Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ljósberar — í hvaða tilgangi?

Ljósberar — í hvaða tilgangi?

Ljósberar — í hvaða tilgangi?

„Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða.“ — POSTULASAGAN 13:47.

1. Hvaða áhrif höfðu fyrirmælin, sem vísað er til í Postulasögunni 13:47, á Pál postula?

 „SVO hefur [Jehóva] boðið oss: ‚Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar,‘“ sagði Páll postuli. (Postulasagan 13:47) Páll lét sér ekki nægja bara að segja þetta heldur gerði sér líka ljósa alvöru þess. Eftir að hann gerðist kristinn helgaði hann líf sitt því að sinna þessu verkefni. (Postulasagan 26:14-20) Ná þessi fyrirmæli einnig til okkar? Ef svo er, hvers vegna eru þau þýðingarmikil á okkar dögum?

Þegar ‚ljósin voru slökkt‘ á mannkynið

2. (a) Hvaða atburður hafði gífurleg áhrif á andlegt og siðferðilegt andrúmsloft heimsins þegar endalokatími hans rann upp? (b) Hvernig brást breskur stjórnmálamaður við því sem hann sá gerast í ágúst 1914?

2 Áður en flestir núlifandi menn fæddust rann upp endalokatími þessa heims. Miklir atburðir gerðust hver á fætur öðrum. Satan djöflinum, helsta frumkvöðli andlegs og siðferðilegs myrkurs, var varpað niður til jarðar. (Efesusbréfið 6:12; Opinberunarbókin 12:7-12) Mannkyninu hafði þegar verið steypt út í sína fyrstu heimsstyrjöld. Snemma í ágúst árið 1914, þegar stríð virtist óumflýjanlegt, stóð breski utanríkisráðherrann, Sir Edward Grey, við skrifstofugluggann sinn í Lundúnum og sagði: „Það er að slokkna á lömpunum um gjörvalla Evrópu. Við munum ekki lifa það að sjá kveikt á þeim aftur.“

3. Hvernig hefur leiðtogum heimsins gengið að bæta framtíðarhorfur mannkynsins?

3 Þjóðabandalagið var sett á stofn árið 1920 í þeirri viðleitni að láta þessi ljós kvikna aftur. En ljósin náðu varla að flökta. Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar gerðu þjóðaleiðtogarnir aðra tilraun er þeir stofnsettu Sameinuðu þjóðirnar. Enn sem fyrr lýstu ljósin þó ekki skært. Með hliðsjón af enn nýlegri atburðum hafa leiðtogar heims hins vegar farið að ræða um „nýja heimsskipan.“ En varla er hægt að segja að nokkur „nýr heimur“ af þeirra hendi hafi komið á sönnum friði og öryggi. Þvert á móti heldur vopnuð barátta, þjóðernisátök, glæpir, atvinnuleysi, fátækt, mengun umhverfisins og sjúkdómar áfram að spilla ánægju fólks af lífinu.

4, 5. (a) Hvenær og hvernig lagðist myrkur yfir mannkynið? (b) Hvað er nauðsynlegt til að bæta ástandið?

4 Raunin er sú að það var löngu fyrir 1914 sem ljósin voru slökkt á mannkynið. Það gerðist fyrir um það bil 6000 árum í Eden þegar fyrstu foreldrar okkar kusu að taka sínar eigin ákvarðanir án tillits til yfirlýsts vilja Guðs. Hinir átakanlegu atburðir, sem hafa átt sér stað síðan þá, eru einfaldlega þættir í lífshlaupi manna er búið hafa við það sem Biblían kallar ‚vald myrkursins.‘ (Kólossubréfið 1:13) Það var undir áhrifum frá Satan djöflinum sem fyrsti maðurinn, Adam, steypti heiminum út í synd, og frá Adam dreifðist synd og dauði út til allra manna. (1. Mósebók 3:1-6; Rómverjabréfið 5:12) Með því missti mannkynið velþóknun Jehóva sem er uppspretta ljóssins og lífsins. — Sálmur 36:10.

5 Eina leiðin til þess að ljósið gæti aftur skinið fyrir nokkra menn var sú að þeir öðluðust velþóknun Jehóva Guðs, skapara mannsins. Þá mætti svipta burt ‚skýlu þeirri, sem hylur alla lýði,‘ fordæmingu vegna syndarinnar. Hvernig væri það mögulegt? — Jesaja 25:7.

