Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mengunin upprætt úr huga og hjarta

Mengunin upprætt úr huga og hjarta

Mengunin upprætt úr huga og hjarta

JEHÓVA áskapaði mönnum ekki löngun til að búa við óþverra eða ringulreið. Heimili þeirra, reikistjarnan jörð, var sköpuð til að vera hrein, snyrtileg og fögur paradís. Það var ekki tilgangur Guðs að jörðin ætti að breytast í ófagran sorphaug. — 1. Mósebók 2:8, 9.

Eftir að menn höfnuðu handleiðslu Guðs byrjuðu þeir hins vegar að byggja upp sína eigin heimsskipan. Sökum reynsluleysis og sökum þess að þeir nutu ekki viskunnar frá Guði neyddust þeir til að prófa sig áfram. Veraldarsagan staðfestir þann sannleika Biblíunnar að menn geti ekki stjórnað sjálfum sér svo vel sé, því að um þúsundir ára hefur ‚einn maðurinn drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9; Jeremía 10:23) Mengunin, sem við búum við nú á dögum í sínum mörgu myndum, er afleiðing óstjórnar manna.

Að tileinka sér viðhorf Guðs

Þeir sem þrá að þóknast Guði leggja sig fram við að lifa í samræmi við kröfur skaparans um hreinlæti. Vottar Jehóva stóðu því frammi fyrir vandamáli þegar áformað var að halda alþjóðamót í Prag í Tékkóslóvakíu um mitt ár 1991. * Strahov-leikvangurinn rúmaði vel þá um það bil 75.000 gesti sem búist var við, en hins vegar hafði hann verið ónotaður í fimm ár. Hann var óhrjálegur á að líta og í niðurníðslu eftir ágang veðurs og vinda. Um 1500 vottar Jehóva eyddu yfir 65.000 klukkustundum í að standsetja hann og mála. Þegar mótsdagurinn rann upp var þetta viðgerðarátak búið að breyta leikvanginum í verðugan tilbeiðslustað hins sanna Guðs, Jehóva.

Hvað er það sem kemur vottum Jehóva til að vera frábrugðnir heiminum sem leggur svona lítið upp úr hreinlæti og góðri reglu? Jákvætt mat á þeim heilræðum Biblíunnar að kristnir menn eigi að uppræta neikvæð einkenni, svo sem eigingirni, tillitsleysi, græðgi og kærleiksleysi. ‚Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans,‘ segir Biblían, ‚og íklæðist hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.‘ Ef persónuleiki manns einkennist af ást á hreinleika, reglu og fegurð mengar hann ekki umhverfi sitt. — Kólossubréfið 3:9, 10; 2. Korintubréf 7:1; Filippíbréfið 4:8; Títusarbréfið 2:14.

Nýi persónuleikinn útheimtir að kristinn maður gæti þess að menga ekki umhverfi sitt tillitslaust né óhlýðnast þeim umhverfisverndarlögum sem yfirvöld setja. Hann hjálpar honum að tileinka sér ekki það eigingjarna viðhorf og leti sem kemur mönnum til að henda rusli hvar sem þeir eru staddir. Kristni persónuleikinn hvetur menn til að bera virðingu fyrir eignum annarra þannig að þeir stunda ekki veggjakrot að gamni sínu, til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar eða sem ‚listform.‘ Hann kemur þeim til að halda heimilum sínum, bifreiðum, fötum og líkama hreinum. — Samanber Jakobsbréfið 1:21.

Er hægt að ásaka Guð fyrir að meina þeim sem ekki vilja íklæðast nýja persónuleikanum að lifa í hinni komandi paradís hans? Tæplega. Hver sá sem hefði enn tilhneigingu í einhverju skúmaskoti hjarta síns eða huga til að menga umhverfi sitt myndi ógna fegurð hinnar endurreistu paradísar á jörð, til mikillar sorgar fyrir þá sem vilja varðveita hana. Sú ákvörðun Guðs að „eyða þeim, sem jörðina eyða“ er bæði réttlát og kærleiksrík. — Opinberunarbókin 11:18; 21:8.

Á að fara út í aðgerðir?

Ber kristnum mönnum þá að standa að eða berjast fyrir umhverfisvernd og aðgerðum gegn mengun?

Mengun er greinilega skaðleg bæði heilsufari og almannaheill. Af þeim lögum, sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum, má sjá að hann gefur slíkum málum viðeigandi gaum. (2. Mósebók 21:28-34; 5. Mósebók 22:8; 23:12-14) Hann skipaði þeim þó aldrei að reyna að telja aðrar þjóðir á sitt band í sambandi við almannaheill og frumkristnum mönnum var aldrei sagt að gera það.

