Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýi persónuleikinn ræktaður í hjónabandinu

Nýi persónuleikinn ræktaður í hjónabandinu

Nýi persónuleikinn ræktaður í hjónabandinu

„Þér eigið að . . . endurnýjast í anda og hugsun [„aflvaka hugans,“ NW] og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:22-24.

1. Hvers vegna er vandleg yfirvegun nauðsynleg áður en gengið er í hjónaband?

 AÐ GANGA í hjónaband er eitthvert alvarlegasta skref sem fólk stígur í lífinu og ætti því aldrei að stíga nema að vel yfirveguðu máli. Hvers vegna? Vegna þess að það skuldbindur tvo einstaklinga hvorn öðrum ævilangt. Það felur í sér að deila öllu lífi sínu með þeim einstaklingi. Þroskuð dómgreind er nauðsynleg til að þessi skuldbinding haldi. Það krefst þess einnig að láta jákvæð áhrif vera ‚aflvaka hugans og móta nýja persónuleikann.‘ — Efesusbréfið 4:23, 24, NW; samanber 1. Mósebók 24:10-58; Matteus 19:5, 6.

2, 3. (a) Hvað þarf til að velja sér maka viturlega? (b) Hvað er fólgið í hjónabandi?

2 Það er góð og gild ástæða til að láta ekki hinar sterku langanir holdsins keyra sig áfram og koma sér til að flana út í hjónaband. Það tekur sinn tíma að byggja upp þroskaðan persónuleika og skapgerð. Með tímanum öflum við okkur líka reynslu og þekkingar sem getur verið grundvöllur heilbrigðrar dómgreindar. Slíkur bakhjarl eykur líkurnar á að mönnum takist að velja sér lífsförunaut við hæfi. Gamall málsháttur segir: „Betra er að vera ógiftur en illa giftur.“ — Orðskviðirnir 21:9; Prédikarinn 5:2.

3 Til að hjónaband verði farsælt er auðvitað grundvallaratriði að velja sér réttan maka. Þar verða kristnir menn að hafa viðmiðunarreglur Biblíunnar að leiðarljósi en ekki láta bara líkamlegt aðdráttarafl, óhóflegan tilfinningaþrýsting og draumóra ráða ferðinni. Hjónaband er ekki bara sameining tveggja líkama. Það er sameining tveggja persónuleika, tveggja fjölskyldna og uppeldisumhverfis, ef til vill tveggja siðmenninga og tungumála. Sameining tveggja persóna í hjónabandi kallar sannarlega á rétta notkun tungunnar, því að við getum annaðhvort byggt upp eða brotið niður með því sem við segjum. Af öllu þessu sjáum við líka viskuna í þeim leiðbeiningum Páls að ‚giftast aðeins í Drottni,‘ það er að segja trúsystkini. — 1. Korintubréf 7:39; 1. Mósebók 24:1-4; Orðskviðirnir 12:18; 16:24.

Tekist á við álag hjónabandsins

4. Hvers vegna kemur stundum til árekstra og spennu í hjónabandi?

4 Jafnvel þótt lagður sé góður grundvöllur verður aldrei komist hjá smávægilegum árekstrum, álagi og spennu. Slíkt hendir alla menn, gifta sem ógifta. Fjárhagserfiðleikar eða heilsubrestur getur valdið spennu milli manna, hvert sem samband þeirra er. Skapsveiflur geta valdið árekstrum í bestu hjónaböndum. Þá má ekki gleyma að enginn hefur fullkomna stjórn á tungunni eins og Jakob sagði: „Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. . . . Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.“ — Jakobsbréfið 3:2, 5.

5, 6. (a) Hvað þarf að gera þegar misskilningur verður? (b) Hvað getur þurft að gera til að koma á sáttum?

5 Hvernig geta hjón haldið á málum þegar spenna myndast milli þeirra? Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að misskilningur magnist upp í deilu sem endar með því að samband þeirra fer út um þúfur? Það er þá sem aflvaki hugans kemur til skjalanna. Þessi aflvaki getur verið annaðhvort jákvæður eða neikvæður, uppbyggjandi og andlega sinnaður eða niðurlægjandi og stjórnast af tilhneigingum holdsins. Ef hann er uppbyggjandi leitast einstaklingurinn við að koma á sáttum, að halda hjónabandi sínu á réttum kili. Þrætur og ósamkomulag ættu ekki að binda enda á hjónaband. Hægt er að hreinsa andrúmsloftið og endurheimta gagnkvæma virðingu og skilning með því að fara eftir heilræðum Biblíunnar. — Rómverjabréfið 14:19; Efesusbréfið 4:23, 26, 27.

