóva], er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, [Jehóva], og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi. Auðlegðin og heiðurinn koma frá þér; þú drottnar yfir öllu, máttur og megin er í hendi þinni, og á þínu valdi er það, að gjöra hvern sem vera skal mikinn og máttkan. Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.“ — 1. Kroníkubók 29:10-13.
21. Hvernig ber Opinberunarbókin 19:1-6 vitni um að himneskar hersveitir lofsyngi Jehóva?
21 Jehóva mun einnig hljóta eilífa blessun og lof á himnum. Jóhannes postuli heyrði ‚mikinn fjölda á himnum‘ segja: „Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu [Babýlon hina miklu], sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ Og aftur var sagt: „Hallelúja!“ Undir það tóku „öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar.“ Rödd frá hásætinu sagði: „Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir.“ Jóhannes bætti við: „Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: ‚Hallelúja, [Jehóva] Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.‘“ — Opinberunarbókin 19:1-6.
22. Hvernig verður Jehóva lofsunginn í hinum fyrirheitna nýja heimi?
22 Svo sannarlega er það viðeigandi að himneskar hersveitir skuli lofsyngja Jehóva! Í nýja heiminum, sem er svo nálægur, munu upprisnir, drottinhollir menn taka undir með þeim sem lifa af endalok þessa heimskerfis í því að lofsyngja Jah. Himinhá fjöll munu lyfta ásýnd sinni í lofsöng til Guðs. Grasi grónar hæðir og ávaxtatré munu syngja honum lof. Já, hver einasta sköpunarvera, sem lifir og andar, mun lofa nafn Jehóva í hinum mikla halelújakór! (Sálmur 148) Mun rödd þín óma með? Það mun hún gera ef þú þjónar Jehóva trúfastur með þjóð hans. Það ætti að vera tilgangur þinn í lífinu, því að hver er sem Jehóva, Guð okkar?
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna eigum við að lofsyngja Jehóva Guð?
◻ Á hvaða vegu er Jehóva óviðjafnanlegur?
◻ Hvaða vitnisburður liggur fyrir um að Jehóva sé samúðarfullur?
◻ Hvernig er Jehóva ólíkur lífvana skurðgoðum og falsguðum?
◻ Hvers vegna getum við sagt að Jehóva munu hljóta eilíft lof á himni og jörð?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 19]
Hallelsálmarnir voru sungnir við páskamáltíðina.