Nú á dögum geta umhverfismál hæglega orðið pólitísk. Meira að segja hafa verið stofnaðir stjórnmálaflokkar sérstaklega í þeim tilgangi að leysa umhverfisvandamál. Kristinn maður, sem lætur koma sér til að taka afstöðu í pólitísku deilumáli, er ekki lengur hlutlaus í stjórnmálum. Jesús setti fylgjendum sínum eftirfarandi grundvallarreglu: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Kristinn maður, sem sinnir ekki þessari kröfu, á á hættu að hann sé að taka afstöðu með ‚höfðingjum þessarar aldar sem að engu verða.‘ — Jóhannes 17:16; 1. Korintubréf 2:6.

Jesús reyndi ekki að leysa öll þjóðfélagsvandamál sinnar samtíðar og sagði lærisveinum sínum ekki heldur að gera það. Hann fól þeim þetta verkefni: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Hann gaf þeim engin fyrirmæli um stefnu í umhverfismálum. — Matteus 28:19, 20.

Kristur skýrði fyrir þeim hvað ætti að ganga fyrir í lífi kristins manns. Hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Þegar Jehóva lætur Messíasarríkið framfylgja réttlátum meginreglum sínum um allan heim verða umhverfisvandamál leyst í eitt skipti fyrir öll svo að allir megi sáttir við una.

Vottar Jehóva eru þess vegna öfgalausir í afstöðu sinni til umhverfismála. Samkvæmt Rómverjabréfinu 13:1-7 er þeim skylt að hlýða samviskusamlega reglum yfirvalda um umhverfismál. Enn fremur kemur náungakærleikur þeim til að sýna eignum annarra virðingu — einnig eignum hins opinbera — með því að skemma þær ekki og henda ekki rusli hvar sem er. Þeim er hins vegar greinilega ekki ætlað að taka forystuna í hreinsunaraðgerðum sem heimurinn beitir sér fyrir. Með réttu láta þeir það ganga fyrir að prédika boðskapinn um Guðsríki og gera sér ljóst að þannig geta þeir unnið varanlegast gagn.

Andleg hreinsun

Ísraelsmenn til forna voru margsinnis varaðir við afleiðingum þess að menga jörðina með því að úthella blóði, með því að taka upp siðlaust líferni eða með því að virða ekki það sem heilagt er. (4. Mósebók 35:33; Jeremía 3:1, 2; Malakí 1:7, 8) Þeir voru sérstaklega fordæmdir fyrir þessa andlegu mengun, ekki fyrir neina þá efnislegu mengun sem þeir kunna einnig að hafa verið sekir um. *

Það er þess vegna andleg mengun eða óhreinleiki sem kristinn nútímamaður reynir fyrst og fremst að forðast. Það gerir hann með því að íklæðast „hinum nýja manni“ sem upprætir úr huga og hjarta tilheigingu til að valda mengun. Yfir fjórar milljónir votta Jehóva njóta góðs af þessari andlegu hreinsun sem skilar sér í trúarlegum og siðferðilegum hreinleika þeirra á meðal, auk líkamlegs hreinleika sem vekur eftirtekt. — Efesusbréfið 4:22-24.

Núna er rétti tíminn til að vinna að andlegri hreinsunarherferð. Þegar þar að kemur verður henni fylgt eftir með bókstaflegri hreinsunarherferð um alla jörðina sem mun forða heimili okkar frá því að verða einn allsherjarsorphaugur. Þá verður umhverfið hreint og ómengað eins og það verðskuldar. — Prédikarinn 3:1.

[Neðanmáls]

^ Ítarlega frásögn af þessari mótaröð í Austur-Evrópu er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) þann 22. desember 1991.

^ Ísraelsmenn kunnu til málmbræðslu. Fundist hafa menjar um sumar af eirnámum þeirra og eirbræðsla var starfrækt við gerð áhaldanna fyrir musterið. (Samanber 1. Konungabók 7:14-46.) Ósennilegt má telja að hægt hafi verið að starfrækja þessa málmbræðslu án þess að myndast hafi ýmis mengunarefni, svo sem gufur, gjall og sori, og vera má að hún hafi haft aðrar aukaverkanir. Jehóva var samt sem áður greinilega fús til að umbera einhverja staðbundna mengun á þessu strjálbýla og einangraða svæði.