6 Undir þessum kringumstæðum eru orð Páls mjög við hæfi: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:12-14.

7. Hvaða vandamáli geta sumir átt í í hjónabandi sínu?

7 Það er auðvelt að lesa þessi orð en ekki alltaf auðvelt að fara eftir þeim í álagi lífsins. Hver getur verið ein undirrótin? Stundum lifir kristinn maður eftir tvennum lífsreglum án þess að gera sér grein fyrir því. Í ríkissalnum er hann meðal bræðra og er vingjarnlegur og tillitssamur. Heima hjá sér, í hinu daglega amstri, láist honum kannski að hugsa andlega. Þar eru þau bara maður og kona, „hann“ og „hún.“ Og undir álagi gæti hann (eða hún) látið óvingjarnleg orð falla sem aldrei yrðu sögð í ríkissalnum. Hvað hefur gerst? Eitt andartak hefur kristni persónuleikinn gufað upp. Þjónn Guðs hefur gleymt að hann er líka kristinn bróðir (eða systir) heima hjá sér. Aflvaki hugans er orðinn neikvæður í stað þess að vera jákvæður. — Jakobsbréfið 1:22-25.

8. Hvað getur gerst ef aflvaki hugans er neikvæður?

8 Hvaða afleiðingar hefur það? Eiginmaðurinn hættir kannski að ‚búa með skynsemi með konu sinni og sem veikara keri og veita henni virðingu.‘ Konan hættir kannski að virða eiginmann sinn; ‚hógvær og kyrrlátur andi‘ hennar glatast. Aflvaki hugans er orðinn holdlegur í stað þess að vera andlegur. ‚Hyggja holdsins‘ hefur tekið völdin. Hvað er þá hægt að gera til að halda þessum aflvaka andlegum og jákvæðum? Við verðum að efla andlegt hugarfar okkar. — 1. Pétursbréf 3:1-4, 7; Kólossubréfið 2:18.

Efldu aflvakann

9. Hvaða valkosti höfum við í daglegu lífi?

9 Aflvaki hugans er sú tilhneiging hugans sem lætur til sín taka þegar við þurfum að taka ákvarðanir og velja. Lífið er fullt af valkostum — góðum eða slæmum, eigingjörnum eða óeigingjörnum, siðsömum eða siðlausum. Hvað hjálpar okkur að taka réttar ákvarðanir? Aflvaki hugans ef hann snýst um það að gera vilja Jehóva. Sálmaritarinn bað: „Kenn mér, [Jehóva], veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.“ — Sálmur 119:33; Esekíel 18:31; Rómverjabréfið 12:2.

10. Hvernig getum við styrkt aflvaka hugans á jákvæðan hátt?

10 Sterkt samband við Jehóva hjálpar okkur að þóknast honum og forðast það sem illt er, meðal annars ótryggð í hjónabandi. Ísrael var hvattur til að ‚gera það sem gott er og rétt í augum Jehóva Guðs síns.‘ En orð Guðs ráðlagði einnig: „Þið sem elskið Jehóva, hatið hið illa.“ Í ljósi sjöunda boðorðsins af þeim tíu, „þú skalt ekki drýgja hór,“ urðu Ísraelsmenn að hata hjúskaparbrot. Þetta boðorð sýndi að Guð krafðist algerrar trúfesti í hjónabandi. — 5. Mósebók 12:28; Sálmur 97:10, NW; 2. Mósebók 20:14; 3. Mósebók 20:10.

11. Hvernig getum við styrkt aflvaka hugans enn frekar?

11 Hvernig getum við styrkt aflvaka hugans enn frekar? Með því að meta andlegar athafnir og lífsgildi að verðleikum. Það merkir að við verðum að fullnægja þörf okkar fyrir reglulegt nám í orði Guðs og læra að hafa yndi af því að ræða saman um fyrirætlanir Jehóva og heilræði. Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og sálmaritaranum: „Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum. Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér. Kenn mér, [Jehóva], veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda. Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.“ — Sálmur 119:10, 11, 33, 34.