Sá sem gefinn er „að ljósi fyrir þjóðirnar“

6. Hvaða stórkostlega möguleika hefur Jehóva opnað okkur fyrir milligöngu Jesú Krists?

6 Áður en Adam og Eva voru rekin út úr paradís spáði Jehóva um „sæði“ sem myndi frelsa réttlætisunnendur. (1. Mósebók 3:15) Eftir að þetta fyrirheitna sæði hafði fæðst sem maður lét Jehóva hinn aldraða Símeon í musterinu í Jerúsalem bera kennsl á hann sem „ljós til að fjarlægja skýluna af þjóðunum.“ (Lúkas 2:29-32, NW) Vegna trúar á fullkomna mannsfórn Jesú var hægt að létta af mönnunum þeirri fordæmingu sem meðfædd synd leiðir af sér. (Jóhannes 3:36) Í samræmi við vilja Jehóva gátu þeir nú hlakkað til eilífs lífs í fullkomleika, annaðhvort sem hluttakendur í hinu himneska ríki eða sem þegnar þess ríkis í paradís á jörð. Það er sannarlega stórkostleg ráðstöfun!

7. Hvers vegna fylla bæði fyrirheitið í Jesaja 42:1-4 og uppfylling þess á fyrstu öld okkur von?

7 Jesús er sjálfur tryggingin fyrir því að þessar stórkostlegu framtíðarhorfur verði að veruleika. Matteus postuli heimfærir á hann það sem ritað er í Jesaja 42:1-4 í tengslum við það að hann læknaði sjúka. Þar stendur að hluta: „Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.“ Og er það ekki það sem allar þjóðir þarfnast? Spádómurinn heldur áfram: „Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum. Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva.“ Í samræmi við þetta var Jesús ekki hranalegur við þjáða. Hann fann til með þeim, kenndi þeim um tilgang Jehóva og læknaði þá. — Matteus 12:15-21.

8. Í hvaða skilningi hefur Jehóva gefið Jesú sem „sáttmála fyrir lýðinn“ og ‚ljós fyrir þjóðirnar‘?

8 Sá sem ber fram þennan spádóm ávarpar þjón sinn Jesú og segir: „Ég, [Jehóva], hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.“ (Jesaja 42:6, 7) Já, Jehóva hefur gefið Jesú Krist sem sáttmála, sem hátíðlega og skuldbindandi tryggingu. Það er svo sannarlega uppörvandi. Jesús sýndi mönnum ósvikna umhyggju þegar hann var á jörðinni; hann gaf jafnvel líf sitt fyrir mannkynið. Þetta er sá sem Jehóva hefur falið að ríkja yfir öllum þjóðum. Það er engin furða að Jehóva skuli hafa talað um hann sem ljós fyrir þjóðirnar. Jesús sjálfur sagði: „Ég er ljós heimsins.“ — Jóhannes 8:12.

9. Hvers vegna helgaði Jesús sig ekki því að bæta það heimskerfi sem þá var?

9 Í hvaða tilgangi þjónaði Jesús sem ljós heimsins? Svo sannarlega var það ekki í neinum veraldlegum tilgangi eða til að hagnast á því efnislega. Hann hafnaði því að reyna að koma lagi á það stjórnmálakerfi sem þá var við lýði og þáði ekki konungdóm, hvorki frá Satan, höfðingja heimsins, né frá fólkinu. (Lúkas 4:5-8; Jóhannes 6:15; 14:30) Jesús sýndi þeim sem voru þjáðir mikla hluttekningu og liðsinnti á þann hátt sem aðrir gátu ekki. En hann vissi að engin varanleg lausn var möguleg innan samfélagsramma manna sem voru undir fordæmingu Guðs vegna meðfæddrar syndar og sem ósýnilegar illar andaverur ráðskuðust með. Með guðlegri innsýn lét Jesús líf sitt snúast algerlega um það að gera vilja Guðs. — Hebreabréfið 10:7.

10. Á hvaða hátt og í hvaða tilgangi þjónaði Jesús sem ljós heimsins?

