Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er ekki um að kenna

Jehóva er ekki um að kenna

Jehóva er ekki um að kenna

„Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — SÁLMUR 103:13, 14.

1, 2. Hver var Abraham og hvernig atvikaðist það að Lot bróðursonur hans settist að í hinni guðlausu Sódómuborg?

 JEHÓVA ber ekki sök á þeim erfiðleikum sem okkar eigin mistök valda okkur. Í þessu sambandi skulum við íhuga atburð sem átti sér stað fyrir um það bil 3900 árum. Vinur Guðs, Abraham (Abram), og Lot bróðursonur hans voru orðnir mjög efnaðir. (Jakobsbréfið 2:23) Svo miklar voru eignir þeirra og búpeningur orðinn að ‚landið bar þá ekki og þeir gátu ekki saman verið.‘ Enn fremur kom til deilna milli fjárhirða þeirra. (1. Mósebók 13:5-7) Hvað var hægt að gera í málinu?

2 Til að binda enda á deilurnar stakk Abraham upp á að leiðir skildu með þeim og hann leyfði Lot að velja sér land. Enda þótt Abraham væri eldri og það hefði verið viðeigandi að bróðursonur hans leyfði honum að velja besta landið valdi Lot það sjálfur — hið vatnsríka hérað neðri Jórdandalsins. Ytra útlit var villandi því að í grenndinni voru hinar siðspilltu borgir Sódóma og Gómorra. Lot og fjölskylda hans settist síðar að í Sódómu og það stofnaði þeim í andlega hættu. Auk þess voru þau tekin til fanga þegar Kedorlaómer og bandamenn hans sigruðu valdhafann í Sódómu. Abraham og menn hans björguðu þeim en Lot og fjölskylda hans sneru aftur til Sódómu. — 1. Mósebók 13:8-13; 14:4-16.

3, 4. Hvernig fór fyrir Lot og fjölskyldu hans þegar Guð eyddi Sódómu og Gómorru?

3 Vegna siðspillingar og kynferðislegs óeðlis Sódómu- og Gómorrubúa ákvað Jehóva að eyða borgunum. Í miskunn sinni sendi hann tvo engla sem leiddu Lot, konu hans og dætur þeirra tvær út úr Sódómu. Þau áttu ekki að líta um öxl en kona Lots gerði það. Kannski sá hún eftir þeim efnislegu hlutum sem þau urðu að yfirgefa. Hún varð samstundis að saltstöpli. — 1. Mósebók 19:1-26.

4 Þetta var mikill missir fyrir Lot og dætur hans! Stúlkurnar urðu að skilja mennina, sem þær ætluðu að giftast, eftir. Lot missti eiginkonu sína og efnislegan auð. Hann varð meira að segja að gera sér að góðu að búa í helli ásamt dætrum sínum. (1. Mósebók 19:30-38) Það sem honum hafði litist svo vel á reyndist alls ekki vera neitt gott. Enda þótt honum hefðu augljóslega orðið á ýmis alvarleg mistök var hann síðar kallaður ‚Lot, hinn réttláti maður.‘ (2. Pétursbréf 2:7, 8) Og mistök Lots voru svo sannarlega ekki Jehóva Guði að kenna.

„En hver verður var við yfirsjónir?“

5. Hvernig leit Davíð á yfirsjónir og drambsemi?

5 Þar eð við erum ófullkomin og syndug gerum við öll mistök. (Rómverjabréfið 5:12; Jakobsbréfið 3:2) Líkt og Lot getum við látið blekkjast af ytra útliti og orðið á dómgreindarglöp. Þess vegna bað sálmaritarinn Davíð: „Hver veit, hvað opt honum yfir sést? Frá mínum heimskulegu brestum hreinsa þú mig! Varðveittu og þinn þjón frá drambsemi, að hún ekki drottni yfir mér, þá verð ég saklaus og frí frá stórum yfirtroðslum.“ (Sálmur 19:13, 14, Bi. 1859) Davíð vissi að hann gæti drýgt syndir án þess að gera sér grein fyrir því. Þess vegna bað hann um fyrirgefningu synda sem hann vissi ekki einu sinni sjálfur af. Þegar honum urðu á alvarleg mistök, vegna þess að ófullkomið hold hans kom honum til að taka ranga stefnu, þráði hann hjálp Jehóva mjög heitt. Hann vildi að Guð hindraði hann í drambsömum verknaði. Hann vildi ekki að dramb yrði ríkjandi viðhorf hans. Hann þráði að vera heill í hollustu sinni við Jehóva Guð.

