Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna ber að varast skurðgoðadýrkun?

Hvers vegna ber að varast skurðgoðadýrkun?

Hvers vegna ber að varast skurðgoðadýrkun?

„Börnin mín, gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:21.

1. Hvers vegna er tilbeiðslan á Jehóva laus við skurðgoðadýrkun?

 JEHÓVA er ekki skurðgoð úr málmi, tré eða steini. Jarðneskt musteri rúmar hann ekki. Hann er hinn alvaldi andi, ósýnilegur mönnum. Þess vegna er ekki hægt að gera mynd eða líkneski af honum. Þar af leiðandi verður hin hreina tilbeiðsla á Jehóva að vera algerlega laus við skurðgoðadýrkun. — 2. Mósebók 33:20; Postulasagan 17:24; 2. Korintubréf 3:17.

2. Hvaða spurningar verðskulda athugun okkar?

2 Ef þú ert tilbiðjandi Jehóva má vera að þú spyrjir: ‚Hvað er skurðgoðadýrkun? Hvernig hafa þjónar Jehóva getað forðast hana í fortíðinni? Og hvers vegna að varast skurðgoðadýrkun nú á dögum?‘

Hvað er skurðgoðadýrkun?

3, 4. Hvernig má skilgreina skurðgoðadýrkun?

3 Skurðgoðadýrkun felur oft í sér athöfn eða helgisið. Með skurðgoðadýrkun er yfirleitt átt við tilbeiðslu á heiðnum guðum, hjáguðum, að jafnaði sem líkneski í dýrs- eða mannsmynd í þeirri trú að æðri máttur standi þar að baki. Stundum tilbiðja menn náttúrufyrirbæri eða náttúruöfl og jafnvel stofnanir eða samtök.

4 Hebresku orðin, sem Biblían notar um skurðgoð, minna oft á að skurðgoðin séu einskis nýt eða lýsa fyrirlitningu. Þeirra á meðal eru orðin sem þýdd eru „líkneski“ (bókstaflega eitthvað úthöggvið eða útskorið), „útskorið og steypt líkneski,“ „hræðilegt líkneski,“ „fánýt goð“ og „skítug skurðgoð.“ Gríska orðið eidolon er þýtt „skurðgoð.“

5. Hvers vegna má segja að ekki séu öll líkneski skurðgoð?

5 Ekki eru allar myndir eða líkneski skurðgoð. Guð sjálfur sagði Ísraelsmönnum að gera tvo gullkerúba fyrir arkarlokið og vefa myndir af slíkum andaverum í hina tíu tjalddúka sem áttu að klæða tjaldbúðina innanverða og í fortjaldið sem var milli hins heilaga og hins allra helgasta. (2. Mósebók 25:1, 18; 26:1, 31-33) Aðeins prestar, sem voru við þjónustu, sáu þessar myndir sem voru fyrst og fremst táknmyndir um hina himnesku kerúba. (Samanber Hebreabréfið 9:24, 25.) Ljóst er að það átti ekki að tilbiðja kerúbamyndirnar í tjaldbúðinni því að réttlátir englar vildu ekki þiggja tilbeiðslu. — Kólossubréfið 2:18; Opinberunarbókin 19:10; 22:8, 9.

Viðhorf Jehóva til skurðgoðadýrkunar

6. Hvernig lítur Jehóva á skurðgoðadýrkun?

6 Þjónar Jehóva varast skurðgoðadýrkun vegna þess að hann er á móti henni í sérhverri mynd. Guð bannaði Ísraelsmönnum að gera sér líkneski og tilbiðja þau. Eitt af boðorðunum tíu var á þessa leið: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, [Jehóva] Guð þinn, er vandlátur Guð [„Guð sem krefst óskiptrar hollustu,“ NW], sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.“ — 2. Mósebók 20:4-6.

7. Hvers vegna er Jehóva á móti allri skurðgoðadýrkun?

7 Hvers vegna er Jehóva andvígur skurðgoðadýrkun í sérhverri mynd? Fyrst og fremst vegna þess að hann krefst óskiptrar hollustu eins og fram kemur hér að ofan í öðru boðorðinu af þeim tíu. Enn fremur sagði hann fyrir milligöngu spámannsins Jesaja: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.“ (Jesaja 42:8) Um tíma náði skurðgoðadýrkun slíkum tökum á Ísraelsmönnum að „þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum [„illum öndum,“ NW].“ (Sálmur 106:36, 37) Skurðgoðadýrkendur neita ekki aðeins að viðurkenna Jehóva sem hinn sanna Guð heldur þjóna líka hagsmunum höfuðandstæðings hans, Satans, ásamt illu öndunum.

