Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum“

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum“

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum“

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:4.

1. Hvað hafa margir uppgötvað í sambandi við farsælt hjónaband?

 MILLJÓNIR manna eru í varnlegu hjónabandi þótt hjónaskilnaðir séu annars daglegt brauð. Þær hafa fundið uppskriftina að því hvernig fólk af ólíkum uppruna og með ólíkan persónuleika getur búið saman í farsælu hjónabandi. Slík hjónabönd er að finna meðal votta Jehóva. Í flestum tilvikum viðurkenna þessi hjón að það hafi gengið á ýmsu hjá þeim og þau hafi getað fundið að ýmsu í fari hvors annars. En þau hafa lært að standa af sér hin smávægilegu illviðri hjónabandsins og haldið því á réttum kili. Hvað hefur hjálpað þeim að halda hjónabandinu gangandi? — Kólossubréfið 3:13.

2. (a) Nefndu nokkra jákvæða þætti sem viðhalda hjónabandinu. (b) Nefndu nokkra þætti sem geta veikt hjónaband. (Sjá rammann á bls. 26.)

2 Athugasemdir nokkurra kristinna hjóna, sem hafa átt hamingjurík og traust hjónabönd, eru mjög lærdómsríkar. Eiginmaður, sem hefur verið kvæntur í 16 ár, segir: „Í hvert sinn sem vandamál hefur komið upp höfum við lagt okkur sérstaklega fram um að hlusta á sjónarmið hvors annars.“ Hér bendir hann á eitt það sem er mjög til þess fallið að treysta hjónabandið — opinská og hreinskilnisleg tjáskipti. Eiginkona með 31 árs hjónaband að baki segir: „Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að haldast í hendur og gera eitthvað skemmtilegt saman til að halda ástinni milli okkar lifandi.“ Og það er annar þáttur tjáskipta. Hjón, sem hafa verið gift í næstum 40 ár, leggja áherslu á að það sé mikilvægt að hafa gott skopskyn, að geta hlegið að sjálfum sér og hvoru öðru. Þau segja líka að það hafi verið þeim hjálp að geta séð bestu og verstu hliðarnar á hvoru öðru en samt sýnt hvoru öðru ást og tryggð. Eiginmaðurinn minnist á fúsleika til að viðurkenna mistök sín og biðjast síðan afsökunar. Þegar sáttfýsi ræður ferðinni verður hjónabandið sveigjanlegt í stað þess að bresta þegar á það reynir. — Filippíbréfið 2:1-4; 4:5, Kingdom Interlinear.

Breytt viðhorf

3, 4. Hvernig hafa viðhorf manna til tryggðar í hjónabandi breyst? Getur þú nefnt dæmi?

3 Á allra síðustu áratugum hafa viðhorf manna til tryggðar í hjónabandi breyst um heim allan. Sumt gift fólk álítur ekkert rangt við það að eiga ástarævintýri utan hjónabands, en það er skrautheiti sem oft er notað um hjúskaparbrot, einkanlega ef makinn veit af því og sættir sig við það.

4 Kristinn umsjónarmaður segir um þetta ástand: „Heimurinn er svo að segja hættur að gera nokkra alvarlega tilraun til að lifa eftir siðareglum. Siðsemi er álitin gamaldags.“ Kunnir framámenn í stjórnmálum, íþróttum og skemmtanalífinu brjóta siðferðisreglur Biblíunnar fyrir opnum tjöldum og eru samt hafðir í hávegum. Nálega engin skömm fylgir neins konar siðferðisbrotum eða óeðli í kynferðismálum. Hreinlífi og ráðvendni hafa sjaldan verið mikils virt meðal svokallaðs heldra fólks. Aðrir hugsa síðan með sér: ‚Hvað höfðingjarnir hafast að hinir meina sér leyfist það,‘ og þannig líkir fjöldinn eftir þeim og gerir það sem Guð fordæmir. Þetta er eins og Páll orðaði það: „Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ — Efesusbréfið 4:19; Orðskviðirnir 17:15, Rómverjabréfið 1:24-28; 1. Korintubréf 5:11.