10 Á hvaða hátt og í hvaða tilgangi þjónaði Jesús þá sem ljós heimsins? Hann helgaði sig því að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Lúkas 4:43; Jóhannes 18:37) Með því að bera sannleikanum um tilgang Jehóva vitni var Jesús einnig að gera nafn síns himneska föður dýrlegt. (Jóhannes 17:4, 6) Sem ljós heimsins fletti Jesús ofan af trúarlegu falsi og veitti þar með þeim sem voru í trúarlegum fjötrum andlegt frelsi. Hann afhjúpaði Satan sem hinn ósýnilega stjórnanda bak við tjöldin er ráðskast með þá sem leyfa honum að nota sig. Jesús dró greinilega fram í dagsljósið hver eru verk myrkursins. (Matteus 15:3-9; Jóhannes 3:19-21; 8:44) Hann reyndist vera ljós heimsins á mjög framúrskarandi hátt með því að leggja fullkomið mannslíf sitt í sölurnar sem lausnarfórn og opnaði þannig þeim sem iðka trú á þessa ráðstöfun leiðina til að öðlast fyrirgefningu synda, velþóknanlegt samband við Guð og von um eilíft líf sem meðlimir í alheimsfjölskyldu Jehóva. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Og að lokum, með því að láta aldrei af fullkominni hollustu sinni við Guð alla ævi sína, studdi Jesús drottinvald Jehóva og sannaði Satan lygara og gerði með því réttlætisunnendum kleift að njóta eilífrar blessunar. En átti Jesús að vera eini ljósberinn?

„Þér eruð ljós heimsins“

11. Hvað urðu lærisveinar Jesú að gera til að vera ljósberar?

11 Í Matteusi 5:14 sagði Jesús lærsiveinum sínum: „Þér eruð ljós heimsins.“ Þeir áttu að feta í fótspor hans. Þeir áttu, bæði með breytni sinni í lífinu og prédikun, að beina öðrum til Jehóva sem uppsprettu sannrar upplýsingar. Þeir áttu að líkja eftir Jesú með því að gera nafn Jehóva kunnugt og styðja drottinvald hans. Þeir áttu að kunngera Guðsríki sem einu von mannkynsins alveg eins og Jesús gerði. Þeim bar einnig að fletta ofan af trúarfalsi og verkum myrkursins, svo og hinum vonda sem stendur að baki því. Fylgjendur Krists áttu að segja mönnum alls staðar frá kærleiksríkri hjálpræðisráðstöfun Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists. Og svo sannarlega drógu hinir frumkristnu ekki af sér við að sinna þessu verkefni. Þeir hófust fyrst handa í Jerúsalem og Júdeu og færðu sig síðan yfir í Samaríu eins og Jesús hafði fyrirskipað! — Postulasagan 1:8.

12. (a) Hve langt átti hið andlega ljós að skína? (b) Hvað gerði andi Jehóva Páli kleift að skilja í sambandi við Jesaja 42:6 og hvernig ætti þessi spádómur að hafa áhrif á líf okkar?

12 Prédikun fagnaðarerindisins átti þó ekki að takmarkast við þann akur. Jesús gaf fylgjendum sínum þau fyrirmæli að gera „allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28:19) Þegar Sál frá Tarsus tók sinnaskiptum gaf Drottinn sérstaklega til kynna að Sál (sem varð Páll postuli) ætti að prédika ekki aðeins fyrir Gyðingum heldur einnig heiðingjum. (Postulasagan 9:15) Með hjálp heilags anda gerði Páll sér grein fyrir hvað í því fólst. Hann áttaði sig þannig á að spádómurinn í Jesaja 42:6, sem uppfyllist beint í Kristi, er einnig óbein fyrirmæli til allra sem iðka trú á Krist. Þegar Páll vitnaði í Jesaja í Postulasögunni 13:47 sagði hann þess vegna: „Svo hefur [Jehóva] boðið oss: ‚Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.‘“ Hvað um þig? Hefur þú tekið til þín þessa skyldukvöð að vera ljósberi? Lætur þú líf þitt snúast um það að gera vilja Guðs, eins og Jesús og Páll postuli gerðu?

