Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leggðu þig fram við að bjarga fjölskyldu þinni inn í nýjan heim Guðs

Leggðu þig fram við að bjarga fjölskyldu þinni inn í nýjan heim Guðs

Leggðu þig fram við að bjarga fjölskyldu þinni inn í nýjan heim Guðs

„Þú, [Jehóva], munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.“ — SÁLMUR 12:8.

1, 2. (a) Hvernig spjara sumar fjölskyldur sig undir álagi hinna síðustu daga? (b) Hvernig geta kristnar fjölskyldur unnið að því að bjargast?

 „HJARTA mitt er fullt af gleði!“ sagði kristinn öldungur sem heitir John. Hvers vegna? „Fjórtán ára sonur minn og 12 ára dóttir mín létu skírast,“ segir hann. En hann hafði fleira að gleðjast yfir. „Sautján ára sonur minn og 16 ára dóttir mín voru bæði aðstoðarbrautryðjendur á síðasta ári,“ bætir hann við.

2 Margar fjölskyldur okkar á meðal hafa sömuleiðis náð góðum árangri með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Sumir eiga þó við vandamál að glíma. „Við eigum fimm börn,“ skrifuðu kristin hjón, „og það verður sífellt erfiðara að eiga við þau. Við erum nú þegar búin að missa eitt barn út í þetta gamla heimskerfi. Unglingarnir okkar virðast vera helsta skotmark Satans þessa stundina.“ Þá eru til hjón sem eiga í miklum erfiðleikum sín í milli og stundum endar það með sambúðarslitum eða skilnaði. Eigi að síður geta fjölskyldur, sem rækta kristna eiginleika, lifað af ‚þrenginguna miklu‘ og fengið vernd inn í nýjan heim Guðs sem er rétt framundan. (Matteus 24:21; 2. Pétursbréf 3:13) Hvað getur þú þá gert til að tryggja að fjölskylda þín bjargist?

Betri tjáskipti

3, 4. (a) Hve mikilvæg eru tjáskipti í fjölskyldulífinu og hvers vegna verða oft vandamál á því sviði? (b) Hvers vegna ættu eiginmenn að leggja sig fram um að vera góðir áheyrendur?

3 Opinskáar samræður og skoðanaskipti eru lífæð heilbrigðrar fjölskyldu; þegar þau vantar myndast spenna og streita. „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin,“ segja Orðskviðirnir 15:22. Hjúskaparráðgjafi segir: „Algengasta kvörtun eiginkvenna, sem ég leiðbeini, er: ‚Hann talar ekki við mig,‘ og ‚Hann hlustar ekki á mig.‘ Og þegar ég segi eiginmönnum þeirra frá þessari kvörtun hlusta þeir ekki á mig heldur.“

4 Hvað veldur því að tjáskipti vantar? Meðal annars það að karlar og konur eru ólík og nota oft greinilega ólíka tjáskiptaaðferð. Tímaritsgrein nefndi að eiginmenn hafi „tilhneigingu til að vera raunsæir og afdráttarlausir“ í samræðum sínum en eiginkonur aftur á móti „vilji framar öllu öðru að hlustað sé á þær með skilningi.“ Ef þetta er vandamál í hjónabandi ykkar skuluð þið leggja ykkur fram við að bæta úr því. Kristinn eiginmaður getur þurft að leggja hart að sér til að verða betri áheyrandi. „Hver maður,“ segir Jakob, „skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ (Jakobsbréfið 1:19) Lærðu að forðast það að skipa, áminna eða lesa yfir konunni þinni þegar hún vill einfaldlega að henni sé sýnd ‚hluttekning.‘ (1. Pétursbréf 3:8) „Fámálugur maður er hygginn,“ segja Orðskviðirnir 17:27.

5. Nefndu nokkur dæmi um hvernig eiginmenn geta bætt sig í því að tjá hugsanir sínar og tilfinningar.

5 Á hinn bóginn hefur það „að tala . . . sinn tíma,“ og þú getur þurft að læra að tjá hugsanir þínar og tilfinningar meir en þú gerir. (Prédikarinn 3:7) Ert þú til dæmis óspar á hrós við konuna þína fyrir það sem hún gerir? (Orðskviðirnir 31:28) Sýnir þú að þú sért þakklátur fyrir það sem hún leggur á sig til að styðja þig og annast heimilið? (Samanber Kólossubréfið 3:15.) Kannski þarft þú að taka þig á við að sýna konunni þinni blíðuhót. (Ljóðaljóðin 1:2, NW) Verið getur að þér finnist það vandræðalegt í fyrstu en það getur átt drjúgan þátt í að láta konuna þína vera örugga um að þú elskir hana.