5. (a) Hver er afstaða Guðs til hjúskaparbrots? (b) Yfir hvað nær hugtakið „hórdómur“ í Biblíunni?

5 Staðlar Guðs hafa ekki breyst. Það er afstaða hans að óvígð sambúð sé saurlífi. Ótryggð í hjónabandi er enn sem fyrr hjúskaparbrot, hórdómur. * Páll postuli sagði afdráttarlaust: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.

6. Hvaða hvatningu er að finna í orðum Páls í 1. Korintubréfi 6:9-11?

6 Það er uppörvandi að Páll skuli segja: „Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ Já, margir sem áður fyrr lifðu og hrærðust í „spillingardíki“ heimsins hafa vitkast, viðurkennt Krist og fórn hans og látið þvost. Þeir hafa kosið að þóknast Guði með því að lifa siðsömu lífi og eru hamingjusamari fyrir vikið. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

7. Hvernig skilgreinir heimurinn „siðleysi“ og hvað segir Biblían?

7 Skilgreining heims nútímans á siðleysi er aftur á móti orðin svo útþynnt að hún fer alls ekki saman við afstöðu Guðs. Orðabók skilgreinir „siðleysi“ þannig að það sé það sem „stríðir gegn viðteknu siðferði.“ Hið ‚viðtekna siðferði‘ nú á tímum, þar sem kynlíf fyrir og utan hjónaband og kynvilla er látin viðgangast, er fordæmt í Biblíunni sem siðleysi. Já, frá biblíulegum sjónarhóli er siðleysi gróft brot á siðferðislögum Guðs. — 2. Mósebók 20:14, 17; 1. Korintubréf 6:18.

Áhrifin á kristna söfnuðinn

8. Hvernig getur siðleysi haft áhrif á þá sem tilheyra kristna söfnuðinum?

8 Svo útbreitt er siðleysið orðið nú á tímum að það getur jafnvel haft áhrif á þá sem tilheyra kristna söfnuðinum. Það getur gerst gegnum útbreitt og spillandi sjónvarpsefni, myndbönd og klámfengið lesefni. Enda þótt einungis lítill hluti kristinna manna verði fyrir slíkum áhrifum verður að horfast í augu við það að langflestir þeirra, sem gerðir eru rækir úr söfnuðum votta Jehóva fyrir hegðun sem er ósæmandi kristnum mönnum, eru flæktir í einhvers konar kynferðislegt siðleysi. Það er þó jákvætt að verulegur hluti þeirra sem vikið er úr söfnuðinum, sér að sér með tímanum, tekur að lifa hreinu lífi á ný og er með tíð og tíma tekið aftur inn í söfnuðinn. — Samanber Lúkas 15:11-32.

9. Hvernig ráðskast Satan með þá sem gæta sín ekki?

9 Enginn vafi leikur á því að Satan æðir um eins og öskrandi ljón, reiðubúinn að gleypa þá sem ugga ekki að sér. Á hverju ári tekst honum með ‚vélabrögðum‘ sínum að hremma kristna menn sem gæta sín ekki. Andinn, sem gagnsýrir heim hans, er eigingjarn, nautnafullur og lauslátur. Hann höfðar til langana holdsins. Hann hafnar sjálfstjórn. — Efesusbréfið 2:1, 2; 6:11, 12, NW neðanmáls; 1. Pétursbréf 5:8.