Ljós og sannleikur frá Guði til að leiða okkur

13. Hver er einlæg bæn okkar í samræmi við Sálm 43:3 og gegn hverju verndar það okkur?

13 Ef við værum að reyna, með okkar eigin aðferðum, að ‚láta ljósin koma aftur á‘ til að varpa birtu á framtíð mannkynsins, létum við það sem innblásið orð Guðs segir fara illilega fram hjá okkur. Óháð því hvað heimurinn almennt gerir horfa sannkristnir menn til Jehóva sem hinnar sönnu uppsprettu ljóssins. Bæn þeirra er lík bæninni í Sálmi 43:3 sem segir: „Send ljós þitt og trúfesti [„sannleika,“ NW] þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns.“

14, 15. (a) Á hvaða vegu er Jehóva núna að senda út ljós sitt og sannleika? (b) Hvernig getum við sýnt að ljós Guðs og sannleikur leiðir okkur í raun og veru?

14 Jehóva heldur áfram að svara þessari bæn trúfastra þjóna sinna. Hann sendir út ljós með því að kunngera tilgang sinn, með því að gera þjónum sínum kleift að skilja þann tilgang og síðan með því að láta koma fram til fulls það sem hann hefur kunngert. Þegar við biðjum til Guðs er það ekki einungis formsatriði sem við gerum einfaldlega til að virðast heilög. Við þráum í einlægni að ljósið, sem kemur frá Jehóva, leiði okkur eins og sálmurinn segir. Við tökum á okkur þá ábyrgð sem fylgir því að taka við ljósinu sem Guð lætur í té. Á sama hátt og Páll postuli áttum við okkur á að uppfylling orðs Jehóva ber með sér óbein fyrirmæli til þeirra sem iðka trú á það. Okkur finnst við eiga öðru fólki skuld að gjalda uns við höfum fært því fagnaðarboðskapinn sem Guð treysti okkur fyrir í þeim tilgangi. — Rómverjabréfið 1:14, 15.

15 Ljósið og sannleikurinn, sem Jehóva hefur sent út á okkar dögum, sýnir að Jesús Kristur ríkir nú á virkan hátt frá himnesku hásæti sínu. (Sálmur 2:6-8; Opinberunarbókin 11:15) Jesús sagði fyrir að þegar nærvera hans sem konungur stæði yfir yrði fagnaðarboðskapurinn um Guðsríki prédikaður um alla heimsbyggðina til vitnisburðar. (Matteus 24:3, 14) Það verk er verið að vinna núna og af miklum krafti um allan hnöttinn. Ef við látum þetta starf vera það sem skiptir okkur mestu máli í lífinu, þá er ljós Guðs og sannleikur að leiða okkur eins og sálmaritarinn sagði.

Dýrð Jehóva rennur upp

16, 17. Hvernig lét Jehóva dýrð sína skína yfir skipulag sitt, sem er líkt eiginkonu, árið 1914 og hvaða fyrirmæli gaf hann því?

16 Ritningin lýsir með hjartnæmu orðalagi hvernig ljósinu frá Guði er dreift út til manna alls staðar. Jesaja 60:1-3, sem ávarpar ‚konu‘ Jehóva, hið himneska skipulag hans sem trúfastir þjónar mynda, segir: „Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð [Jehóva] rennur upp yfir þér! Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér. Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.“

17 Dýrð Jehóva rann upp yfir þessu himneska skipulagi hans, sem líkt er við konu, árið 1914 þegar hún, eftir langan biðtíma, fæddi Messíasarríkið með Jesú Krist sem konung. (Opinberunarbókin 12:1-5) Dýrlegt ljós Jehóva skín með velþóknun hans á þessa stjórn sem hina réttmætu stjórn yfir allri jörðinni.

18. (a) Hvers vegna grúfir myrkur yfir jörðinni eins og sagt var fyrir í Jesaja 60:2? (b) Hvernig er hægt að frelsa einstaklinga úr myrkri jarðar?

18 Gagnstætt þessu grúfir myrkur yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðirnar hafna stjórn hins ástkæra sonar Guðs og kjósa frekar stjórn manna. Þær halda að þær leysi vandamál sín með því að losa sig við eitt stjórnarform og taka upp annað. En það er ekki sá léttir fyrir þær sem þær vona. Þær láta sér ekki skiljast hver er á bak við tjöldin að ráðskast með þjóðirnar frá hinu andlega tilverusviði. (2. Korintubréf 4:4) Þær hafna uppsprettu hins sanna ljóss og eru þess vegna í myrkri. (Efesusbréfið 6:12) Einstaklingar geta hins vegar losnað út úr myrkinu óháð því hvað þjóðirnar gera. Hvernig? Með því að leggja allt sitt traust á ríki Guðs og gefa sig því á vald.