Hollusta í prófraunum

8. Hvaða prófraun lentu Hebrearnir þrír, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, í?

8 Hollusta við Jehóva hjálpar okkur líka að varast skurðgoðadýrkun. Það kemur vel fram í atviki sem sagt er frá í 3. kafla Daníelsbókar. Til að vígja mikið gulllíkneski, sem Nebúkadnesar hafði látið reisa, safnaði hann saman öllum embættismönnum ríkis síns. Skipun hans náði til Sadraks, Mesaks og Abed-Negós — þriggja Hebrea sem voru settir yfir Babelhérað. Öllum viðstöddum var fyrirskipað að falla fram fyrir líkneskinu þegar þeir heyrðu leikið á viss hljóðfæri. Þetta var tilraun hins raunverulega guðs Babýlonar, Satans, til að láta Hebreana þrjá falla fram fyrir líkneski sem var tákn babýlonska heimsveldisins. Gerðu þér í hugarlund að þú sért á staðnum.

9, 10. (a) Hvaða afstöðu tóku Hebrearnir þrír og hvernig var þeim umbunað? (b) Hvaða hvatningu geta vottar Jehóva sótt í fordæmi Hebreanna þriggja?

9 Sjáðu! Hebrearnir þrír standa uppréttir. Þeir muna eftir lagaboði Guðs gegn því að gera og þjóna skurðgoðum eða úthöggnum líkneskjum. Nebúkadnesar setur þeim úrslitakosti — að falla fram eða deyja! Trúir Jehóva segja þeir: „Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ — Daníel 3:16-18.

10 Þessum trygglyndu þjónum Guðs er kastað í ofninn sem hefur verið kyntur upp úr öllu valdi. Nebúkadnesar er furðu lostinn að sjá fjóra menn ganga um inni í ofninum, kallar á Hebreana þrjá og þeir ganga óskaddaðir út. Þá hrópar konungur upp yfir sig: „Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn [þann fjórða sem var í ofninum] og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð. . . . Enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann.“ (Daníel 3:28, 29) Ráðvendni þessara þriggja Hebrea er nútímavottum Jehóva hvatning til að sýna Guði hollustu, vera hlutlausir gagnvart heiminum og forðast skurðgoðadýrkun. — Jóhannes 17:16.

Skurðgoðin tapa dómsmálinu

11, 12. (a) Hvað skrifaði Jesaja um Jehóva og skurðgoð? (b) Hvernig vegnaði guðum þjóðanna þegar Jehóva skoraði þá á hólm?

11 Önnur ástæða til að varast skurðgoðadýrkun er sú að hún er gagnslaus. Þótt skurðgoð gerð af mannahöndum virðist eins og lifandi — oft hafa þau munn, augu og eyru — geta þau hvorki talað, séð né heyrt og þau geta ekkert gert fyrir dýrkendur sína. (Sálmur 135:15-18) Það sýndi sig greinilega á áttundu öld f.o.t. þegar spámaður Guðs lýsti í Jesaja 43:8-28 nokkurs konar dómsmáli milli Jehóva og skurðgoðanna. Þar var þjóð Guðs, Ísraels, öðrum megin en þjóðir heims hinum megin. Jehóva skoraði á falsguði þjóðanna að segja fyrir atburði „er þeir áður hafa spáð,“ (Bi. 1912) það er að segja að spá nákvæmlega. En enginn gat það. Þá sneri Jehóva sér að þjóð sinni og sagði: „Þér eruð mínir vottar . . . Ég er Guð.“ Þjóðirnar gátu ekki sannað að þeirra guðir hefðu verið til á undan Jehóva eða að þeir gætu spáð. En Jehóva sagði fyrir að Babýlon yrði eytt og herteknum þjónum hans veitt frelsi.

12 Frelsaðir þjónar Guðs gátu einnig sagt, eins og lýst er í Jesaja 44:1-8, að þeir ‚tilheyrðu Jehóva.‘ Sjálfur sagði hann: „Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.“ Skurðgoðin gátu ekki hrakið það. „Þér eruð vottar mínir,“ sagði Jehóva aftur um þjóna sína og bætti svo við: „Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til.“

13. Hvað sýnir skurðgoðadýrkun um dýrkandann?

13 Við vörumst líka skurðgoðadýrkun af því að hún er merki um ónóga visku. Skurðgoðadýrkandi velur sér hluta af tré og gerir úr því guð til að tilbiðja en notar hinn hlutann til að kveikja eld og matbúa. (Jesaja 44:9-17) Hvílík flónska! Sá sem gerir og tilbiður skurðgoð gerir sjálfum sér einnig skömm af því að hann getur ekki lagt fram sannfærandi vitnisburð fyrir því að þau séu guðir. En guðdómur Jehóva er óumdeilanlegur því að hann bæði sagði fyrir frelsun þjóna sinna úr Babýlon og kom henni til leiðar. Jerúsalem var byggð á ný, borgir Júda endurreistar og ‚djúp‘ Babýlonar — Evfratfljótið sem var vörn hennar — þornaði upp. (Jesaja 44:18-27) Eins og Guð hafði einnig sagt fyrir lagði Kýrus Persakonungur Babýlon undir sig. — Jesaja 44:28–45:6.