10. Hverjir verða fyrir freistingu og hvers vegna?

10 Hverjir í söfnuðinum geta orðið fyrir freistingum til siðleysis? Flestir kristnir menn, hvort heldur þeir eru öldungar í söfnuðinum, farandumsjónarmenn, þjóna á Betel, eru brautryðjendur sem prédika tugi klukkustunda í hverjum mánuði, uppteknir foreldrar sem eru að koma börnum á legg eða ungt fólk sem sætir hópþrýstingi. Allir geta orðið fyrir holdlegum freistingum. Kynferðislegt aðdráttarafl getur gert vart við sig þegar þess er síst vænst. Því skrifaði Páll: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki. Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu.“ Það er sorglegt að sumir kristnir menn í ábyrgðarstöðum hafa fallið fyrir þessu táli siðleysisins. — 1. Korintubréf 10:12, 13.

Dreginn og tældur

11-13. Tilgreindu nokkrar aðstæður sem hafa leitt til siðleysis.

11 Hvaða freistingar og aðstæður hafa komið sumum til að fremja þá heimsku sem hórdómur og hjúskaparbrot er? Þær eru margar og margbrotnar og geta verið breytilegar frá einu landi eða menningarsvæði til annars. Vissar aðstæður eru þó sameiginlegar víða um lönd. Til dæmis er frá því skýrt að sumir hafi haldið samkvæmi þar sem ómælt áfengi stóð til boða. Aðrir hafa hrifist af æsandi, veraldlegri tónlist og eggjandi dansi. Sums staðar í Afríku eru efnamenn — ekki í trúnni — sem eiga sér hjákonur; sumar konur hafa freistast til að leita fjárhagslegs öryggis með því að gerast hjákonur slíkra manna þótt siðlaust sé. Annars staðar hafa kristnir eiginmenn yfirgefið fjölskylduna til að vinna fyrir sér í námum eða annars staðar. Þá reynir á hollustu þeirra og tryggð í öðrum mæli eða á aðra vegu en þeir hefðu orðið fyrir heima hjá sér.

12 Í hinum þróuðu löndum heims hafa sumir fallið í gildru Satans með því að vera oft með einhverjum af hinu kyninu án þess að þriðji aðili væri með — til dæmis í bifreið með ökukennara. * Öldungar þurfa líka að gæta þess þegar þeir fara í hirðisheimsóknir að vera ekki einir með systur þegar þeir leiðbeina henni. Samtalið getur orðið tilfinningaþrungið og komið báðum einstaklingunum í vandræðalega aðstöðu. — Samanber Markús 6:7; Postulasöguna 15:40.

13 Áðurnefndar aðstæður hafa komið sumum kristnum mönnum til að slaka á verðinum og fremja siðlausan verknað. Líkt og gerðist á fyrstu öldinni hafa þeir verið ‚dregnir og tældir af eigin girnd‘ sem hefur leitt til syndar. — Jakobsbréfið 1:14, 15; 1. Korintubréf 5:1; Galatabréfið 5:19-21.

14. Hvers vegna er eigingirni undirrót hjúskaparbrots?

14 Nákvæm athugun á brottrekstri úr söfnuðinum sýnir að siðlausir verknaðir eiga sér viss grundvallaratriði sameiginleg. Eigingirni í einhverri mynd á þar hlut að máli. Af hverju segjum við það? Af því að hjúskaparbrot kemur alltaf niður á einhverjum alsaklausum. Það getur verið löglegur maki hins brotlega. Það kemur alltaf niður á börnunum, ef einhver eru, því að ef hjúskaparbrotið veldur skilnaði verða börnin, sem þrá öryggi sameinaðrar fjölskyldu, oft verst úti. Hinn brotlegi er fyrst og fremst að hugsa um að skemmta og þóknast sjálfum sér. Það er eigingirni. — Filippíbréfið 2:1-4.