6. Hvaða hughreystingu má sækja í Sálm 103:10-14?

6 Við sem erum vígðir þjónar Jehóva nú á tímum erum líka ófullkomnir og gerum því mistök. Til dæmis getum við, líkt og Lot, sest að á óheppilegum stað. Kannski grípum við ekki tækifæri sem býðst til að auka heilaga þjónustu okkar við Guð. Enda þótt Jehóva sjái slík mistök þekkir hann þá sem hneigjast í hjarta sér til réttlætis. Jafnvel þótt við syndgum alvarlega fyrirgefur Jehóva og hjálpar og heldur áfram að líta á okkur sem guðrækna einstaklinga ef við iðrumst. „Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,“ sagði Davíð, „heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:10-14) Miskunnsamur faðir okkar á himnum veitir okkur kannski tækifæri til að bæta fyrir brot okkar eða gefur okkur annað tækifæri til að auka heilaga þjónustu okkar, honum til lofs.

Það er rangt að kenna Guði um

7. Hvers vegna verðum við fyrir mótlæti?

7 Þegar eitthvað fer úrskeiðis hafa menn tilhneigingu til að kenna einhverju eða einhverjum um. Sumir ásaka jafnvel Guð. En Jehóva er ekki valdur að erfiðleikum fólks. Hann gerir okkur gott, ekki illt. Hann meira að segja „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“! (Matteus 5:45) Ein meginástæðan fyrir því að við verðum fyrir mótlæti er sú að við búum í heimi sem stjórnast af eigingirni og er undir yfirráðum Satans djöfulsins. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

8. Hvað gerði Adam þegar honum farnaðist illa?

8 Það er bæði óviturlegt og hættulegt að kenna Jehóva Guði um erfiðleikana sem mistök okkar valda. Það getur jafnvel kostað okkur lífið. Fyrsti maðurinn, Adam, hefði átt að gefa Guði heiðurinn af öllu hinu góða sem hann fékk. Já, Adam hefði átt að vera Jehóva mjög þakklátur fyrir sjálft lífið og þá blessun sem hann naut í náttúrufegurð Edengarðsins. (1. Mósebók 2:7-9) Hvað gerði Adam þegar honum farnaðist illa af því að hann óhlýðnaðist Guði og át forboðna ávöxtinn? Hann kvartaði við Guð: „Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.“ (1. Mósebók 2:15-17; 3:1-12) Við ættum svo sannarlega ekki að skella skuldinni á Jehóva eins og Adam gerði.

9. (a) Hvað getum við látið hughreysta okkur þegar óskynsamleg hegðun okkar veldur okkur erfiðleikum? (b) Hvað gera sumir þegar þeir kalla yfir sig erfiðleika, að því er Orðskviðirnir 19:3 segja?

9 Ef við lendum í erfiðleikum vegna þess að hegðun okkar er óviturleg getum við sótt hughreystingu í þá vitneskju að Jehóva skilur veikleika okkar betur en við og bjargar okkur úr vandræðunum ef við sýnum honum algera hollustu. Við ættum að meta að verðleikum þá hjálp sem við fáum frá Guði og aldrei kenna honum um þá erfiðleika og þrautir sem við köllum yfir okkur. Vitur orðskviður segir í þessu sambandi: „Mannsins heimska gjörir hans veg ógreiðan; en hans hjarta illskast við drottin.“ (Orðskviðirnir 19:3, Bi. 1859) Önnur þýðing segir: „Sumt fólk steypir sér í glötun með heimskulegum verkum sínum og kennir svo DROTTNI um.“ (Today’s English Version) Enn önnur þýðing segir: „Fáfræði mannsins klúðrar málum hans og hann rýkur upp gegn Jehóva.“ — Byington.

10. Hvernig klúðraði Adam málum sínum með heimsku sinni?

10 Í samræmi við meginreglu þessa orðskviðar var Adam eigingjarn og heimskuleg hugsun hans ‚klúðraði málum hans.‘ Hjarta hans varð fráhverft Jehóva Guði og hann tók sína eigingjörnu og sjálfstæðu stefnu. Svo vanþakklátur varð Adam að hann skellti skuldinni á skapara sinn og gerði sig þannig að óvini hins hæsta! Synd Adams steypti sjálfum honum og fjölskyldu hans í glötun. Svo sannarlega er alvarleg aðvörun fólgin í því! Þeir sem hafa tilhneigingu til að kenna Jehóva Guði um óheppilegar aðstæður sínar ættu að spyrja sig: Þakka ég Guði fyrir það góða sem ég nýt? Er ég þakklátur fyrir að fá að lifa sem ein af sköpunarverum hans? Getur hugsast að erfiðleikarnir stafi af mínum eigin mistökum? Hef ég fylgt leiðbeiningum Jehóva, eins og þær er að finna í innblásnu orði hans, þannig að ég verðskuldi velþóknun hans eða hjálp?