12. Hvað getur sameinað okkur í því að endurspegla huga Krists?

12 Við varðveitum þess konar jákvætt mat á réttlátum meginreglum Jehóva ekki aðeins með því að nema Biblíuna heldur líka með því að sækja kristnar samkomur reglulega og taka sameiginlega þátt í hinni kristnu þjónustu. Þetta tvennt getur stöðugt styrkt aflvaka hugans þannig að óeigingjarnt líferni okkar endurspegli alltaf huga Krists. — Rómverjabréfið 15:5; 1. Korintubréf 2:16.

13. (a) Hvers vegna er bæn verðmæt til að styrkja aflvaka hugans? (b) Hvaða fordæmi gaf Jesús í þessu efni?

13 Páll nefnir annað atriði í bréfi sínu til Efesusmanna: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.“ (Efesusbréfið 6:18) Hjón þurfa að biðja reglulega saman. Oft opna þessar bænir hjartað og leiða til hreinskilnislegra samræðna sem setja niður sérhvert missætti. Þegar prófraunir og freistingar verða á vegi okkar þurfum við að snúa okkur til Guðs í bæn, biðja um hjálp, um andlegan styrk til að gera það sem samræmist huga Krists. Jafnvel Jesús, sem var fullkominn, leitaði oft til föður síns í bæn og bað um styrk. Bænir hans voru innilegar og ákafar. Eins er það núna að við getum á freistingatímum fengið styrk til að taka rétta ákvörðun með því að ákalla Jehóva og biðja um hjálp hans til að standa gegn lönguninni til að láta undan holdinu og rjúfa hjúskaparheitið. — Sálmur 119:101, 102.

Góð og slæm fordæmi

14, 15. (a) Hvernig brást Jósef við freistingu? (b) Hvað hjálpaði Jósef að standast freistingu?

14 Hvernig getum við staðist freistingar? Þar er stór munur á þeirri stefnu sem Jósef og Davíð tóku. Þegar eiginkona Pótífars reyndi með þrásækni að táldraga hinn myndarlega Jósef, sem virðist hafa verið einhleypur á þeim tíma, svaraði hann henni að lokum: „[Eiginmaður þinn] hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ — 1. Mósebók 39:6-9.

15 Hvað hjálpaði Jósef að taka rétta stefnu þótt það hefði verið ósköp auðvelt að láta undan? Hann hafði sterkan aflvaka í huga sér. Hann lét sér mjög annt um samband sitt við Jehóva. Hann vissi að hórdómur með þessari ástsjúku konu væri ekki aðeins synd gegn eiginmanni hennar heldur það sem alvarlegra var, gegn Guði. — 1. Mósebók 39:12.

16. Hvernig brást Davíð við freistingu?

16 En hvað gerði Davíð? Hann var kvæntur maður og átti nokkrar eiginkonur eins og lögmálið leyfði. Kvöld eitt sá hann frá höll sinni þar sem kona var að baða sig. Þetta var hin fagra Batseba, eiginkona Úría. Davíð gat valið hvað hann gerði — hann gat haldið áfram að horfa uns losti kviknaði í hjarta hans eða snúið sér undan og hafnað freistingunni. Hvað valdi hann? Hann lét flytja hana í höll sína og drýgði hór með henni. Hann bætti síðan gráu ofan á svart með því að valda dauða manns hennar. — 2. Samúelsbók 11:2-4, 12-27.

17. Hvað getum við ályktað um andlegt ástand Davíðs?

17 Hvert var vandamál Davíðs? Ýmislegt má sjá af iðrunarfullri játningu hans í Sálmi 51. Hann sagði: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ Ljóst er að á þeirri stundu sem hann lét freistast hafði hann ekki hreint hjarta og stöðugan anda. Kannski hafði hann vanrækt það að lesa lögmál Jehóva og andlegt hugarfar hans veikst af þeim sökum. Kannski hafði hann látið vald sitt og stöðu sem konungur spilla hugsun sinni þannig að hann féll fyrir lostafullri löngun. Ljóst er að aflvaki hugans hjá honum var eigingjarn og syndugur á þeim tíma. Hann þurfti því að gera sér ljóst að hann þyrfti að fá „nýjan, stöðugan anda.“ — Sálmur 51:12; 5. Mósebók 17:18-20.