6. Hvað geta eiginkonur gert til að bæta tjáskipti innan fjölskyldunnar?

6 Hvað um kristnar eiginkonur? Haft er eftir konu að maðurinn hennar viti að hún meti hann mikils þannig að hún þurfi ekki að segja honum það. En karlmenn þrífast líka vel á hrósi, lofi og jákvæðu mati annarra. (Orðskviðirnir 12:8) Þarft þú að gera meira af því að hrósa honum? Kannski þarft þú að athuga betur hvernig þú hlustar. Ef maðurinn þinn á erfitt með að ræða vandamál sín, ótta eða áhyggjur við þig, hefur þú þá lært að fá hann vingjarnlega og háttvíslega til að opna hug sinn?

7. Hvað getur valdið deilum milli hjóna og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þær?

7 Að sjálfsögðu geta jafnvel hjón, sem yfirleitt kemur vel saman, stundum átt í tjáskiptaerfiðleikum. Tilfinningar geta skyggt á skynsemina eða rólegar samræður breyst snögglega í ákafa deilu. (Orðskviðirnir 15:1) „Allir hrösum vér margvíslega,“ en smárifrildi hjóna táknar þó varla endalok hjónabandsins. (Jakobsbréfið 3:2) ‚Hávaði og lastmæli‘ eru hins vegar óviðeigandi og skaðleg öllum samböndum manna í milli. (Efesusbréfið 4:31) Verið fljót til að friðmælast þegar skipst hefur verið á meiðandi orðum. (Matteus 5:23, 24) Oft er hægt að kæfa deilur í fæðingunni með því að framfylgja orðum Páls í Efesusbréfinu 4:26: „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ Já, ræðið út um málin meðan þau eru enn smá og viðráðanleg. Bíðið ekki uns tilfinningarnar eru komnar að suðumarki. Það að verja nokkrum mínútum á hverjum degi í að ræða málin getur stuðlað verulega að góðum tjáskiptum og fyrirbyggt misskilning.

‚Umvöndun Jehóva‘

8. Hvers vegna hverfa sumir unglingar burt frá sannleikanum?

8 Svo er að sjá sem sumir foreldrar geri sig ánægða með að láta börnin mikið til sjá um sig sjálf. Börnin sækja samkomur og taka einhvern þátt í þjónustunni á akrinum, en oft hafa þau ekki byggt um einkasamband við Guð. Með tímanum getur „fýsn holdsins og fýsn augnanna“ leitt mörg slík börn út af vegi sannleikans. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Það væri sorglegt fyrir foreldra að lifa af Harmagedón en sjá vanrækslu sína frá fyrri tíð verða þess valdandi að börnin féllu í valinn!

9, 10. (a) Hvað er fólgið í því að ala börnin upp „með aga og umvöndun [Jehóva]“? (b) Hvers vegna er þýðingarmikið að leyfa börnunum að tjá tilfinningar sínar óhindrað?

9 Páll skrifaði þess vegna: „Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Til að gera það verður þú sjálfur að gjörþekkja staðla Jehóva. Þú ættir að gefa rétt fordæmi í sambandi við val á skemmtiefni, einkanám, samkomusókn og þjónustu á akrinum. Orð Páls gefa einnig til kynna að foreldrar verði (1) að fylgjast af skarpskyggni með börnum sínum og (2) viðhalda góðum tjáskiptum við þau. Það er eina leiðin fyrir foreldra til að vita á hvaða sviði þau þurfa „umvöndun.“

10 Það er eðlilegt fyrir unglinga að sækjast eftir vissu sjálfstæði. Þú verður samt sem áður að vera vakandi fyrir greinilegum merkjum um veraldleg áhrif í tali þeirra, hugsun, klæðaburði, snyrtimennsku og vinavali. Vitur faðir sagði eins og stendur í Orðskviðunum 23:26: „Son minn, gef mér hjarta þitt.“ Finnst börnum þínum þau geta talað frjálslega við þig um hugsanir þínar og tilfinningar? Þegar börnin óttast ekki tafarlausar aðfinnslur eru þau líklegri til að láta í ljós hvað þeim raunverulega finnst um skólastarf utan námsskrár, samdrátt við hitt kynið, æðri menntun eða sannleika Biblíunnar.