14. Hvað verður sannað í eitt skipti fyrir öll fyrir hæstarétti alheimsins?

14 Skurðgoðin töpuðu málinu um guðdóminn. Örlög Babýlonar eiga einnig eftir að verða örlög þess sem hún samsvarar nú á dögum, Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Hún og allir hennar guðir, trúarlegur útbúnaður og skurðgoðamyndir verða bráðlega horfnar fyrir fullt og allt. (Opinberunarbókin 17:12–18:8) Þá verður endanlega sannað fyrir hæstarétti alheimsins að Jehóva einn er hinn lifandi og sanni Guð og að hann uppfyllir spádómsorð sitt.

Fórnir færðar illum öndum

15. Hvað gaf heilagur andi og hið stjórnandi ráð fyrstu aldar til kynna um þjóna Jehóva og skurðgoðadýrkun?

15 Þjónar Jehóva varast einnig skurðgoðadýrkun vegna þess að þeir láta anda Guðs og skipulag leiða sig. Hið stjórnandi ráð þjóna Jehóva á fyrstu öld sagði kristnum bræðrum sínum: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir.“ — Postulasagan 15:28, 29.

16. Hvernig myndir þú endursegja með eigin orðum það sem Páll sagði um skurðgoðafórnir?

16 Önnur ástæða til að varast skurðgoðadýrkun er sú að forðast djöfladýrkun. Páll postuli sagði kristnum mönnum í Korintu um kvöldmáltíð Drottins: „Flýið skurðgoðadýrkunina. . . . Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði. Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu? Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð? Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda. Ekki getið þér drukkið bikar [Jehóva] og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi [Jehóva] og borðhaldi illra anda. Eða eigum vér að reita [Jehóva] til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?“ — 1. Korintubréf 10:14-22.

17. Undir hvaða kringumstæðum gat kristinn maður á fyrstu öld borðað kjöt fórnað skurðgoðum og hvers vegna?

17 Hluti fórnardýrsins var færður skurðgoðinu að fórn, presturinn fékk hluta þess og tilbiðjandi fékk hluta til veisluhalds. En hluti kjötsins kynni að vera seldur á kjötmarkaðinum. Það var óráðlegt fyrir kristinn mann að fara í skurðgoðamusteri til að borða kjöt, jafnvel þótt hann boðaði það ekki sem þátt í helgiathöfn, því að það gat hneykslað aðra eða tælt hann út í falguðadýrkun. (1. Korintubréf 8:1-13; Opinberunarbókin 2:12, 14, 18, 20) Það að færa skurðgoði dýr að fórn breytti ekki kjötinu þannig að kristinn maður gat keypt eitthvað af því á kjöttorginu. Hann þurfi ekki heldur að spyrja hvaðan kjöt, sem honum var borið á heimili einhvers, væri komið. Ef einhver sagði: „Þetta er fórnarkjöt!“ myndi hann hins vegar ekki borða það til að hneyksla engan. — 1. Korintubréf 10:25-29.

18. Hvernig gátu þeir sem átu skurðgoðafórnarkjöt flækst í djöfladýrkun?

18 Sú hugmynd var útbreidd að guðinn væri í kjötinu eftir að það hafði verið notað við fórnarathöfn og að hann færi inn í þann sem æti það í fórnarveislunni. Líkt og það að borða saman skapaði ákveðin tengsl milli manna, eins voru þeir sem neyttu fórnarkjötsins þátttakendur í altarinu og áttu samfélag við djöflaguðinn sem skurðgoðið var tákn um. Gegnum slíka skurðgoðadýrkun komu illu andarnir í veg fyrir að menn tilbæðu hinn eina sanna Guð. (Jeremía 10:1-15) Engin furða er að þjónar Jehóva skyldu eiga að halda sér frá skurðgoðafórnum! Hollusta við Guð, viðurkenning á handleiðslu heilags anda hans og skipulags og sá ásetningur að forðast tengsl við djöfladýrkun er einnig sterk hvatning til að varast skurðgoðadýrkun nú á dögum.

Hvers vegna þurfum við að vera á verði?