15. Hvað getur leitt til hjúskaparbrots?

15 Hjúskaparbrot á sér yfirleitt ekki stað sökum augnabliksveikleika. Hjónabandið sjálft hefur veiklast smám saman, jafnvel án þess að hjónin geri sér grein fyrir því. Tjáskiptin eru kannski orðin vanabundin eða andlaus. Gagnkvæm uppörvun hefur kannski verið lítil eða engin. Ef til vill eru bæði hjónin farin að taka maka sinn sem sjálfsagðan hlut. Kannski hafa þau ekki fullnægt kynferðislegum þörfum hvors annars um tíma. Þegar hjúskaparbrot á sér stað er það alltaf merki þess að dregið hefur úr sambandi einstaklingsins við Guð. Hann sér Jehóva ekki lengur sem lifandi Guð er veit um allar okkar hugsanir og gerðir. Í vitund hins brotlega er „Guð“ kannski bara orð, óhlutstætt hugtak sem hefur engin áhrif á daglegt líf. Þegar svo er komið verður auðvelt að syndga gegn Guði. — Sálmur 51:4, 5; 1. Korintubréf 7:3-5; Hebreabréfið 4:13; 11:27.

Hvernig hægt er að veita mótstöðu

16. Hvernig getur kristinn maður spornað gegn freistingunni til ótryggðar?

16 Hverju ætti kristinn maður að huga að ef honum finnst hann verða fyrir freistingu til að fara út á braut ótryggðarinnar? Í fyrsta lagi ætti hann að íhuga merkingu kristins kærleika sem er grundvallaður á frumreglum Biblíunnar. Líkamleg eða kynferðisleg ást ætti aldrei að taka völdin þannig að hann láti eigingirni ráða ferðinni og særi aðra. Hann ætti að skoða málið frá sjónarhóli Jehóva. Hann ætti að íhuga það í víðara samhengi með tilliti til safnaðarins og þeirrar smánar sem slæm hegðun hans hefði í för með sér fyrir söfnuðinn og nafn Jehóva. (Sálmur 101:3) Hægt væri að forðast alvarlega ógæfu með því að tileinka sér huga Krists í málinu og hegða sér í samræmi við það. Mundu að óeigingjarn, kristinn kærleikur bregst aldrei. — Orðskviðirnir 6:32, 33; Matteus 22:37-40; 1. Korintubréf 13:5, 8.

17. Hvaða uppbyggjandi fordæmi um trúfesti höfum við?

17 Lykillinn að því að spyrna við fótum er sá að styrkja trú sína og sjá vonina framundan skýrar. Það merkir að gera sitt ýtrasta til að hafa framúrskarandi fordæmi trúfastra karla og kvenna fortíðarinnar, þeirra á meðal Jesú, í huga. Páll skrifaði: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ (Hebreabréfið 12:1-3) Í stað þess að sigla hjónabandinu í strand úthugsar vitur maður leiðir til að bæta hvern þann skaða sem orðinn er, til að koma því aftur á réttan kjöl og forðast þannig að falla í þá gryfju að svíkja og fara á bak við maka sinn. — Jobsbók 24:15.

18. (a) Hvers vegna er það ekki of fast að orði kveðið að kalla hjúskaparbrot svik? (b) Hvernig lítur Guð á það að halda heit sín?

18 Er of sterkt til orða tekið að kalla siðleysi sviksemi sem er tryggðarof? Nei, tryggðarof er það að svíkja þá sem hafa sýnt manni traust og trúnað. Hjúskaparheitið felur svo sannarlega í sér trúnaðarsamband og loforð um að ala og annast gegnum þykkt og þunnt, í blíðu og stríðu. Það felur í sér það sem mörgum finnst orðið úrelt á þeim tímum sem við lifum — drengskaparheit okkar sem gefið er með hjúskaparheitinu. Að bregðast því trausti er svik gegn maka sínum. Afstaða Guðs til þess sem við heitum kemur skýrt fram í Biblíunni: „Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir.“ — Prédikarinn 5:3.

19. Hvers vegna gleðst Satan þegar vottur Jehóva lætur undan?

19 Enginn vafi leikur á því að á sama hátt og það er mikil gleði á himni yfir einum syndara, sem frelsast, er mikil gleði á jörðinni meðal þjóna Satans, sýnilegra og ósýnilegra, þegar vottur Jehóva varðveitir ekki ráðvendni sína. — Lúkas 15:7; Opinberunarbókin 12:12.