11, 12. (a) Hvernig er hægt að nota matartímana til að stuðla að tjáskiptum innan fjölskyldunnar? (b) Hvaða afleiðingar getur það haft ef foreldrar leggja sig stöðugt fram um að eiga góð tjáskipti við börnin sín?

11 Víða um lönd er það venja að fjölskyldur borði saman. Matmálstímar geta þannig boðið upp á góð tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að eiga uppbyggjandi samræður. Allt of algengt er að sjónvarpið eða eitthvað annað komi í veg fyrir að fjölskyldan borði saman. En börnin þín hafa verið nokkurs konar gíslar í skólanum svo klukkustundum skiptir og staðið frammi fyrir veraldlegum hugsunarhætti. Matmálstímarnir eru mjög heppilegir til að ræða við þau. „Við notum matartímana til að tala um það sem gerst hefur yfir daginn,“ segir móðir. En matartímarnir þurfa ekki að vera vandræðalegar refsingar- eða yfirheyrslustundir. Gætið þess að andrúmsloftið sé þægilegt og allir geti slakað á!

12 Það er krefjandi að fá börn til að opna sig og getur kostað óendanlega þolinmæði. Með tímanum geturðu þó séð jákvæðan árangur af því. „Fjórtán ára sonur okkar hefur verið niðurdreginn og feiminn,“ segir áhyggjufull móðir. „Sökum bæna okkar og þrautseigju er hann byrjaður að opna sig og tala!“

Uppbyggjandi fjölskyldunám

13. Hvers vegna er mjög mikilvægt að hefja barnafræðsluna snemma og hvernig má gera það?

13 „Umvöndun“ felur einnig í sér formlega fræðslu í orði Guðs. Eins og var hjá Tímóteusi ætti að veita slíka fræðslu „frá blautu barnsbeini.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Fræðsla frá unga aldri styrkir börnin fyrir prófraunir sem trúin getur orðið fyrir á skólaárunum — afmælishald, ættjarðarathafnir eða trúarhátíðir. Trú barnsins getur orðið fyrir alvarlegu áfalli ef slíkur undirbúningur er ekki fyrir hendi. Þess vegna skaltu notfæra þér þau verkfæri sem Varðturnsfélagið hefur látið gera til barnafræðslu, svo sem bækurnar Hlýðum á kennarann mikla og Biblíusögubókina mína. *

14. Hvernig er hægt að halda fjölskyldunámið reglulega og hvað hefur þú gert til að hafa reglulegt fjölskyldunám?

14 Annað svið, sem gefa þarf gaum, er fjölskyldunámið sem getur hæglega orðið óreglulegt eða leiðinlegt vanaverk sem er erfitt bæði fyrir foreldra og börn. Hvernig er hægt að bæta úr því? Í fyrsta lagi verður þú að taka hentugan tíma til námsins og ekki leyfa því að víkja fyrir sjónvarpinu eða annarri afþreyingu. (Efesusbréfið 5:15-17) „Við áttum erfitt með að halda fjölskyldunámið reglulega,“ viðurkennir faðir. „Við reyndum á mismunandi tímum uns við fundum loks tíma að áliðnu kvöldi sem hentaði okkur öllum. Núna er fjölskyldunámið okkar reglulegt.“

15. Hvernig getur þú sniðið fjölskyldunámið eftir þörfum fjölskyldunnar?

15 Síðan þarft þú að huga að sérþörfum fjölskyldu þinnar. Margar fjölskyldur njóta þess að undirbúa sig saman í vikulegu námsefni Varðturnsins. Af og til getur fjölskyldan þó þurft að ræða saman ákveðin atriði sem upp hafa komið, meðal annars vandamál sem börnin standa frammi fyrir í skólanum. Bókin Spurningar unga fólksins — svör sem duga og greinar úr Varðturninum og Vaknið! geta fullnægt þeirri þörf. „Ef við tökum eftir einhverjum viðhorfum hjá drengjunum, sem þarf að leiðrétta, finnum við kafla í bókinni Spurningar unga fólksins sem fjallar um það,“ segir faðir. Konan hans bætir við: „Við reynum að vera sveigjanleg. Ef við höfum ákveðið að nema eitthvað sérstakt en í ljós kemur að við þurfum að ræða eitthvað annað, þá breytum við til.“

16. (a) Hvernig getur þú gengið úr skugga um að börnin skilji það sem þau eru að læra? (b) Hvað ætti yfirleitt að forðast í fjölskyldunáminu?