Þjónar Guðs eru jafnvel í hættu

11. Hvaða sekt bökuðu trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld sér?

11 Trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld fullyrtu að þeir þjónuðu Guði en þeir virtu ekki sannleiksorð hans heldur treystu á eigin skilning. (Matteus 15:8, 9) Þeir drápu Jesú af því að hann afhjúpaði ranga hugsun þeirra. Síðar réðust þeir gegn fylgjendum hans af mikilli heift. (Postulasagan 7:54-60) Þessir menn voru á svo rangri braut að þeir illskuðust meira að segja gegn Jehóva. — Samanber Postulasöguna 5:34, 38, 39.

12. Hvaða dæmi sýnir að jafnvel sumir, sem tilheyra kristna söfnuðinum, reyna að kenna Jehóva um erfiðleika sína?

12 Jafnvel sumir einstaklingar í kristna söfnuðinum hafa tamið sér hættulegan hugsunarhátt og reynt að kenna Guði um þá erfiðleika sem þeir hafa orðið fyrir. Til dæmis þurftu öldungar í söfnuði einum að gefa ungri giftri konu vingjarnleg en ákveðin ráð frá Biblíunni og vara hana við félagsskap við mann í heiminum. Einu sinni, þegar þeir ræddu við hana, ásakaði hún Guð um að hjálpa sér ekki að standast freistinguna sem áframhaldandi samband við manninn hafði í för með sér fyrir hana. Hún sagðist meira að segja vera Guði reið! Rökræður út af Ritningunni og endurteknar tilraunir til að hjálpa henni reyndust árangurslausar og siðlaus stefna leiddi síðar til þess að henni var vikið úr kristna söfnuðinum.

13. Hvers vegna eigum við að forðast kvörtunaranda?

13 Umkvörtunarsemi getur komið manni til að ásaka Jehóva. „Óguðlegir menn,“ sem höfðu lætt sér inn í söfnuðinn á fyrstu öld, höfðu þess konar neikvætt hugarfar og því fylgdu andlega spillandi hugsanir af ýmsu öðru tagi. Eins og lærisveinninn Júdas sagði voru þessir menn að „misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.“ Júdas sagði einnig: „Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir.“ (Júdasarbréfið 3, 4, 16) Það er skynsamlegt af trúum þjónum Jehóva að biðja um að þeir megi hafa þakklátan huga en séu ekki með kvörtunaranda sem gæti að lokum gert þá svo beiska í lund að þeir misstu trúna á Guð og stofnuðu sambandi sínu við hann í hættu.

14. Hvernig væri hægt að bregðast við ef trúbróðir móðgaði okkur en hvers vegna væri það ekki skynsamlegt?

14 Þú álítur kannski að slíkt geti aldrei hent þig. Það sem fer úrskeiðis sökum okkar mistaka eða annarra gæti eigi að síður komið okkur til að ásaka Guð. Til dæmis gæti einhver móðgast yfir því sem trúbróðir hans segir eða gerir. Jafnvel þótt hinn móðgaði hafi kannski þjónað Jehóva trúfastur svo árum skiptir gæti hann sagt: ‚Ég kem ekki á samkomur svo lengi sem þessi einstaklingur er í söfnuðinum.‘ Kristinn maður getur komist í slíkt uppnám að hann segi í hjarta sér: ‚Ef þetta heldur svona áfram vil ég ekki tilheyra söfnuðinum.‘ En ætti kristinn maður að taka þá afstöðu? Hvers vegna að láta gremju sína bitna á heilum söfnuði manna sem eru Guði þóknanlegir og þjóna honum í trúfesti, þótt annar ófullkominn maður móðgi okkur? Hvers vegna ætti nokkur sá sem hefur vígst Jehóva að hætta að gera vilja hans og láta gremju sína þannig bitna á Guði? Hve viturlegt er það að láta einhvern mann eða aðstæður eyðileggja gott samband sitt við Jehóva? Svo sannarlega væri það heimskulegt og syndsamlegt að láta nokkuð koma sér til að hætta að tilbiðja Jehóva Guð. — Jakobsbréfið 4:17.

15, 16. Hvað gerði Díótrefes sig sekan um en hvernig hegðaði Gajus sér?