19. Hvers konar skurðgoðadýrkun var stunduð í Efesus til forna?

19 Kristnir menn gæta sín vandlega á skurðgoðadýrkun vegna þess að hún birtist í mörgum myndum, og aðeins ein dýrkunarathöfn getur stofnað trú þeirra í hættu. Jóhannes postuli sagði trúbræðrum sínum: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Þessi heilræði voru nauðsynleg vegna þeirrar margvíslegu skurðgoðadýrkunar sem átti sér stað í kringum þá. Jóhannes skrifaði frá Efesus, borg sem einkenndist mjög af galdraathöfnum og goðsögnum um falska guði. Í Efesus var eitt hinna sjö undra veraldar — musteri Artemisar sem var griðastaður glæpamanna og miðstöð siðlausra trúarathafna. Heimspekingurinn Herakleitos í Efesus líkti hinni óupplýstu leið að altari musterisins við myrkur illskunnar og hann áleit siðferði musterisins verra en siðferði skepnanna. Kristnir menn í Efesus urðu því að standa einarðir gegn djöfladýrkun, siðleysi og skurðgoðadýrkun.

20. Hvers vegna var nauðsynlegt að forðast minnsta vott af skurðgoðadýrkun?

20 Kristnir menn þurfa að vera mjög einbeittir til að forðast jafnvel minnstu skurðgoðadýrkun vegna þess að ein tilbeiðsluathöfn frammi fyrir djöflinum væri lóð á þá vogarskál hans að menn séu ekki trúir Guði þegar á reynir. (Jobsbók 1:8-12) Þegar Satan sýndi Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“ sagði hann: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Kristur neitaði því og studdi þar með málstað Jehóva í deilunni um drottinvaldið yfir alheiminum og sannaði djöfulinn lygara. — Matteus 4:8-11; Orðskviðirnir 27:11.

21. Hverju neituðu trúfastir kristnir menn í sambandi við keisara Rómar?

21 Fylgjendur Jesú til forna vildu ekki heldur framkvæma tilbeiðsluathöfn til stuðning málstað Satans í deilumálinu. Enda þótt þeir bæru tilhlýðilega virðingu fyrir „yfirvöldum“ vildu þeir ekki brenna reykelsi til heiðurs keisaranum í Róm, jafnvel þótt það kostaði þá lífið. (Rómverjabréfið 13:1-7) Um það skrifaði Daniel P. Mannix: „Sárafáir kristnir menn afneituðu trúnni, enda þótt venjulega væri haft altari á leikvanginum, sem eldur logaði á, þeim til hægðarauka. Allt og sumt, sem fanginn þurfti að gera, var að henda örlitlu reykelsi á eldinn. Þá var honum gefið fórnarvottorð og sleppt. Auk þess var útskýrt vandlega fyrir honum að hann væri alls ekki að tilbiðja keisarann; einungis að viðurkenna guðlegt eðli keisarans sem höfuðs rómverska ríkisins. Samt sem áður notfærði svo til enginn kristinn maður sér þetta tækifæri til að sleppa.“ (Those About to Die, bls. 137) Myndir þú hafna algerlega allri skurðgoðadýrkun ef þú lentir í svipaðri prófraun?

Munt þú varast skurðgoðadýrkun?

22, 23. Hvers vegna ættir þú að varast skurðgoðadýrkun?

22 Ljóst er að kristnir menn verða að varast hvers kyns skurðgoðadýrkun. Jehóva krefst óskiptrar hollustu. Hinir þrír trúföstu Hebrear voru góð fyrirmynd með því að neita að dýrka líkneskið mikla sem Nebúkadnesar konungur Babýlonar lét reisa. Í alheimsréttarhöldunum, sem Jesaja spámaður segir frá, reyndist Jehóva einn vera hinn sanni og lifandi Guð. Kristnir vottar hans til forna urðu að halda sér frá því sem fórnað var skurðgoðum. Hinir mörgu, sem sýndu Guði hollustu á þeim tíma, létu ekki undan þeim þrýstingi að framkvæma jafnvel eina skurðgoðaathöfn sem hefði jafngilt því að afneita Jehóva.

23 Varast þú skurðgoðadýrkun? Sýnir þú Guði óskipta hollustu? Styður þú drottinvald Jehóva og miklar hann sem hinn sanna og lifandi Guð? Ef svo er ættir þú að vera staðráðinn í að halda áfram að standa einarðlega gegn skurðgoðadýrkun. En hvaða fleiri leiðbeiningar gefur Biblían sem geta hjálpað þér að varast sérhverja mynd skurðgoðadýrkunar?

Upprifjun

◻ Hvað er skurðgoðadýrkun?

◻ Hvers vegna er Jehóva á móti allri skurðgoðadýrkun?

◻ Hvaða afstöðu tóku Hebrearnir þrír varðandi skurðgoðadýrkun?

◻ Hvernig gátu menn flækst í djöfladýrkun með því að borða það sem fórnað var illum öndum?

◻ Hvers vegna ættum við að varast skurðgoðadýrkun?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 17]

Hebrearnir þrír vildu ekki dýrka skurðgoð þótt líf þeirra væri í húfi.