16 Hvernig getur þú gengið úr skugga um að börnin þín skilji í raun og veru það sem þau eru að læra? Kennarinn mikli, Jesús, spurði viðhorfsspurninga svo sem: „Hvað líst þér?“ (Matteus 17:25) Gerðu það líka og reyndu að finna út hvað börnin þín hugsa í raun og veru. Hvettu hvert barn til að svara með eigin orðum. Að sjálfsögðu er hætta á því að þau hugsi sig um tvisvar áður en þau segja þér hug sinn aftur ef þú bregst of harkalega við hreinskilnislegum orðum þeirra. Haltu því ró þinni. Forðastu að nota fjölskyldunámið sem tækifæri til að ávíta börnin. Það ætti að vera ánægjulegt og uppbyggjandi. „Ef ég uppgötva að eitthvert af börnunum á í erfiðleikum tek ég á því seinna,“ segir faðir. „Þegar talað er við barnið eitt sér er það ekki jafnskömmustulegt, og það talar frjálslegar heldur en það myndi gera ef það væri áminnt í fjölskyldunáminu,“ bætir móðirin við.

17. Hvernig er hægt að gera fjölskyldunámið áhugavert og hvað hefur reynst vel í þinni fjölskyldu?

17 Það getur kostað sitt að fá börnin til að taka þátt í fjölskyldunáminu, einkum ef þau eru á ólíkum aldri. Yngri börnin hafa oft tilhneigingu til að vera óróleg og eirðarlaus eða geta ekki einbeitt sér nema stutta stund í einu. Hvað getur þú gert? Reyndu að hafa þægilegt andrúmsloft í náminu. Ef athyglisgáfa barnanna endist stutt skaltu reyna að hafa námið styttra í senn en oftar. Eldmóður og ákafi hjálpar einnig. „Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn.“ (Rómverjabréfið 12:8) Fáðu alla til að taka þátt. Yngstu börnin geta ef til vill komið með athugasemdir um myndir eða svarað einföldum spurningum. Unglingar geta fengið það verkefni að rannsaka ýmis mál nánar eða benda á hagnýtt gildi þess efnis sem er til umfjöllunar.

18. Hvernig geta foreldrar innprentað börnunum orð Guðs við hvert tækifæri og með hvaða árangri?

18 Takmarkaðu hina andlegu fræðslu þó ekki við eina klukkustund í viku. Notaðu hvert tækifæri til að innprenta börnum þínum orð Guðs. (5. Mósebók 6:7) Taktu þér tíma til að hlusta á þau. Hvettu þau og hughreystu þegar þörf er á. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 2:11.) Vertu hluttekningarsamur og miskunnsamur. (Sálmur 103:13; Malakí 3:17) Ef þú gerir það munu börnin þín ‚veita þér unað‘ og það mun stuðla að því að þau bjargist inn í nýjan heim Guðs. — Orðskviðirnir 29:17.

„Að hlæja hefir sinn tíma“

19, 20. (a) Hvaða hlutverki gegnir afþreying í fjölskyldulífinu? (b) Á hvaða hátt geta foreldrar séð fjölskyldunni fyrir afþreyingu?

19 „Að hlæja hefir sinn tíma, . . . að dansa hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:4) Hebreska orðið, sem þýtt er „hlæja,“ má líka þýða sem „leika,“ „leika sér“ eða jafnvel „skemmta.“ (2. Samúelsbók 6:21; Jobsbók 41:5; Dómarabókin 16:25; 2. Mósebók 32:6; 1. Mósebók 26:8) Leikur getur þjónað mjög jákvæðum tilgangi og hann er mikilvægur fyrir börn og unglinga. Á biblíutímanum sáu foreldrar fjölskyldum sínum fyrir skemmtun og afþreyingu. (Samanber Lúkas 15:25.) Gerir þú það líka?

