Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Paradís eða sorphaugur — hvort viltu heldur?

Paradís eða sorphaugur — hvort viltu heldur?

Paradís eða sorphaugur — hvort viltu heldur?

ÞAÐ var ekki um að villast: þetta var evrópskur ferðamaður sem þráði það eitt að hvílast og sleikja sólskinið á paradísareynni. Á leið sinni yfir stóra sandhólana upp af ströndinni reyndi hann sem best hann gat að þræða fram hjá alls konar drasli, svo sem flöskum, dósum, plastpokum, tyggigúmmí- og sælgætisumbúðum, dagblöðum og tímaritum. Augljóst var að þetta fór í taugarnar á honum og hann spurði sig að því hvort þetta væri paradísin sem hann hafði ferðast langan veg til að njóta.

Hefur þú nokkurn tíma kynnst einhverju álíka? Hvers vegna dreymir fólk um að taka sér frí í einhverri paradís en skirrist svo ekki við að gera hana að hálfgerðum sorphaugi þegar þangað er komið?

Ekki bara í „paradís“

Þetta augljósa skeytingarleysi fyrir fegurð, hreinlæti og snyrtimennsku blasir ekki bara við á þeim ‚paradísarstöðum‘ sem ferðamenn streyma til. Nútímaþjóðfélag er að kafna úr mengun nánast alls staðar. Fjölmörg iðnfyrirtæki framleiða úrgangsefni í tonnatali og valda stórfelldri mengun. Stór svæði á jörðinni eru í svo alvarlegri hættu af völdum olíuslysa og eiturefna, sem ekki er gengið sómasamlega frá, að við blasir að líf geti ekki þrifist þar.

Stríð menga líka. Persaflóastríðið árið 1991 olli meiri mengun en áður hafði þekkst í stríði. Heimurinn horfði með hryllingi á þegar íraskar hersveitir kveiktu af ásettu ráði í um það bil 600 olíulindum og breyttu Kúveit í „forsmekk að helvíti í opinberunarstíl,“ eins og evrópskt dagblað lýsti því. Þýska tímaritið Geo kallaði vítisbálið „mestu umhverfishörmungar sem orðið hafa af mannavöldum.“

Hreinsunarstarf hófst þegar í stað eftir að stríðinu lauk. Það kostaði margra mánaða erfiði aðeins að slökkva eldana sem loguðu í olíulindunum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skýrði frá því að dánartíðnin í Kúveit kynni að hækka um 10 af hundraði af völdum mengunarinnar.

Hættuminni en mjög gremjuleg

Á móti hverju áberandi og svívirðilegu dæmi um stórfellda umhverfismengun eru þúsundir dæma um mengun í smáum stíl. Mengun af völdum umhverfissóða og veggjakrotara er sjálfsagt hættuminni en eigi að síður á hún sinn þátt í að reikistjarnan jörð skuli ekki geta verið paradís.

Sums staðar er veggjakrot svo algengt að almenningur tekur varla eftir því lengur. Veggjakrotið takmarkast ekki lengur við almenningssalerni heldur blasir það við á neðanjarðarlestum, húsveggjum og almenningssímaklefum.

Sumar borgir eru fullar af vanhirtum og yfirgefnum byggingum. Ósnyrtileg hús og illa hirtir garðar setja ljótan blett á íbúðahverfi. Bílhræ, gamlar vélar og alls konar drasl spillir útliti sveitabæja sem annars gætu verið aðlaðandi og snyrtilegir.

Í sumum umgengnishópum virðist fólk kæra sig kollótt um hreinlæti og snyrtimennsku. Meðal sumra er það ekki aðeins talið boðlegt heldur meira að segja „fínt“ að vera druslulega til fara. Þeir sem vilja vera hreinir og snyrtilegir eru álitnir svo gamaldags að þeim sé ekki viðbjargandi.

Gríðarlegt verkefni!

Það yrði óhemjuverk að hreinsa jörðina og láta strendur, skóga og fjöll líkjast myndunum sem birtast á forsíðum auglýsingabæklinga ferðaskrifstofanna — að ekki sé nú minnst á það sem gera þyrfti til að hreinsa borgir, bæi, sveitir og fólkið sjálft!

Ferðamaðurinn, sem minnst var á í upphafi, gladdist þegar hann sá hóp manna fara um svæðið síðar um daginn og tína upp mesta ruslið. Þeir skildu þó eftir glerbrot, flöskutappa, dósatappa og fleiri sígarettustubba en tölu yrði á komið. Jafnvel eftir hreinsunina virtist ströndin eiga meira sameiginlegt með sorphaugi en paradís.

Ef takast ætti að bjarga jörðinni frá því að verða einn allsherjarsorphaugur þyrfti að hleypa af stað miklu hreinsunarátaki og fjarlægja öll slík merki mengunar. Eru nokkrar horfur á að slíkt hreinsunarátak verði gert? Og ef svo er, hvernig verður það þá gert, hver mun gera það og hvenær?