Freistingar sem allir verða fyrir

20. Hvernig getum við staðist freistingu? (2. Pétursbréf 2:9, 10)

20 Er siðleysi óumflýjanlegt undir vissum kringumstæðum? Eru langanir holdsins og Satan svo sterk öfl að kristnir menn geta ekki staðið á móti þeim og varðveitt ráðvendni sína? Páll uppörvar okkur með þessum orðum: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ Í heimi nútímans getum við kannski ekki forðast freistingar með öllu, en með því að leita til Guðs í bæn getum við örugglega staðist freistingar og sigrast á þeim. — 1. Korintubréf 10:13.

21. Hvaða spurningum verður svarað í næstu námsgrein?

21 Hvað býður Guð okkur til að hjálpa okkur að standast freistingar og ganga með sigur af hólmi? Hvað þurfum við sem einstaklingar að gera til að vernda hjónaband okkar og fjölskyldur, mannorð Jehóva og orðstír safnaðarins? Þessar spurningar eru viðfangsefni næstu greinar.

[Neðanmáls]

^ „Orðið ‚hórdómur‘ eða ‚hór‘ í sinni víðustu merkingu, eins og það er notað í Matteusi 5:32 og 19:9, spannar greinilega yfir breitt svið óleyfilegra kynlífsathafna utan hjónabands. Porneia [gríska orðið sem notað er í þessum ritningarstöðum] felur í sér gróflega siðlausa notkun kynfæra að minnsta kosti eins einstaklings (hvort heldur eðlilega eða óeðlilega). Auk þess þarf að hafa verið annar aðili að siðleysinu — karlmaður, kona eða dýr.“ (Varðturninn, ensk útgáfa, 15. mars 1983, bls. 30) Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir hórdóm sem „[sjálfviljug] kynferðismök (gifts fólks) utan hjónabands.“

^ Að sjálfsögðu getur verið eðlilegt að bróðir sjái systur fyrir fari í bifreið sinni og slíkt má ekki rangtúlka.

Manst þú?

◻ Nefndu sumt af því sem styrkir hjónabandið.

◻ Hvers vegna ættum við að forðast viðhorf heimsins í siðferðismálum?

◻ Nefndu nokkrar freistingar og aðstæður sem geta leitt til siðleysis.

◻ Hver er helsta verndin gegn því að syndga?

◻ Hvernig hjálpar Guð okkur þegar okkar er freistað?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 26]

JÁKVÆÐIR ÞÆTTIR SEM STYRKJA HJÓNABANDIÐ

◻ Fastheldni við meginreglur Biblíunnar.

◻ Bæði hjónin eiga sterkt samband við Jehóva.

◻ Eiginmaðurinn virðir konu sína, tilfinningar hennar og skoðanir.

◻ Góð, dagleg tjáskipti.

◻ Hjónin reyna að þóknast hvoru öðru.

◻ Skopskyn, að geta hlegið að sjálfum sér.

◻ Hjónin viðurkenna mistök sín fúslega, fyrirgefa fúslega.

◻ Halda ástinni lifandi.

◻ Vinna saman að uppeldi og ögun barnanna.

◻ Sameinast reglulega í bæn til Jehóva.

NEIKVÆÐIR ÞÆTTIR SEM VEIKJA HJÓNABANDIÐ

◻ Eigingirni og þrjóska.

◻ Að gera fátt saman.

◻ Slæm tjáskipti.

◻ Ófullnægjandi samráð milli hjónanna.

◻ Fara illa með peninga.

◻ Ósammála um uppeldi barna og/eða stjúpbarna.

◻ Eiginmaðurinn vinnur yfirvinnu eða vanrækir fjölskylduna vegna annarra skyldna.

◻ Andlegum þörfum fjölskyldunnar ekki sinnt.