15 Ímyndaðu þér að þú værir í sama söfnuði og hinn kærleiksríki kristni bróðir Gajus. Hann ‚breytti dyggilega‘ með því að vera gestrisinn við aðkomna trúbræður sína — og það ókunna menn. En hinn rembiláti Díótrefes virðist hafa verið í sama söfnuði. Hann virti ekki neitt sem kom frá Jóhannesi, einum af postulum Jesú Krists. Díótrefes talaði jafnvel illa um Jóhannes. Postulinn sagði: „[Díótrefes] tekur . . . ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.“ — 3. Jóhannesarbréf 1, 5-10.

16 Ef Jóhannes kæmi til safnaðarins ætlaði hann að minna á það sem Díótrefes var að gera. En hvað gerðu Gajus og aðrir gestristnir kristnir menn í þeim söfnuði fram að því? Engin vísbending er í Biblíunni um að nokkur þeirra hafi sagt: ‚Ég verð ekki í þessum söfnuði meðan Díótrefes tilheyrir honum. Ég læt ekki sjá mig á samkomunum.‘ Vafalítið hafa Gajus og aðrir honum líkir verið staðfastir. Þeir létu ekkert koma sér til að hætta að gera vilja Guðs og þeir illskuðust svo sannarlega ekki gegn Jehóva. Nei, þeir féllu ekki fyrir vélabrögðum Satans djöfulsins sem hefði fagnað ef þeir hefðu sýnt Jehóva ótrúmennsku og kennt honum um hvernig komið var. — Efesusbréfið 6:10-18.

Reiðstu Jehóva aldrei!

17. Hvað ættum við að gera ef við verðum óánægð með eitthvert ástand eða einhver mógðar okkur?

17 Jafnvel þótt þjónn Guðs yrði óánægður með eða móðgaðist við einhvern einstakling eða ástand í söfnuðinum væri hinn móðgaði að klúðra málum sínum ef hann hætti að hafa félagsskap við þjóna Jehóva. Slíkur einstaklingur væri ekki að beita skilvitum sínum skynsamlega. (Hebreabréfið 5:14) Vertu því staðráðinn í að vera ráðvandur þótt móti blási. Vertu trúfastur Jehóva Guði, Jesú Kristi og kristna söfnuðinum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Sannleikann sem leiðir til eilífs lífs er hvergi annars staðar að finna.

18. Hverju megum við treysta í sambandi við Jehóva Guð þótt við skiljum ekki alltaf leiðir hans?

18 Mundu líka að Jehóva prófreynir aldrei nokkurn mann með því sem illt er. (Jakobsbréfið 1:13) Guð, sem er ímynd kærleikans, gerir gott, einkum þeim sem elska hann. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þótt við skiljum ekki alltaf leiðir Jehóva Guðs getum við treyst því að hann geri alltaf það sem er best fyrir þjóna sína. Eins og Pétur sagði: „Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Já, Jehóva Guð ber í raun og sannleika umhyggju fyrir þjónum sínum. — Sálmur 94:14.

19, 20. Hvernig ættum við að haga okkur jafnvel þótt prófraunir okkar dragi stundum úr okkur kjark?

19 Láttu því ekkert eða engan verða þér að hneykslunarhellu. Sálmaritarinn orðaði það svo vel: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt [Jehóva Guðs], og þeim er við engri hrösun hætt.“ (Sálmur 119:165) Öll verðum við fyrir einhverju mótlæti og það getur stundum gert okkur niðurdregin eða kjarklítil, en láttu beiskju aldrei skjóta rótum í hjarta þínu, sérstaklega ekki gegn Jehóva. (Orðskviðirnir 4:23) Með hjálp hans og á biblíulegum grundvelli skaltu taka á þeim vandamálum sem þú getur leyst og þola þau sem ekki tekst að leysa. — Matteus 18:15-17; Efesusbréfið 4:26, 27.

20 Láttu tilfinningar þínar aldrei koma þér til að bregðast heimskulega við og klúðra málum þínum. Talaðu og hegðaðu þér þannig að þú gleðjir hjarta Guðs. (Orðskviðirnir 27:11) Ákallaðu Jehóva í innilegri bæn í þeirri vissu að honum sé í raun og veru annt um þig sem þjón sinn og muni veita þér þann skilning sem þarf til að halda þér á braut lífsins ásamt öðrum þjónum hans. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Framar öllu öðru skaltu ekki illskast gegn Guði. Þegar eitthvað fer úrskeiðis skaltu alltaf muna að það er ekki Jehóva að kenna.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða mistök gerði Lot en hvernig leit Guð á hann?

◻ Hvað fannst Davíð um yfirsjónir og drambsemi?

◻ Hvers vegna ættum við ekki að kenna Guði um þegar eitthvað fer úrskeiðis?

◻ Hvað getur hjálpað okkur að illskast ekki við Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Lot var óskynsamur þegar hann valdi sér bústað er leiðir skildu með honum og Abraham.