20 „Við notfærum okkur almenningsgarða,“ segir kristinn eiginmaður. „Við bjóðum einhverjum ungu bræðranna að vera með okkur og förum í boltaleik og borðum nesti. Þeir skemmta sér vel og njóta heilnæms félagsskapar.“ Annar faðir segir: „Við skipuleggjum ýmislegt með drengjunum okkar. Við förum í sund, boltaleiki og frí. En við höldum skemmtun í réttu hófi. Ég legg áherslu á nauðsyn þess að gæta jafnvægis.“ Heilnæm afþreying, svo sem samvera með góðum félögum eða ferðir í söfn og dýragarða, getur átt stóran þátt í að koma í veg fyrir að barni finnist skemmtanalíf heimsins lokkandi.

21. Hvernig geta foreldrar komið í veg fyrir að börnunum finnist þau fara á mis við eitthvað, af því að þau halda ekki veraldlegar hátíðir?

21 Það er líka mikilvægt að börnunum þínum finnist þau ekki fara á mis við eitthvað af því að þau halda ekki upp á afmæli eða ókristnar hátíðir. Með svolítilli skipulagningu af þinni hálfu geta börnin hlakkað til margra ánægjustunda allt árið. Góðir foreldrar þurfa ekki einhvern hátíðisdag til að tjá ást sína með efnislegum gjöfum. Líkt og himneskur faðir þeirra ‚hafa þeir vit á að gefa börnum sínum góðar gjafir‘ — af því að þá langar til þess. — Matteus 7:11.

Tryggðu fjölskyldu þinni eilífa framtíð

22, 23. (a) Hverju mega guðhræddar fjölskyldur treysta er þrengingin mikla nálgast? (b) Hvað geta fjölskyldur gert til að vinna að því að bjargast gegnum þrenginguna miklu?

22 Sálmaritarinn bað: „Þú, [Jehóva], munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.“ (Sálmur 12:8) Álagið frá Satan á örugglega eftir að aukast — einkum á fjölskyldur votta Jehóva. Engu að síður er hægt að standast síharðnandi árásir hans. Með hjálp Jehóva, eitilharðri einbeitni og erfiði eiginmanna, eiginkvenna og barna geta fjölskyldur — einnig þín — haft von um varðveislu gegnum þrenginguna miklu.

23 Eiginmenn og eiginkonur, skapið frið og samheldni í hjónabandi ykkar með því að rækja það hlutverk sem Guð hefur gefið ykkur. Foreldrar, haldið áfram að setja börnum ykkar rétt fordæmi og takið ykkur tíma frá öðru til að veita þeim það uppeldi og ögun sem þau þarfnast svo mjög. Talið við þau. Hlustið á þau. Líf þeirra er í húfi! Börn, hlustið á og hlýðið foreldrum ykkar. Með hjálp Jehóva mun ykkur farnast vel og þið getið tryggt ykkur eilífa framtíð í komandi, nýjum heimi Guðs.

[Neðanmáls]

^ Einnig fáanlegar á hljóðsnældum á sumum tungumálum.

Manst þú?

◻ Hvernig geta hjón bætt tjáskipti sín?

◻ Hvernig geta foreldrar alið börnin sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva]“? (Efesusbréfið 6:4)

◻ Hvað getur gert fjölskyldunámið uppbyggjandi og enn áhugaverðara?

◻ Hvernig geta foreldrar skipulagt afþreyingu og skemmtun handa börnum sínum?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 16]

Tónlist — öflugur áhrifavaldur

Höfundur bókar um barnauppeldi segir: „Ef ég ætti að standa frammi fyrir áheyrendahópi . . . og mæla með drykkju- og kynsvalli og að komast í vímu með kókaínneyslu, hassneyslu eða öðrum fíkniefnum myndi fólk stara á mig steini lostið. . . . [En] oft gefa foreldrar börnum sínum peninga til að kaupa hljóðbönd eða hljómplötur sem lofsyngja slíkt opinskátt.“ (Raising Positive Kids in a Negative World, eftir Zig Ziglar) Í Bandaríkjunum eru fjölmargir unglingar með rapplög á vörunum með kynferðislega opinskáum textum. Hjálpar þú börnum þínum að vera vandfýsin í tónlistarvali sínu þannig að þau forðist slíkar snörur illra anda?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Matmálstímar geta verið ánægjulegar stundir og stuðlað að einingu og tjáskiptum innan fjölskyldunnar.