19, 20. (a) Hvers vegna og hvernig hefur dýrð Jehóva skinið á smurða fylgjendur Jesú? (b) Af hvaða ástæðu hefur Jehóva gert smurða fylgjendur sína að ljósberum? (c) Hvernig hafa „konungar“ og „þjóðir“ komið til ljóssins frá Guði eins og sagt var fyrir?

19 Kristni heimurinn hefur ekki sett trú sína á ríki Guðs og hefur ekki beygt sig undir það. En það hafa andasmurðir fylgjendur Jesú Krists gert. Afleiðingin er sú að velþóknunarljós Jehóva hefur skinið á þessa sýnilegu fulltrúa himneskrar konu hans og dýrð hans hefur birst yfir þeim. (Jesaja 60:19-21) Þeir búa við andlegt ljós sem engar breytingar á pólitísku eða efnahagslegu leiksviði heimsins geta slökkt. Jehóva hefur frelsað þá út úr Babýlon hinni miklu. (Opinberunarbókin 18:4) Hann brosir til þeirra með velþóknun vegna þess að þeir hafa tekið á móti aga hans og hafa stutt drottinvald hans dyggilega. Framtíðarvon þeirra er björt og þeir fagna í þeirri von sem hann hefur gefið þeim.

20 En í hvaða tilgangi hefur Jehóva komið þannig fram við þá? Eins og hann segir sjálfur í Jesaja 60:21 er það til þess að hann megi verða ‚vegsamlegur,‘ nafn hans verði heiðrað og aðrir mættu laðast að honum sem hinum eina sanna Guði, þeim sjálfum til varanlegrar blessunar. Í samræmi við þetta tóku þessir tilbiðjendur hins sanna Guðs upp nafnið vottar Jehóva árið 1931. Hafði vitnisburður þeirra þá afleiðingu að „konungar“ drægjust að ljómanum sem þeir endurspegluðu, eins og Jesaja spáði? Já! Ekki pólitískir stjórnendur jarðarinnar heldur þeir sem eftir voru af þeim sem kallaðir voru til að ríkja sem konungar með Kristi í himnesku ríki hans. (Opinberunarbókin 1:5, 6; 21:24) Og hvað um „þjóðirnar“? Hefur þetta ljós dregið þær til sín? Það fer ekki á milli mála! Engin einstök pólitísk þjóð hefur verið dregin þangað, heldur hefur mikill múgur manna af öllum þessum pólitísku þjóðum skipað sé við hlið Guðsríkis og þeir bíða þess ákafir að vera frelsaðir inn í nýjan heim Guðs. Það verður sannarlega nýr heimur þar sem réttlæti mun ríkja. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 7:9, 10.

21. Hvernig getum við sýnt að við höfum ekki látið tilganginn með þeirri óverðskulduðu náð Jehóva, að veita okkur skilning á vilja sínum, fram hjá okkur fara?

21 Tilheyrir þú þessum vaxandi ljósberahópi? Jehóva hefur veitt okkur skilning á vilja sínum þannig að við getum verið ljósberar eins og Jesús. Megum við öll vera kostgæf í því verki sem Jehóva hefur trúað nútímaþjónum sínum fyrir, og sýna þar með að við höfum ekki farið á mis við tilganginn með þeirri náð sem Guð hefur sýnt okkur. (2. Korintubréf 6:1, 2) Ekkert þýðingarmeira starf er til á okkar dögum. Og við getum ekki notið meiri sérréttinda en þeirra að vegsama Jehóva með því að endurkasta til annarra því dýrlega ljósi sem kemur frá honum.

Hvert er svar þitt?

◻ Hver er undirrót allra hinna hörmulegu vandamála mannkynsins?

◻ Á hvaða vegu eru bæði Jesús og fylgjendur hans „ljós heimsins“?

◻ Hvernig leiðir ljós Jehóva og sannleikur okkur?

◻ Hvernig hefur Jehóva látið dýrð sína skína á skipulag sitt?

◻ Í hvaða tilgangi hefur Jehóva gert fólk sitt að ljósberum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Atburður í Eden hjálpar okkur að skilja hin hörmulegu vandamál heimsins nú á dögum.

[Rétthafi]

Tom Haley/Sipa

Paringaux/Sipa