18. Hvaða heilræði gaf Jesús í sambandi við hórdóm?

18 Sum kristin hjónabönd hafa farið út um þúfur af því að annað hjónanna eða bæði leyfðu sér að verða andlega veikburða eins og Davíð konungur. Fordæmi hans ætti að vera víti til varnaðar þannig að við horfum ekki stöðugt með girndarhug á aðra konu, eða karlmann, því að það getur á endanum leitt til hórdóms. Jesús sýndi að hann skildi mannlegar tilfinningar að þessu leyti því að hann sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Í slíku tilviki er aflvaki hugans eigingjarn og holdlegur, ekki andlegur. Hvað getur kristinn maður þá gert til að forðast hjúskaparbrot og varðveita hamingjuna í hjónabandi sínu? — Matteus 5:27, 28.

Styrkið hjónabandið

19. Hvernig er hægt að styrkja hjónabandið?

19 Salómon konungur skrifaði: „Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.“ Tveir samheldnir einstaklingar geta betur staðið af sér áföll en einn. En ef hjónaband þeirra er eins og þrefaldur þráður, vegna þess að Guð er með í því, þá verður það sterkt. Og hvernig getur Guð verið með í hjónabandi? Með því að hjónin fylgi meginreglum hans og heilræðum um hjónaband. — Prédikarinn 4:12.

20. Hvaða heilræði Biblíunnar geta hjálpað eiginmanni?

20 Ef eiginmaður fylgir heilræðunum í eftirfarandi ritningargreinum er tvímælalaust betri grundvöllur til að hjónaband hans verði farsælt:

„Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ — 1. Pétursbréf 3:7.

„Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana. Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.“ — Efesusbréfið 5:25, 28.

„Maður hennar gengur fram og hrósar henni: ‚Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!‘“ — Orðskviðirnir 31:28, 29.

„Getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum? Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir. En sá sem drýgir hór með giftri konu, . . . [vill] tortíma . . . sjálfum sér.“ — Orðskviðirnir 6:28, 29, 32.

21. Hvaða heilræði Biblíunnar geta hjálpað eiginkonu?

21 Ef eiginkona gefur gaum að eftirfarandi kennisetningum Biblíunnar stuðlar það að því að hjónaband hennar verði varanlegt:

„Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. . . . [í] búningi hógværs og kyrrláts anda.“ — 1. Pétursbréf 3:1-4.

„Maðurinn gæti [kynferðislegrar] skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum. . . . Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir.“ — 1. Korintubréf 7:3-5.

22. (a) Hvaða önnur atriði geta haft góð áhrif á hjónabandið? (b) Hvernig lítur Jehóva á hjónaskilnað?

22 Biblían segir einnig að ást, góðvild, hluttekning, þolinmæði, skilningur, uppörvun og hrós séu aðrir ómissandi fletir á þeim gimsteini sem hjónabandið er. Án þessara eiginleika er hjónaband eins og jurt sem hvorki fær sól né vökvun — hún blómstar sjaldan. Látum því aflvaka hugans knýja okkur til að hvetja og hressa hvort annað í hjónabandinu. Munum að Jehóva ‚hatar hjónaskilnað.‘ Ef við iðkum kristinn kærleika ætti hjúskaparbrot og upplausn hjónabandsins alls ekki að koma til greina. Hvers vegna? Vegna þess að ‚kærleikurinn bregst aldrei.‘ — Malakí 2:16; 1. Korintubréf 13:4-8, NW; Efesusbréfið 5:3-5.

Getur þú svarað?

Hverjar eru forsendur hamingjuríks hjónabands?

Hvernig getur aflvaki hugans haft áhrif á hjónaband?

Hvað getum við gert til að styrkja aflvaka hugans?

Hvernig brugðust Jósef og Davíð ólíkt við freistingu?

Hvaða heilræði Biblíunnar hjálpa eiginmönnum og eiginkonum að styrkja hjónabandið?

[Spurningar]